Valkostir við EES

Um allt þjóðfélagið gera menn sér grein fyrir því, að EES-samstarfið er komið að leiðarlokum í sinni núverandi mynd.  Alþingi, sem er einhvers konar þversnið þjóðarinnar, hefur ekki farið varhluta af alvarlegum efasemdum um, að núverandi fyrirkomulag gangi lengur.  Frægar eru ræður fjármála- og efnahagsráðherra um þetta efni 6. febrúar og 22. marz 2018.  

Breyting á afstöðu manna á Íslandi og í Noregi til EES-samstarfsins stafar af þeirri samrunabraut, sem ESB er á, og afar takmörkuðu umburðarlyndi þar á bæ gagnvart sjálfstæði EFTA-ríkjanna. Forsendur upprunalega EES-samningsins eru þar með brostnar. Kemur þetta fram bæði í Sameiginlegu EES-nefndinni með því, að s.k. "tveggja stoða" samstarf er í raun virt að vettugi, og í framkvæmd með stjórnunarfyrirkomulagi, sem stríðir gegn Stjórnarskrám Íslands og Noregs og er fólgið í því, að stjórnvald á afmörkuðum sviðum þjóðfélagsins er flutt frá aðildarlöndum EES og til stofnunar ESB, sem hefur hlotið víðtækar valdheimildir frá Framkvæmdastjórninni. 

Ágætt dæmi um slíkan málaflokk eru flutningsmál rafmagns og jarðgass.  Um valdatilflutning á þessum sviðum er fjallað í Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB frá 2009, þar sem völdum Orkustofnunar ESB, ACER, er lýst, hvers vegna hún er sett á stofn og til hvers starfsemi hennar á að leiða.  Völd ACER í ESB-löndunum voru innsigluð í ráðherraráðinu 2009 og staðfest á ESB-þinginu sama ár.

Það gekk erfiðlega að troða þessum orkubálki niður um kok EFTA-landanna í sameiginlegu EES-nefndinni, en eftir 6 ára þref tókst það 5. maí 2017.  Þann 22. marz 2018 var gjörningurinn leiddur í lög af Stórþingi Noregs við griðarleg mótmæli hagsmunaaðila, verkalýðsfélaga, Alþýðusambandsins og alls almennings.  Hérlendis hefur utanríkisráðuneytið rekið undarlegan áróður fyrir þessari innleiðingu á Íslandi, gert lítið úr mikilvægi málsins hérlendis og mikið úr tjóni, sem Norðmenn geti orðið fyrir við höfnun Alþingis. Sjá viðhorf alþýðu til þessa í viðhengi með þessari færslu. Þá hefur iðnaðarráðuneytið lagt sig í framkróka við að reyna að sannfæra mann og annan um, að samþykki Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn muni nánast engu breyta varðandi fullveldi Íslands yfir raforku úr virkjunum á Íslandi.  Þetta er fjarstæða, sem hefur verið hrakin rækilega hér á vefsetrinu og af Heimssýn, sjá: https://heimssyn.blog.is/blog/heimssyn/entry/2215324 .

Í EES-samstarfinu þurfa allir aðilar, 3 EFTA þjóðir og ESB, að vera sammála, og hver EFTA-þjóð hefur neitunarvald gagnvart innleiðingu á gjörð ESB í EES-samninginn.  Áróður téðra tveggja ráðuneyta fyrir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB á ekki við nein rök að styðjast, landið hefur af honum ekkert gagn, en tekin er mikil stjórnlagaleg og stjórnskipuleg áhætta, áróðurinn gengur algerlega fótalaus og kemur úr hörðustu átt, þar sem flokkur utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra samþykkti á Landsfundi sínum 16.-18. marz 2018 eftirfarandi ályktun:

"Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."

Það er pólitískt glapræði af þessum ráðherrum að reyna að grafa undan alvörunni í þessari ályktun og óskiljanleg sú vegferð, sem þeir hafa tekizt á hendur í þessum efnum, þegar litið er til líklegrar afstöðu kjósendanna, en skoðanakönnun mun bráðlega leiða það í ljós. Hinir ríkisstjórnarflokkarnir eru líka algerlega á móti innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn.  Það kom fram á Flokksþingi Framsóknarflokksins 11. marz 2018, og afstaða talsmanns VG í þessu máli, Kolbeins Proppé, bendir eindregið til, að VG sé ekki aðeins á móti þriðja bálkinum, heldur hafi að auki efasemdir um annan bálkinn, sem er afar skiljanlegt.  Það er mjög æskilegt að sníða af honum alvarlega vankanta fyrir íslenzkar aðstæður, en þar verður ESA og EFTA-dómstólinum að mæta. Því mætti taka því fagnandi, ef Sameiginlega EES nefndin myndi fella Annan orkumarkaðslagabálkinn úr gildi að kröfu ESB sem andsvar við höfnun Alþingis. 

Að mörgu leyti er heppilegast, að EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein, ákveði sameiginlega að slíta EES-samstarfinu, og að þessi ríki ásamt Sviss bjóði Bretum aðild að EFTA.  Síðan taki þessi öfluga samsteypa upp samningaviðræður við ESB um fríverzlunarsamning.  

Að svo komnu er þó ekki stjórnmálalegur grundvöllur fyrir þessu, svo að skynsamlegt væri af utanríkisráðuneytinu að kanna jarðveginn hjá ESB og hjá Bretum fyrir fríverzlunarsamningi með fyrirmynd í samninginum á milli ESB og Kanada frá 2017.  

Einn ávinningur af því að losna af klafa EES er að létta byrðum af athafnalífi og opinberri stjórnsýslu, sem stafa af reglugerða- og eftirlitsbákni, sem sniðið er við tugmilljónaþjóðir, en er hér með sama hætti og annars staðar í EES, því að ESB vinnur samkvæmt "one size fits all", þ.e. engar sérsniðnar lausnir, enda yrði slíkt stjórnkerfi óviðráðanlegt, jafnvel fyrir 33´000 búrókrata í Berlaymont. 

Annar ávinningur af að losna undan EES eru hagstæðari viðskiptakjör við ESB.  Kanadamenn njóta nú lægri tolla fyrir sjávarafurðir sínar en Íslendingar og Norðmenn.

Þriðji ávinningurinn er að taka aftur stjórn á landamærum ríkisins, sem getur losað þjóðfélagið undan miklum beinum og óbeinum kostnaði af frjálsu flæði fólks og er í raun nauðsynlegt í sjálfsvarnarskyni fyrir smáþjóð, þegar ytri landamæri ESB eru hriplek á tímum vaxandi flóttamannaþrýstings.   

Í fjórða og síðasta lagi losnar löggjafinn þá undan því óviðunandi ástandi að vera afgreiðslustofnun við innleiðingu yfirþjóðlegrar löggjafar í EES-samninginn, sem þá um leið öðlast lagagildi á Íslandi.  Nú er svo komið, að stjórnkerfi ESB krefst þess í sumum tilvikum, að með samþykkt sinni brjóti Alþingi Stjórnarskrá lýðveldisins.  Þetta á t.d. við, þegar stjórn innlendra málefna er færð í hendur stofnana sambandsins, þar sem Ísland að sjálfsögðu á engan fullgildan fulltrúa.  Þetta er ekkert minna en frágangssök, sem réttlætir að endurskoða þessi samskipti frá grunni. Lágmarks viðspyrna er, að utanríkisráðuneytið og Alþingi setji ESB skorður í EES-samstarfinu, þegar valtað er yfir grunnregluna um EFTA og ESB sem tvo jafnréttháa aðila í tveggja stoða samstarfi.   

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband