Nýstárleg kenning um nytsemi ACER

"ACER og þriðji orkumálapakki Evrópusambandsins" er yfirskrift Morgunblaðsgreinar eftir Skúla Jóhannsson, verkfræðing, þann 24. apríl 2018.  Það er ætíð fengur að greinum Skúla.  Hann hefur t.d. ritað í Morgunblaðið um aflsæstreng til Skotlands og sýnt fram á, að undir því verkefni hefur ekki verið viðskiptagrundvöllur hingað til. Nú er vitað, að úr sjóðum ESB hafa komið styrkir til samtengiverkefna á orkusviðinu, sem eru í Kerfisþróunaráætlun ESB.  Það er einnig vitað, að á forgangslista ESB um samtengiverkefni er "Ice Link", sem er samtenging íslenzka og skozka raforkukerfisins, eins og "NorthConnect", sem á að tengja saman norska og skozka kerfið. Sá strengur er mörgum Norðmönnum þyrnir í augum, því að þeir óttast, að með honum verði vatnsorkuforða Noregs eytt og þar með hækki raforkan í Noregi mikið í verði.  

Skúli Jóhannsson hefur líka í Morgunblaðsgrein sýnt fram á, að tal Landsvirkjunar um vatnsmiðlunarorku, sem ekki náist að nýta með núverandi virkjunum, er mjög orðum aukið, og erum við á sama máli um þessi efni.    

Nú bregður hins vegar svo við, að við Skúli erum á öndverðum meiði varðandi það, hvort Alþingi eigi að hafna eða samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  Ég hef á þessu vefsetri margoft, svo og tvisvar í Morgunblaðinu, rakið, hvers vegna Alþingi á að hafna þessum gjörningi, svo að nú er bezt að velta fyrir sér þeim rökum, sem Skúli færir fyrir hinu gagnstæða.

Hann leitar reyndar til Noregs og til þeirra, sem studdu inngöngu Noregs í Orkusamband ESB.  Þeir urðu ofan á í Stórþinginu 22. marz 2018, en sú skoðun virðist samt aðeins njóta stuðnings um 10 % þjóðarinnar samkvæmt  skoðanakönnunum.  Þar er gjá á milli þings og þjóðar, sem aldrei er gott fyrir lýðræðið í stórmálum, sem m.a. snerta Stjórnarskrána.

  Skúli tiltekur 6 atriði úr norsku umræðunni og heimfærir hingað.  Fyrst telur hann þó, að "töluvert flókin staða gæti komið upp, ef Ísland hafnaði ACER eftir samþykkt Norðmanna."  Í EES-samninginum er þó gert ráð fyrir, að til höfnunar löggjafans í einu aðildarlandi geti komið, og þar er útlistað, til hvaða gagnaðgerða ESB má grípa í slíkum tilvikum.  Þær eru þess eðlis, að hagkerfum og viðskiptum EFTA-landanna stafar engin ógn af.  ESB gæti reyndar sagt EES-samninginum upp í refsingarskyni, en til þess þarf samþykki allra ríkjanna 28, sem er mjög hæpið að náist.  

  1. "ACER fjallar ekki um, hvort eigi að leggja sæstreng frá Íslandi til Bretlands. Ákvörðun um það er alfarið á hendi íslenzkra stofnana, sem til þess eru bærar."  ACER og ENTSOE, samtök raforkuflutningsfyrirtækja í Evrópu, hafa þegar fjallað um og lagt til, að "Ice Link", sæstrengur á milli Íslands og Skotlands, verði lagður og gangsettur árið 2027.  Verði Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn leiddur í lög hér, mun það fela í sér skuldbindingu íslenzkra yfirvalda til að framfylgja Kerfisþróunaráætlun ESB, þar sem "Ice Link" er eitt verkefnanna.  Völd íslenzkra yfirvalda á raforkuflutningssviði verða eftir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB aðeins form án innihalds.  
  2. "ACER fjallar ekki um rekstur raforkusæstrengja milli landa, þ.e. hvaða straumur er sendur hverju sinni og í hvaða átt.  Það ákvarðast eingöngu af framboði og eftirspurn í einstökum aðildarríkjum, sem þau hafa full tök á sjálf."  Eigendur sæstrengsins, sem að hluta gætu verið Landsnet og National Grid á Bretlandi eða dótturfélög þeirra (Landsvirkjun eða aðrir beinir aðilar á orkumarkaði mega þó ekki koma að eignarhaldi orkuflutningsmannvirkja) munu reyna að koma sér saman um rekstur mannvirkjanna, t.d. hversu stór hluti flutningsgetunnar verður nýttur undir hin ýmsu samningsform, t.d. árssamninga, vikusamninga, sólarhringssamninga og augnabliksafl. Ef samkomulag tekst ekki, fer deilan til úrskurðar hjá ACER.  Öryggismörk um varaforða orku í miðlunum á Íslandi koma einnig til úrskurðar ACER, ef ekki næst samkomulag.  Elías B. Elíasson, verkfræðingur, benti í Morgunblaðsgrein sinni 28.04.2018, "Á að stofna nýja Orkustofnun til að gera ekkert ?", á þá hættu, sem blasir við íslenzkum orkubúskapi, ef sæstrengur verður lagður eftir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB.  "Samningar um sæstreng eru hreint út sagt óðs manns æði hafandi lögfestingu þriðja áfangans á bakinu.", skrifaði hann.  
  3. "ACER fjallar ekki um að hækka orkuverð til almennings á Íslandi, við ákveðum það sjálf.  Við munum áfram sem hingað til taka þátt í þróun raforkumarkaða með ACER, þar sem verðlagning á losun gróðurhúsalofttegunda skiptir mestu máli."  Með Ísland á raforkumarkaði ESB mun verðið ráðast í samningum aðila á markaði, orkuseljenda á Íslandi og kaupenda annars staðar í EES, þegar flutt er út, og öfugt, þegar flutt er inn.  Þar sem Skúli vitnar til Noregs, má geta þess, að bæði fylgjendur og andstæðingar inngöngu Noregs í Orkusamband ESB voru þeirrar hyggju, að sú innganga mundi hafa í för með sér raforkuverðshækkun.  NVE (norska OS) áætlaði þriðjungshækkun á verði frá virkjun, og Statnett þarf að fjárfesta mikið, e.t.v. um miaNOK 22 í flutningsmannvirkjum, aðallega loftlínum, að nýjum sæstrengjum, t.d. NorthConnect. Slíkt hækkar flutningsgjaldið hjá Norðmönnum sjálfum.  Raforkuverðhækkun á Íslandi verður sennilega mun meiri, allt að tvöföldun heildarrafmagnsverðs, þar sem Ísland var ótengt áður og hér er miðlunargeta lóna hverfandi í samanburði við Noreg. Um hækkanir í Noregi sagði Sigbjörn Gjelsvik, Stórþingsmaður í viðtali á RÚV 17.04.2018: "Stefnt er að því að útrýma svo kölluðum flöskuhálsum í orkuflæðinu, sem mun þrýsta á Noreg að leggja fleiri sæstrengi, og það mun valda hækkun á orkuverði.  Það hefur svo áhrif á samkeppnisstöðu iðnfyrirtækja í Noregi."  Elías B. Elíasson var sama sinnis fyrir Ísland í tilvitnaðri grein sinni.
  4. "ACER fjallar ekki um framsal á forræði í eftirliti með raforkumálum á Íslandi til EBE, það verður áfram sem hingað til hjá Eftirlitsstofnun EFTA, sem nefnd er ESA ("EFTA Surveillance Authority")."  Á opnum fundi í Valhöll í vor á vegum Atvinnuveganefndar Sjálfstæðisflokksins lýsti lagaprófessor Stefán Már Stefánsson efasemdum sínum um, að þetta fyrirkomulag með ESA sem millilið fyrir stofnanir ESB héldi gagnvart Stjórnarskrá Íslands.  ESA er þarna leppur án nokkurra heimilda til að breyta fyrirmælum frá ACER.  ESA í þessu hlutverki er blekkingarfyrirbæri til að draga dul á Stjórnarskrárbrot.  Stimplarnir frá ESA mundu sennilega ekki halda gagnvart dómstólum.  Í þessu sambandi er rétt að minna á ummæli Sigbjörn Gjelsvik í fyrrnefndum útvarpsþætti, Speglinum: "Það, sem er nýtt í sambandi við orkustofnunina ACER, er, að hún getur tekið ákvarðanir í ágreiningsmálum, sem ganga þvert á hagsmuni Noregs."
  5. "ACER fjallar ekki um framsal á forræði yfir íslenzkum virkjunum til EBE, hvorki hvað varðar byggingu nýrra virkjana né rekstur þeirra."  Þetta er aukaatriði í sambandi við Orkusamband ESB, því að forræðisréttur raforkunnar mun flytjast frá lýðræðislega kjörnum íslenzkum fulltrúum til raforkumarkaðar ESB undir eftirliti ACER.  Þar að auki er ómögulegt að segja, hvernig völd ACER munu þróast.  Þau munu líklegast aukast með Fjórða orkumarkaðslagabálki ESB, 4000 blaðsíðna doðranti, sem nú er í smíðum.
  6. "ACER fjallar ekki um aukið álag á vatnsaflsvirkjanir, sem gæti haft spillandi umhverfisáhrif, t.d. með því að breyta vatnsstöðu í miðlunum tíðar og meira."  ACER vill fá endurnýjanlega og umhverfisvæna raforku frá Íslandi inn á stofnkerfi meginlandsins (frá Bretum) til að fylla upp í eyður framboðsins, sem verða, þegar lygnir og dregur fyrir sólu þar.  Þá hækkar verðið þar og tilhneigingin verður að keyra hámarksafl frá Íslandi og Noregi inn á stofnkerfi meginlandsins.  Þetta hlýtur að leiða til hraðari lækkunar í miðlunarlónum en þekkzt hefur hér og síðan hækkunar nóttina eftir, þegar orka verður flutt inn um strenginn.

Nýstárlegastan við tilvitnaða grein Skúla Jóhannssonar verður að telja eftirfarandi texta:

"Hér á landi er hvorki geta né skilningur á því að halda uppi fullnægjandi gæðastjórnun í raforkukerfinu, og samstarf við stærra og viðurkennt batterí, eins og ACER, væri bara af hinu góða.  Við ráðum varla við að þróa allt frá botni og viðhalda í síbreytilegum heimi."  

Það er ekki ljóst, hvað Skúli er að fara með þessari hörðu gagnrýni á starfsmenn raforkugeirans, sem væntanlega beinist aðallega að Landsneti og Orkustofnun.  Það vantar frekari skýringar, til að hægt sé að nýta þessa gagnrýni á uppbyggilegan hátt.

  Gæði rafmagns spanna venjulega afhendingaröryggi og spennugæði. Þessir þættir eru í viðunandi ástandi hérlendis m.v. lítið kerfi með lágt skammhlaupsafl, nema á Vestfjörðum, og með Hvalárvirkjun og hringtengingu Vestfjarða eygja menn viðunandi úrbætur þar.  Eitt er víst, að aflsæstrengur mun hvorki auka afhendingaröryggi né spennugæði á Vestfjörðum. 

Hins vegar munu spennugæðin um land allt líklega versna, því að afriðlastöð og áriðlastöð, sem verða á milli sæstrengs og flutningskerfisins, eru gríðarlegir truflanavaldar (yfirsveiflur - "harmonics") í litlu raforkukerfi, eins og því íslenzka, þar sem skammhlaupsaflið við tengistaðinn verður e.t.v. aðeins tvöfalt hærra en hámarksafl sæstrengsins.  Allir rafmagnsnotendur á landinu munu verða varir við það, þegar mikið sæstrengsálag hrekkur út. 

Í íslenzka raforkugeiranum starfar hæft fólk með margháttaða menntun og reynslu, sumir gagnmenntaðir á sviði rafmagnsverkfræði og eru í samstarfi við kollega sína erlendis, t.d. á Norðurlöndunum innan Nordel og Nordpool.  Höfundur þessa pistils hefur þess vegna ekki hugmynd um, hvað Skúli Jóhannsson á við með orðunum: "Hér á landi er hvorki geta né skilningur á því að halda uppi fullnægjandi gæðastjórnun í raforkukerfinu ... ", og lausnin, sem hann bendir á, er fráleit að dómi þessa blekbónda.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Bjarni, þakka þér fyrir að halda mönnum við efnið.  Fávís um tæknihliðina, hnaut ég samt um síðustu tilvísuðu setninguna, "...hvorki geta né skilningur á að halda uppi fullnægjandi gæðastjórnun í raforkukerfinu".  Hvað er þar átt við - og hver er þessi gæðastjórnun?  Hérlendis höfum við þegar rafmagn sem bregst aldrei nema þegar einhver spennir bilar, og þá aðeins í mjög skamman tíma.  Skyldi þessi gæðastjórnun snúast um söluverð erlendis og skömmtun eftir þörfum?  Eitt er víst; á meðan raforkuflutningar til meginlandsins eru í umræðunni mun ég aldrei fjárfesta í rafmagnsbíl.

Kolbrún Hilmars, 2.5.2018 kl. 15:23

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Glæsilega tekurðu kollega þinn, Skúla málvin minn, í karphúsið í þessari skýru og vel vel rökstuddu grein þinni, Bjarni!

Mér brá þegar ég sá grein hans í blaðinu um daginn, hve mjög hann leggst á sveif með Evrópusambandinu, en vissi vel, að þeim tilhæfulausu bjartsýnisskrifum yrði svarað.

Jón Valur Jensson, 2.5.2018 kl. 17:23

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Kolbrún Hilmars;

Satt að segja blöskraði mér, þegar ég sá téða fullyrðingu Skúla um, að hérlendis sé hvorki geta né skilningur á að halda uppi fullnægjandi gæðastjórnun í raforkukerfinu.  Á grundvelli minnar reynslu af starfsfólkinu, sem fæst daglega við þessi mál, þ.e. sérfræðingar Landsnets og starfsmenn Stjórnstöðvar hennar, verð ég að bera blak af þeim og get engan veginn tekið undir með Skúla, nema hann nefni sannfærandi dæmi um hið gagnstæða.  Það er aðeins eitt svið í þessu sambandi, sem mér dettur í hug, að þekkingu kunni að vera ábótavant á, en það er opinn tilboðsmarkaður með raforku, eins og tíðkast hjá ESB og Nord Pool á Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum.  Þó svo væri er það eðlilegt, þar sem slíkur markaður er ekki fyrir hendi hérlendis.  Það er þó til vísir að honum, þar sem er s.k. jöfnunarorkumarkaður, þar sem birgjar bjóða Landsneti orku til kaups til að grípa til, ef á þarf að halda.  Ég efast reyndar um, að opinn tilboðsmarkaður með raforku verði almenningi til hagsbóta hérlendis.  

Bjarni Jónsson, 2.5.2018 kl. 21:09

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jón Valur;

Ég varð sömuleiðis fyrir vonbrigðum og skil enn ekki, hvað Skúla gengur til í þessu ACER-máli.  

Ég hyllist til að taka mér í munn orð Þjóðverja, sem gætu átt við hér: "Einmal ist keinmal, aber zweimal ist manchmal."

Bjarni Jónsson, 2.5.2018 kl. 21:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband