15.5.2018 | 13:46
Enginn ávinningur af aðild að Orkusambandinu
Nú þegar hefur talsvert verið rætt og ritað um Orkusamband ESB. Umræðan hefur vakið áhuga almennings og athygli á því, að ESB seilist til vaxandi og afdrifaríkra áhrifa í EFTA-löndunum. Aðeins 16 % sögðust "ekki vita" um málið, þegar þeir fengu spurningu frá "Maskínu" um valdframsal á orkusviði til evrópskrar stofnunar, 80 % voru því andvíg, en aðeins 8 % meðmælt. Þetta er áfall fyrir ESB-aðdáendur og þá, sem hérlendis hafa haldið uppi óburðugum og í raun óboðlegum áróðri fyrir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB (þó án atkvæðisréttar þar).
Orkusambandið er skilgreint með Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB, sem öll ESB ríkin hafa samþykkt. Framkvæmdastjórn ESB heimtar af EFTA-ríkjunum þremur í EES, að þau innleiði "Þriðja orkubálkinn" í EES-samninginn, enda er yfirlýst stefna hennar að nátengja Noreg, sem er mesta orkuútflutningsland Evrópu á eftir Rússlandi, við orkumarkað ESB. Líklegt er, að í leiðinni sé litið hýru auga til endurnýjanlegra orkulinda eyríkisins í norðri.
Það, sem stendur upp úr umræðunni hérlendis hingað til, er eftirfarandi:
- Enginn hefur með vitrænum rökum bent á nokkurt gagn af því fyrir Íslendinga að ganga í Orkusamband ESB.
- Innganga í Orkusambandið fæli í sér framsal valds yfir raforkuflutningum í landinu og yfir millilandaflutningum raforku til Orkustofnunar ESB, ACER. Hún mun þá stofna útibú sitt í Reykjavík, "landsreglara" sem tekur við stjórnvaldi Orkustofnunar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins yfir raforkuflutningunum. Landsnet mun þá þurfa að vinna eftir reglugerðum útibúsins, leggja alla netmála sína og gjaldskrá til rýni og samþykktar hjá útibúinu, sem Norðmenn kalla "Reguleringsmyndighet for energi", RME, og er einfaldlega Orkustjórnvald, sem einvörðungu lýtur boðvaldi ACER, Orkustofnunar ESB. Ágreiningsmál verða útkljáð af ESA/ACER.
- Síðast en ekki sízt mun Landsnet verða að laga Kerfisáætlun sína að Kerfisþróunaráætlun ACER. Útibúið fær drögin að Kerfisáætlun, gerir við þau frumathugasemdir, þýðir þau og sendir áfram til ACER um falsstoð EFTA í orkumálum, ESA (Eftirlitsstofnun EFTA). ACER rýnir Kerfisáætlun Landsnets og gaumgæfir, hvernig hún samrýmist Kerisþróunaráætlun sinni, þ.e. ESB. Þar er nú þegar "Ice Link", 1200 MW sæstrengur á milli Íslands og Skotlands, og Landsnet verður að skipuleggja raforkuflutninga frá íslenzkum virkjunum að landtökustað sæstrengsins.
- Völd Orkustofnunar (OS) yfir raforkuflutningsmálum verða eftir þessa innleiðingu hjómið eitt. Leyfisveitingavaldið verður áfram þar, en allar umsóknir verða að fullnægja skilmálum, sem útibú ACER annaðhvort semur eða samþykkir. Hvernig á OS að hafna umsókn, t.d. frá einhverju sæstrengsfélagi í einkaeigu, eins og tilvikið er með NorthConnect, sæstreng á milli Noregs og Skotlands, ef hún fullnægir öllum settum skilmálum. Hafni OS samt slíkri umsókn, verður höfnunin umsvifalaust kærð til ESA. Völd OS á raforkuflutningssviði verða aðeins að forminu til. Hvers konar blindingsleikur er það að fullyrða, að þetta fyrirkomulag jafngildi smáræðisbreytingum á íslenzkri stjórnsýslu ? Þeir, sem slíku halda fram, hafa ekki unnið heimavinnuna sína og skilja ekki virkni Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB. Vitlausast af öllu er að fullyrða, að núverandi raforkueinangrun Íslands feli í sér einhverja vörn gegn ásælni ESB.
- Þrír stjórnmálaflokkar hafa haldið fundi í æðstu stofnunum sínum síðan ACER-málið komst í hámæli hérlendis. Tveir stjórnarflokkar í marz og einn stjórnarandstöðuflokkur í apríl 2018 lýstu sig andvíga inngöngu Íslands í Orkusamband ESB. Þriðji stjórnarflokkurinn virðist vera andsnúinn málinu líka. Komi til atkvæðagreiðslu um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra og ef þingmenn ganga óbundnir til hennar, má gera sér vonir um, að þeir felli hana og komi þar með í veg fyrir stjórnarskrárbrot og alls konar flækjur og stefnubreytingu í orkumálum, sem leiða mundu af samþykkt.
- Íslenzka raforkukerfið er gjörólíkt að uppbyggingu því, sem nú starfar á raforkumarkaði ESB. ACER tekur ekkert tillit til þess, því að grundvallarregla ESB er "ein regla fyrir alla" ("one size fits all"). Að reyna að bezta rekstur íslenzka raforkukerfisins, eftir að það tengist orkumarkaði ESB og með ACER hér við völd, verður ómögulegt. Tilraun til að samstýra vatnsborðshæð í miðlunarlónum landsins eða tilraun til að draga úr hröðum álagsbreytingum verður dæmt ólögmætt inngrip í frjálsan orkumarkað. Raforkuverð til heimila og fyrirtækja án langtímasamninga mun hækka, orkuskiptin verða dýrari en ella og ásókn í virkjanleyfi, einnig erlendis frá, mun aukast.
Á vegum ESB hafa verið settar á laggirnar um 40 stofnanir á ýmsum sviðum, s.s. bankaeftirlit, matvörueftirlit, loftferðaeftirlit, og Orkustofnun, sem hefur aðsetur í Ljubljana, höfuðborg Slóveníu. "European Agency for the Cooperation of Energy Regulators", ACER, var stofnsett 2010. ACER gegnir ekki einvörðungu ráðgefandi hlutverki gagnvart stjórnendum og starfsmönnum ESB eða vinnur að því að semja regluverk fyrir orkukerfin.
Orkustofnun ESB hefur líka framkvæmdavald og ákvarðanavald. ACER á að hafa eftirlit með orkustjórnvaldsstofnunum, hér OS og landsreglaranum (útibúi ACER), og kerfisstjórnendum (hér Landsneti) þjóðríkjanna. Tilgangurinn er að sjá til þess, að reglusetningu ESB fyrir rafmagns- og gasmarkaðinn sé framfylgt. Það er kyrfilega gengið frá öllum endum, svo að fullveldi EFTA-ríkjanna verður ekki undankomu auðið, og skiptir þá núverandi fyrirkomulag raforkutenginga við útlönd engu máli. Að lokum verða öll ágreiningsmál dæmd samkvæmt EES-rétti, og landsréttur verður að víkja fyrir honum að viðlögðum kærum frá ESA fyrir brot á EES-samninginum.
Gjörð ESB nr 713/2009 um stofnun orkustjórnvaldsstofnunarinnar ACER er hluti af Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Sá spannar einnig Þriðju raforkumarkaðstilskipunina, tilskipunina um Innri gasmarkaðinn og gjörðina um raforkuviðskipti yfir landamæri. Þriðja orkumarkaðslagabálkinn samþykkti norska Stórþingið til innleiðingar í EES-samninginn 22. marz 2018, en hann hefur enn ekki verið formlega gerður að hluta EES-samningsins, því að Alþingi á eftir að fjalla um málið. Í Stórþinginu er meirihluti fyrir inngöngu Noregs í ESB, en í þessu máli er gjá á milli þings og þjóðar í Noregi. Aðeins um 10 % norsku þjóðarinnar hefur tjáð sig fylgjandi því fullveldisframsali á sviði orkumála, sem téð breyting á EES-samninginum mundi hafa í för með sér.
Ætla má samkvæmt skoðanakönnun Maskínu, sem birt var 13. maí 2018, að yfir 80 % íslenzku þjóðarinnar sé andvígur slíku framsali og að samhljómur sé á milli þings og þjóðar í þessu máli. Sú staða, að meiri líkur en minni eru á synjun Alþingis, varpar ljósi á þá staðreynd, að EES-samningurinn er orðinn úreltur.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Góð grein um mikilvægt málefni, sem haldið hefur verið frá almenningi og jafnvel stjórnmálamönnum. Það unnið að því leynt og ljóst að afnema sjálfstæði landsins og þar er farið inn bakdyramegin.
Júlíus Valsson, 15.5.2018 kl. 18:56
Þar hittir þú naglann á höfuðið, Júlíus Valsson. Því miður er svo komið, að EES-málefni þola ekki dagsljósið á Íslandi (og varla í Noregi heldur). Meginástæðan er sú, að valdframsalið til yfirþjóðlegra stofnana, sem þetta dæmalausa "samstarf" felur í sér, er meira eða minna í blóra við Stjórnarskrá. Ef Alþingi gerir sig líklegt til að spyrna við fótum gegn þessu ólýðræðislega ferli, þá er upp hafinn skefjalaus hræðsluáróður um voveiflegar afleiðingar þess að ganga gegn gjörðum embættismannanna. Allt er það uppspuni og einfeldningsleg forræðishyggja.
Bjarni Jónsson, 15.5.2018 kl. 20:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.