Skýr vísbending um þjóðarvilja

Maskína gerði 24. apríl - 7. maí 2018 könnun á viðhorfi landsmanna til tiltekins atriðis við stjórnun orkumála Íslendinga. Spurningin var eftirfarandi: 

"Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) því, að aukið vald yfir orkumálum á Íslandi verði fært til evrópskra stofnana ?"

Gild svör voru 685 (81 %) af 848 í s.k. Þjóðgátt Maskínu. 

Niðurstaðan varð eftirfarandi:

  1. Mjög andvíg        57,4 %
  2. Fremur andvíg      23,0 %
  3. Í meðallagi        11,3 %
  4. Fremur fylgjandi    4,5 %
  5. Mjög fylgjandi      3,8 %
  6. Veit ekki          16,4 %

Margt vekur athygli við þessa niðurstöðu:

 

a) Andvígir nema 80,4 % 

b) Fylgjandi nema aðeins 8,3 %, sem er miklu lægra hlutfall en í svipaðri könnun í Noregi í vetur, sbr að neðan.  

c) Þeir, sem myndað hafa sér skoðun á málinu, eru merkilega margir og hlutfallslega umtalsvert fleiri hérlendis en í Noregi í nóvember 2017 og apríl 2018.

d) Andstaðan er mjög mikil um allt land við að færa aukið vald yfir orkumálum landsmanna til útlanda.  Enginn reyndist fylgjandi því á Vesturlandi og Vestfjörðum, sem ásamt Norðurlandi vestra eru í kjördæmi iðnaðarráðherra.  Hróðug birti iðnaðarráðherra minnisblað fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá ESA, sem átti að sýna fram á, að nánast engu mundi breyta fyrir íslenzka stjórnsýslu, þótt Ísland gengi í Orkusamband ESB.  Þetta hefur verið hrakið rækilega, og líklegt er, að ráðherrann njóti nánast einskis fylgis í kjördæmi sínu við þetta sjónarmið, sem hún gerði að sínu.  Afstaða hennar og annarra þingmanna sama sinnis var pólitískt glapræði.  Það er þó hægt að rétta kúrsinn af enn þá, því að enn hefur Alþingi ekki afgreitt Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB.

Ýmsum getur þótt athyglisvert að sjá skiptingu fólks, sem lýsti sig fylgjandi færslu aukins valds yfir orkumálefnum landsins til útlanda, eftir stjórnmálaflokkum.  Það mætti verða þingmönnum leiðarvísir, þegar þeir munu taka endanlega afstöðu til málsins.  Hér að neðan kemur fram hlutfallslegt fylgi við 8 stjórnmálaflokka, sem svarendur í þessari könnun nefndu, og hlutfall þeirra, sem fylgjandi voru umspurðri valdatilfærslu orkumálanna til "evrópskra stofnana": 

  • Stjórnmálaflokkur   Fylgi   Fylgjandi
  • Sjálfstæðisflokkur  29,5 %    2,8 %
  • Samfylking          17,2 %   18,6 %
  • Vinstri hr.gr.fr.   12,1 %    0,0 %
  • Píratahreyfing      11,7 %   18,7 %
  • Viðreisn             9,7 %   18,4 %
  • Miðflokkur           8,7 %    1,4 %
  • Framsóknarflokkur    8,1 %    0,0 %
  • Flokkur fólksins     3,0 %    6,3 %

Niðurstaðan varð óræk.  Í stjórnarflokkunum er lítið sem ekkert fylgi við að færa stjórnun raforkumála að einhverju leyti til útlanda.  Fylgi við það er nánast einvörðungu bundið við Píratahreyfinguna, Samfylkinguna og Viðreisn, en þar er samt undir fimmtungi fylgisins fylgjandi slíku.  

 

Í heildina eru 8,3 % fremur eða mjög fylgjandi slíkum valdatilflutningi, 11,3 % eru beggja blands og 80,4 % eru fremur eða mjög andvíg slíkum valdatilflutningi, en 16,4 % vita ekki.

Í nóvember 2017 var gerð svipuð skoðanakönnun í Noregi, en þar var spurningin þessi:

"Eftirlitsstofnun ESA í Brussel á að taka bindandi ákvarðanir á vegum Orkustofnunar ESB um norskt rafmagn og orku.  Styður þú aðild Noregs að þessu orkusambandi ?"

Niðurstaðan varð, að 18 % styddu, 38 % væru óákveðnir og 44 % styddu ekki slíkan gerning.  Samanburður sýnir, að Íslendingar eru miklu afdráttarlausari í afstöðu sinni gegn slíkum gerningi, og þeir virðast líka í mun meiri mæli en Norðmenn hafa nú þegar tekið afstöðu til málsins, þótt umræður á Alþingi hafi ekki hafizt.  Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur þó a.m.k. tvisvar tjáð sig í ræðustóli Alþingis afdráttarlaust gegn flutingi valds yfir innlendum málefnum til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Ísland ekki á fulla aðild.  Lítils háttar umræða hefur orðið um Orkustofnun ESB á flestum fjölmiðlunum og á fáeinum vefsetrum.  Íslenzkur almenningur er greinilega vel með á nótunum.  

Það kann jafnframt að vera að renna upp fyrir æ fleirum hérlendis um þessar mundir, að þróun EES-samstarfsins hefur nú tekið allt aðra og óheillavænlegri stefnu en nokkur átti von á í upphafi.  Segja má, að svartsýnustu menn hafi ekki órað fyrir því í janúar 1993, þegar Alþingi samþykkti þennan samning í miklum ágreiningi, að EFTA-ríkin yrðu aldarfjórðungi seinna meðhöndluð sem ESB-ríki af Framkvæmdastjórn ESB.  Þegar núverandi eðli þessa samstarfs, og margvíslegur kostnaður því samfara, hefur verið leitt betur í ljós og þetta allt saman borið saman við viðskiptakjör, sem bjóðast með fríverzlunarsamningum við ESB og Bretland o.fl., þá verður tímabært að halda hér alvöru skoðanakönnun á formi þjóðaratkvæðagreiðslu um afstöðuna til áframhaldandi aðildar landsins að EES-samninginum.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þetta er afar athyglisverð niðurstaða og afgerand Bjarni. Nú er að sjá hvort stjórnarflokkarnir taka eitthvað mark á kjósendum sínum.

Ragnhildur Kolka, 13.5.2018 kl. 22:44

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Tek hér undir með Ragnhildi Kolka.

ACER kemur ekki til greina fyrir okkur Íslendinga.

Og vinstri flokkarnir koma lakast út í vörn þjóðarréttinda.

Jón Valur Jensson, 14.5.2018 kl. 06:18

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég held, að ekki þurfi mikið pólitískt innsæi til að skilja, að myndun gjáar á milli þings og þjóðar í þessu máli yrði pólitískur banabiti þeirra þingmanna, sem að slíku stæðu, Ragnhildur Kolka.  Nú hafa menn skýrar flokkssamþykktir tveggja stjórnarflokka og skýra vísbendingu um vilja þjóðarinnar í þessum efnum.  Öflugri leiðarvísi er ekki hægt að hanna fyrir Alþingismenn.

Bjarni Jónsson, 14.5.2018 kl. 11:34

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ísland getur aðeins haft ógagn af aðild að ACER og mundi reyndar bíða mikið tjón af slíku ráðslagi, eins og alltaf hefur orðið, þegar fullveldi yfir málaflokki eða málaflokkum hefur tapazt út fyrir landsteinana, Jón Valur.

Ég vek athygli á, að enginn fylgismaður VG var fylgjandi slíkum fullveldisflutningi í orkumálum í tilvitnaðri skoðanakönnun.  Ég geri ráð fyrir, að allir þingmenn flokksins, nema e.t.v. "villikettirnir tveir", muni greiða atkvæði gegn þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, ef/þegar hún verður lögð fram.  

Bjarni Jónsson, 14.5.2018 kl. 11:53

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, Bjarni, ég las listann of hratt! -- áberandi að sjá Samf. og Pírata og "Viðreisn" öll á sama róli (þótt þetta væri raunar alls staðar minnihluti, undir 19%, sem kvaðst styðja valdatilfærslu orkumálanna til "evrópskra stofnana"). Afstaða VG-fólks í þessu efni er fagnaðarefni.

Jón Valur Jensson, 14.5.2018 kl. 12:22

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Annað, sem er ánægjulegt við þessa niðurstöðu er, að aðeins 16,4 % svara "veit ekki".  Í Noregi var þetta hlutfall 38 % í nóvember 2017.  Þetta sýnir, að fólk hefur áhuga á málinu og hefur tekið afstöðu á grundvelli umræðunnar.

Bjarni Jónsson, 14.5.2018 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband