8.6.2018 | 11:08
Ádrepa frá EES í garð Hæstaréttar
Skörin er farin að færast upp í bekkinn, þegar Eftirlitsstofnun EFTA, sem í raun er handlangari Evrópusambandsins, ESB, er farin að senda áminningarbréf til utanríkisráðuneytis Íslands út af því, að Hæstiréttur Íslands láti ekki EES-löggjöf njóta forgangs gagnvart íslenzkri löggjöf, eins og kveðið sé á um í EES-samninginum. Víst er, að slíkar ádrepur munu verða tíðari, ef Alþingi samþykkir stóra lagabálka á borð við Persónuverndarlagabálkinn og Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, sem hvor um sig færir innlent vald til yfirþjóðlegrar stofnunar. Sennilega telur Hæstiréttur þessar kröfur ESA stríða gegn Stjórnarskrá. EES-aðildin leiðir til lögfræðilegs kviksyndis. Það er mikill ábyrgðarhluti að hálfu þingheims að leiða landsmenn lengra út í það fúafen.
13. desember 2017 sendi ESA formlegt upphafsbréf til íslenzka utanríkisráðuneytisins um mál, sem snýst um, að Ísland hafi ekki uppfyllt réttarfarslegar skyldur sínar samkvæmt Bókun 35 við EES-samninginn og að þar með hafi Ísland brotið gegn EES-samninginum, grein nr 3. Bréfið sjálft er í viðhengi þessa pistils.
ESA vísar til nokkurra dóma Hæstaréttar, þar sem hann virðist ekki hafa farið eftir Bókun 35 um, að landsreglan skuli víkja.
Bókun 35: "Í tilviki mögulegra árekstra á milli framkvæmdar á EES-reglum við aðrar lagareglur, skuldbinda EFTA-ríkin sig til, ef nauðsyn reynist, að setja í lög, að EES-reglurnar skuli hafa forgang í slíkum tilvikum."
Stenzt þetta íslenzku Stjórnarskrána ?
Grein 3 í EES-samninginum hljóðar svo: "Samningsaðilar skulu gera almennar eða sértækar ráðstafanir til að uppfylla skyldur, sem leiða af þessum samningi. Þeir skulu forðast allt, sem getur ógnað markmiðum þessa samnings. Þeir skulu ennfremur létta samstarfið innan ramma þessa samnings."
Bókun 35 fyrirskrifar sem sagt, að EES-reglur skuli í framkvæmd njóta forgangs fram yfir aðrar lagareglur. Þetta felur í sér, að EES-rétturinn almennt nýtur ekki forgangs fram yfir þjóðarrétt, en þegar kemur að framkvæmdinni og velja þarf á milli, er EES-rétturinn þó rétthærri. Ennfremur merkir þetta, að EES-rétturinn nýtur ekki forgangs gagnvart Stjórnarskrá. Hlutverk bókunarinnar er, að EES-rétturinn hafi svipað afl í EFTA-löndunum eins og EES-rétturinn og viðeigandi ESB-reglur í aðildarlöndum ESB, en án þess að valdsvið löggjafans í EFTA-löndunum sé almennt rýrt.
EFTA-dómstóllinn, sem ætíð nýtir dómafordæmi frá ESB-dómstólinum, ef þau finnst, hefur í dómaframkvæmd lýst notkunarsviði þessarar grunnreglu um að veita EES-réttinum forgang þannig, að það gildi um EES-reglur í verki, sem séu nægilega skýlausar og nákvæmar til að veita einkaaðilum réttindi.
Skýringin á því, að ESA hefur nú undirbúið málssókn gegn Íslandi, er, að Ísland hefur ekki framkvæmt Bókun 35 við grein 3 í EES-löggjöf sinni, sem fyrirskrifar, að "statutes and regulations shall be interpreted, in so far as appropriate, in conformity with the EEA Agreement and the rules laid down therein".
Að mati ESA gefur íslenzka ákvæðið einvörðungu til kynna, að landsreglur skuli túlka í samræmi við ætlaða meginlagareglu EES. Ætlaða meginreglan felur í sér, að gert er ráð fyrir, að landsreglur séu í samræmi við kvaðir EES-réttarfars. Þessi túlkunarmeginregla leysir hins vegar ekki úr tilvikum, þegar staðfest er ósamræmi á milli landsreglunnar og þjóðréttarlegra kvaða.
Það er athyglisvert, að ESA heldur því fram, að Hæstiréttur Íslands brjóti í bága við Bókun 35, þótt athyglinni sé beint að innleiðingu löggjafans á Bókun 35. Þetta getur vakið umræðu um, hvort ESA telji Bókun 35 hafa bein áhrif á þjóðréttinn.
Ísland fékk frest til 13. ágúst 2018 til að svara upphafsbréfi ESA, og verður athyglisvert að sjá viðbrögð Stjórnarráðsins.
Ýmsir hafa fallið í þá gryfju að halda því blákalt fram, eins og Viðskiptablaðið (VB) 14. maí 2018 og nokkrum sinnum áður með vísun til túlkunar "Stjórnarráðsins", að áhrif meiri háttar gjörninga ESB muni "lítil" áhrif hafa á Íslandi, þótt Íslendingar gangist undir lögsögu þessara gjörninga. Hér er mikil og alvarleg meinloka á ferðinni. Spyrja má, hvernig slíkar mannvitsbrekkur komust á legg á Íslandi, sem í einu vetfangi sáu slíka meinbugi á lagasmíð ESB, að hún verði bara óvirk við innleiðingu hér norður í Atlantshafi. Þetta er auðvitað algerlega óboðlegur málflutningur, sem gripið er til af rökþrota mönnum, sem ekki geta tínt til eina góða röksemd fyrir því að taka þá áhættu að stinga hendinni upp í gin ljónsins með skýlausu fullveldisframsali.
Tilvitnun í VB 14.05.2018:
"Sérfræðingar stjórnarráðsins segja hins vegar, að fyrst að Ísland tengist ekki raforkukerfi Evrópu, hafi orkumálapakkinn ekki mikil áhrif hér á landi."
Það er einfeldningsháttur að halda, að í svo miklu hagsmunamáli fyrir almenning á Íslandi sem það er að hindra, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB öðlist lagagildi hérlendis, sé hægt að skáka í skjóli "sérfræðinga stjórnarráðsins". Eru þeir sérfræðingar á sviði rafmagnsmála, lögfræði eða annars ? Kannski þeir séu lögfræðingar, sem sérhæft hafa sig á orkumálasviði, eins og Henrik Björnebye, "norsk ekspert i energirett, EU-rett og EÖS-rett". VB hefur vitnað í hann, en hann á viðskiptahagsmuna að gæta í norskri orkustarfsemi, sem sér fram á hærra raforkuverð með innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins. Hann gerir lítið úr áhrifum innleiðingar Þriðja orkubálksins í Noregi og sér ekkert fullveldisframsal felast í gjörðinni. Það er nauðsynlegt að gæta að viðskiptatengslum, þegar ráðizt er í tilvitnanir út fyrir landsteinana í aðila, sem óþekktir eru hérlendis.
Það eru margir norskir lagaprófessorar, sem nær væri fyrir VB og aðra hérlendis að vitna til. Þeir gæta fyllstu hlutlægni sem fræðimenn. Þar má nefna Peter Örebech, lagaprófessor við Háskólann í Tromsö með ESB-rétt sem eina af aðalkennslugreinunum. Hann er mjög gagnrýninn á fullveldisframsalið, sem Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn og ACER munu hafa í för með sér, verði bálkurinn innleiddur í norska lagasafnið.
Þá væri VB og öðrum, sem fjalla um þetta mál, nær að fjalla um "Ice Link" og skuldbindingarnar, sem af téðri innleiðingu munu leiða, gagnvart Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER í stað innihaldslausts fimbulfambs um "lítil áhrif" Þriðja orkubálksins hérlendis, á meðan Ísland er enn ótengt við raforkukerfi Bretlands og þar með meginlandsins.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þessa greinargóðu samantekt. Þarna er greinilega meiri hætta á ferðum en stjórnmálamenn virðast gera sér grein fyrir. Ég ætla að fá að deila þessari færslu þinni á Facebook síðu mína því mér finnst að þetta þurfi að koma fyrir augu sem flestra. Kærar þakkir. Guðbjörn.
Guðbjörn Jónsson, 9.6.2018 kl. 09:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.