Skuldbindingar Orkusambands ESB

Það hefur lítt stoðað fyrir áhangendur ESB og stuðningsmenn inngöngu Íslands í Orkusamband ESB að hamra á því, að slík innganga hefði nánast engar skuldbindingar í för með sér fyrir landsmenn og mundi litlu sem engu breyta fyrir íslenzka stjórnsýslu á orkumálasviði.

  Í Noregi hefur engum viti bornum manni dottið í hug að halda slíku fram um inngöngu Noregs í Orkusambandið, og á Íslandi hefur þessi innantómi áróður algerlega misst marks. Það er ekki nóg að setja sig á háan hest og þykjast allt vita, en vera í raun bara yfirborðssvamlari í málaflokki orkumála og án innsæis á þýðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB fyrir land og þjóð.

Það má marka af skoðanakönnun Maskínu í um 2 vikur í kringum mánaðamótin apríl-maí 2018, þar sem næstum tífalt fleiri lýstu sig andvíga en fylgjandi því að færa meira vald yfir íslenzkum orkumálum til evrópskra stofnana og tiltölulega fáir voru óákveðnir, að þjóðin er vel með á nótunum í þessu máli og lætur ekki viðmælendur búrókrata í ESB og kratíska áhangendur skrifræðisveldisins þar segja sér fyrir verkum.   

Norsku lagaprófessorarnir Holmöyvik og Haukeland Fredriksen lýsa áhrifunum þannig í hnotskurn fyrir Noreg, og þau má heimfæra á Ísland:

"Bindingaráhrif ákvarðana ESA munu þar að auki koma fram sem regluverk EES, sem mun verða hluti af innanlandsrétti í Noregi.  Norsk pólitísk stjórnvöld munu ekki geta gripið inn í framkvæmd innanlands af spegilákvörðun frá ESA [ESA speglar ACER í EFTA-löndunum - innsk. BJo] án þess að brjóta norsk lög.  Ef landsreglarinn (RME) [útibú ACER] verður með múður, geta væntanlega einkaaðilar framkallað framkvæmd [ákvörðunar ACER] með því að halda því fram gagnvart norskum dómstólum, að norsk lög skyldi landsreglarann til að framkvæma samþykkt ESA."

Síðan slá lögspekingarnir norsku eftirfarandi föstu: "Samkvæmt orðanna hljóðan í Stjórnarskránni, grein nr 115, og hefðum í Stórþinginu, útheimtir samþykkt á aðild Noregs að ACER [Orkustofnun ESB] 3/4 meirihluta í Stórþinginu." 

Peter Örebech - prófessor í réttarfari við Háskólann í Tromsö, bendir einnig á, að landsreglarinn á hvorki að meðtaka dómsuppkvaðningar né pólitísk merki frá Noregi.  Hann er þeirrar skoðunar, að RME-landsreglarinn, sé ekki norsk ríkisstofnun:

"Aðildin að Orkusambandi ESB (og ACER) er reist á því kerfi, að norsk stjórnmálaleg yfirvöld geti ekki gripið inn í gegn óæskilegum afritunarákvörðunum RME/ESA, af því að norsk löggjöf leggur nýja landsreglaranum, RME, það á herðar að framkvæma ákvarðanir ESB.  RME er fjármagnað af Stórþinginu og með yfirstjórn, sem skipuð er af Olíu- og orkuráðuneytinu án þess að vera stofnun á vegum norska ríkisins, heldur á vegum ESB."

Það orkar mjög tvímælis, að þetta fyrirkomulag standist stjórnarskrár Noregs og Íslands, þar sem vald á sviði orkumála, sem áður var hjá innlendu ríkisvaldi, er í raun flutt til yfirþjóðlegrar stofnunar, þar sem EFTA-ríkin ekki munu fá fullgildan fulltrúa (með atkvæðisrétti, aðeins áheyrn).  Það getur engum blandazt hugur um það lengur, að aðild Íslands að Orkusambandi ESB mundi fela í sér stórfellda breytingu á íslenzkum rétti og stjórnvaldi, þ.e. um er að ræða aðgerð, sem felur ótvírætt í sér fullveldisframsal á sviði orkumála, sem þjóðin að öllum líkindum er algerlega andsnúin, sbr skoðanakönnun Maskínu, sem birt var 13. maí 2018.

Ríkisstjórnin verður, væntanlega í sumar, að finna lausn á því, hvernig hún kemur þessu máli fyrir kattarnef.  Að biðja Alþingi um að framselja ríkisvald yfir mikilvægum málaflokki til yfirþjóðlegrar stofnunar á fullveldisári verður ríkisstjórninni þyngra í skauti en hún ræður við, enda flögrar það varla að oddvitum ríkisstjórnarinnar.    

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband