Heimildasöfnun er eitt, rökrétt ályktun annað

kvöldi 13. maí 2018 sýndi RÚV-Sjónvarp heimildarmynd um laxeldi.  Í myndinni voru fallegar landslagsmyndir, aðallega frá Noregsströnd, Vestur-Skotlandi og Svíþjóð, og einnig frá strönd Washington fylgis á NV-strönd Bandaríkjanna.  Með viðtölum við þarlenda o.fl. var gerð grein fyrir mengun, lúsasmiti og erfðablöndun af völdum laxeldis í sjókvíum á þessum svæðum.

Þetta var allt gott og blessað, en svo snaraðist heldur betur á merinni, þegar tekið var til við að heimfæra ófarir og mistök við laxeldi þarlendra á Ísland.  Við það breyttist fræðslumynd í óheflaða áróðursmynd gegn laxeldi í sjókvíum við Ísland.  Nú skal leitast við að finna þessum orðum stað, m.a. með vísun til fræðimanna.

1) Tökum fyrst mengunina.  Þar er aðallega átt við fóðurleifar og úrgang.  Þetta er í raun áburður og næring fyrir fjarðalífið í grennd við kvíarnar, en menn eru sammála um, að heppilegt sé vegna staðbundinnar níturmyndunar og súrefnisþurrðar, sem af uppsöfnun leiðir, að hvíla eldissvæðin, eins og þurfa þykir, í sumum tilvikum 1 ár af hverjum 3.  Eftirlit er að hálfu starfsleyfishafa haft með umhverfinu, opinberir eftirlitsaðilar gera stakar athuganir, og eru þetta væntanlega nauðsynlegar og nægilegar mótvægisaðgerðir gegn þessari mengun.

2)Gert var mikið úr lúsasmiti villtra stofna af eldislaxinum.  Það blasir við, að sú hætta er hverfandi á Íslandi m.v. nefnda staði erlendis. 

Í fyrsta lagi er sjávarhiti svo lágur við Ísland, að sníkjudýrið laxalús þrífst ekki, nema í undantekningartilvikum.  Þetta getur þó breytzt, ef sjórinn heldur áfram að hlýna við Ísland. Lúsin er mikill vágestur í laxeldi við Noreg og Skotland, en hérlendis er notkun lúsareyðis eða sýklalyfja í lágmarki og ætti að verða tilkynningarskyld til rekstrarleyfisveitanda.

Í öðru lagi er sjókvíaeldi aðeins leyft við Ísland á stöðum í grennd við heimkynni um 1 % íslenzku laxastofnanna.  Það er þess vegna út í hött að bera aðstæður á Íslandi saman við t.d. Noreg eða Skotland, þar sem sjókvíaeldi hefur áratugum saman verið staðsett við mynni helztu laxveiðiáa þessara landa.

3)Það var í téðri "heimildarmynd" mikið fimbulfambað um hættuna á erfðablöndun, ef eldislax nær upp í ár hérlendis til að hrygna.  Áhrif einstaka eldislaxa, sem ná að mynda klak með villtum fiski, eru engin merkjanleg á villta stofninn.  Rannsóknir norska fræðimannsins Kevens Glover o.fl. benda til, að þótt hlutfall sleppifiska í á sé 5 %-10 % af villta stofninum í hálfa öld, verði áhrif erfðablöndunar mjög lítil og hamli í engu vexti og viðgangi stofnsins.  Fyrst við hlutfallið 30 %-50% í hálfa öld verða breytingar á villta stofninum augljósar og til hins verra.  Leikmönnum, sem fullyrða allt annað, duga ekki upphrópanir, því að gríðarlegir almannahagsmunir eiga hér í hlut, þar sem 21 starf/kt verða til við laxeldisstarfsemina (7 bein+14 óbein í Noregi), og jafnvel meira á Íslandi, þar sem framleiðslueiningarnar eru minni.

Við áhættumat sitt beitir Hafrannsóknarstofnun varúðarreglu og miðar við 4 % leyfilegt hámark eldislaxa af villtum löxum í á.  Hún metur burðarþol Ísafjarðardjúps 30 kt/ár í sjókvíum.  Það gætu verið 12 M (M=milljón) fiskar.  Villtir laxar í ám, sem renna út í Ísafjarðardjúp, eru fáir, e.t.v. 600 talsins á ári.  Leyfilegt hámarkshlutfall hrygnandi eldislaxa í ám Ísafjarðardjúps er þá 2 ppm (ppm=hlutar úr milljón) af fiskafjölda í sjókvíum. 

Traustari sjókvíar, bætt vinnubrögð og strangur gæðastjórnunarstaðall hafa dregið úr líkum á, að laxar sleppi úr sjókvíum hér við land, um 98 %.  Þessa verða gagnrýnendur sjókvíaeldis á laxi að taka tillit til í málflutningi sínum, ef eitthvert vit á að vera í honum.  Þegar þar að auki er tekið tillit til, að aðeins hluti sleppifisksins ratar upp í árnar og hrygnir þar með eldislaxi, má gera ráð fyrir, að aðeins 1 ppm eldislax í sjókvíum geri þetta hér við land.  Hann getur samt hvergi gert óskunda með því.  Jafnvel í Ísafjarðardjúpi með 30 kt/ár af eldislaxi í sjókvíum, yrði blöndunin innan öryggismarka Hafrannsóknarstofnunar.  Þess vegna ætti henni ekkert að vera að vanbúnaði með að hækka áhættumörkin upp í burðarþolsmörkin þar, og leyfisveitendum með að veita virðurkenndum aðilum starfsleyfi og rekstrarleyfi, sem gjarna gæti farið stighækkandi á 5 árum upp í 30 kt/ár, í enn frekara varúðarskyni, og stöðvun aukningar, ef tilefni gefst til. 

Þann 8. maí 2018 birtist fróðleg grein í Fréttablaðinu eftir Gunnar Stein Gunnarsson, líffræðing, undir fyrirsögninni:

"Stofnanda áhugamannafélagsins IWF svarað".

Þar skrifaði hann m.a. um rannsóknir Kevens Glover, en af niðurstöðum þeirra má ráða, að áhyggjur m.a. hagsmunaaðila hérlendis, s.s. veiðiréttarhafa í ám, sé ástæðulaus út frá líffræðilegum og erfðafræðilegum forsendum:

"Reyndar mætti Ingólfur lesa fræðigreinar af meiri athygli áður en hann ríður fram á ritvöllinn, en í grein Glovers kemur einmitt fram, að því óskildari sem aðkomulaxinn er villta laxinum, þeim mun ósennilegra er, að hann skilji eftir sig spor.

Í grein Glovers kemur fram, að samsetning ákveðinna þátta, eins og lítill árangur eldislaxins við hrygningu, náttúrulegt val, sem hyglir aðlöguðum fenótýpum/genótýpum frá hinum villtu stofnum, sem og fenótýpiskur sveigjanleiki, dregur úr hraða og stærðargráðu breytinga í fenótýpum/genótýpum og líffræðilegum einkennum villta laxastofnsins, sem hefur upplifað innstreymi frá eldislaxi.

Þetta er í samræmi við niðurstöður annarra aðila í fræðaheiminum, svo sem Hindar, Norsku hafrannsóknarstofnunarinnar og fleiri.  Það þarf mikla, stöðuga og viðvarandi innblöndun af eldislaxi í áratugi til að hætta á erfðablöndun sé raunveruleg (Hindar;2006, 2017).  Um þetta eru fræðimenn nokkuð sammála í Noregi og víðar."

Með öðrum orðum er æxlunargeta eldislaxins dauf og náttúran hyglir hinum aðlagaða, villta stofni umfram stofn, sem í margar kynslóðir hefur verið ræktaður af mönnum til að vaxa hratt og verjast lús fremur en að geta af sér öfluga einstaklinga.  Þar af leiðandi er það fyrst við yfir 30 % "innstreymi" samfleytt áratugum saman, sem erfðafræðilegra breytinga tekur að gæta í villtum laxastofnum.  Slíkt er algerlega útilokað við núverandi aðstæður á Íslandi.  

Þá er rétt í þessu samhengi að vekja athygli á grein tveggja norskra prófessora við Landbúnaðarháskólann að Ási og við Háskólann í Björgvin, Erik Slinde og Harald Kyvi, en þeir hafa áhyggjur af úrkynjun villtra laxastofna, sérstaklega við skyldleikaræktun í ám með fáum löxum.  Grein þeirra:

"Viltu bjarga laxinum ? - leggðu þá flugustönginni", 

birtist í Morgunblaðinu, 12. maí 2018:

"Flestir [göngulaxanna] finna sína á, en um 5 % fara í aðra. Þetta skiptir máli; það hindrar skyldleikaræktun, sem hætta er á, séu fáir fiskar í ánni.  Skyldleikaræktun er ógn við laxastofna.  Sloppnir eldislaxar í Noregi synda sumir einnig upp í ár til hrygningar með sínum villtu ættingjum.  Mjög neikvætt, segja yfirvöld.  En eru til sérstök eldislaxagen, sem eru óheppileg, eða eru genin bara venjuleg, gagnleg laxagen ?

Bara brot þeirra laxa, sem synda til hafs úr hverri á, kemur aftur, og í sumum ám er fjöldinn ótrúlega lítill.  Stærsta ógn laxastofna er því veiðin í ánni.  Með vissu má því segja, að vilji maður bjarga villta laxinum, þá eigi maður að leggja veiðistönginni.  Sumir segja hægt að veiða laxinn og sleppa honum aftur.  Það er dýraníð, en úr því að laxinn gefur ekki frá sér hljóð, þá er það kannski í lagi ?"

Þarna kveður við nýjan tón m.v. mest áberandi umræðu á þessu sviði á Íslandi.  Tveir háskólaprófessorar gera því skóna, að takmörkuð blöndun við aðra stofna, eldislax innifalinn, leiði til æskilegrar erfðafræðilegrar fjölbreytni, sem er nauðsynleg til að hindra skaðlega skyldleikaræktun.

Þá er óhjákvæmilegt að gefa gaum að orðum þeirra um dýraníð, og dýraverndarsamtök, veiðiréttareigendur, dýralæknar og lögfræðingar þurfa að komast að niðurstöðu um það, hvort "veiða-sleppa" aðferðarfræðin samræmist núgildandi íslenzkum lögum um dýravernd og velferð dýra.

Norsku prófessorarnir hnykkja á vangaveltum sínum um veiðina á villtum laxi í lok greinar sinnar:

"Veiðin á villtum laxi í ám er umhugsunarverð og má líta á sem umhverfisfjandsamlega.  Það er tímabært, að yfirvöld skoði stjórnun á erfðaefni laxa og laxveiðiáa.  Yfirvöld ættu að spyrja stofnanir sínar um, hvaða markmið þær hafa sett um stjórnun erfðafjölbreytileika, og það ætti að gilda um öll dýr, ekki bara um lax."

Norður-Atlantshafslaxastofnarnir eiga allir undir högg að sækja.  Hér benda tveir fræðimenn á 2 hugsanlegar skýringar, ofveiði og úrkynjun stofnanna vegna skyldleikaræktar innan smárra stofna.  Það er nær að beina sjónum að raunverulegu vandamáli en að upphefja galdraofsóknir á grundvelli þröngsýni og fáfræði, eins og vanalega, gegn mikilvægri atvinnugrein á Íslandi, sem beitir beztu fáanlegu tækni og staðlaðri gæðastjórnun við sjókvíaeldi á eldislaxi.  Tal um geldingar og landeldi er óraunhæft í núverandi viðskiptaumhverfi.  Geldingar þessar geta flokkazt undir dýraníð og landeldið útheimtir mikla orku, ferskvatn og jarðhita.   

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband