Skiptar skoðanir um raforkumál Vestfirðinga

Þann 2. júní 2018 birtist í Morgunblaðinu góð grein  eftir Birnu Lárusdóttur, upplýsingafulltrúa VesturVerks á Ísafirði undir fyrirsögninni,

"Dylgjur á dylgjur ofan".

Þegar Birna valdi grein sinni heiti, gæti hún hafa nýlokið við lestur greinar Tómasar Guðbjartssonar, hjartaskurðlæknis og náttúruverndarsinna, sem birtist í Morgunblaðinu 31. maí 2018 undir heitinu:

"Þar sem vegur sannleikans endar".

Í raun er ekki miklu við grein Birnu að bæta; svo vel gerir hún grein fyrir því, hvers vegna Vestfirðingar og aðrir umhverfis- og framfarasinnaðir landsmenn ættu að sameinast um að virkja vatnsföll á Vestfjörðum, sem eru í nýtingarhluta Rammaáætlunar, og þar sem virkjunartilhögun hefur verið rýnd af yfirvöldum og lögformlegt umhverfismat verið staðfest.  Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum, eins og hún hefur verið kynnt af virkjunaraðilanum, VesturVerki, nýtur stuðnings heimamanna og sennilega langflestra Vestfirðinga.  Allt þetta eru næg rök fyrir útgáfu  framkvæmdaleyfis.  

Gerð var dólgsleg tilraun fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar til að svipta íbúana lýðræðislegu forræði sínu á framkvæmdaleyfinu.  Það var fyrirlitleg aðför að lýðræðinu, kolólögleg og heimskuleg, enda rann hún út í sandinn. Nú hafa sömu aðilar kært framkvæmd kosninganna í Árneshreppi, og eru þetta firn mikil. 

Tómas Guðbjartsson, læknir, rembist eins og rjúpan við staurinn með áróðursherferð sinni að telja Vestfirðingum og öðrum trú um, að meiri verðmæti fari í súginn með virkjuninni en hún muni skapa.  Það er mjög ósannfærandi málflutningur, reistur á hans eigin tilfinningalega mati, sem alls ekki er þó ætlunin að gera lítið úr, en á samt ekki að hafa neitt vægi við opinbera ákvarðanatöku af þessu tagi, þar sem taka þarf tillit til fjölmargra opinberra hagsmuna, hagsmuna samfélagsins á Ströndum, á Vestfjörðum í heild og hagsmuna landsins alls. 

Ef aðeins er litið á nærsamfélag virkjunarinnar, er alveg öruggt, að virkjunin mun leiða til þess, að fleiri geta og munu njóta náttúrufegurðar svæðisins.  Það er einfaldlega segin saga, að ferðamennska og íslenzkar virkjanir eiga mjög góða samleið.  

Um umhverfishlið málsins hefur Birna þetta að segja í téðri grein og hefur þar mikið til síns máls:

"Mönnum verður tíðrætt um umhverfisáhrif virkjunarinnar, enda verður aldrei hjá því komizt að skerða land vegna slíkra framkvæmda.  Það er aftur á móti leitun að vatnsaflsvirkjun af þessari stærð, sem er jafnlítið inngrip í náttúruna og Hvalárvirkjun.  Ekki verður hróflað við náttúruperlum, s.s. fossum, giljum eða árfarvegum, þótt vissulega muni rennsli minnka í þeim á ákveðnum tímum árs, líkt og gerist reyndar í náttúrunni sjálfri.  Þrjú uppistöðulón á háheiðinni ásamt stíflumannvirkjum verða helztu sjáanlegu ummerki virkjunarinnar, sem verður að öðru leyti öll neðanjarðar." 

Ekkert hefur stuðlað meir að því að auka samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegu samhengi en virkjanir vatnsafls og jarðvarma, nema öll skrefin, sem tekin voru við útfærslu landhelginnar.

  Samkeppnisstaða landsins hefur látið undan síga á undanförnum misserum, og það er ávísun á lakari lífskjör og verri félagslega samkeppnisstöðu en við viljum sjá hérlendis.  Afturhaldssemi gagnvart frekari nýtingu orkulindanna með beztu fáanlegu tækni og lágmarks áhrifum á náttúruna, sem þar að auki eru öll afturkræf samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum þar um, er ávísun á áframhaldandi neikvæða þróun samkeppnisstöðu landsins og þar af leiðandi aukinn ójöfnuð í samfélaginu á milli landshluta og á milli stétta.  Hvorugt viljum við hafa.

Tómas Guðbjartsson hefur fullyrt, að Hvalárvirkjun sé óþörf fyrir Vestfirðinga og fyrir landið í heild.  Þetta er kolrangt.  55 MW virkjun mun hækka skammhlaupsafl á Vestfjörðum, sem er nú svo lágt, að það stendur stöðugleika raforkukerfisins þar fyrir þrifum, sem kemur fram í miklu spennuflökti við bilanir.  Þar að auki er hækkun skammhlaupsafls á Vestfjörðum forsenda þess, að unnt verði að færa flutnings- og dreifikerfið úr lofti í jörðu. Nægileg hækkun skammhlaupsafls á Vestfjörðum er óhugsandi án nýrra virkjana þar. Slík aðgerð yrði tvímælalaust til mikilla bóta fyrir afhendingaröryggi rafmagns og ásýnd Vestfjarða.  

Hvalárvirkjun er ákjósanlega staðsett fyrir hringtengingu flutningskerfis raforku á Vestfjörðum, því að með innmötun eftir aðeins einum legg, 132 kV Vesturlínu, kemur hringtenging á Vestfjörðum að mjög takmörkuðum notum.  Frá Nauteyri, sem verður mikilvæg aðveitustöð í Vestfjarðahringnum, staðsett í Ísafjarðardjúpi og með innmötun frá Hvalárvirkjun og Vesturlínu, mun koma tenging til norðurs við aðveitustöð í Ísafjarðarbæ, sem þannig mun loksins njóta bráðnauðsynlegrar 132 kV hringtengingar áður en langt um líður. Slíkt fyrirkomulag er bráðnauðsynlegt til að anna auknu álagi á norðanverðum Vestfjörðum án þess að þurfa að grípa til olíukyntrar neyðarrafstöðvar Landsnets á Bolungarvík.  

Aukning raforkunotkunar á Vestfjörðum er hlutfallslega meiri en víðast hvar annars staðar á landinu. Ástæðan er sú, að byggðin eflist nú mikið með aðflutningi fólks og góðri viðkomu.  Undirstaða þeirrar jákvæðu þróunar er sú, að nú er einkaframtakið að raungera þá stefnumörkun stjórnvalda frá því í byrjun 21. aldarinnar, að á Vestfjörðum (Austfjörðum og í Eyjafirði) yrði heimilað sjókvíaeldi á laxfiskum. 

Þar sem jarðhita skortir víðast hvar á Vestfjörðum, hefur ný atvinnugrein og mannfjöldaaukning í för með sér aukið álag á raforkukerfið og auknar kröfur um gæði raforkunnar.  Langhagkvæmast og skynsamlegast er, að alhliða uppbygging raforkukerfis Vestfjarða haldist í hendur við þessa umbyltingu atvinnuhátta.  

Því miður virkar ríkisvaldið hamlandi á þessa þróun, því að það er of seint á ferð með hringtengingu vegakerfis Vestfjarða, og það verður nú að sjá til þess, að Nauteyrarstöðin komist í fullt gagn sem fyrst eftir gangsetningu Hvalárvirkjunar.  

Tómas Guðbjartsson heldur uppi einskis nýtu pexi við virkjunaraðilann um eignarhald HS Orku og VesturVerks.  Það virðist hafa farið fram hjá honum, að öll ríki, nema ríki á borð við Norður-Kóreu, sækjast eftir beinum erlendum fjárfestingum í atvinnulífi sínu.  Samkeppnishæfustu lönd heims eru með meiri hlutdeild slíkra fjárfestinga en Ísland.  Ástæðan fyrir því, að þetta er þjóðunum hagstætt, er, að fjármagn kostar, og sá kostnaður lendir þá ekki á þjóðunum sjálfum, þar sem erlendar fjárfestingar eiga í hlut.  Annar vanmetinn kostur er sú stjórnunarþekking, tækniþekking og viðskiptaþekking auk viðskiptatengsla, sem  erlendri fjárfestingu fylgir. Laxeldið er gott dæmi um þetta.

Afturhalds- og einangrunarsinnar benda þá á, að erlendir fjármagnseigendur flytja ágóða sinn utan. Það gera þeir þó í enn meiri mæli á formi vaxtatekna, ef fjármögnun innanlands er með erlendum lántökum.  Fjárfestarnir beina oftast drjúgum hluta ágóða síns til endurfjárfestinga innanlands.  Tómas Guðbjartsson virðist vera málpípa þeirra sósíalistísku viðhorfa, að fjármagnseigendur eigi ekki rétt á umbun fyrir að setja fé í áhættusamar framkvæmdir í samanburði við  bankainnlán eða verðbréfakaup.  Þegar þetta blandast saman við andstöðu hans við umhverfisvænstu framkvæmdir nútímans, er ekki laust við, að holur hljómur verði í áróðrinum öllum.

Birna Lárusdóttir lýkur grein sinni með eftirfarandi orðum, sem einnig verða lokaorð þessa vefpistils:

"Ef við horfum á stóru myndina, er virkjun vatnsfalla til orkuframleiðslu ein umhverfisvænsta leiðin, sem völ er á til að stemma stigu við notkun jarðefnaeldsneytis og hlýnun jarðar.  Virkjun Hvalár er liður í því.  Um þetta ættu umhverfissinnar allra landa að geta verið á einu máli.  Á grundvelli sjálfbærrar nýtingar náttúrunnar ættum við því að geta sameinazt um að tala upp innviðauppbyggingu á Vestfjörðum, þannig að íbúar þessa fámennasta landshluta Íslands fái setið við sama borð og aðrir landsmenn." 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband