Úreltar skipulagshugmyndir baka bara vandræði

Borgarstjórinn í Reykjavík hefur gerzt sérstakur talsmaður mjög illa ígrundaðrar skipulagshugmyndar fyrir höfuðborgarsvæðið, sem gengur undir nafninu Borgarlína.  Hugmyndin er að skapa sérakreinar fyrir hraðvagna, BRT (Bus Rapid Transfer), eftir helztu umferðaræðum höfuðborgarsvæðisins.  Þetta mun óhjákvæmilega víða þrengja að almennri bílaumferð.  Vandamálið, sem hraðvagnakerfið á að leysa, umferðarstíflur og sífellt lengri ferðatími á álagstoppum umferðar kvölds og morgna, mun þess vegna versna með Borgarlínu.

Sé litið til annarra borga, þar sem BRT hefur verið innleitt, hefur sú innleiðing haft sáralítil áhrif á fjölgun bíla í umferðinni.  Borgarlínan, sem áætlað er, að kosta muni miaISK 80 á næstu 20 árum, mun þess vegna engan vanda leysa, en tefja óhóflega fyrir þörfum umbótum á umferðarmannvirkjum vegna mikillar fjárþarfar úr sjóðum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæði og úr ríkissjóði og valda þar með slysaaukningu og verra heilsufari þéttbýlisbúa vegna aukinnar mengunar.

Borgarlína er lausn 20. aldarinnar á umferðarteppum í miklu þéttbýlli löndum en Ísland er og með margfalt fleira fólk meðfram umferðarásum hennar en hér tíðkast.  Þau eru anzi aftarlega á merinni, sem nú boða rándýrt og óviðeigandi afturhvarf til fortíðar í skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins.

Nú er í þróun og á næstu grösum tækni 21. aldarinnar hjá öllum helztu bílaframleiðendum heimsins.  Hér er ekki átt við rafbílabyltinguna, sem er að hefjast og birtast mun bílakaupendum og öðrum í öllu sínu veldi strax um 2020.  Sem dæmi ætlar VW-samsteypan, stærsti bílaframleiðandi heims 2017, að afhenda rafknúinn valkost af öllum sínum bílgerðum á næsta áratugi.  Árið 2025 á fjórðungur framleiðslu samsteypunnar að verða rafknúinn. Viðsnúningur samsteypunnar eftir útblásturshneykslið 2015 er aðdáunarverður og sannar enn snilli og seiglu Þjóðverja, þegar þeir komast í hann krappan. Hröð rafvæðing framleiðslunnar er einmitt stefnumörkunin út úr þessum mengunarálitshnekki og a.m.k. miaUSD 40 fjárhagsskelli.

Það er hins vegar önnur þróun, sem, ásamt nýjum umferðarmannvirkjum, mun leysa úr umferðarhnútum höfuðborgarsvæðisins.  Það er AV (Autonomous Vehicles).  Hér verður þessi tækni kölluð SF eða sjálfvirk fartæki.  Þá má spyrja, hvernig SF geti leyst úr umferðarhnútum ?

Þann 3. marz 2018 birtist ítarleg grein í The Economist, "Reinventing wheels", sem svarar þessari spurningu.  Þar kemur fram, að fjöldi bifreiða í borgum heimsins sé nú um 1,05 milljarður talsins og muni ná hámarki árið 2027 og verða þá um 1,15 milljarður talsins.  Á 10 árum muni bifreiðum í borgum síðan fækka niður í 0,45 milljarð eða um 0,7 milljarða frá hámarkinu og síðan vaxa hægt með fjölgun SF.  Fækkun bifreiða í borgum frá núverandi fjölda og niður í lágmarkið um miðjan 4. áratuginn er 57 %.  Í borgum, þar sem þessi þróun verður, mun hún fara langt með að útrýma tímasóun í borgarumferð.  Á stórhöfuðborgarsvæði Íslands, þ.e. austan frá Selfossi, vestan frá Keflavíkurflugvelli og norður að Borgarnesi verður samt ekki hjá því komizt að hafa hið minnsta tvær akreinar í hvora átt inn til Reykjavíkur, leggja Sundabraut á brú og/eða í göngum og sprengja fyrir nýjum Hvalfjarðargöngum.  Þá verður heldur ekki komizt hjá því að auka verulega flæðið og öryggið á helztu gatnamótum höfuðborgarsvæðisins. 

Hvað knýr fram þessa hröðu þróun nýrra fartækja ?  Það mun verða markaðssetning "robotaxis", sem nefna má ökuþjarka.  Þar er um að ræða sjálfvirk fartæki, SF, sem taka nokkra farþega, e.t.v. 5-10 í sæti, og hægt verður að panta þjónustu af þeim með smáforriti í síma frá dyrum til dyra. 

Þótt ökuþjarkarnir verði dýrir vegna stórra rafgeyma eða "efnarafala", dýrra skynjara (myndavélar, radar og LIDAR) og mikils hugbúnaðar, e.t.v. um 100 kUSD/stk frá verksmiðju, þá mun notkun þeirra innanbæjar samt verða mjög hagkvæm fyrir almenning í samanburði við t.d. kostnaðinn við að eiga bíl í bæjarsnattið. Á heimsvísu er talið, að kostnaður notenda SF gæti numið um 0,37 USD/km eða tæplega 40 ISK/km m.v. 105 ISK/USD.  Kostnaður við að eiga og reka fólksbíl er talinn á heimsvísu vera tvöfalt hærri og við að nota hefðbundinn leigubíl um 4,2 sinnum hærri. Drifkraftur hinnar öru innleiðingar mun verða sparnaður fjár og  tíma, aukið öryggi og heilnæmara umhverfi. 

Kostirnir við þessa nýju tækni eru gríðarlegir, og það hafa bílaframleiðendur nú sannfærzt um með tilraunum sínum.  Fyrst má þar tiltaka aukið öryggi á vegum í þéttbýli, og væntanlega munu sjálfvirk fartæki einnig aka um á þjóðvegum landsins eftir 2040.  Árlega látast um 1,25 milljón manns í bílslysum í heiminum um þessar mundir samkvæmt WHO-Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni, sem eru a.m.k. tvöfalt fleiri dauðsföll en á Íslandi að tiltölu.  Umferðarslys eru megindauðaorsök ungmenna á aldrinum 15-29 ára.  Í umferðarslysum slasast árlega 20-50 milljón manns í heiminum eða 28 fyrir hvern látinn. Að tveimur áratugum liðnum verður þessi mikla umferðarslysatíðni talin vera mikill ljóður á ráði nútímans.

Umfangsmiklar tilraunir fara nú fram í mörgum borgum heimsins með SF í venjulegri umferð og lofa góðu.  Viðbragð SF við óvæntum atburðum er þúsund sinnum hraðar en mannsins, og af reynslynni hingað til að dæma þykir raunhæft að ætla, að slysatíðnin, þar sem SF kemur við sögu, muni verða aðeins 1/1000 af því, sem nú er í þéttbýli.  Sem dæmi um þann gríðarlega toll, sem umferðarslys taka af mannfólkinu, má taka Bandaríkin.  Á tímabilinu 2000-2017 létust þar um 650´000 manns í umferðinni.  Það er um 20´000 fleiri en þeir Bandaríkjamenn, sem féllu í öllum styrjöldum 20. aldarinnar, sem Bandaríkjamenn tóku þátt í.  

SF munu langflest verða rafknúin, hvort sem orkan mun koma frá vetnishlöðu eða rafgeymi.  Ökutækjum á götunum fækkar og sennilega sliti gatna líka, svo að loftgæði í þéttbýli munu batna, þó aðallega vegna orkuskipta, sem koma hvort sem er.  Svissneski bankinn UBS spáir 20 %- 30 % meiri raforkunotkun í Evrópu árið 2050 vegna orkuskipta fartækja á landi. Þá er eftir að bæta við raforkuþörf skipa og flugvéla auk alls kyns hitunarferla. Á Íslandi má hins vegar reikna með hærra hlutfallinu að öllum orkuskiptunum meðtöldum.  Ástæðan er sú, að raforkunotkun landsmanna er nú þegar sú mesta í heiminum reiknuð á hvern íbúa, enda er nánast öll raforkan úr orkulindum, sem taldar eru til endurnýjanlegra og sjálfbærra linda.

Umferðartíminn á km á annatímum mun sennilega styttast vegna fækkunar ökutækja og skynsamlegra vals á ökuleiðum m.t.t. lágmörkunar á töfum, en á móti koma meiri krókaleiðir með farþega áður en þeim síðasta er skilað á áfangastað.  Hitt þarf að taka með í reikninginn, að allir geta farþegarnir sinnt misaðkallandi verkefnum á leiðinni, talað í síma eða átt önnur samskipti á netinu. 

Talið er, að Bandaríkjamenn sitji fastir í umferðinni eða leiti sér að bílastæði í 30 milljarða klukkustunda á ári, sem er tímasóun, sem þeir geta sparað sér með SF. Fært til Íslands eftir höfðatölu eru þetta rúmlega 30 milljónir klst.  Samtök iðnaðarins, SI, hafa lagt mat á tímasóun í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu hérlendis og komizt að þeirri niðurstöðu, að ferðatíminn á álagstíma úr Grafarvogi til miðborgar hafi á tímabilinu 2011-2017 (6 ár) aukizt um 40 % og að tímasóunin, þ.e. umferðartafir, nemi um 5,5 milljón klst á ári.  Gizka má á, að á landinu öllu geti þessi tímasóun í bílaröðum numið 7,5 milljón klst eða rúmlega 2 % af heildarvinnutíma landsmanna.  Þessari sóun má líkja við 2 % kjaraskerðingu, sem að mestum hluta er í boði borgaryfirvalda Reykjavíkur.  Hún er að vísu hlutfallslega aðeins 1/4 af tímasóun Bandaríkjamanna í umferðinni, en tilfinnanleg samt, af því að hún er að mestu leyti óþörf.  

 

 

 

 

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Væri ekki kjörið að bjóða bílaframleiðendum höfuðborgarsvæðið sem tilraunavettvang til þróunnar sjálfakandi bifreiða? 

Það er óvíða jafn mikil fjölbreytni í veðurfari, sér í lagi að vetrum, en einmitt hér á suð vestur horni Íslands.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 22.5.2018 kl. 16:23

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er góð hugmynd, sem bæði mundi gagnast SF framleiðanda/framleiðendum og væri líklegt til að flýta þróuninni í þessa átt hérlendis.  LIDAR er háupplausnarnemi, sem býr til þrívíða mynd af umhverfinu fyrir tölvukerfi SF.  Hann er viðkvæmur fyrir snjókomu og öðru, sem fýkur í loftinu.  Ísland er þá kjörsvæði til að þróa hann.  Ég er viss um, að Eyþór Arnalds mun fá hljómgrunn fyrir slíku boði fyrir hönd höfuðborgarsvæðisins, sérstaklega ef hann hlýtur góðan byr laugardaginn 26. maí 2018.

Bjarni Jónsson, 22.5.2018 kl. 18:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband