29.5.2018 | 11:33
Fyrirvarar Stórþingsins verða varla uppfylltir
Þegar hluti stjórnarandstöðunnar á norska þinginu ákvað að ganga til liðs við norsku ríkisstjórnina, sem er minnihlutastjórn Hægri og Framfaraflokksins, þá var samið skjal, sem finna má undir tengli með þessum pistli. Þar settu Verkamannaflokkurinn, Vinstri og Umhverfisflokkurinn-hinir grænu, fram 8 skilyrði fyrir stuðningi við samþykki frumvarps ríkisstjórnarinnar um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandsins, ESB, í EES-samninginn og norska löggjöf.
Þetta var gert að frumkvæði Verkamannaflokksins, sem logaði stafnanna á milli vegna tilmæla Landsstjórnar flokksins til þingflokksins um að styðja ríkisstjórnina í þessu máli. Fjölmargir oddvitar flokksins í sveitarstjórnum og fylkisstjórnum ásamt verkalýðsfélögum um allt land lögðust alfarið gegn þessu framsali fullveldis Noregs yfir mikilvægri afurð náttúruauðlinda landsins, rafmagninu, af ótta um afdrif byggðanna, sem eiga líf sitt undir afkomu orkukræfs iðnaðar, sem þar er starfræktur. Skilyrðunum er í raun beint til ríkisstjórnarinnar við framkvæmdina, en norska ríkisstjórnin hefur ekki lengur vald á þessum málum, eftir að öll EFTA-ríkin hafa samþykkt innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í sína löggjöf. Það er furðulegt, að norskir kratar skuli láta, eins og þeim sé ókunnugt um þetta, en sams konar blindni og/eða tvískinnungs gætir hérlendis á meðal skoðanasystkina norsku kratanna. Fleðulæti og undirlægjuháttur gagnvart ESB eru ekki gott vegarnesti í þessa vegferð.
Í skjalinu gætir óhóflegrar og órökréttrar bjartsýni um, að eftir innleiðinguna verði nánast allt, eins og það var, og að ESB muni taka tillit til skoðana og tilfinninga Norðmanna við framkvæmd Þriðja bálksins og við stefnumörkun í væntanlegum Fjórða bálki. Þetta er einber óskhyggja, sem gengur í berhögg við reynsluna og mat á ástandinu innan ESB. Svipaðs viðhorfs gætir á Íslandi, og þar er jafnvel endurtekin vitleysa Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um "dramatíseraða" sviðsmynd, sem hún viðhafði í febrúar 2008, eftir að Davíð Oddsson, þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans, hafði dregið upp þá mynd fyrir ríkisstjórninni, að allir bankarnir yrðu fallnir áður en október yrði á enda þá um haustið. Ævintýrið um skessurnar, sem köstuðu á milli sín fjöregginu með ærslum og fíflalátum, kemur upp í hugann í þessu sambandi, þar sem fjöreggið er fullveldi landsins í þessu tilviki.
Skilyrði #1: Það skal vera þjóðleg og samfélagsleg stjórnun og eftirlit á vatnsaflsauðlindunum. Opinbert eignarhald á norskum vatnsaflsauðlindum skal standa óhaggað, og a.m.k. 2/3 af þeim skulu áfram vera í opinberri eigu.
ACER breytir engu um þjóðareign á vatnsaflinu. Með því að samþykkja lögsögu ACER láta EFTA-löndin hins vegar af hendi ráðstöfunarrétt raforkunnar, sem hægt er að vinna úr náttúruauðlindum þeirra. Eignarrétturinn mun standa óhaggaður, en um ráðstöfun rafmagnsins mun fara eftir reglum Þriðja orkumarkaðslagabálksins, enda væri hann annars varla til neins.
Skilyrði #2: Endurnýjanlega norska raforkuvinnslu skal nýta til aukinnar verðmætasköpunar og atvinnusköpunar í Noregi og til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með endurnýjanlegri orku.
Norskt rafmagn sem vara á samþættum evrópskum orkumarkaði samræmist ekki grunnreglunni um, að rafmagnið skuli nýta til byggðaeflingar í stað þess að verða selt hæstbjóðanda. Þetta skilyrði er óraunhæft að ætla, að ESB uppfylli. Norskur iðnaður getur hæglega misst sitt eina samkeppnisforskot. Flytjist iðnaðurinn úr landi (vegna raforkuskorts og hækkaðs raforkuverðs), mun slíkt jafngilda glötuðum störfum í Noregi, flótta frá landsbyggðinni og aukinni notkun jarðefnaeldsneytis innanlands. Allt þetta á einnig við um Ísland, en á líklega ekki við um Liechtenstein.
Skilyrði #3: Norsk yfirvöld skulu hafa fulla stjórn á og eftirlit með öllum ákvörðunum, sem þýðingu hafa fyrir orkuöryggið í Noregi, þ.m.t. ákvarðanir tengdar iðnaði og straumrofi.
Framkvæmdastjórn ESB samþykkti 7. febrúar 2018 aðgerðir fyrir orkuöryggi í 6 ESB-löndum, þar með ákvarðanir tengdar straumrofi/álagslækkun hjá iðnaði. Af því má ráða, að stjórn afhendingaröryggis raforku mun ekki verða á hendi orkuyfirvalda einstakra aðildarlanda Orkusambandsins, heldur verða hjá ACER/ESB. Sumar aðgerðirnar voru samþykktar til bráðabirgða. Samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálkinum hefur ESB/ACER vald til að vega og meta norska aðgerðaáætlun á móti þörfum Innri orkumarkaðarins fyrir frjálst flæði orku á milli landa. Eftir að "Ice Link" hefur verið tekinn í gagnið, verður regluverk um ráðstöfun raforku, þegar orku- eða aflskortur kemur upp á Íslandi, í höndum ACER/ESB með sama hætti og í Noregi.
Orkustofnunin ACER getur gert bindandi samþykkt um meðferð deilna á milli landa, einnig deilur um málefni, er snerta framboðsöryggi, afhendingaráreiðanleika, þróun raforkukerfisins og uppbyggingu flutningskerfisins. Með tilstuðlan Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, og orkuvaldsstofnunarinnar RME (Reguleringsmyndighet for energi í Noregi), "landsreglarans", verða slíkar samþykktir einnig bindandi fyrir Noreg og Ísland, þegar útibú ACER hefur verið stofnað í báðum löndunum.
Skilyrði #4:
Ákvarðanir um hugsanlega nýja aflsæstrengi til útlanda skulu áfram vera alfarið í höndum norskra yfirvalda.
Verkamannaflokkurinn hefur fengið ríkisstjórnina á sitt band um að meta skuli, hvort leggja eigi fleiri sæstrengi, en ekkert meira en það. Hafni norsk stjórnvöld engu að síður þegar innsendri umsókn um Skotlandsstrenginn (NorthConnect), eru ACER og norski orkureglarinn RME skuldbundin samkvæmt Þriðja bálkinum til að vekja athygli ESB á því, að Noregur hafi lagt stein í götu Kerfisþróunaráætlunar ESB. Skotlandsstrengurinn er forgangsverkefni í Kerfisþróunaráætlun ESB, eins og Ice Link, og ACER og RME skulu hafa framvindueftirlit með höndum. Ef strengeigendurnir (NorthConnect er einkafyrirtæki) kæra höfnunina og fara að lokum með málið fyrir ESA og EFTA-dómstólinn, getur Verkamannaflokkurinn eða nokkur innlendur aðili þá ábyrgzt, að málið verði ekki að lokum útkljáð af ESB ? Sama umræða hefur orðið á Íslandi. Fylgjendur samþykktar Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum hafa haft "dramatíseringu" á orði, þegar höfundur þessa pistils hefur haldið því fram, að síðasta orðið um lagningu "Ice Link" verði ekki í höndum íslenzkra yfirvalda, heldur í höndum ESB. Það standa engin rök til þess, að nokkuð annað muni gilda um EFTA-löndin en ESB-löndin, þegar kemur að því kjarnaatriði í starfsemi Orkusambands ESB að auka raforkuflæði á milli landa í Orkusambandinu. Innan ACER verður vafalítið talið sérstaklega brýnt að koma á slíku sambandi við Ísland, þar sem ekkert slíkt er fyrir, sérstaklega þar sem hægt er að auka talsvert vinnslu raforku úr endurnýjanlegum orkulindum.
Skilyrði #5:
Hugsanlegir nýir sæstrengir skulu vera þjóðhagslega hagkvæmir, og safna skal reynslugögnum og gera nákvæmar greiningar áður en nýju samtengiverkefni á milli landa er hleypt af stokkunum. Hvaða þýðingu sú vinna hefur fyrir hugsanlegar nýjar framkvæmda- og rekstrarleyfisumsóknir, verður að meta við afgreiðslu þessara umsókna.
Þegar Innri markaður fyrir orku verður kominn á laggirnar í EFTA-löndunum, verða samtímis samkeppnisreglur og ríkisstuðningsreglur ESB virkar í Noregi og á Íslandi. Ef ráðuneyti orkumála í þessum löndum komast hins vegar að þeirri niðurstöðu, að sæstrengurinn (NorthConnect eða Ice Link) sé ekki þjóðhagslega hagkvæmur, af því að hann þrýsti upp raforkuverði og sé þar með ógnvaldur við norskan og íslenzkan iðnað, er hægt að líta á slíkt sem ríkisstuðning við norskan og íslenzkan iðnað. EES-regluverkið mun þá banna norskum og íslenzkum stjórnvöldum að taka slíkt tillit til þjóðarhagsmuna. Þannig verður unnt að fara út í sæstrengslögn gegn vilja rétt kjörinna yfirvalda í Noregi og á Íslandi og gegn þjóðarhagsmunum þessara landa.
Skilyrði #6:
Statnett skal eiga og reka allar framtíðar millilandatengingar við Noreg (eins og gildir um allar núverandi millilandatengingar). Þetta skal fella inn í orkulögin.
Spurningin er, hvort þetta geti gilt um Skotlandsstrenginn NorthConnect, sem einkaaðilar hafa þegar sótt um lagnaleyfi fyrir. Verði orkulöggjöfinni breytt, þannig að hann verði afgreiddur samkvæmt nýjum lögum, er verið að gefa löggjöfinni vafasama afturvirkni. Báðir sæstrengirnir til Bretlands, þ.e. NorthConnect og strengverkefnið, sem þegar er í gangi á vegum Statnetts, eru næstum alfarið útflutningsstrengir. Hvor þeirra getur flutt 10 TWh/ár af metnum núverandi 12 TWh/ár orkuforða miðlunarlónanna, til lands með 60 % hærra raforkuverð en Noregur. Þar með flæðir nánast öll umframorka Noregs burt úr landinu. Það eru þessir sæstrengir, sem starfsmenn í iðnaðinum óttast mjög af þessum sökum. Terje Söviknes, orkuráðherra Noregs, hefur nýlega slegið föstu, að leyfisumsókn NorthConnect skuli hljóta málsmeðferð samkvæmt gildandi orkulögum (Nationen 16.03.2018). Það þýðir, að Verkamannaflokkurinn hefur ekki fengið ríkisstjórnina til að fallast á skilyrði sitt um eignarhaldið á öllum framtíðar millilandatengingum. Þetta er forsmekkurinn að því, sem koma skal.
Skilyrði #7:
Hagnað af millilandatengingunum skal áfram (eftir aðildina að Orkusambandi ESB) mega nota til að lækka flutningsgjaldskrá (Statnetts) og til viðhalds og nýframkvæmda á norska raforkuflutningskerfinu.
Slík notkun hagnaðar af millilandatengingum er í gjörðinni, sem er hluti af Þriðja orkubálkinum, heimiluð í undantekningartilvikum. Takmarkaðan hluta hagnaðarins má því aðeins nota á þennan hátt, ef hagnaðinn er ekki hægt að nota "skilvirkt" til viðhalds eða framkvæmda við nýjar tengingar. Í næstu útgáfu gjörðarinnar, sem nú er til umfjöllunar hjá ESB, er mögulegt, að þessi undantekning verði fjarlægð.
Skilyrði #8:
Nýja orkuvaldsstofnunin RME verður sett á laggirnar, en verkefni hennar skal takmarka við að uppfylla lágmarkskröfur tilskipunarinnar. Æðra stjórnvald við að semja og samþykkja forskriftir og lagafrumvörp (á orkuflutningssviði) skal áfram vera á hendi ráðuneytisins (OED-olíu- og orkuráðuneytisins) og stjórnvaldsstofnunarinnar (NVE-Norges vassdrags- og energidirektorat-Orkustofnunar).
Verkamannaflokkurinn norski og sumir hérlendir menn, sem haldnir eru þeirri meinloku, að aðild Íslands að Orkusambandi ESB muni litlu sem engu breyta "á meðan Ísland er ótengt erlendum rafkerfum", horfa algerlega framhjá þeirri staðreynd, að orkuvaldsstofnunin, RME í Noregi, "landsreglarinn" á orkusviði, fær völd til að starfa algerlega utan seilingar landsyfirvalda og verður undir yfirstjórn ACER með ESA sem millilið.
Það er sammerkt öllum þessum skilyrðum norska Verkamannaflokksins, að það er algerlega óraunhæft að ætla norsku ríkisstjórninni að framfylgja þeim. Þau eru ekki á valdsviði hennar, heldur Framkvæmdastjórnarinnar í Brüssel, enda hefur ríkisstjórnin nú sent Framkvæmdastjórninni þetta bréf, en aðeins til upplýsingar. Ríkisstjórnin hefði auðvitað þurft að fá fund með fulltrúa Framkvæmdastjórnarinnar til að gera henni grein fyrir pólitískri alvöru málsins í Noregi. Þegar þetta rennur upp fyrir félagsmönnum Verkamannaflokksins vítt og breitt um landið, munu þeir skynja málið þannig, að flokksforysta þeirra hafi farið á bak við þá í mikilvægu máli. Við endurupptöku málsins í Stórþinginu, eins og Miðflokkurinn hefur lagt til, ef Alþingi synjar Þriðja orkulagabálkinum samþykkis, getur niðurstaðan orðið á sömu lund og á Alþingi af þessum sökum.
Það má furðu gegna, að forysta stærsta stjórnmálaflokks Noregs, skuli vera haldin svo miklum meinlokum um virkni og áhrif Þriðja orkumarkaðslagabálksins, sem er gríðarlega mikið hagsmunamál og mikilvægt fullveldismál fyrir bæði Noreg og Ísland. Þetta er skýringin á því, að Verkamannaflokkurinn var klofinn í herðar niður um afstöðuna til Orkusambandsins í aðdraganda samþykktar Stórþingsins 22. marz 2018.
Ef svo illa fer, að Alþingi samþykki innleiðingu á þessum óláns orkubálki, mun fljótlega koma í ljós, að:
- Ráðstöfunarréttur raforkunnar er ekki lengur hjá innlendum, rétt kjörnum yfirvöldum, heldur hjá Innri orkumarkaði ESB, þar sem öll tiltæk raforka gengur kaupum og sölum.
- Innlendar orkulindir eru mjög takmörkuð auðlind, þegar markaður fyrir þær eru allt ESB. Útflutt raforka verður hvorki notuð til verðmætasköpunar á Íslandi né til orkuskipta þar. Ice Link verður að líkindum að meginstofni útflutningsstrengur, eins og NorthConnect, á meðan verðmismunur raforku við sitt hvorn enda strengsins helzt hár, en verðáhrif strengsins hér innanlands munu þó væntanlega fljótlega verða mjög mikil vegna tiltölulega lítils markaðar hér.
- Með innleiðingu Þriðja orkubálksins munu gilda sömu stjórnunarreglur um rekstur millilandatenginga Íslendinga og gilda í ESB-löndunum, þ.e. ESB/ACER munu hafa síðasta orðið um það, hvernig afhendingaröryggi raforku verður háttað. Hafa ber í huga, að ESB/ACER tekur ákvörðun út frá sínu mati á heildarhagsmunum, en ekki hagsmunum einstakra landa, hvað þá héraða. Þetta boðar ekki gott um stýringu vatnshæðar í lónum á Íslandi og beztun á rekstri íslenzka raforkukerfisins.
- Endanleg ákvörðun um það, hvort Ice Link sæstrengurinn verður lagður eða ekki verður ekki hjá íslenzkum stjórnvöldum, ef Þriðji orkubálkur ESB verður hér innleiddur, enda er eitt megintakmarkið með honum og stofnun ACER að ryðja burt hindrunum í einstökum löndunum gegn auknum raforkuflutningum á milli landa og útjöfnun orkuverðs.
- Rök gegn nýju sæstrengsverkefni á borð við þau, að sæstrengur í hagkvæmniathugun, eins og Ice Link, sé ekki þjóðhagslega hagkvæmur, eru ógild og ótæk innan Orkusambands ESB. Þetta er mjög gott dæmi um það, að þjóðarhagsmunir Íslendinga og hagsmunir ESB fara ekki saman í mikilvægum atriðum.
- Statnett (norska Landsnet) á og rekur allar millilandatengingar við Noreg. Ice Link yrði miklu dýrari en nokkur norsku sæstrengjanna, og það yrði Landsneti um megn að fjármagna hann. Það er ósennilegt, að það skilyrði verði sett af nokkrum stjórnmálaflokki á Alþingi, að Ice Link verði í eigu Landsnets. Komi upp ágreiningur um eignarhaldið, verður hann hvorki útkljáður af íslenzku ríkisstjórninni, Alþingi né innlendu dómstólunum eftir samþykkt Þriðja orkubálksins.
- Löndin í Orkusambandi ESB standa alls ekki frjáls að því, hvernig hagnaði af mannvirkjum til raforkuflutninga á milli landa er ráðstafað. Í Þriðja orkubálkinum er þvert á móti fyrirskrifað, hvernig standa beri að ráðstöfun slíks hagnaðar, og meginreglan er þar að verja honum til að bæta raforkuflutningskerfið á milli landa með viðhaldi til að bæta afhendingaröryggið og með nýframkvæmdum til að auka flutningsgetuna. Fjármögnun, rekstri og viðhaldi flutningskerfis frá íslenzka stofnkerfinu og að landtökustað Ice Link mundu innlendir raforkunotendur þurfa að standa straum af, og sá kostnaður mun fela í sér tilfinnanlega hækkun flutningsgjaldskrár Landsnets, sem ekki má við miklum hækkunum, svo há sem hún er.
- Það eru eðlilega áhyggjur á Íslandi og í Noregi yfir þeim miklu og ólýðræðislega fengnu völdum, sem s.k. "landsreglara" hlotnast með stuðningi lögfestingar Þriðja orkubálksins. Í stuttu máli verða völd Orkustofnunar og atvinnuvegaráðuneytisins (iðnaðarráðuneytisins) á sviði raforkuflutninga, sem ACER telur varða "sameiginlega hagsmuni", formið eitt eftir lögfestingu Þriðja orkubálksins hérlendis, því að "landsreglarinn", sem þiggja mun völd sín alfarið frá ACER og mun ekki búa við neitt aðhald frá íslenzku löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi eða dómsvaldi, mun semja þær reglugerðir og netmála, sem máli skipta fyrir millilandatengingar landsins á sviði raforku.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Eignarrétturinn er lítils virði ef ráðstöfunarrétturinn er enginn. Eða það sýnist mér helsta breytingin með ACER samþykkt hérlendis þótt enginn sé sæstrengurinn - enn.
Þingmenn mega ekki stimpla þessa tilskipun í blindni. Nær væri að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.
Kolbrún Hilmars, 29.5.2018 kl. 14:05
Lít á https://fullveldi.blog.is/blog/fullveldi/entry/2217569/
og bloggbréf til þín, Bjarni!
Samtök um rannsóknir á ESB ..., 29.5.2018 kl. 18:58
Já, Kolbrún, það verður að steyta á þessu máli. Iðjuhöldar í Evrópu, sem vilja nota endurnýjanlega orku, búa núna við það, að þeir geta bara gert samning um kaup á henni 1-2 sólarhringa fram í tímann. Þeir vilja fá miklu stöðugra framboð. Tenging við þeirra markað mundi setja okkar litla raforkukerfi og -markað á annan endann.
Bjarni Jónsson, 30.5.2018 kl. 10:53
Íslenskt raforkukerfi er í almannaeigu; byggt upp á löngum tíma af skattgreiðendum til nota í þágu almennrar velferðar. Það á því ekki að líðast að því verði stolið af okkur til þess að þjóna iðjuhöldum í Evrópu. Því á almenningur, réttmætir eigendur, að hafa tillögurétt um allar breytingar.
Kolbrún Hilmars, 30.5.2018 kl. 16:56
Tek hér algerlega undir með ykkur, Bjarni og Kolbrún, í þessum málum öllum.
Það er ekki lítið sem Bjarni Jónsson hefur lagt á sig við að kynna sér öll þessi mál í þaula, með mikla bakgrunnsþekkingu vitaskuld sem rafmagnsverkfræðingur með mikla reynslu, en hann hefur unnið hér þjóðþrifa- og þarfaverk mikið að greina þessi flóknu mál öll fyrir okkur, svo að staðreyndirnar liggja fyrir og ekki lengur hægt að keyra á þessa orkulagabálks-innleiðingu í skjóli neinna blekkinga og Pótemkín-tjalda yfir þær raunverulegu valdheimildir, sem verið væri að gefa hér eftir til Evrópusambandsins og þessarar ACER-stofnunar.
Hér mega engir þingmenn bregðast í sinni lögmætu varðstöðu um þjóðarhagsmuni og fullveldisrétt okkar.
Jón Valur Jensson, 31.5.2018 kl. 03:51
Umfjöllun Alþingis um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn hefur nú verið frestað til haustþingsins. Það þýðir, að barátta okkar gegn innleiðingu þessa stórvarasama lagabálks ESB í íslenzka löggjöf lengist, en við munum ekki láta deigan síga. Pólitíkin er ófyrirsjáanleg, og þess vegna verðum við að halda vöku okkar.
Bjarni Jónsson, 31.5.2018 kl. 11:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.