18.6.2018 | 09:47
Orkustofnun ESB, aflsæstrengur og orkuverðshækkanir
Orkustofnun ESB, ACER, og hinn íslenzki afleggjari hennar, ef af verður, nýja Orkustofnunin, NOS, á að hafa eftirlit með því, að Ísland fylgi Kerfisþróunaráætlun ESB í orði og á borði, ef landið gengur í Orkusamband ESB. Aflsæstrengur á milli Íslands og Skotlands, "Ice Link", er á meðal forgangsverkefna í Kerfisþróunaráætlun ESB.
VERÐIÐ:
Í Noregi hafa orkuviðskipti um sæstrengi til útlanda óumdeilanlega valdið raforkuverðshækkunum. Samt er þar aðallega um "raforkuskipti" að ræða, þ.e. Norðmenn flytja raforku út á daginn, ef ekki blæs eða skín sól á viðkomandi orkuver á meginlandinu eða á Bretlandi, en spara á móti vatn í miðlunarlónum sínum á nóttunni með innflutningi raforku.
Þetta viðskiptalíkan gengur varla upp fyrir "Ice Link", sem er miklu dýrari en norskir sæstrengir og krefst í raun hárrar nýtingar allt árið um kring með flutningi þangað, sem raforkuverðið er hærra, ef hann á að geta borið sig, fjárhagslega. Auk þess er ekkert ónotað afl í íslenzkum virkjunum í líkingu við það, sem er í norskum vatnsaflsvirkjunum.
1200 MW sæstrengur þarf að flytja um 9 TWh/ár (terawattstundir á ári) frá Íslandi til að standa undir sér, fjárhagslega. Þetta er tæplega helmingsaukning á núverandi raforkuvinnslu á Íslandi, sem augljóslega mun útheimta megnið af þeim virkjunum, sem nú eru í framkvæmdahluta Rammaáætlunar. Er ekki þegar af þeirri ástæðu ljóst, að þessar sæstrengshugmyndir eru draumórar einir ?
Meðalvinnslukostnaður í þessum tilvonandi virkjunum verður miklu hærri en að meðaltali í núverandi raforkukerfi. Þetta mun óhjákvæmilega strax leiða til mikillar verðhækkunar til almennings og síðar til stóriðju, við endurskoðun langtímasamninga, ef þeir þá verða úrskurðaðir leyfilegir af ESA, þegar þar að kemur.
GETA ÍSLENZK YFIRVÖLD SAMT SAGT NEI ?
Ef Alþingi, illu heilli, samþykkir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB og framselur þannig fullveldi á orkusviði til Orkustofnunar ESB, ACER, getur Ísland samt hafnað aflsæstrengjum ? Það eru mjög litlar líkur á, að sú tilraun heppnist. Íslenzk höfnun mundi vera í andstöðu við grundvallarhugmyndina með Orkusambandinu og framkalla hneykslun í Ljubljana, aðsetri ACER, og í Berlaymont, höfuðstöðvum ESB í Brüssel.
ACER og afleggjari hennar á Íslandi, Nýja orkustofnun, NOS, munu fá það hlutverk að vakta, að Ísland framfylgi að sínu leyti Kerfisþróunaráætlun ESB. Með því að gera Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB að hluta orkulaganna á Íslandi og síðan að stofna NOS, hefur Ísland samþykkt þessar forsendur NOS, þ.e. Kerfisþróunaráætlun ESB.
ESB lætur útbúa Kerfisþróunaráætlun til 10 ára, TYNDP, (Ten Years Network Development Plan), sem spannar skrá um forgangsverkefni, "Projects of Common Interest, PCI". Á þessari skrá eru yfir 170 verkefni og "Ice Link", Skotlandsstrengurinn, er þar á meðal á hagkvæmniathugunarstigi, en með bráðabirgða tímasetningu um gangsetningu árið 2027.
ESB/ACER setja sem lágmarkskröfu á hvert land Orkusambandsins, að 15 % af raforkuvinnslugetu hvers lands sé hægt að flytja út, og þess vegna mun verða þrýst á Ísland að samþykkja fyrsta aflsæstrenginn til útlanda. Stefnumið Orkusambands ESB er sameiginlegur orkumarkaður allra aðildarlandanna með sama verði og sama aðgengi raforku alls staðar. Enginn þarf að fara í grafgötur með, að ESB er full alvara með Kerfisþróunaráætlun sinni og Forgangsverkefnaskrá hennar.
Ef (gamla) Orkustofnun hafnar umsókn eigenda "Ice Link" verkefnisins, munu þeir áreiðanlega áfrýja þeim úrskurði til ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA sem broti gegn grunnreglunum, sem Ísland hefur viðurkennt með samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB.
Eigendurnir munu væntanlega njóta stuðnings NOS, sem gegnir því hlutverki að sjá til þess, að Kerfisþróunaráætlun ESB sé framfylgt. Enginn getur fullyrt um, hver niðurstaðan verður. Endanlegur úrskurður EFTA-dómstólsins verður þó kveðinn upp í samræmi við réttarkerfi ESB, og þess vegna þarf heldur enginn að efast um niðurstöðuna.
Langflestir kunnugra telja, að að fáeinum árum liðnum muni ACER fá aukin völd (4. orkubálkurinn), og þá verður leyfishlutverk hefðbundins orkustjórnvalds hvers lands endurskoðað og þar með leyfisveitingar OS á sviði raforkuflutninga afnumdar. Með samþykki Alþingis á innleiðingu téðs orkubálks í EES-samninginn, væri þingið að fórna ráðstöfunarrétti raforkunnar á altari Evrópusamstarfsins. Þar með væru umráð okkar yfir annarri verðmætustu auðlindinni fyrir borð borin. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, hvers konar sess í sögunni þeir þingmenn mundu ávinna sér, sem gerðu sig seka um slíkt glapræði, þrátt fyrir varnaðarorð.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Þetta eru allt saman góðar umræður sem að ég myndi vilja sjá Ara Trausta taka til umfjöllunnar í sjónvapssal á tækniteikningum.
Þar sem að Ari Trauti er bæði ESB-andstæðingur og jarðfræðingur
þá væri fróðlegt að vita hvort að hann væri búinn
"að leggjast undir feld" & hugsa þetta mál til enda.
Jón Þórhallsson, 18.6.2018 kl. 10:19
Það er rétt athugað. Þetta er upplagt verkefni til að kryfja til mergjar í sjónvarpsþætti á borð við þættina, sem Ari Trausti stjórnaði um ýmis eðlisfræðileg efni. Þetta málefni er þó meira pólitísks eðlis, en þarna eru þó líka ýmsar staðreyndir, sem leggja má á borðið. Ég þykist vita, að téður Ari Trausti hafi nú þegar komizt að niðurstöðu um þetta ACER-mál.
Bjarni Jónsson, 18.6.2018 kl. 18:57
Er ekki búið að stilla þjóðinni upp við vegg í öllum þessum málum?
Allt eða ekkert?
Gjörið svo vel og innleiðið allar tilskipanir frá ESB/EES or gó?
Jón Þórhallsson, 18.6.2018 kl. 21:18
Það lítur þannig út, en ekki er allt, sem sýnist. Þótt ekki vanti nú undirlægjurnar, er næg viðspyrna enn. EES-aðildin samræmist ekki stjórnarskrá lýðveldisins. Það er miklu ódýrari og einfaldari tilvera utan EES en innan.
Bjarni Jónsson, 19.6.2018 kl. 11:19
Eru til einhversstaðar samningsdrög
sem að sýna að við gætum náð betri samningum en við erum með?
Myndu þá ekki íslensk fyrirtæki tapa stórum mörkuðum á ESB/EES-svæðinu ef að EES-samningnum yrði sagt upp?
Án þess að vita hvað tæki við?
Jón Þórhallsson, 19.6.2018 kl. 13:40
Nei, það er nú meinið. Íslenzka utanríkisráðuneytið er heltekið af rörsýn sinni á viðskiptatengsl landsins. Norðmenn hafa hins vegar rannsakað þetta og gefið út "Alternativrapporten", sem er ágætur vegvísir fyrir Noreg og Ísland. Ég bendi á BREXIT, sem kalla mun á nýja sýn, og ég bendi á tvíhliða viðskiptasamning Kanada við ESB frá í fyrrahaust um fríverzlun, sem gefur Kanadamönnum betra aðgengi fyrir sjávarafurðir en við njótum á Innri markaðinum, af því að við stöndum utan við Landbúnaðar- og fiskveiðisáttmála ESB.
Bjarni Jónsson, 19.6.2018 kl. 14:51
Rúv sjónvarpi væri nær að skoða þessi mál í ró og næði
með því að stilla upp kostum og göllum EES -samningins hlið við hlið,
frekar en að tröllríða sjónvarpinu með boltaleikjum
þar sem að engin þróun á sér stað.
Jón Þórhallsson, 19.6.2018 kl. 16:15
Já, ég á nú eftir að sjá RÚV Sjónvarp kryfja EES-aðildina til mergjar. Minna yrði nú áhorf EES-greiningar en áhorf HM í Rússlandi 2018.
Bjarni Jónsson, 19.6.2018 kl. 20:25
Það er ekkert mál að sleppa dægrastyttingu fyrir ,,uff sjáið regnbogann fer út og óska landi mínu eilífs fullveldis...
Helga Kristjánsdóttir, 19.6.2018 kl. 23:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.