24.6.2018 | 15:12
Flutningskerfi á fallanda fæti
Hvernig komið er fyrir flutningskerfi raforku á Íslandi er hneisa fyrir stjórnvöld orkumála í landinu. Samkvæmt Öðrum orkumarkaðslagabálki ESB, sem er hluti af orkulöggjöf landsins, á að vera eitt flutningsfyrirtæki í landinu, Landsnet, og það á að vera í eigu ríkisins. Nú hefur iðnaðarráðherra lagt fram frumvarp á Alþingi, sem m.a. kveður á um að falla frá ríkiseign á Landsneti. Hvernig á þá að tryggja hlutlæga afstöðu Landsnets gagnvart nýjum og gömlum viðskiptavinum og jafnstöðu þeirra allra, t.d. jöfnu aðgengi að flutningskerfinu, ef hagsmunaaðilar munu geta keypt sig inn í Landsnet ? Þessi breytingartillaga iðnaðarráðherra kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum, efni hennar er hvorki á stefnuskrá flokks hennar, Sjálfstæðisflokksins, né samstarfsflokkanna í ríkisstjórn, og hún er andstæð Öðrum orkumarkaðslagabálki ESB, sem þó hefur lagagildi hér.
Í þessu viðfangi er og rétt að minnast þess, að Landsnet á ekki að skila eigendum sínum beinni ávöxtun, heldur á að miða gjaldskrárnar við, að rekstur standi undir eðlilegu viðhaldi og framlegðin standi undir nauðsynlegum fjárfestingum í flutningskerfinu. Það er eitthvað bogið við þennan málatilbúnað ráðuneytisins, og Alþingismenn eiga ekki að leggja blessun sína yfir loðmullu, sem bæði brýtur í bága við reglur EES og grundvallarviðhorf um einokunarfyrirtæki samkvæmt lögum.
Höfundur þessa pistils er ekki aðdáandi ríkisrekstrar, en þegar lög kveða á um einokun í einhverri starfsemi, eins og hér um ræðir, þá er ríkiseign nærtækust. Nú er Landsnet í eigu fjögurra innlendra orkufyrirtækja og þannig óbeint að mestu í eigu ríkisins. Þetta fyrirkomulag var hugsað til bráðabirgða, hefur reynzt gallað og er umkvörtunarefni á markaði. Það tryggir ekki skýlausa óhlutdrægni Landsnets gagnvart markaðsaðilum, og það er stjórnunarlega of þunglamalegt fyrir aðaleigandann, ríkissjóð, ef hann vill t.d. flýta einhverjum framkvæmdum í þágu þjóðarhags.
Landsneti hefur gengið illa að þjóna hagsmunum ríkisins, og afleiðingin er fullnýtt og á köflum oflestað flutningskerfi, sem stendur frekari nýtingu umhverfisvænna orkulinda í landinu fyrir þrifum. Þegar ríkisfyrirtæki stendur ekki undir væntingum, bregzt það þjóðinni, sem líður fyrir slíkt með lakari lífskjörum en ella staðbundið, hér á svæðum orkuskorts, fyrirtækjum vex vart fiskur um hrygg og hagvöxtur verður minni en ella, ef raforku vantar. Nægir hér að nefna Eyjafjarðarsvæðið sem dæmi.
Vanræksla ríkisvaldsins er komin á alvarlegt stig, þegar starfsmaður Landsnets skrifar grein í opinbert sérblað, sem líta má á sem ákall til ríkisstjórnarinnar um hjálp við vanda, sem fyrirtæki hans hefur ekki ráðið við frá stofnun sinni, þ.e. að láta flutningskerfið anna þörfum landsmanna allra, alls staðar á landinu.
Þann 24. maí 2018 birtist grein í Bændablaðinu eftir Jón Skafta Gestsson, sérfræðing á fjármálasviði Landsnets, með heitinu:
"Raforkukerfi á brúninni".
Með henni birtust 2 kort. Sýndi annað núverandi "mögulega orkuafhendingu frá meginflutningskerfi" og hitt "mögulega afhendingargetu frá meginflutningskerfi eftir fyrsta áfanga styrkinga", BLA-FLJ.
Þessi fyrsti áfangi styrkinga Byggðalínu er ný 220 kV lína frá Blönduvirkjun um Rangárvelli á Akureyri til Kröflu og Fljótsdalsvirkjunar ásamt Suð-vesturlínu. Þessi styrking er nú mörgum árum á eftir áætlun, og er staðan svo alvarleg fyrir landsmenn, að Alþingi verður að taka í taumana og breyta þeim leikreglum, sem um þessi mál gilda núna, svo að óhóflegar tafir valdi landsmönnum ekki alvarlegum búsifjum. Það er ekki lengur valkostur að sitja með hendur í skauti og láta sem ekkert sé. Það er á ábyrgðarsviði iðnaðarráðuneytisins og Alþingis, að svo verði gert, en ekkert lífsmark sést í þá áttina. Það er óásættanlegt m.v. tjónið, sem af aðgerðaleysinu hlýzt.
Hér verða sveltir afhendingarstaðir raforku taldir upp ásamt afhendingargetu núna og eftir frumstyrkingu:
- Fitjar: 0 MW, verður 70-150 MW (1) eftir SV-línu
- Rauðimelur: 0 MW, verður 70-150 MW (1)
- Brennimelur: 0 MW, verður 30-70 MW (2)
- Vatnshamrar: 0 MW, verður 30-70 MW (3)
- Hrútatunga: 10-30 MW, verður 10-30 MW (4)
- Glerárskógar: 0 MW, verður 10-30 MW (5)
- Geiradalur: 0 MW, verður 10-30 MW (5)
- Mjólká: 0 MW, verður 0 MW (6)
- Laxárvatn: 10-30 MW, verður 30-70 MW (4)
- Blönduvirkjun: 10-30 MW, verður 30-70 MW (4)
- Varmahlíð: 0 MW, verður 30-70 MW (7)
- Rangárvellir: 0, verður 30-70 MW (7)
- Krafla: 70-150 MW, verður 30-70 MW (8)
- Þeystareykjavirkjun: 70-150 MW, 30-70 MW (8)
- Bakki: 70-150 MW, verður 30-70 MW (8)
Ýmislegt vekur athygli við þessar upplýsingar:
- Þenslusvæðið á Suðurnesjum hefur ekki aðgang að neinni raforku frá aðveitustöðvunum þar fyrr en SV-lína hefur verið lögð. Sú lína er í kæruferli.
- Iðnaðarsvæðið á Grundartanga er svelt, þar til BLA-FLJ hefur verið lögð. Dráttur þegar úr hömlu.
- Vesturland verður svelt fram að framkvæmd BLA-FLJ.
- Norðurland vestra nýtur enn nálægðar sinnar við Blöndu.
- Dalirnir og Vestfirðir eru sveltir. Dalirnir og Barðaströnd fá úrbót með línu BLA-FLJ, en Vestfirðir ekki.
- Vestfirðir eru sveltir og verða áfram þrátt fyrir téða línu BLA-FLJ. Þetta sýnir svart á hvítu, að fullyrðingar um, að engin þörf sé fyrir nýjar virkjanir á Vestfjörðum, af því að Vestfirðingar hafi Vesturlínu, er eintómt blaður út í loftið, reist á sandi þekkingarleysis á staðreyndum málsins. Að hagur Vestfirðinga skuli ekkert vænkast í kjölfar fyrsta áfanga styrkingar Byggðalínu, sýnir með glöggum hætti, hversu vaxandi byggðarlögum Vestfjarða með sína öru atvinnuþróun bráðliggur á að fá aðgang að rafmagni frá nýrri virkjun á svæðinu. Að hefjast handa við Hvalárvirkjun má ekki dragst lengur. Skipulagsstofnun ríkisins tefur nú málið.
- Bæði Skagafjörður og Eyjafjörður eru nú þegar og hafa allt of lengi verið í raforkusvelti. Téður fyrsti áfangi Byggðalínustyrkingar fyrir norðan mun bæta úr brýnustu neyðinni. Eftir þær umbætur mun koma í ljós, hversu mikilvægar nýju virkjanirnar vestan og austan við þetta svæði verða öllu Norðurlandi, þ.e. Vestfjarðavirkjanir og Þeistareykjavirkjun ásamt hugsanlegri stækkun Kröfluvirkjunar.
- Þingeyjarsýslurnar eru nú einna bezt settar raforkulega á landinu, hvað orkuvinnslugetu og orkuflutninga varðar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.