Flutningskerfi á fallanda fæti

Hvernig komið er fyrir flutningskerfi raforku á Íslandi er hneisa fyrir stjórnvöld orkumála í landinu.  Samkvæmt Öðrum orkumarkaðslagabálki ESB, sem er hluti af orkulöggjöf landsins, á að vera eitt flutningsfyrirtæki í landinu, Landsnet, og það á að vera í eigu ríkisins.  Nú hefur iðnaðarráðherra lagt fram frumvarp á Alþingi, sem m.a. kveður á um að falla frá ríkiseign á Landsneti.  Hvernig á þá að tryggja hlutlæga afstöðu Landsnets gagnvart nýjum og gömlum viðskiptavinum og jafnstöðu þeirra allra, t.d. jöfnu aðgengi að flutningskerfinu, ef hagsmunaaðilar munu geta keypt sig inn í Landsnet ? Þessi breytingartillaga iðnaðarráðherra kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum, efni hennar er hvorki á stefnuskrá flokks hennar, Sjálfstæðisflokksins, né samstarfsflokkanna í ríkisstjórn, og hún er andstæð Öðrum orkumarkaðslagabálki ESB, sem þó hefur lagagildi hér.  

Í þessu viðfangi er og rétt að minnast þess, að Landsnet á ekki að skila eigendum sínum beinni ávöxtun, heldur á að miða gjaldskrárnar við, að rekstur standi undir eðlilegu viðhaldi og framlegðin standi undir nauðsynlegum fjárfestingum í flutningskerfinu. Það er eitthvað bogið við þennan málatilbúnað ráðuneytisins, og Alþingismenn eiga ekki að leggja blessun sína yfir loðmullu, sem bæði brýtur í bága við reglur EES og grundvallarviðhorf um einokunarfyrirtæki samkvæmt lögum.    

Höfundur þessa pistils er ekki aðdáandi ríkisrekstrar, en þegar lög kveða á um einokun í einhverri starfsemi, eins og hér um ræðir, þá er ríkiseign nærtækust.  Nú er Landsnet í eigu fjögurra innlendra orkufyrirtækja og þannig óbeint að mestu í eigu ríkisins.  Þetta fyrirkomulag var hugsað til bráðabirgða, hefur reynzt gallað og er umkvörtunarefni á markaði. Það tryggir ekki skýlausa óhlutdrægni Landsnets gagnvart markaðsaðilum, og það er stjórnunarlega of þunglamalegt fyrir aðaleigandann, ríkissjóð, ef hann vill t.d. flýta einhverjum framkvæmdum í þágu þjóðarhags.  

Landsneti hefur gengið illa að þjóna hagsmunum ríkisins, og afleiðingin er fullnýtt og á köflum oflestað flutningskerfi, sem stendur frekari nýtingu umhverfisvænna orkulinda í landinu fyrir þrifum.  Þegar ríkisfyrirtæki stendur ekki undir væntingum, bregzt það þjóðinni, sem líður fyrir slíkt með lakari lífskjörum en ella staðbundið, hér á svæðum orkuskorts, fyrirtækjum vex vart fiskur um hrygg og hagvöxtur verður minni en ella, ef raforku vantar. Nægir hér að nefna Eyjafjarðarsvæðið sem dæmi.

Vanræksla ríkisvaldsins er komin á alvarlegt stig, þegar starfsmaður Landsnets skrifar grein í opinbert sérblað, sem líta má á sem ákall til ríkisstjórnarinnar um hjálp við vanda, sem fyrirtæki hans hefur ekki ráðið við frá stofnun sinni, þ.e. að láta flutningskerfið anna þörfum landsmanna allra, alls staðar á landinu.

Þann 24. maí 2018 birtist grein í Bændablaðinu eftir Jón Skafta Gestsson, sérfræðing á fjármálasviði Landsnets, með heitinu: 

"Raforkukerfi á brúninni".

Með henni birtust 2 kort.  Sýndi annað núverandi "mögulega orkuafhendingu frá meginflutningskerfi" og hitt "mögulega afhendingargetu frá meginflutningskerfi eftir fyrsta áfanga styrkinga", BLA-FLJ. 

Þessi fyrsti áfangi styrkinga Byggðalínu er ný 220 kV lína frá Blönduvirkjun um Rangárvelli á Akureyri til Kröflu og Fljótsdalsvirkjunar ásamt Suð-vesturlínu. Þessi styrking er nú mörgum árum á eftir áætlun, og er staðan svo alvarleg fyrir landsmenn, að Alþingi verður að taka í taumana og breyta þeim leikreglum, sem um þessi mál gilda núna, svo að óhóflegar tafir valdi landsmönnum ekki alvarlegum búsifjum. Það er ekki lengur valkostur að sitja með hendur í skauti og láta sem ekkert sé. Það er á ábyrgðarsviði iðnaðarráðuneytisins og Alþingis, að svo verði gert, en ekkert lífsmark sést í þá áttina.  Það er óásættanlegt m.v. tjónið, sem af aðgerðaleysinu hlýzt.

  Hér verða sveltir afhendingarstaðir raforku taldir upp ásamt afhendingargetu núna og eftir frumstyrkingu:

  • Fitjar: 0 MW, verður 70-150 MW (1) eftir SV-línu
  • Rauðimelur: 0 MW, verður 70-150 MW (1)
  • Brennimelur: 0 MW, verður 30-70 MW (2)
  • Vatnshamrar: 0 MW, verður 30-70 MW (3)
  • Hrútatunga: 10-30 MW, verður 10-30 MW (4)
  • Glerárskógar: 0 MW, verður 10-30 MW (5)
  • Geiradalur: 0 MW, verður 10-30 MW (5)
  • Mjólká: 0 MW, verður 0 MW (6)
  • Laxárvatn: 10-30 MW, verður 30-70 MW (4)
  • Blönduvirkjun: 10-30 MW, verður 30-70 MW (4)
  • Varmahlíð: 0 MW, verður 30-70 MW (7)
  • Rangárvellir: 0, verður 30-70 MW (7)
  • Krafla: 70-150 MW, verður 30-70 MW (8)
  • Þeystareykjavirkjun: 70-150 MW, 30-70 MW (8)
  • Bakki: 70-150 MW, verður 30-70 MW (8)

Ýmislegt vekur athygli við þessar upplýsingar:

 
  1. Þenslusvæðið á Suðurnesjum hefur ekki aðgang að neinni raforku frá aðveitustöðvunum þar fyrr en SV-lína hefur verið lögð. Sú lína er í kæruferli.
  2. Iðnaðarsvæðið á Grundartanga er svelt, þar til BLA-FLJ hefur verið lögð. Dráttur þegar úr hömlu.
  3. Vesturland verður svelt fram að framkvæmd BLA-FLJ.
  4. Norðurland vestra nýtur enn nálægðar sinnar við Blöndu.
  5.  Dalirnir og Vestfirðir eru sveltir.  Dalirnir og Barðaströnd fá úrbót með línu BLA-FLJ, en Vestfirðir ekki.
  6. Vestfirðir eru sveltir og verða áfram þrátt fyrir téða línu BLA-FLJ.  Þetta sýnir svart á hvítu, að fullyrðingar um, að engin þörf sé fyrir nýjar virkjanir á Vestfjörðum, af því að Vestfirðingar hafi Vesturlínu, er eintómt blaður út í loftið, reist á sandi þekkingarleysis á staðreyndum málsins.  Að hagur Vestfirðinga skuli ekkert vænkast í kjölfar fyrsta áfanga styrkingar Byggðalínu, sýnir með glöggum hætti, hversu vaxandi byggðarlögum Vestfjarða með sína öru atvinnuþróun bráðliggur á að fá aðgang að rafmagni frá nýrri virkjun á svæðinu.  Að hefjast handa við Hvalárvirkjun má ekki dragst lengur. Skipulagsstofnun ríkisins tefur nú málið.
  7. Bæði Skagafjörður og Eyjafjörður eru nú þegar og hafa allt of lengi verið í raforkusvelti.  Téður fyrsti áfangi Byggðalínustyrkingar fyrir norðan mun bæta úr brýnustu neyðinni. Eftir þær umbætur mun koma í ljós, hversu mikilvægar nýju virkjanirnar vestan og austan við þetta svæði verða öllu Norðurlandi, þ.e. Vestfjarðavirkjanir og Þeistareykjavirkjun ásamt hugsanlegri stækkun Kröfluvirkjunar.  
  8.  Þingeyjarsýslurnar eru nú einna bezt settar raforkulega  á landinu, hvað orkuvinnslugetu og orkuflutninga varðar.
Þann 26. marz 2018 felldi Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðarkaupstaðar til Landsnets vegna Lyklafellslínu 1.  Ætlunin er, að þessi 220 kV loftlína tengi saman aðveitustöðvar Landsnets á Sandskeiði og í Hafnarfirði, sem taka á við meginhlutverki Hamranessstöðvar, því að þangað eiga engar loftlínur að liggja í framtíðinni vegna byggðar.  Framhald uppbyggingar í Skarðshlíðarhverfi í Hafnarfirði er í uppnámi eftir úrskurðinn.
Ógilding téðrar nefndar á framkvæmdaleyfinu er reist á þeirri ályktun hennar, "að ekki sé sýnt fram á, að lagning jarðstrengs í stað háspennulínu sé raunhæfur kostur.  Þá sé ekki "... sýnt fram á, að jarðstrengskostir séu ekki raunhæfir og samanburður á umhverfisáhrifum þeirra og aðalvalkosts framkvæmdaraðila hafi ekki farið fram með þeim hætti, sem lög gera ráð fyrir", eins og komizt er að orði.", svo að vitnað sé í frásögn Morgunblaðsins, 27. marz 2018,
"Lyklafellslínu má ekki leggja".
 
Það er fádæma klaufaskapur af Landsneti og Hafnarfjarðarbæ að gera ekki umhverfismat og framkvæmdaleyfi þannig úr garði, að uppfyllt séu formleg lagaskilyrði.  Hitt er annað, að við blasir, að áhættan, sem Hraunvinir og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands nefna í kæru sinni, þ.e. "hætt[a] vegna mengunar, enda ætti línan að fara um vatnsverndarsvæði, hraunsvæði yrði raskað ..." yrði mun meiri af lagningu 220 kV jarðstrengs eða jarðstrengja um viðkvæmt svæði.  Í stað þess að tefja mikið hagsmunamál á formsatriði hefði úrskurðarnefndinni verið nær að kalla eftir greinargerð frá Hafnarfjarðarbæ um þetta tiltekna atriði.  Á innan við einni viku hefðu Landsnet og Hafnarfjarðarbær getað samið ítarlega greinargerð, þar sem sýnt er fram á, að mun minna umhverfisrask og mun minni hætta á mengunarslysi í viðkvæmu umhverfi verður við lagningu loftlínu en jarðstrengja á 220 kV spennu.
 
Þarna þarf ráðuneyti ferðamála, nýsköpunar og iðnaðar, sem fer með orkumálin, að beita sér fyrir breytingu á erindisbréfi úrskurðarnefndarinnar, svo að vinna hennar verði skilvirkari en nú er.  Þessi endalausu kærumál eru allt of tafsöm og valda allt of miklu samfélagslegu tjóni, eins og nú standa sakir.  
 

 Háspennulína

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband