26.6.2018 | 11:16
Viðhorf Fionu Reilly til verðmætasköpunar
Fiona Reilly er framkvæmdastjóri enska fyrirtækisins Atlantic Superconnection, sem kynnt hefur fyrir íslenzkum stjórnvöldum viðskiptahugmynd um einpóla sæstreng til flutnings á um 650 MW rafafls og þar af leiðandi flutningsgetu á 5000 GWh/ár raforku frá Íslandi til Englands (ekki Skotlands). Það er áhugavert, hvernig hún kynnir Íslandsstrenginn fyrir Englendingum, og mættu sumir Íslendingar draga lærdóm af því, sem hún kveður vera notagildi rafmagns frá Íslandi á Englandi.
Hér fer á eftir lausleg þýðing á enskum texta Fionu á heimasíðu Atlantic Superconnection:
"Með einstöku samstarfi við Ísland um endurnýjanlega orku getum við flutt næstum takmarkalausa uppsprettu hreinnar raforku frá vatnsaflsvirkjunum og jarðgufuvirkjunum til Bretlands - og samtímis skapað starfa-, vaxtar- og fjárfestingartækifæri í alþjóðlegu iðnaðarvaxtarsprotahéraði Bretlands."
Þetta er mergurinn málsins í sambandi við raforkusölu til útlanda. Þar verður rafmagnið þá notað til verðmætasköpunar. Er þá ekki nær að nota það til atvinnusköpunar hér innanlands, þar sem má nota það til mun meiri verðmætasköpunar en fæst fyrir það með sölu inn á sæstreng til útlanda og með miklu minni orkutöpum í ferlinu ?
Með því að nota rafmagnið frá íslenzkum virkjunum til að efla atvinnu um allt land og skapa grundvöll að samkeppnishæfum útflutningi á vörum til útlanda eða þjónustu við erlend fyrirtæki, t.d. í gagnaverum, verða meiri líkur á sátt landsmanna um mannvirkjagerð á orkusviði í þágu þessarar verðmætasköpunar en nokkur von er til, að nokkurn tímann verði náð um virkjanir og loftlínulagnir fyrir raforkusölu inn á sæstreng. Á þessu tvennu er siðferðislegur reginmunur.
Þegar lögð eru saman orkutöp í endabúnaði sæstrengs og í strengnum sjálfum, má búast við a.m.k. 10 % á leiðinni frá Íslandi til Englands, 1500 km. Orkunotkun í flutningum með aðföng og afurðir fyrir orkukræf iðnfyrirtæki á Íslandi er vissulega mikil, en flutningatækin, t.d. skipin, eru yfirleitt samnýtt fyrir aðra flutninga, svo að heildarkostnaður á hverja einingu verður lægri vegna aukins magns. Við þetta má bæta, að eftir 10-15 ár gætu skip til millilandaflutninga verið knúin með rafmagni, sem þá að mestu leyti mun koma frá sjálfbærum orkugjöfum.
Fyrir sæstreng Fionu Reilly þarf að virkja að lágmarki 600 MW á Íslandi. Hvað verður um fjárfestingar í öllum mannvirkjum hérlendis, virkjunum, aðveitustöðvum og flutningslínum að landtökustað, ef verðlækkun eða jafnvel verðfall verður á raforku á Innri orkumarkaði ESB ? Þá munu þessi sæstrengsviðskipti verða óarðbær með öllu, og það tekur allmörg ár að fá not fyrir mannvirkin hérlendis aftur. Tækniþróunin getur valdið slíku verðfalli. Þóríum kjarnorkuver af fjölbreytilegum stærðum hafa verið nefnd sem mögulegur orsakavaldur slíks verðfalls, en á nokkrum stöðum er unnið hörðum höndum að því að gera þau markaðs- og samkeppnishæf.
Að beintengja íslenzka raforkumarkaðinn við raforkumarkað Englands eða meginlandsins er hættulegt fyrir þjóðhagslega hagkvæman rekstur íslenzka raforkukerfisins. Verðmyndunin á þessum tveimur gerðum markaða er gjörólík, og orkumálin geta á augabragði snúizt í höndunum á okkur, svo að ekki sé nú minnzt á þau ósköp, ef Alþingi samþykkir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB og ACER-Orkustofnun ESB. Þá mun leyfisveitingavaldið fyrir lagningu millilandasæstrengs aðeins að forminu til verða hjá íslenzkum stjórnvöldum, en í raun hjá ACER og útibúi hennar á Íslandi, "landsreglaranum", ásamt ESA og EFTA-dómstólinum. Það er algerlega þarflaust af Alþingi að samþykkja rússneska rúllettu sem aðferð við ráðstöfun á rafmagni úr íslenzkum orkulindum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.