Utanríkisráðuneyti á háskabraut - hvað gerir forseti ?

Utanríkisráðuneyti Íslands er orðið bert að einfeldningslegri rangtúlkun á mati lagaprófessors og sérfræðings í Evrópurétti á því, hvort innleiðing nýrrar persónuverndarlöggjafar Evrópusambandsins, ESB, í EES-samninginn, og þar með upptaka löggjafarinnar í lagasafn Íslands, brjóti í bága við stjórnarskrá Íslands eða ekki. 
Stefán Már Stefánsson var stjórnvöldum til ráðuneytis á undirbúningsstigum málsins og skrifaði skýrslu.  Utanríkisráðherra og hans fólk virðast hafa lesið hana eins og skrattinn Biblíuna, þ.e.a.s. aftur á bak, og niðurstaðan er eftir því, klúður.  Verður þessum orðum nú fundinn staður með því að vitna í frétt Hjartar J. Guðmundssonar á vef Morgunblaðsins, 18. júní 2018:
    1.   "Stefán Már benti í því sambandi á [hann ráðlagði stjórnvöldum að snúa af markaðri braut innleiðingar], að ákvarðanir, sem teknar væru af stofnun Evrópusambandsins, væru afar einhliða, en ákveðin gagnkvæmni væri mikilvægur þáttur við mat á mörkum leyfilegs framsals ríkisvalds samkvæmt stjórnarskránni.  Þær væru einnig í andstöðu við tveggja stoða kerfið og á svig við þann fyrirsjáanleika, sem gert hafi verið ráð fyrir við undirritun EES-samningsins [sem sagt þessi innleiðing er bæði Stjórnarskrárbrot og brot á EES-samninginum-túlkun BJo].
    2. "Fram kemur í greinargerð utanríkisráðherra, að ekki hafi verið talin þörf á að fara þá leið, að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) héldi utan um framkvæmd persónuverndarlöggjafarinnar hér á landi í stað stofnunar Evrópusambandsins, þar sem umræddar valdheimildir beindust aðeins að hinu opinbera hér á landi og stofnunum þess, en ekki að einstaklingum og lögaðilum.  Fram kemur í álitsgerð Stefáns Más, að þetta sé ákveðið viðmið, sem hafa verði í huga, þegar heimildir til framsals valds séu metnar. Hins vegar segir hann í samtali við mbl.is, að þar skipti miklu máli, hvort um sé að ræða raunverulegar sjálfstæðar ákvarðanir stofnunar á vegum EFTA, eða hvort hún sé í raun aðeins að afrita ákvarðanir stofnana Evrópusambandsins. [Þessi orð Stefáns Más eiga t.d. við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, þar sem um það er samið á milli EFTA og ESB, að ESA skuli vera milliliður boðskipta á milli ACER og nýrrar sjálfstæðrar orkustofnunar í EFTA-löndum EES.  Þar sem ESA i þessu tilviki er aðeins stimpilstofnun, er þarna um að ræða heimildarlaust framsal ríkisvalds til yfirþjóðlegar stofnunar, ACER - innsk. BJo.]  Þar er vísað til þess, þegar stofnun á vegum EFTA tekur ákvörðun á grundvelli uppkasts frá stofnun Evrópusambandsins. "Ef um er að ræða stofnun, sem tekur ekki sjálfstæðar ákvarðanir, heldur hefur bara þann tilgang að stimpla eitthvað, sem annar gerir, þá er tæplega unnt að ræða um aðra stoð.  Þá er hún bara milliliður.  Formlega tekur hún þá ákvörðun, og það skiptir að vísu einhverju máli.  Það, sem mestu máli skiptir, er þó, að hún tekur enga sjálfstæða ákvörðun um efni málsins." [Það er rangt hjá utanríkisráðherra, að valdheimildir Persónuverndarráðs beinist einvörðungu að stofnunum hins opinbera hérlendis.  Kæru einstaklinga eða lögaðila hérlendis á málsmeðferð Persónuverndarstofnunar verður vísað til Persónuverndarráðs ESB, og þar með mun úrskurður þess hafa bein áhrif á einstaklinga og/eða fyrirtæki hérlendis.  Það stríðir gegn íslenzku stjórnarskránni.  Gjörðina má þess vegna ekki leiða í lög hérlendis - innsk. BJo.]
    3. "Stefán Már segir mikilvægt að horfa heildstætt á það framsal valds, sem átt hefur sér stað, en ekki aðeins einstakar gerðir, sem teknar eru upp í gegnum EES-samninginn.  Saman teknar séu slíkar gerðir, sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn eftir gildistöku hans að verða talsverður pakki.  Þegar gætt sé að því, að EES-samningurinn hafi á sínum tíma verið talinn á mörkum þess, sem stjórnarskráin leyfði, að því er varðar framsal ríkisvalds [má ætla, að nú sé komið út fyrir leyfileg mörk Stjórnarskrár-innsk. BJo]. Af því leiði, að því séu takmörk sett, hve miklu sé hægt að bæta við hann að óbreyttri stjórnarskrá." [Hér kveður Stefán Már upp úr um það á hófsaman hátt, að stöðva verði þennan stanzlausa straum innleiðinga viðbóta í EES-samninginn, því að í heildina séð sé framsal ríkisvalds orðið meira en Stjórnarskráin heimili.  Það er brýnt, að forseti lýðveldisins gefi gaum að þessu atriði og öðrum í álitsgerð prófessors Stefáns Más Stefánssonar, þegar hann veltir því fyrir sér, hvort hann á að samþykkja eða synja þessum lögum samþykkis-innsk. BJo.]

"Stefán Már segir ekkert hafa verið því til fyrirstöðu lagalega séð, að farin væri sú leið, að ákvarðanir varðandi persónuverndarlöggjöfina gagnvart EFTA/EES-ríkjunum væru teknar af stofnunum á vegum EFTA, sem ríkin ættu aðild að, í stað þess, að þær væru teknar af ESB í andstöðu við tveggja stoða kerfi EES-samningsins."

 

Það þarf enga mannvitsbrekku til að gera sér grein fyrir, hvað hér er á ferðinni. ESB nennir ekki lengur að sinna sérþörfum EFTA-landanna innan EES.  Það er orðin skoðun Framkvæmdastjórnarinnar, að ófært sé að þurfa að hefja samningaviðræður við EFTA-ríkin um undanþágur eða sérafgreiðslu, þegar ESB-ríkin hafa loksins náð lendingu sín á milli.  Þess vegna var tveggja stoða lausninni hafnað í þessu persónuverndarmáli að kröfu ESB, og EFTA-löndin innan EES fá sömu meðhöndlun og ESB-löndin.  Þetta leiðir hins vegar til fyrirkomulags, sem stjórnarskrár Íslands og Noregs heimila ekki.  Í hnotskurn sýnir þetta, að EES-samstarfið, eins og til þess var stofnað árið 1993, er nú komið að fótum fram.  

Sérfræðingur ríkisstjórnarinnar við undirbúning þessa máls birti henni niðurstöður sínar á eins skýran og afdráttarlausan hátt og honum var auðið sem fræðimaður í Evrópurétti.  Hann var hins vegar ekki settur dómari í málinu, og þess vegna bar niðurstaða hans ekki blæ dómsúrskurðar.  Þetta notfærði utanríkisráðherra sér með ósanngjörnum og ófaglegum hætti og sneri niðurstöðu sérfræðingsins á haus, þ.e. þannig, að hann telji innleiðinguna "standast stjórnarskrána". "Aðspurður segir Stefán Már, að þarna sé nokkuð frjálslega farið með", skrifaði Hjörtur Guðmundsson.  Flestir skilja áður en skellur í tönnunum.  

 Úr því sem komið er, ber Alþingi að hreinsa andrúmsloftið og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðild að EES eða uppsögn EES-samningsins.  Við gildistöku uppsagnar tekur gildi fríverzlunarsamningur, sem í gildi var við ESB fyrir 1994, ásamt almennum viðskiptaskilmálum WTO (Alþjóða viðskiptastofnunin), sem hafa þróazt mjög til bóta í átt til fríverzlunar í áranna rás.  Iðnvarningur var tollfrjáls og sjávarafurðir með að hámarki 6 % toll, sem góðar líkur eru á, að fengist lækkaður með vísun í WTO og nýlegan viðskiptasamning á milli ESB og Kanada, jafnvel afnuminn.  Í millitíðinni má semja um gagnkvæm atvinnuréttindi, námsréttindi og vísindasamstarf ásamt öðru, sem æskilegt er að halda; í stuttu máli allt annað en kvöðina um að taka upp  þær gjörðir ESB, sem sambandið telur, að erindi eigi inn í EES-samninginn.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Vald íslenska ríkisins var framselt til Brussel með aðild ríkisins að Evrópska efnahagssvæðinu fyrir meira en tveimur áratugum.

Og enginn stjórnmálaflokkur sem á sæti á Alþingi vill segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Davíð Oddsson var forsætisráðherra þegar Ísland fékk aðild að Evrópska efnahagssvæðinu 1. janúar 1994 og Schengen-samstarfinu 25. mars 2001.

Þorsteinn Briem, 22.6.2018 kl. 11:11

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Eiríkur Bergmann Einarsson forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst:

"Svíþjóð er aðeins gert að innleiða hluta af heildar reglugerðaverki Evrópusambandsins.

Og ef við beitum svipuðum aðferðum og Davíð Oddsson gerði í sínu svari getum við fundið út að okkur Íslendingum er nú þegar gert að innleiða ríflega 80% af öllum lagareglum Evrópusambandsins sem Svíum er gert að innleiða."

Þorsteinn Briem, 22.6.2018 kl. 11:12

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

"EES-réttur öðlast ekki bein réttaráhrif með sama hætti og bandalagsréttur.

Hins vegar er skylt að taka hann í landslög í þeim mæli sem nægir til þess að hann geti öðlast sambærileg áhrif að þessu leyti og bandalagsréttur."

Stefán Már Stefánsson lagaprófessor, Evrópusambandið og Evrópska efnahagsvæðið, bls. 168.

Þorsteinn Briem, 22.6.2018 kl. 11:17

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Schengenríki sem ekki eru í Evrópusambandinu (Noregur, Ísland og Sviss) hafa engin formleg völd þegar ákvarðanir eru teknar sem varða samstarfið og hafa í raun aðeins kost á því að taka upp þær reglubreytingar sem því fylgja eða segja sig úr því ella."

Schengen-samstarfið

Þorsteinn Briem, 22.6.2018 kl. 11:18

5 Smámynd: Elías B Elíasson

Góð grein hjá þér Bjarni.

Elías B Elíasson, 23.6.2018 kl. 12:03

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir, Elías.  Mér segir svo hugur um, að þessi persónuverndarlöggjöf verði mörgu fyrirtækinu hérlendis þung í skauti og að það eigi eftir að koma rækilega í ljós, hversu vanráðið það var að leiða þessi ósköp í lög hér.  Þá verður þess vart langt að bíða, að látið verði á lögmæti löggjafarinnar reyna hér fyrir dómstólum.  "Svona gera menn ekki", sagði eitt sinn góður maður að öðru tilefni og hafði mikið til síns máls.

Bjarni Jónsson, 23.6.2018 kl. 13:24

7 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Hvert fyrirtækið á fætur öðru sendir okkur nettengdum þessa dagana tilkynningar um upptöku hinnar nýju persónuverndarlöggjafar.  Þó ekkert um hvað löggjöfin þýðir fyrir neytendur, aðeins eitthvað blaður um formsatriði og reglur.  Mætti halda að almenningi komi þessi nýju lög ekkert við - nema þá sem þolendum, og hver ákveður það þá?

Kolbrún Hilmars, 23.6.2018 kl. 21:25

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

      • Steini vitnar að vild sinni hér

      • í valdar klausur fræðimanna,

      • gerir það mest til gamans sér,

      • en gruflar ei djúpt í landráðanna

      • hylýpisáhrif sem óðara þýddu

      • afsal á löggjafarvaldi í landi,

      • og þeim sem hér áður eyþjóðir níddu,*

      • æðst vill hann gefa stjórnvald sá fjandi!

      * Evrópusambandið níddist á Færeyingum og Íslendingum í makríldeilunni og Íslendingum ítrekað í Icesave-málinu.

      Jón Valur Jensson, 24.6.2018 kl. 02:09

      9 Smámynd: Jón Valur Jensson

      Já, ég lít á "Steina Briem" sem fjanda (óvin) Íslands.

      Jón Valur Jensson, 24.6.2018 kl. 02:52

      10 Smámynd: Bjarni Jónsson

      Kolbrún Hilmars: þetta er tóm sýndarmennska, sem hefur hverfandi áhrif á raunverulega vernd persónugagna um okkur.  "They are covering their ass", eins og þar stendur, því að báknið hefur nú fengið heimildir til stórfelldra fésekta.  

      Jón Valur: þú hittir naglann á höfuðið í þínum næturkviðlingi.  Stór hluti löggjafarvaldsins hefur verið eftirlátinn búrókrötum í Brüssel, því að þingmenn hafa ekki haft gáning á að nýta sér svigrúmið, sem gamli EES-samningurinn veitir, þ.e. að synja lögum frá Berlaymont samþykkis.  Lögfræðingar hafa sýnt fram á framsal framkvæmdavalds og dómsvalds þangað, en þeim hefur láðst að greina þriðja þátt ríkisvaldsins í þessa veru.  Við fórnum á hverju ári hluta fullveldisins fyrir ekkert.  Það er nefnilega líf utan ESB og EES, og það er betra líf án svika við Stjórnarskrána.

      Bjarni Jónsson, 24.6.2018 kl. 10:41

      11 Smámynd: Gunnar Ingvi Hrólfsson

      Íslendingar hafa þegar neglt fyrsta alvörunaglann í líkkistu Evrópusambandsins með því að draga aðild sína að því til baka. Nagli tvö er Brexit. "Hrunadansinn" heldur áfram, lokin eru skammt undan. 

      Gunnar Ingvi Hrólfsson, 24.6.2018 kl. 10:45

      12 Smámynd: Bjarni Jónsson

      Mig grunar, Gunnar Ingvi, að Ítalir muni reka þriðja naglann í téða líkkistu, og allt er, þá þrennt er.

      Bjarni Jónsson, 24.6.2018 kl. 15:11

      13 Smámynd: Kolbrún Hilmars

      Bjarni, má til með að bæta því við að ég hef allan minn starfsferil, rúmlega hálfa öld, unnið störf sem eru BUNDIN TRÚNAÐI og að ég best veit aldrei brotið þær reglur.
      Hver er raunverulega munurinn á nýju lögunum og gömlu trúnaðarbundnu hefðinni?  Sektarupphæðin? 

      Kolbrún Hilmars, 24.6.2018 kl. 16:12

      14 Smámynd: Jón Valur Jensson

      Líka dómsvaldið, Kolbrú (Evrópusambandsins).

      Takk, Bjarni. En með afsali löggjafarvalds átti ég þó umfram allt við það, að með beinni inngöngu í Evrópusambandið (draumur Steina greysins) myndi allt æðsta löggjafarvald færast héðan frá bæði Alþingi og forsetanum og þjóðinni að auki til Brussel og Strassborgar, þ.m.t. yfir fiskimiðunum og landbúnaði og allri okkar löggjöf, þar sem hún kynni að rekast á ESB-lög.

      Jón Valur Jensson, 24.6.2018 kl. 17:34

      15 Smámynd: Bjarni Jónsson

      Það eru margir í þínum sporum, Kolbrún, að vera eða hafa verið bundnir trúnaði í störfum sínum.  Nýju löginn útheimta miklu meiri skriffinnsku en fyrra fyrirkomulag, eins og vottuð gæðastjórnunarkerfi útheimta.  Allt þarf að vera rekjanlegt.  Það þarf að vera persónuverndarstefna fyrir hendi, og fyrirtæki og stofnanir verða að geta sýnt fram á, að þau framfylgi henni.  Við hefðum sparað stórfé, miaISK 20 í innleiðingarkostnað og 11 miaISK/ár í rekstrarkostnað, með því að sleppa þessari innleiðingu og sníða nýja persónuverndarlöggjöf að okkar litla samfélagi.  Okkur henta ekki risaflíkur frá ESB.

      Bjarni Jónsson, 24.6.2018 kl. 19:10

      16 Smámynd: Bjarni Jónsson

      Jón Valur; Þingmenn eru að drukkna í straumi gjörða frá ESB, sem þeir geta lítið gert með annað en samþykkja eða synja, og ég held, að þeir hafi aldrei beitt synjunarvaldinu, sem er þó ótvírætt fyrir hendi í EES-samninginum.  Þar með er stór hluti lagasetningar Alþingis ættaður frá Brüssel.  Með því að breyta Alþingi í stimpilstofnun er lýðræðið í uppnámi og löggjafarvaldið aftur að hverfa til ríkjasambands, nú evrópsks, en áður danska ríkjasambandsins.  Það er fullkomin óhæfa, að þetta skuli gerast þegjandi og hljóðalaust.  Stjórnmálamenn okkar eru að glutra fullveldinu úr höndum landsmanna. 

      Bjarni Jónsson, 24.6.2018 kl. 19:18

      17 Smámynd: Kolbrún Hilmars

      Allt þarf að vera rekjanlegt!  Þýðir maður á mann í öllu kerfinu.  Ef starfsmaður A þarf að ráðgast við starfsmann B varðandi þjónustu við þjónustuþega C, þá þarf viðkomandi stofnun að skaffa eftirlitsaðila á hvern og einn sem að málinu kemur.  Er fólk gengið af göflunum?

      Kolbrún Hilmars, 24.6.2018 kl. 20:05

      18 Smámynd: Bjarni Jónsson

      Munnleg tjáskipti þurfa sjaldnast að vera rekjanleg, en öll meðferð skjala og vistun þeirra þarf að vera rekjanleg fyrir eftirlitsaðila.  

      Það er ekki tilviljun, að sveitarfélögin telja árlegan rekstrarkostnað persónuverndarkerfa sinna verða um 56 % af stofnkostnaði.  Það er ekki heil brú í því að innleiða þessi ósköp hérlendis.

      Bjarni Jónsson, 24.6.2018 kl. 22:17

      Bæta við athugasemd

      Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

      Innskráning

      Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

      Hafðu samband