4.7.2018 | 10:41
Undanhaldsmenn vorra tíma
Alþingi samþykkti nýlega gríðarlegan lagabálk frá Evrópusambandinu, ESB, um persónuvernd. Það eru áhöld um, hvort persónuvernd Íslendinga verði markvert betur komið eftir innleiðingu þessa lagabálks en áður. Það er líka ástæða til að staldra við og athuga, hvort s.k. persónuvernd sé komin út í öfgar. Kári Stefánsson, læknir, hefur t.d. bent á, hversu öfugsnúin persónuverndarlagaflækjan er orðin, þegar hún kemur í veg fyrir, að bjargað sé lífi með upplýsingagjöf til þeirra, sem búa að áhættusömum erfðaeiginleikum.
Það er engum vafa undirorpið, að beinn fjárhagslegur kostnaður þjóðfélagsins er allt of hár m.v. ávinning samfélagsins af risaumgjörð um lítið. M.v. kostnaðaráætlanir, sem sézt hafa, t.d. í Viðskiptablaðinu 21. júní 2018, má ætla, að heildarstofnkostnaður á Íslandi muni nema miaISK 20 og rekstrarkostnaður kerfisins verði 11 miaISK/ár. Þetta höfum við upp úr því að kokgleypa lagasetningarvald búrókratanna í Brüssel, sem ýja ekki hálfri hugsun að aðstæðum í 0,35 M manna samfélagi, þegar þeir semja sín lög. Það er fáheyrt, að ráðamenn hér skuli hafa afnumið lýðræðið hérlendis að stórum hluta og sett landsmenn í spennitreyju stjórnlauss kostnaðarauka, sem lítið sem ekkert gefur í aðra hönd. Ekki sízt í ljósi veikrar samkeppnisstöðu fyrirtækjanna verður að stöðva þessa öfugþróun hið snarasta. Á aldarafmælisári fullveldis er afmælisbarnið, óskabarn þjóðarinnar, að verða hjómið eitt. Það verður holur hljómur frá sömu stjórnmálamönnum, sem í hátíðarræðum munu berja sér á brjóst og dásama fullveldið.
Stofnkostnaður á við 65 MW virkjun og rekstrarkostnaður á við 950 MW vatnsaflsvirkjun, sem fer beint út um gluggann, er þyngri en tárum taki, enda mun þessi gjörningur óhjákvæmilega draga niður lífskjörin hér í okkar smáa samfélagi. Þegar af þeirri ástæðu er þetta óverjandi gjörningur, en verra er þó, að í innleiðingu hans í íslenzka lagasafnið felst skýlaust Stjórnarskrárbrot og að auki brot á upphaflega EES-samninginum, sem kvað fortakslaust á um tveggja stoða fyrirkomulag, jafnréttisstöðu EFTA og ESB, við innleiðingu nýrra gjörða frá ESB. Það sýnir sig, að þrýstingur frá hinum tveimur EFTA-löndunum og ESB er íslenzkum valdsmönnum ofviða. Við þessu er aðeins eitt svar. Róttæk breyting á tengslum Íslands við ESB.
Þetta kom allt fram í greinargerð prófessors Stefáns Más Stefánssonar, sérfræðings í Evrópurétti til utanríkisráðherra, sem fékk Stefán ráðuneytingu til halds og trausta í undirbúningi innleiðingar, en hunzaði síðan ráðleggingar hans fullkomlega. Svona gera menn ekki.
Það var ekki að ófyrirsynju, að Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, reit á innlendan vettvang sinn í Morgunblaðinu 16. júní 2018 greinina:
"Er sjálfstæðisbaráttan að gleymast ?"
"Í stórmerkri ræðu, sem Bjarni, heitinn, Benediktsson, síðar formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, flutti á Landsfundi flokksins á Þingvöllum 18. júní 1943, ræddi hann um fullveldið 1918, sem við minnumst á þessu ári, og sagði:
"En sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar að þessu leyti lauk með sigri 1918, segja sumir. Vissulega má til sanns vegar færa, að þá hafi ánauð hennar verið lokið. En var fullt stjórnskipulegt frelsi hennar þar með fengið ? Var verkefni hinnar eiginlegu sjálfstæðisbaráttu þar með úr sögunni ?
Mundi sá bóndi telja sig að fullu frjálsan, sem að vísu mætti ákveða sjálfum sér og heimafólki sínu reglur til að fara eftir, en þyrfti þó að leita samþykkis óðalsbónda á fjarlægri jörð til þess að fyrirmælin hefðu nokkra þýðingu ? Ef hann mætti ekki hafa skipti við nágranna sína, nema fyrir milligöngu óðalsbóndans eða öllu heldur vinnumanna hans, yrði að hafa einhvern þessara vinnumanna með í förinni, ef hann skryppi í kaupstað, og engin þessara viðskipta hefðu lögformlegt gildi, nema óðalsbóndinn samþykkti ? Ef hann að vísu mætti hafa eigin hund til að reka úr túninu, en hefði þó, til þess að víst væri, að fjárreksturinn færi fram eftir öllum listarinnar reglum, jafnframt sérstaklega vaninn hund frá óðalsbóndanum til túngæzlunnar ? Og mundi bóndi telja þann eignarrétt á jörð sinni mikils virði, sem því skilyrði væri háður, að 30 menn aðrir mættu hafa af henni öll hin sömu not og sjálfur hann ?
Slíku frelsi mundi enginn íslenzkur bóndi una til lengdar. Auðvitað þættu honum þessi kjör betri en alger ánauð, en honum mundi þykja það furðulegt, ef honum væri sagt, að nú væri frelsisbaráttu hans lokið. Og honum mundi þykja það óþörf spurning, ef hann væri að því spurður, hvort hann vildi ekki una þessum kjörum sínum enn um sinn, þegar sá tími væri kominn, að hann ætti rétt á algeru frelsi. En aðstaða íslenzku þjóðarinnar er eftir sambandslögunum einmitt hin sama og bónda þess, sem nú var lýst."
Þetta var áhrifarík lýsing á aðstöðu íslenzku þjóðarinnar árið 1943 hjá dr Bjarna Benediktssyni. Það er sláandi, að mörg atriði í þessari dæmisögu eiga við aðstöðu Íslendinga á 100 ára afmælisári fullveldisins, þótt lýðveldið sé orðið 74 ára, vegna þróunarinnar á EES-samninginum, sem Alþingi samþykkti í ársbyrjun 1993. Viðskiptaaðgangur að Innri markaði EES er einfaldlega allt of dýru verði keyptur. HINGAÐ
Þingmenn samþykkja nú hvern stórgjörninginn frá Brüssel og telja það skyldu sína, sem er alrangt í þeim tilvikum, þegar þessir gjörningar virða ekki upprunalegt tveggja stoða samkomulag EFTA og ESB og/eða þegar innleiðing þessara gjörninga felur í sér brot á Stjórnarskrá Íslands, sem að beztu manna yfirsýn var í tilviki nýsamþykktrar persónuverndarlöggjafar.
Styrmir skrifar:
"Og hvernig má það vera, að forystusveit þess flokks, sem óumdeilanlega hafði algera forystu í lokakafla sjálfstæðisbaráttu íslenzku þjóðarinnar, hafi haft þær athugasemdir um stjórnarskrárbrot að engu, sem fram komu ?"
Í lok gagmerkrar greinar sinnar skrifaði Styrmir og skal taka undir hvert orð:
"Það er hægt að krefjast breytinga á EES, og það er líka hægt að segja þeim samningi upp. Á Þingvöllum fyrir 75 árum talaði Bjarni, heitinn, um "undanhaldsmenn" þeirra tíma. Getur verið, að undanhaldsmenn okkar tíma séu þeir, sem hörfa skref af skrefi undan ásókn Brüssel ?
Hvað ætla þeir að gera með orkumálapakka ESB í haust ? Ætla þeir að opna leiðina fyrir yfirráð Brüssel yfir þeirri auðlind, sem felst í orku fallvatnanna ?"
Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er: undanhaldsmenn vorra tíma eru þeir, sem hörfa skref eftir skref undan ásókn Brüssel. Þessa skulu landsmenn minnast, þegar þeir heyra væmnar skjallræður um baráttumennina fyrir sjálfstæði Íslands á aldarafmæli fullveldis þjóðarinnar.
Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki beðið eftir niðurstöðu nefndar um reynsluna af EES. Sú reynsla liggur í augum uppi. Flokkurinn verður nú sjálfur að rísa undir nafni og móta stefnu gagnvart EES samkvæmt því. Að öðrum kosti er hætt við, að flokkurinn missi hreinlega fótanna í íslenzku samfélagi.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Forysta Sjálfstæðisflokksins er að mylja flokkinn í duft. Hugsjónalausir undanlátsamlóðar skipa hvert einasta sæti forystunnar. Það virðist alveg sama hvað frá bulluseli kemur, það rennur allt í gegn eins og bráðið smjör. Fyrirstaðan er engin. Þetta fólk verður ekki trúverðugt seinna á árinu þegar hundrað ára afmælinu verður fagnað. Færi sennilega best á því að fenginn væri blýantsnagandi kerfisbulla sunnan úr bulluseli til að flytja aðalræðuna.
Svo skilja menn ekkert í dvínandi fylgi Sjálfstæðisflokksins. Ég segi nú bara eins og Ó.R.G. um árið.: " You aint seen nothing yet" þegar kemur að.minna fylgi.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 4.7.2018 kl. 13:33
Verstar viðja eru viðjar hugarfarsins. Það er ranghugmynd, að Íslandi sé hvergi jafnvel borgið og í EES. Halda menn, að það sé tilviljun, að Svisslendingar fúlsuðu við slíkum félagsskapi á sinni tíð, og Neðri deild brezka þingsins hefur hafnað honum. Að greiða aðgang að Innri markaði ESB því verði að taka upp stórskorna, óhentuga og rándýra lagabálka ESB, eru afarkostir. Fríverzlunarsamningar eru framtíðin.
Bjarni Jónsson, 4.7.2018 kl. 14:08
Hér áður, var fylgi Sjálfstæðisflokksina,komið niður úr öllu valdi, þá hafði flokkurinn farið að láta víxlarana ráða förinni.
Þá skrifaði einhver ágætis maður, grein, eða flutti útvarpserindi, og sagði að ef flokkurinn ætlaði að vera íhaldsflokkur eins og flokkarnir á norðurlöndunum, þá færi fylgið niður í það sama og á norðurlöndunum.
Sjálfsæðisflokkurinn yrði þá smá flokkur.
Í stað þess að landsmenn yrðu sjálfstæðir húseigendur, yrðu þeir leiguliðar, stóreignafélaga.
Flokkurinn þarf að taka þessa umræðu, hvort hann ætlar að vera smáflokkur fjármagnsins, eða stór flokkur allra stétta.
Bið ykkur vel að lifa.
Egilsstaðir, 04.07.2018 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 4.7.2018 kl. 18:01
Fríverzlunarsamningar eru framtíðin.
Allt sem þú ert að segja virðist stefna í rétta átt.
Tek undir hvert orð.
Egilsstaðir, 04.07.2018 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 4.7.2018 kl. 18:24
Sæll, Jónas;
Ég er þeirrar skoðunar, að létta megi byrðum af atvinnulífinu og stjórnsýslunni með því að segja upp EES-samninginum. Þá tekur gildi gamli verzlunarsamningurinn á milli Íslands og ESB, sem veitti iðnaði frían aðgang og sjávarvörum aðgang með mjög lágum tollum. Við Breta hlýtur að verða gerður fríverzlunarsamningur. Þar með verður Stjórnarskráin ekki í uppnámi nokkrum sinnum á ári af völdum innleiðinga Alþingis á gjörðum ESB.
Vona, að ferðamannaiðnaður og annað blómstri á Egilsstöðum á þessu góða sumri.
Með kveðju úr súldinni fyrir sunnan /
Bjarni Jónsson, 4.7.2018 kl. 20:51
Sæll Bjarni,
þakka þér þessa ádrepu.
Nauðsynlegt er að spyrna við fótum nú,
þegar yfirgangurinn keyrir allt um þverbak,
og Alþingi stimplar allt frá skrifstofuveldinu í brussel.
Kv.
Ólafur
Ólafur Jónsson, 4.7.2018 kl. 22:33
"Svo skilja menn ekkert í dvínandi fylgi Sjálfstæðisflokksins",það hékk lengi í voninni,en er nú fyrir bí. Það er þó ekki alvont það sannar fjöldi þeirra sem heldur ekki lengur tryggð við nafnið með stórum staf,en þeim mun ákafar í baráttunni fyrir sjálfstæði fósturjarðarinnar.
Helga Kristjánsdóttir, 5.7.2018 kl. 03:50
Það gæti verið óttinn við að skera sig úr hópnum, sem veldur þessari einkennilegu undirgefni. Öll Norðurlöndin eru í þessum klúbbi, nema Norðmenn og Færeyingar, og marga norska stjórnmálamenn langar ógurlega til að vera með, þótt norska þjóðin sé því algerlega andvíg. Það gjörbreytist hins vegar allt með BREXIT, og þar að auki steðjar þrenns konar vandi að ESB: (1) Bankakerfi Ítalíu, (2) 1,3 M flóttamanna í Þýzkalandi og 0,5 M á Ítalíu. (3) Viðskiptastríð við Donald Trump/BNA.
Bjarni Jónsson, 5.7.2018 kl. 16:26
Er Evrópusambandinu viðbjargandi? Er þá sambandsríki eina lausnin? Viðtal á ensku við Yanis Varoufakis: Yanis Varoufakis: Deutschland tritt aus dem Euro aus, wenn ... // Mission Money
Hörður Þormar, 5.7.2018 kl. 20:27
Stórmerkilegt viðtal við Vaoufakis. "The Euro was designed to fail." Hann líkti evrunni við kænu úti á rúmsjó. Nú veltur allt á Ítalíu. Ég er hræddur um, að í næsta fjármálastormi falli Ítalía, evran og Evrópusambandið. Þar er ég sammála Varoufakis. Það eru of miklar menningarlegar mótsetningar innan Evrópu til að takast megi að berja í brestina. Varoufakis nefndi Rín og Alpafjöll. Germönsku þjóðirnar og Finnar, jafnvel Tékkar, verða á DEM svæðinu. Önnur ríki líklega hvert með sinn gjaldmiðil. Núverandi kerfi í Evrópu er ósjálfbært.
Bjarni Jónsson, 5.7.2018 kl. 21:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.