Út úr EES með tvíhliða viðskipta- og samstarfssamning

Það er vel gerlegt að mati höfunda "Alternativrapporten" í Noregi að fá rammasamning við ESB um alla samninga viðkomandi lands við ESB - án þess að slíkur þurfi að fela í sér nánari samruna við ESB, eins og bandalagið þó og ýmsir hérlendir menn, ekki hvað sízt embættismenn, virðast hafa mestan hug á. 

Til þess að slíkur samningur losi Ísland við núverandi stjórnlagalegar efasemdir um lögmæti samstarfsins við ESB, þarf að fjarlægja sérkenni EES-samningsins, þ.e.a.s. ESA, EFTA-dómstólinn og ákvæðin, sem kveða á um, að allar gjörðir, sem ESB merkir sem EES-viðeigandi, séu innleiddar á færibandi á Íslandi.  

Þannig er hægt að stofna til tvíhliða viðskipta- og samstarfssamnings við ESB, sem felur í sér þá þætti EES-samningsins, sem samstaða er um að halda áfram með, þ.e. atriði, sem hagstæð eru báðum aðilum, með gildissvið og innihald, sem er ásættanlegt fyrir báða samningsaðila.  Breytingar á nýja samninginum munu þá einvörðungu eiga sér stað eftir viðræður og samþykki beggja, öfugt við núverandi sjálfvirka fyrirkomulag, sem ógnar fullveldi Íslands og Noregs í ýmsum tilvikum og skapar þess vegna óvissu um lögmæti Evrópugerðanna í þessum tveimur löndum.   

ESB hefur gert yfir 200 viðskiptasamninga við lönd alls staðar í heiminum.  Þeir eru næstum allir tvíhliða og venjulega ekki rammar utan um sjálfvirka upptöku gjörða, eins og EES-samningurinn. Hvers vegna ætti ESB að þverskallast við slíkum samningi við Ísland, nú þegar fullreynt er, að EES-samningurinn verður aldrei neitt stökkbretti landsmanna inn í ESB, eins og margir hugðu, er til var stofnað, m.a. þáverandi stjórnendur ESB ? 

ESB hefur líka gert tvíhliða samninga um annars konar samstarf, t.d. um þátttöku í rannsóknarverkefnum, við fjölmörg lönd.  Sviss er með viðamestu tvíhliða samningana við ESB.  Tilkynning ESB um, að þar á bæ óski menn eftir að breyta samningunum við Sviss í áttina að sjálfvirkara EES-fyrirkomulagi þýðir ekki, að ESB útiloki nýja tvíhliða samninga.  Þetta er aðferð ESB við að hefja samningaviðræður við Svisslendinga, og að baki býr ósk ESB um aukna vitneskju um svissneska bankakerfið. 

ESB hefur verið með samninga í gangi um tvíhliða viðskiptasamninga við m.a. Indland, Kanada, Egyptaland og Japan, sem hvert um sig hefur minna viðskiptalegt vægi fyrir ESB en t.d. Noregur, aðallega vegna ál- og gasútflutnings Norðmanna.

Eðlilegt er að gera ráð fyrir, varðandi nýjan tvíhliða viðskipta- og samstarfssamning við ESB, að aðrir hlutar EES-samningsins en þeir óaðgengilegu verði framlengdir við uppsögn heildarsamningsins.  Gildissvið tvíhliða samningsins verða að vera nákvæmlega skilgreind, og hann verður að vera einvörðungu þjóðréttarlegrar gerðar, svo að hann stangist ekki á við Stjórnarskrá. Samstarfssvið, sem raunhæft er að semja um, eru t.d. rannsóknir, menntun og menning með þátttöku í rammaverkefnum ESB, annaðhvort að fullu eða að hluta, ásamt umhverfisvernd með þátttöku í Evrópsku umhverfisstofnuninni.

  Samningurinn má þó ekki fela í sér fyrirkomulag, sem þrýstir á Ísland um að innleiða nýjar gjörðir frá ESB.  Ef Íslendingar vilja taka upp nýjar reglur frá ESB, þarf að endursemja um samninginn eða bæta umsömdum viðaukum við hann.  

Samningslíkan af þessum toga þýðir, að Ísland getur krafizt einhvers á móti frá ESB gegn því að taka upp nýtt ESB-regluverk.  Þannig kemst á samningsleg jafnstaða samningsaðilanna.  Vald má heldur ekki framselja frá Íslandi til nokkurrar eftirlitsstofnunar á borð við ESA eða EFTA/ESB dómstólana.  Deilur skal leysa á vettvangi stjórnmálanna.  Með því að fjarlægja núverandi fyrirkomulag fjölþjóðlegs framkvæmdavalds, dómsvalds og löggjafarvalds, sem er í EES-samninginum, ásamt "sjálfvirku" ferli markaðsvæðingar á æ fleiri sviðum með innleiðingu nýrra ESB-gerða, má aðgreina tvíhliða samning með skýrum hætti frá EES-samninginum.

Er líklegt, að "breiður" stuðningur verði við slíkan tvíhliða samning Íslands og ESB hér innanlands ?  Það fer dálítið eftir því, hvernig að honum yrði staðið.  Á undirbúningsstigum málsins þarf að kveðja að alla helztu hagsmunaaðila, sem fái tækifæri til að koma að atriðum, sem þeir vilja setja á oddinn, áður en setzt er að samningaborðinu með ESB.  Um slíkan samning gæti náðst góð samstaða í landinu, og um hann gæti orðið langvarandi friður.  Slíkt yrði stórt framfaraspor í samanburði við hinn umdeilanlega, óhagstæða, þrúgandi og að margra mati ólögmæta EES-samning. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband