29.7.2018 | 09:06
Út úr EES með með samningi á milli EFTA og ESB
Á heimsvísu finnast fjölmargir svæðisbundnir viðskiptaskilmálar. Þeir eru iðulega reistir á ákvæðum WTO, Alþjóða viðskiptastofnunarinnar.
Þegar árið 2012 hafði EFTA gert 23 fríverzlunarsamninga, sem spönnuðu 32 lönd, og þeim fjölgar stöðugt. ESB hefur líka gert fjölmarga slíka samninga, svo að í báðum herbúðum er reynsla fyrir slíku.
Þannig er fullkomlega raunhæft að koma á hefðbundnum viðskipta- og samstarfssamningi á milli EFTA og ESB. Eftir tvenns konar samband EFTA-landanna fjögurra við ESB í aldarfjórðung er fyllilega tímabært að sameina EFTA-löndin í einum samningi við ESB. Segja má, að stærð núverandi EFTA leyfi það ekki, að þessi fríverzlunarsamtök Evrópu gangi klofin til samninga við ESB, annars vegar Ísland, Noregur og Liechtenstein og hins vegar Sviss eitt á báti. Þótt EFTA-löndin séu tiltölulega fámenn, þá er EFTA samt þriðji mikilvægasti vöruviðskiptaaðilinn fyrir ESB og sá næst mikilvægasti á þjónustusviðinu.
BREXIT-ferlið gengur brösuglega, og það mun hugsanlega leiða til inngöngu BRETA í EFTA, sem þá verður mikilvægasti viðskiptavinur ESB á flestum sviðum. Bretar hafa eðlilega engan áhuga á EES, ef frá er skilin Lávarðadeild brezka þingsins, en það gæti orðið góður kostur fyrir alla, að EFTA og ESB mundu leggja niður EES og gera með sér fríverzlunar- og samstarfssamning með Breta í EFTA í staðinn.
Um það leyti sem inngönguviðræður Íslands við ESB stóðu yfir fyrir um 6 árum, setti ESB af stað mat á EES-samninginum og Svisslandssamningunum og hefur gefið til kynna vilja sinn um endurskoðun hvors tveggja.
Fríverzlunarsamningur EFTA og ESB verður að mynda minnsta samnefnara. Það þýðir, að nýr samningur þarf að fjalla um atriði, sem sameiginlegir eru EES-samninginum og Svisslandssamningunum. Þetta þýðir í raun að leggja af stofnanir EES, og að tilskipanir geti ekki komið á færibandi til EFTA-ríkjanna, heldur þurfi samningaviðræður í hvert skipti, sem óskað er breytinga/viðbóta á viðskiptasamninginum.
Vegna Svisslands mun nýi samningurinn í upphafi ekki spanna þjónustusvið. Þá þarf að skilgreina leyfilegar fjárfestingar. T.d. leyfa Íslendingar ekki erlendar fjárfestingar í fiskiskipaútgerðum, og landakaup verða væntanlega takmörkuð. Ákvæði um viðskipti með landbúnaðarvörur og unnin matvæli munu ekki fela í sér þrýsting um frjáls viðskipti með þessar vörur, bæði til að vernda eigin landbúnað gegn niðurgreiddum erlendum landbúnaði og vegna smithættu. Væntanlega verður eftirfarandi ákvæði EFTA-samningsins lagt til grundvallar um landbúnaðarvörur:
"Varðandi vörurnar í viðhengi D, hluta III, lýsa aðildarþjóðirnar sig fúsar til að vinna að samræmdri þróun viðskiptanna, að svo miklu leyti sem landbúnaðarstefna þeirra leyfir slíkt."
Tollaívilnanir og sjúkdómavarnir, sem af þessum samningi leiða, eru ekki vandamál í líkingu við þau, sem af EES-samninginum leiða.
Þar sem EFTA-ESB viðskiptasamningur verður í raun alveg nýr samningur á milli svæða með að nokkru leyti öðrum löndum við samningaborðið en aðild eiga að EES, verður unnt að fara fram á samningaviðræður við ESB, þótt EES-samninginum hafi þá enn ekki verið sagt upp. Takist ekki að leiða slíkar samningaviðræður til lykta, verður annaðhvort hægt að halda áfram um sinn með EES-samninginn eða að þrengja gildissvið hans og/eða kveða skýrara að orði um svigrúm EFTA-ríkjanna til að hafna tillögum ESB um nýjar innleiðingar á Evrópugjörðum. Það verður þá líka hægt að huga að enn öðrum valkostum á borð við samning reistan á reglum WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, tvíhliða viðskiptasamning eða tvíhliða viðskipta- og samstarfssamning við ESB.
Sé ESB ófúst til að hefja slíka samningaferla, sem drepið hefur verið á hér að ofan, þá er sú leið til, að Ísland, eitt sér eða ásamt hinum EFTA-löndunum tveimur, tilkynni, að ætlunin sé að segja upp EES-samninginum, en semja helzt fyrst við ESB um nýjan svæðissamning, sem reistur sé á Vaduz-sáttmálanum. Við slíkar aðstæður mun ESB mjög sennilega sjá hag sínum bezt borgið með því, að millibilsástandið, þar sem gamli viðskiptasamningurinn með viðbótum frá WTO-regluverkinu yrði lagður til grundvallar, myndi vara sem stytzt, þar eð Vaduz-sáttmálinn spannar víðtækara samstarf.
Það eru margir valkostir í stöðunni varðandi samskiptin við ESB, og það er fullkomlega raunhæft að taka upp samningaviðræður við ESB um samning, sem leyst getur hinn meingallaða og í raun úr sér gengna EES-samning af hólmi, samning, sem sumir telja ESB hafa brotið með kröfum um yfirþjóðlega stjórnun málaflokka í EFTA-ríkjunum, eins og í ESB-ríkjunum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Stærsti gallinn við núverandi EES samning, að mínu mati, er hversu hann gerir miklar EINHLIÐA KRÖFUR á EFTA löndin, sem eru þátttakendur í samningnum þess efnis að taka upp lög og reglur ESB. Og hygg ég, án þess að hafa skoðað ALLA milliríkjasamninga ofan í kjölinn, að svona lagað sé einsdæmi í söguunni milli ríkja og ríkjasambanda. AÐ ANNAR AÐILINN SÉ SVONA GJÖRSAMLEGA "UNDIR HÆLNUM Á HINUM".........
Jóhann Elíasson, 29.7.2018 kl. 09:54
Þetta er alveg rétt, Jóhann, ogþar sem ESB færir sig sífellt upp á skaptið í þessu samstarfi, þá rekst Evrópugerðir þess sífellt oftar illilega á stjórnarskrár Íslands og Noregs. Það dytti engum í hug að leggja upp með slíkan bastarð sem EES-samninginn til frambúðar, enda er hann fordyri ESB, ætlaður EFTA-ríkjunum til aðlögunar. Nú hefur hann verið virkur í aldarfjórðung og er þess vegna gjörsamlega genginn sér til húðar.
Bjarni Jónsson, 29.7.2018 kl. 17:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.