31.7.2018 | 09:33
Viðskiptastríð
Það er með ólíkindum, að heimsbyggðin skuli á árinu 2018 upplifa viðskiptastríð stórvelda, þ.á.m. Bandaríkjanna við bandamenn sína, þótt Bandaríkjamenn berðust ötullegast fyrir viðskiptafrelsi á síðustu öld og lengst af þessari. Þeir voru aðalhöfundar WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, en nú hunza þeir gjörsamlega regluverk hennar. Þetta er forkastanleg hegðun, enda hafa Bandaríkjamenn grafið undan trausti bandamanna sinna til sín. Ef fram heldur sem horfir, mun "America first" stefna Bandaríkjastjórnar leiða til einangrunarhyggju þessa mesta stórveldis fyrr og síðar. Það mun gjörbreyta valdahlutföllum í heiminum.
Allt er í heiminum hverfult, og nú er skollið á viðskiptastríð á milli rótgróinna bandamanna, þ.e. stríð BNA við ESB, Kanada, Japan o.fl. Forseti BNA hefur jafnvel varpað fram efasemdum um grundvallarreglu NATO, 5. greinina, um að árás á einn jafngildi árás á alla og verði svarað sem stríðsyfirlýsingu á NATO. Allt þetta hlýtur að draga sögulegan dilk á eftir sér. Eru Bandaríkjamenn enn staðráðnir í að standa við skuldbindingar sínar í varnarsamningi sínum við Ísland ? Slík spurning hefði verið fráleit fyrir 2 árum, en er hún það nú ?
Augljóslega er nú kostur fyrir Íslendinga að standa utan ESB og losna þar með við viðsjárvert og kostnaðarsamt viðskiptastríð, en óbeinum afleiðingum viðskiptastríðs losnar þó enginn undan. Þær eru samdráttur alþjóðlegra viðskipta og fjárfestinga, sem strax leiðir til minni hagvaxtar alls staðar, mun breyta innbyrðis hlutföllum á gengi gjaldmiðla og getur endað með heimskreppu, eins og gerðist fyrir 90 árum.
Það vinnur enginn viðskiptastríð. Donald Trump gumar af því, að Bandaríkjamenn vinni þetta viðskiptastríð auðveldlega. Hann á eftir að komast að öðru. Það ættu Bandaríkjamenn að vita, eins og aðrir, og þeir hafa ekki leyfi til að ganga fram með þessum hætti, gjörsamlega í trássi við "barn sitt", Alþjóða viðskiptastofnunina-WTO. "America first" gengur ekki upp.
Leikritið, sem við horfum á núna, er raunveruleikaþátturinn "Skipbrot bandaríska auðvaldskerfisins", hvorki meira né minna. Bandaríkin, forysturíki auðvaldsins, kveina nú og kvarta undan frjálsri samkeppni, aðallega við þróunarlandið Kína og "elliheimilið" ESB, og setja í kjölfarið tolla á varning frá þeim án nokkurra viðræðna innan WTO ! Svona gera menn ekki, nema þeir séu ákveðnir í að grafa undan sjálfum sér, því að sér grefur gröf, þótt grafi.
Það er einfeldningslegt, ef einhver heldur, að tollar á innflutning komi ekki niður á lífskjörum íbúanna, sem látið er í veðri vaka, að verið sé að vernda. Íslendingar afnámu fyrir 3 árum tolla og vörugjöld á öllum vörum, nema eldsneytisbílum og eldsneyti. Það bætti kjör landsmanna sannanlega. Bandaríkjamenn munu fljótlega átta sig á raunveruleikanum og væntanlega taka afstöðu samkvæmt því í þingkosningunum í nóvember 2018. Gæti þá þessum farsa lokið áður en gengið verður af frjálsum viðskiptum dauðum um langa framtíð.
Lítum á upphafið að þessum ósköpum. 15. júní 2018 gaf Trumpstjórnin út tvo lista með kínverskum vörum, sem hún hugðist skella 25 % tollum á, vöruandvirði miaUSD 50 árið 2017. Sá fyrri tók gildi 6. júlí 2018. Kínverjar endurguldu með eigin lista sömu upphæðar. Þá gaf Donald Trump skipun til Roberts Lighthizer, viðskiptafulltrúa BNA (USTR), að útbúa nýjan lista að virði miaUSD 200, sem á skyldi leggja 10 % toll, og hótaði enn öðrum, að vöruandvirði miaUSD 200. Heildin, miaUSD 450, er um 80 % af heildarútflutningi Kína til BNA. Kínverjar flytja hins vegar aðeins inn frá BNA fjórðung af útflutningsverðmætunum þangað. Það er ein af meinsemdunum, en segir ekki alla söguna.
Kína lítur á upphafsleik BNA sem einhliða brot á alþjóðlegum reglum um viðskipti (WTO). Lögð hefur verið fram kæra hjá WTO. Teymi Trumps heldur því fram, að Kínverjar hafi hafið þessi átök með því að stela þekkingu frá Bandaríkjamönnum og reka óheiðarlega viðskiptastefnu (undirboð). Þegar búið er að leggja tolla á, gleymist rétt og rangt og jafnvel hlutverk WTO í málinu. Dæmigert stríðsástand.
Skrifstofa USTR hefur tekið sér tíma til að velja vörur til tolllagningar. Hún vill valda bandarískum neytendum lágmarkskostnaði og kínverskum útflytjendum hámarkstjóni. Af vörunum á listum frá 15. júní 2018 voru 95 % af verðgildinu fjárfestingarvörur eða íhlutir. Það átti að draga úr skammtímaáhrifum á verðlag í BNA, þar sem framleiðslukostnaður hækkar sáralítið við álagninguna. USTR hefur líka reynt að tryggja, að bandarískir innflytjendur gætu fundið aðra birgja. Samkvæmt ITC (International Trade Centre) þá nemur hlutdeild Kínverja aðeins 8 % af heildarinnflutningi þessara vara.
Það fer þó ekki hjá því, að tollarnir skaði bandarísk fyrirtæki, því að þau verða fyrir kostnaði, en ekki alþjóðlegir keppinautar þeirra. Jafnvel þótt í hlut eigi vörur með lítilli kínverskri hlutdeild, getur verið hægara sagt en gert að skipta um birgi. Í yfirheyrslum þingnefndar skýrðu fulltrúar risans GE frá því, að sérhæfðir íhlutir þess fari í alls konar gæðaprófanir og opinbert samþykktarferli, en af 34 íhlutum, sem fyrirtækið vildi fjarlægja af tollalistum USTR, var enginn fjarlægður.
Að valda Kína tjóni gæti líka verið hægara sagt en gert. Trumpstjórnin vill hemja metnað Kínverja á þýðingarmiklum sviðum, sem þeir kalla "Made in China 2025". Þetta hittir Kanann þó sjálfan fyrir, því að samkvæmt Yang Liang í Syracuse háskólanum og Mary Lovely í Peterson Institute for International Economics, sem er hugveita í Washington DC, komu 55 % af hátækni útflutningsvörum Kínverja 2013 til BNA frá fyrirtækjum að fullu í erlendri eigu í Kína. miaUSD 3,6 virði hálfleiðara innflutnings frá Kína í eldlínunni eru aðallega frá bandarískum dótturfyrirtækjum, innihalda díóður, transistora og týristora, sem framleiddir eru í BNA og fluttir til Kína vegna tímafrekrar samsetningar og prófana.
Byrjunarandsvar Kínverja snertir landbúnaðarafurðir, sem aðallega koma frá ríkjum, sem studdu Trump 2016, svo að greinilega er stílað inn á kosningarnar í nóvember 2018 í þessu stríði. Eftir því sem stríðið magnast, dreifist tjónið um samfélagið. Árið 2017 fluttu Bandaríkjamenn inn vörur frá Kína fyrir miaUSD 505. Ef tollar verða lagðir á vörur fyrir miaUSD 250, svo að ekki sé minnzt á miaUSD 450, verður ómögulegt að forðast neytendavörur á borð við föt og rafeindatæki. Vörur með fáa staðgöngubirgja verða fyrir barðinu. Bandarískum innflytjendum mun reynast erfiðara en áður að forðast verðhækkanir til neytenda.
Dmitry Grozubinski hjá hugveitunni "International Centre for Trade and Sustainable Development" er með sláandi samlíkingu í greininni "Battle-lines drawn" í "The Economist" 23. júní 2018: "Viðskiptastríði má jafna við það að sprengja upp eigin borgir og blása rykinu og reyknum yfir landamærin í von um, að íbúunum þar (andstæðingunum) súrni í augum."
Árið 2017 fluttu Kinverjar aðeins inn fyrir miaUSD 130 frá Bandaríkjamönnum, svo að þeir hafa minna svigrúm í viðskiptastríði, en geta hins vegar gripið til annarra refsinga. Þeir gætu stöðvað námsmannaferðir og ferðalög Kínverja til Bandaríkjanna. Þeir gætu með beitingu reglugerða gert bandarískum fyrirtækjum erfitt fyrir í Kína. Samkvæmt upplýsingum frá Bandarísk-kínverska viðskiptaráðinu hefur kínverska ríkisstjórnin rætt við kínversk fyrirtæki um að finna staðgönguvörur fyrir bandarískar vörur, sem þau nota. Þetta mun leiða til minni bandarískra fjárfestinga í Kína, en bandarísk yfirvöld gráta krókódílstárum yfir því. Allt er þetta makalaust. Adam Smith, höfundur auðgunarstefnunnar, verður væntanlega ekki vært í gröfinni við þessi öfugmæli.
Þessi yfirferð ætti að sannfæra flesta um, að andstæðan við þá andstyggilegu og viðsjárverðu stöðu, sem upp er komin á milli stórvelda, þ.e. fríverzlun þeirra og annarra á milli, er hagstæðasta fyrirkomulagið. Leita þarf annarra leiða til að auka samkeppnihæfni landa og minnka viðskiptahalla en að leggja á innflutningsgjöld.
E.t.v. hefur bandaríkjadalur verið of hátt skráður undanfarið. Seðlabanki Bandaríkjanna hefur verið að þoka stýrivöxtum sínum upp, sem hefur leitt til fjárstreymis til BNA. Donald Trump hefur fyrstur Bandaríkjaforseta í háa herrans tíð gagnrýnt "Federal Reserve" fyrir vaxtastefnu seðlabankans, og hann hefur sakað ESB um að halda gengi evrunnar niðri til að styrkja viðskiptastöðu evrulandanna. Samtímis lætur hann skammirnar dynja á Þjóðverjum, enda eru þeir með yfir 5 % viðskiptaafgang af sinni VLF.
Þetta er mjög ósanngjörn gagnrýni, því að Þjóðverjar hafa verið manna gagnrýnastir á Ítalann Mario Draghi og bankastjórn ECB-evrubankans fyrir peningamálastjórnun bankans, sem Þjóðverjar telja auka of mikið peningamagn í umferð og verða verðbólguhvetjandi, er frá líður, og ræni þýzka sparifjáreigendur sanngjarnri ávöxtun af heiðarlegum sparnaði sínum, t.d. til elliáranna, en hvetji þess í stað til neyzlu. Þessi gagnrýni hefur t.d. komið frá yfirstjórn Bundesbank, banka ofurmarksins, DEM.
Þessir atburðir, sem að ofan er lýst, hafa eyðilagt gamalgróið traust, sem ríkt hefur á milli vestrænna ríkja yfir Atlantshafið. Það verður ekki endurreist í sjónhendingu. Þetta á líka við öryggis- og varnarmál. Afleiðingarnar verða stórvægilegar og alvarlegar.
Íslendingar hafa varnarsamning við Bandaríkin. Hvers virði er hann ? Við þessar aðstæður er Íslendingum hollast að reyna að stunda fríverzlun við sem flesta og ekki að loka sig af innan einhverra tollmúra, heldur ekki "Festung Europa", sem aðallega hefur verið fólgin í tæknilegum viðskiptahindrunum út á við á borð við framleiðslu- og gæðastaðla.
Árið 1918 endaði fyrri heimsstyrjöldin fyrir tilverknað Bandaríkjamanna með uppgjöf Miðveldanna. Woodrow Wilson, þáverandi Bandaríkjaforseti, boðaði árið 1918 sjálfstæði þjóðríkja. Sá boðskapur varð vatn á myllu íslenzku þingnefndarinnar, sem samdi um fullveldi við danska þingnefnd í Reykjavík 18. júlí 1918. Bandaríkin urðu fyrst til að viðurkenna lýðveldið Ísland 1944 og tryggðu öryggi þess. Árið 2018 brauzt út viðskiptastríð Bandaríkjanna við umheiminn. Hvernig fer með fullveldi landsins árið 2018 í hverfulum heimi ? Það er engum að treysta. Þjóðir eiga enga vini. Stundum fara hagsmunir sumra saman, og stundum fara hagsmunir annarra saman. Ræður íslenzka utanríkisráðuneytið fram úr þessari flóknu stöðu, þannig að hagsmunum Íslands verði borgið í bráð ? Það má efast.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Bjarni.
Það er rangt að allir tapi á viðskiptastríði Bjarni. Það er gömlum klisja. Sagan sannar að viðskiptahallalöndin vinna oftast viðskiptastríð, en viðskiptahagnaðarlöndin tapa þeim. Þetta er eins og að segja að allir tapi á kjarabaráttu og landhelgisdeilum. Þýskaland uppfyllir öll fjögur skilyrði WTO fyrir því að verða dæmt sem gjaldmiðlasvindlari, og 9 prósent viðskiptahagnaður þess af VLF, þverbrýtur einnig reglur ESB. Ríkin á sporbraut umhverfis Þýskaland eru á leið inn í svarthol, því Þýskaland er svarthol.
Þeir menn sem ávallt halda því fram að lágmarkskröfur til Þýskalands í milliríkja-samtarfi séu "ósanngjarnar", ættu alvarlega að endurskoða þá Versalasamningamótuðu skoðun sína, því hún stenst ekki. Ef NATO verður leyst upp þá er það fyrst og fremst Þýskalandi að kenna. Enda er það vonin sem Þýskaland bindur sig við. Það er að reyna að sökkva Evrópu, eina ferðina enn. Halda henni niðri og með því að láta hana halda sér uppi.
Það er einnig klisja að til sé "frjáls verslun". Og það er líka klisja að "frjáls verslun" sé alltaf til góðs. Hún er það alls ekki alltaf. Hún getur mjög svo hæglega verið stórkostlegt skaðræði, því það er ávallt lægsti sameiginlegi nefnarinn í fjölþjóðasamningum sem ræður för.
Eins og þú sérð eru bæri ESB og NAFTA að springa í loft upp. Mexíkó er orðið mögrum sinnum hættulegra ríki fyrir vikið og Þýskaland er orðið að nýju terrorríki í Evrópu. ESB hafði rangt fyrir sér alveg eins og Bill Clinton hafði rangt fyrir sér með NAFTA og Mexíkó, þar sem 9 stjórnmálamenn eru nú myrtir á mánuði.
Bestu kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 31.7.2018 kl. 11:38
Það er einnig fjarstæða að tala um einangrunarhyggju Bjarni, og alveg sérstaklega þegar að um Bandaríkin er að ræða. Þau eru eina ríki heimsins þar sem hver einasti einn af hverjum þremur dölum heimsins verða til. Þau eru ríki sem getur ekki einu sinni tekið ákvörðum um innkaup á banönum án þess að setja heimsmarkaðinn fyrir banana á annan endann. Svo allt tal um einangrun er út í hött. Bandaríkin munu vinna þetta viðskiptastríð og það er eins gott að búa sig undir þann sigur. Enda er hann sjálfgefinn, þar sem Bandaríkin eru því sem næst algerlega óháð útflutningi. Og þar sem allur heimurinn er vanur því að geta hent sparnaði sínum í hausinn á kapítalmörkuðum Bandaríkjanna og látið hann ávaxtast þar, þá er það umheimurinn sem hér þarf að passa sig, en ekki Bandaríkin. Þau hafa ekkert með þesss peninga umheimsins að gera, því fossandi offramboð er á sparifé í bandarískum fyrirtækjum. Þeim skortir ekki fé. Enda eru Bandaríkin eini frjálsi og opni kapítalmarkaður veraldar. Restin af heiminum er hins vegar kommabæli á ýmsum stigum.
Gunnar Rögnvaldsson, 31.7.2018 kl. 11:58
Þau ríki í NATO sem taka sig ekki á og láta sitt möglunarlaust af hendi til varnarbandalagsins og sem réttlætt getur það að Bandaríkin neyðist til að heyja kjarnorkustyrjöld, þeirra vegna, og eingöngu þeirra vegna, á að henda út úr NATO. Og þau ríki sem eru ekki sátt við sameiginlegan og stofnana-skilgreindan óvin varnarbandalagsins, verða að segja sig úr NATO. Annar er NATO algerlega sjálfhætt. Hér má líklega strax nefna Tyrkland og Þýskaland til hóps þeirra sem eiga varla lengur heima í NATO, þar sem Þýskaland er í vasanum á Rússlandi og Tyrkland berst gegn því og byggir loftvarnir sínar á rússneskum innkaupum.
Gunnar Rögnvaldsson, 31.7.2018 kl. 13:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.