Millilandaverzlun dregst saman

Það blæs ekki byrlega með alþjóðlega hagkerfið um þessar mundir, þegar helztu viðskiptastórveldin stunda þá ótrúlegu iðju að grafa undan heimsviðskiptunum með því að keppast við að leggja tolla á innflutning sinn frá stórveldi, sem þegar hefur lagt á verndartolla hjá sér.  Þar eigast Vesturveldin líka við innbyrðis, og hefði enginn trúað því fyrir 5 árum.  Allt mun þetta draga dilk á eftir sér, þótt vonandi verði WTO-Alþjóða viðskiptastofnuninni bjargað. Kínverjar hafa vissulega hagað sér illa.  Yfirvöld hafa t.d. heimtað nána samvinnu ("joint venture") við kínverskt félag, ef erlent iðnfyrirtæki fjárfestir í Kína, og til að erlenda fyrirtækið fái markaðsaðgang í Kína, hefur afhending nýjustu tækniupplýsinga verið skilyrðið.  WTO hefur ekki náð tökum á þessu vandamáli fremur en því, að kínversk útflutningsfyrirtæki eru í mörgum tilvikum að miklu leyti í höndum ríkisins, og þá er samkeppnin vissulega brengluð og hætt við undirboðum.  Nú hefur soðið upp úr.  Vonandi endar þetta viðskiptastríð fljótt og með því að styrkja WTO, færa stofnuninni meiri völd í hendur til að draga fyrirtæki og ríkisstjórnir til ábyrgðar fyrir brot á nýjum reglum WTO.  

Þó að Ísland sleppi við þetta viðskiptastríð, þá lenda slæmar efnahagslegar afleiðingar af þessu gjörningaveðri hart á Íslendingum, af því að efnahagur okkar er mjög háður utanríkisviðskiptum.  Minnkandi kaupmáttur erlendis leiðir til lægra verðs fyrir vörur okkar og þjónustu og getur jafnvel dregið úr ferðamannastraumnum hingað.  Flugfélögin og hótelgeirinn eru þegar illa sett, og ferðaþjónustan hérlendis mun lenda í verulegum hremmingum, ef ferðamannafjöldinn minnkar. Ýmsum kotbóndanum mun þykja fara verða þröngt fyrir sínum dyrum, ef Lufthansa verður ríkjandi í millilandafluginu hér.   

Raungengi ISK hefur hækkað meira en gengi annarra gjaldmiðla, sem við eigum í viðskiptum við og er núna í sögulegu hámarki.  Það slæma er, að þetta sögulega hámark er ósjálfbært, og núverandi staða er þess vegna tímabundin.  Það er aðeins ein leið af toppnum, eins og kunnugt er.  Hún heitir kjararýrnun, og gorgeir einhverra verkalýðsfrömuða breytir þar engu um.  Nú þarf að snúa bökum saman í varnarbaráttu til að lágmarka tjón heildarinnar.  

Raungengi er annað hugtak en nafngengi.  Styrkist raungengið, eins og gerzt hefur undanfarin misseri, er verðlag og/eða launakostnaður að hækka hraðar innanlands en erlendis, mælt í sömu mynt.  Raungengi launa hefur hækkað um 20 %-30 % á undanförnum árum, hvað sem gaspri blöðrusela í hópi s.k. verkalýðsforingja líður og túðri um ranga útreikninga, af því að neyzluvísitala og launavísitala séu rangar.  Þeir láta sem herskáir séu fyrir hönd umbjóðenda sinna, en þessir umbjóðendur og reyndar þjóðin öll verða fórnarlömb fíflagangs, sem fólginn er í órökstuddum launakröfum, sem atvinnulífið getur ekki borið núna, því að það er tekið að halla verulega undan fæti, sbr bullandi tap í ferðamannageiranum.  Ef verkalýðsleiðtogar átta sig ekki á, hvað það þýðir fyrir umbjóðendur þeirra, þá eru þeir ekki starfi sínu vaxnir.  

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður Efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA), greindi þessa stöðu rétt þegar 27. febrúar 2018 í viðtali við Baldur Arnarson í Morgunblaðinu:

""Viðsnúningurinn er hraðari en spáð var.  T.d. er að hægja verulega hratt á vexti ferðaþjónustunnar. Greinin hefur vaxið um tugi prósenta á milli ára undanfarin ár.  Nú er hins vegar að hægja á vextinum.  Hagvaxtarspár hafa breytzt verulega vegna breyttra forsenda, og við teljum mikilvægt að gefa því sérstakan gaum.  Allar spár gera nú ráð fyrir 2-3 % hagvexti á næstu árum, sem er auðvitað ágætis vöxtur í alþjóðlegum samanburði.  Þær forsendur geta þó breytzt og hafa verið að breytast samfara því, sem nýjar vísbendingar koma fram", segir Ásdís."

Síðan þetta var sagt hafa horfur alþjóðlegra efnahagsmála versnað ískyggilega.  Eldsneytishækkanir hafa þyngt róður margra atvinnugreina hérlendis, þ.á.m. sjávarútvegs og ferðaþjónustu.  Samtímis stundar ríkissjóður rányrkju á fyrrnefndu greininni með veiðigjaldi úr takti við afkomuna, og meginmillilandaflugfélögin tvö hérlendis berjast í bökkum vegna gríðarlegra fjárfestinga í flugkosti og harðrar samkeppni á flugleiðum til Íslands.  Þýzkum ferðamönnum hingað hefur fækkað mikið, og almennt halda Evrópumenn fastar um budduna en áður.  Bandarískum ferðalöngum hefur hins vegar fjölgað, og ekki er farið að slá á kaupgleði Bandaríkjamanna.

  Vegna nýjustu mjög neikvæðu þróunar alþjóðamála, sem Bandaríkjastjórn hrinti af stað með viðskiptastríði við Kínverja og hárri tollalagningu á vörur frá ESB, Kanada og Mexíkó, má búast við versnandi hag Bandaríkjamanna og stöðnun eða jafnvel samdrætti ferðamennsku almennt í heiminum. Það er mikil breyting.

Meðferð Bandaríkjamanna á WTO-Alþjóða viðskiptamálastofnuninni er hryllileg.  Líklega leiðir þessi ófriður Bandaríkjamanna á viðskiptasviðinu til hrörnunar viðskiptabandalaga á borð við ESB/EES ("Festung Europa") og aukinnar þróunar í átt til tvíhliða fríverzlunarsamninga, vonandi á grundvelli WTO, sem allir ættu að virða, ekki sízt höfundarnir, Bandaríkjamenn.  

Síðan snýr Ásdís sér að þróun kaupmáttar í téðu viðtali.  Þegar málflutningur hennar er borinn saman við hótanir og háreysti s.k. verkalýðsforingja undanfarið, hvarflar að manni, að hún og þeir búi ekki í sama landi.  Ásdís reisir málflutning sinn á staðreyndum, sem eru þessum verkalýðsforingjum aðgengilegar líka, en þeir hunza þær og reyna að sá vantrausti í garð þeirra, sem matreitt hafa þessar staðreyndir. Það er flónska.  Slíkt fær almenning til að álykta, að "hávaðaseggirnir" séu með óhreint mjöl í pokahorninu, stefna þeirra snúist ekki um að bæta kjör félagsmanna sinna í bráð og lengd, heldur sé meira í ætt við pólitískt prump sósíalista, fýlubomba úr iðrum stjórnmálanna, frá blöðruselum, sem einskis svífast, en lifa samkvæmt reglunni um, að tilgangurinn helgi meðalið.

""Við höfum upplifað fordæmalausa kaupmáttaraukningu á undanförnum árum. Laun hafa hækkað verulega samtímis því, sem ríkt hefur verðstöðugleiki, sem ekki var fyrirséður.  Fyrir því eru þó ýmsar ástæður.  Í fyrsta lagi vorum við heppin með þróun viðskiptakjara.  Þau hafa verið okkur hagstæð á undanförnum árum, sem hefur veitt aukið svigrúm til launahækkana. [Nú hafa viðskiptakjör versnað með hækkun eldsneytisverðs og margra annarra innflutningsvara, en verð á útflutningsvörunum er hætt að stíga í bili-innsk. BJo.] 

Í öðru lagi styrktist krónan verulega samfara miklum vexti ferðaþjónustunnar.  Það skilaði sér í verðlækkun á innfluttum vörum og þar með minni verðbólgu. [Nú eru tekjur af erlendum ferðamönnum jafnvel farnar að dragast saman-innsk. BJo.]

Í þriðja lagi kom til einskiptisaðgerða frá ríkisstjórninni, og t.d. voru gerðar breytingar á tollum og vörugjöldum, segir Ásdís og bendir á, að sú aðgerð hafi skilað lægra vöruverði."

"Við getum ekki treyst á, að allir þessir þættir endurtaki sig.  Í fyrsta lagi er óábyrgt að treysta áfram á hagstæð viðskiptakjör.  Við sjáum nú þegar, hvernig farið er að hægja á vexti ferðaþjónustunnar.  Frekari gengisstyrking krónunnar er því ólíkleg, a.m.k. í líkingu við það, sem verið hefur.  Þá getum við auðvitað ekki endurtekið leikinn aftur með breytingum á tollum og vörugjöldum."

Það er hins vegar eðlilegt í niðursveiflu að huga að skattalækkunum á einstaklinga og fyrirtæki.  Hvetja ætti til meiri sparnaðar í þjóðfélaginu með lækkun fjármagnstekjuskatts og huga ætti að lækkun virðisaukaskatts og tekjuskatts á fyrirtæki og að breytingum á fyrirkomulagi persónuafsláttar í þágu launþega með lægstu tekjurnar.

Þann 27. febrúar 2018 birtist í Morgunblaðinu góð grein eftir Halldór Benjamín Þorbergsson:

"Kjarasamningar snúast um lífskjör fólks",

þar sem hann færir rök fyrir því, að tímabil minnkandi hagvaxtar sé hafið.  Greinin hófst þannig:

"Kjaraviðræður eru samningar um lífskjör fólks og um jákvæða þróun samfélagsins.  Og sú þróun hefur verið gríðarlega hagstæð á undanförnum árum.  Kaupmáttur hefur aukizt á tíma gildandi samninga frá apríl 2015 um 20 % og um 25 % hjá þeim lægst launuðu.  Það er Evrópu- og Íslandsmet."

Síðan rekur hann, að bættur hagur hafi að hluta verið nýttur til að bæta efnahagslegan mótstöðukraft gegn nýrri efnahagslægð, sem örugglega mun koma:

"Íslenzk heimili, fyrirtæki og hið opinbera, hafa nýtt uppsveifluna til að greiða niður skuldir, og eru Íslendingar nú orðnir hreinir lánveitendur til útlanda.  Hrein erlend skuldastaða þjóðarbúsins er loksins orðin jákvæð.  Þetta er undraverður árangur, ekki sízt þegar horft er til þess, að fyrir örfáum árum glímdi Ísland við alvarlegan skuldavanda."

Þá rekur Halldór Benjamín nokkur merki um, að nú séum við á leið niður eftir þessa uppsveiflu:

"Fyrsta vísbending er vaxandi atvinnuleysi.  [Þrátt fyrir gríðarlega fjölgun í landinu vegna aðfluttra hélzt atvinnuleysi í aðeins tæplega 3,0 þar til á 2. ársfjórðungi 2017, en tók þá að hækka og er nú tæplega 4,0 %-innsk. BJo.] ...

Önnur vísbending er minnkandi spenna í efnahagslífinu.  [Sannleikurinn er sá, að aðfluttir og gengishækkun ISK hafa dregið úr framleiðsluspennu og þar með hjálpað til við að ná jafnvægi í hagkerfinu á nýjan leik. Ef jákvæður viðskiptajöfnuður minnkar mikið vegna minni útflutningstekna og meiri innflutnings, mun gengi ISK lækka, en það mun væntanlega auka verðbólgu, sem enn dregur úr atvinnu og rýrir lífskjörin-innsk. BJo.] ...

Þriðja vísbending er í ferðaþjónustu. [ Á þessu ári verður lítil fjölgun erlendra ferðamanna og sums staðar fækkun.  Tekjur af þeim hér innanlands (flug ekki meðtalið) gætu jafnvel dregizt saman í ISK-innsk. BJo.] ....

Fjórða vísbending er í fréttum úr atvinnulífinu.  Nær daglega birtast fréttir af íslenzkum fyrirtækjum, sem finna fyrir versnandi samkeppnisstöðu við útlönd.  Það, sem helzt veldur fyrirtækjunum áhyggjum, er hátt gengi krónunnar og íþyngjandi launakostnaður.  Skyldi engan undra.  Raungengi íslenzkra launa, þ.e. hlutfallslegur kaupmáttur þeirra í erlendri mynt saman borin við laun í öðrum ríkjum, hefur rokið upp á síðustu árum."

Nú þarf að leggja áherzlu á að halda sjó.  Það verður bezt gert með því að gera a.m.k. árshlé á launahækkunum á meðan í ljós kemur, hvað verður um heimshagkerfið á þessum óvissutíma.  Í versta tilviki stefnir í heimskreppu, og þá er nú aldeilis betra að rifa seglin hér í tæka tíð, en spenna ekki bogann um of á versta tíma.  Við vitum hvað það þýðir.  Kreppan verður þá enn dýpri og sársaukafyllri hér en annars staðar.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Góð yfirferð hjá þér, Björn Jónsson.

Öll arhugasemdin:  

https://jonasg-egi.blog.is/blog/jonasg-egi/entry/2221020/

Trump, virðist vilja og ætla, að ná nokkrum jöfnuði í inn og útflutningnum.

Í Bandaríkjunum, er sagt að fækkað hafi í miðstéttinni  og elítan hafi tekið meira til sín.

000

Hér á Íslandi hækkuðum við gengið á íslensku krónunni, til að fyrirtækin gætu ekki greitt niður skuldir sínar.

Fjármálakerfið vill að fyrirtækin og fólkið geti ekki greitt niður lánin, það er fjármálabókhaldið.

Fjármálakerfið, vill alls ekki fá bókhaldstöluna til baka, því að talan er ekkert verðmæti.

Fjármálakerfið, vill fá eignirnar, þær eru verðmætið.

000

Fyrirfólkið hækkaði launin sín.

Egilsstaðir, 05.08.2018  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 5.8.2018 kl. 13:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband