Kúvending Bandaríkjanna

Bandaríkjaforseti hefur sett af stað viðskiptastríð við Kína, Kanada, Mexíkó, Evrópusambandið (ESB) og Japan, eins og upp úr þurru. Hér eru mikil firn á ferð, sem hafa munu víðtækar og alvarlegar afleiðingar um allan heim.  Margir binda þessi ósköp við persónu Donalds Trumps, en hvers vegna hefur bandaríska þingið þá ekki gripið í taumana  og sett honum stólinn fyrir dyrnar ?  Þingmenn eru sennilega á báðum áttum um vilja kjósenda í þessum efnum, og kjósendur munu tjá hug sinn í nóvember 2018.  Því miður verður að álykta, að hér sé um stefnubreytingu að hálfu Bandaríkjanna að ræða í alþjóða viðskiptamálum.

Ef það reynist rétt, er það alger uppgjöf Bandaríkjamanna á sviði frjálsrar samkeppni, hornsteins auðgunarstefnunnar, kapítalisma Skotans Adams Smiths o.fl. Þessi hegðun er veikleikamerki að hálfu Bandaríkjanna, sem mun gera Bandaríkin enn þá veikari og að hornkerlingu í alþjóða samstarfi. 

Þetta er jafnframt pólitískt gjörningaveður, sem gjörbreyta mun valdahlutföllum í heiminum og dæma Bandaríkin til minni áhrifa en nokkru sinni síðan fyrir Fyrri heimsstyrjöld.  Hugsanlegt er, að einangrunarhyggja taki völdin í Bandaríkjunum, ef ekki verður stefnubreyting eftir næstu þingkosningar og forsetakosningar þar.  Utanríkisráðuneytið hér hlýtur að kanna, hvort staðfesta Bandaríkjamanna um að standa við Varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna stendur óhögguð í þessu gjörningaveðri, þar sem allt er upp í loft. 

Finnur Magnússon, hæstaréttarlögmaður og aðjunkt við Lagadeild HÍ, ritar grein um síðustu atburði á sviði alþjóðaviðskipta á Sjónarhóli Morgunblaðsins 26. júlí 2018,

"Fríverzlun á tímamótum" ,

þar sem hann skrifar m.a.:

"Gagnrýni Bandaríkjastjórnar beinist nú gegn helztu bandamönnum Bandaríkjanna, s.s. Kanada, Evrópusambandinu og Japan, og hefur leitt til álagningar verndartolla á vörur innfluttar m.a. frá þessum löndum.  Hér kveður við nýjan tón, sem mun að öllum líkindum leiða til grundvallarbreytinga á meira en hálfrar aldar fyrirkomulagi í alþjóðaviðskiptum."

Það er ástæða til að óttast, að Finnur hafi rétt fyrir sér um þetta.  Þá vaknar spurningin um það, hvernig Íslendingar koma ár sinni bezt fyrir borð í þessum ólgusjó.  Við höfum fellt niður alla tolla, nema á bílum, eldsneyti og sumum matvælum, og viljum hafa frjálsan aðgang að öllum mörkuðum fyrir vörur okkar og þjónustu.  Þá er áreiðanlega affarasælast að láta ekki loka sig inni í neinu tollabandalagi, eins og EES, heldur að stefna á gagnkvæma fríverzlunarsamninga við sem flesta og þátttöku í fríverzlunarsamtökum Evrópu, EFTA. 

Þessi þróun alþjóðamála ýtir með öðrum orðum undir það að segja upp EES-samninginum, enda er hann gjörsamlega vonlaust fyrirkomulag til frambúðar í viðskiptalegum efnum.  

Athugum nú, hvernig Finnur Magnússon lauk téðri grein sinni:

"Önnur afleiðing verndartolla Bandaríkjanna er, að þau ríki, sem aðhyllast frjáls vöruviðskipti, hafa tvíeflzt í afstöðu sinni til frelsis í alþjóðaviðskiptum.  Hinn 17. júlí sl. gerðu Evrópusambandið og Japan með sér einn stærsta fríverzlunarsamning, sem gerður hefur verið.  Samningurinn mun afnema tolla að allmestu leyti á milli þessara aðila.  Svo að dæmi sé nefnt, þá verða afnumdir tollar á 99 % japanskra vara innfluttra til Evrópusambandsins og af 94 % evrópskra vara innfluttra til Japan.  Það mun leiða til lægra vöruverðs til hagsbóta fyrir neytendur og fyrirtæki í Evrópu og Japan.  

Er nú svo komið, að bandamenn Bandaríkjanna, s.s. Japan og Suður-Kórea, hafa  ákveðið að draga úr samvinnu sinni við Bandaríkin á sviði frjálsra vöruviðskipta og leitast við að gera fríverzlunarsamninga sín á milli án aðkomu Bandaríkjanna.  Er hér um stefnubreytingu að ræða, enda ljóst, að þessi ríki hafa horft mjög til Bandaríkjanna á þessu sviði um áratugaskeið. 

Af þessu leiðir, að nú reynir sem aldrei fyrr á regluverk alþjóðaviðskipta, þ.e. GATT-samninginn frá 1947, og undirsamninga þess samnings, og WTO-samninginn frá 1994.  Ef svo fer, að Bandaríkin tapi fyrrnefndum ágreiningsmálum [á vettvangi WTO-innsk. BJo], er ekki hægt að útiloka, að Bandaríkjastjórn dragi sig út úr þessum samningum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.  Verður þá komin upp ný staða í alþjóðamálum.  Fjölþjóðlegir samningar um vöruviðskipti munu þá heyra sögunni til, og algengustu samningar á sviði vöruviðskipta verða að öllum líkindum tvíhliða þjóðréttarsamningar."

Hér skal taka undir lokaályktun höfundarins og álykta á þeim grunni áfram, að þessi þróun viðskiptamála heimsins ýtir undir það, að Íslendingar segi upp þeim fjölþjóðlega og um margt stjórnarfarslega íþyngjandi (yfirþjóðlega) viðskiptasamningi, sem í gildi er á milli Íslands, ESB, Noregs og Liechtenstein, s.k. EES-samningi, og sækist í staðinn eftir tvíhliða þjóðréttarsamningi á viðskiptasviði og jafnvel fleiri sviðum.  

Martin Wolf, dálkahöfundur "Financial Times", er þungorður í garð Donalds Trumps, enda eru gjörðir hans dæmalausar og hafa nú þegar grafið undan trausti hefðbundinna bandamanna Bandaríkjanna á þeim með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.  Morgunblaðið birti grein eftir hann 12. júlí 2018,

"Trump skapar glundroða með tollastríði".

Greinin hófst með einstæðum hætti, þegar um er að ræða Bandaríkjaforseta:

"Leiðtogi valdamestu þjóðar heims er bæði hættulegur maður og fáfróður.  Hvernig á heimsbyggðin að bregðast við honum ?  Það er erfitt að finna svarið, því að Donald Trump hefur tekizt að skapa mikinn glundroða.  Það er erfitt að semja við manninn einmitt vegna þess, að enginn veit fyrir víst, hvað það er, sem hann, eða fólkið í kringum hann, vill í raun.  Þetta er allt annað en eðlilegt ástand." 

Það er illa komið fyrir Vesturlöndum, þegar forysturíki þeirra lýtur stjórn, sem bandamennirnir telja algert ólíkindatól.  Ef þingkosningarnar í nóvember í ár verða til að treysta forsetann í sessi, þá má jafnvel búast við, að viðskiptastríð Bandaríkjanna muni leiða til einangrunar þeirra.  Hvað verður þá um NATO ?  Það er furðulega lítil umræða farin af stað um það, að jafnvægið í heiminum er á tjá og tundri fyrir tilverknað ríkis, sem verið hefur í forystu ríkja, sem vilja stunda frjálsan markaðsbúskap.  

"Ríkisstjórnin hefur réttlætt tolla á stál og ál, sem þegar eru í gildi, með vísan til þjóðaröryggis.  Sömu rök liggja að baki rannsókn á innflutningi á bílum, sem hófst í maí.  Það var einmitt vegna þess, að menn óttuðust, að lönd myndu misnota heimild til undanþágu vegna þjóðaröryggis, að reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eru þröngt skilgreindar.  Þar er tiltekið, að undir viðskipti, sem gætu varðað þjóðaröryggi, falli t.d. verzlun með "klarnakleyf efni" og "viðskipti með vopn, skotfæri, stríðstól og aðrar vörur, sem beint eða óbent eru notaðar í hernaði", og fjallað um "aðgerðir, sem gerðar eru á stríðstímum, eða þegar neyðarástand af öðrum toga skapast á alþjóðavettvangi".

Ál- og stáltollarnir og hvað þá heldur tollar á bifreiðar, brjóta greinilega gegn reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, og ef viðskipti við Kanada stefna þjóðaröryggi Bandaríkjanna í voða, hvaða landi stafar þeim þá ekki ógn af ?  Ef bílar hafa eitthvað að gera með þjóðaröryggi, hvaða vörur gætu þá mögulega ekki varðað öryggishagsmuni þjóðarinnar ?  

"Verndarstefna mun auka velmegun okkar og styrk", sagði Trump, þegar hann sór embættiseið sinn.  Því miður var honum full alvara."

Það er ekki annað hægt en að taka undir þessa gegnrýni Martins Wolf á Donald Trump.  Bandaríkin þverbrjóta reglur WTO, og geta með framferði sínu gengið af Alþjóðaviðskiptastofnuninni dauðri í krafti stærðar sinnar.  Þá er líklegt, að önnur ríki taki höndum saman um að endurreisa WTO og kannski fela henni auknar valdheimildir.  Það verður fróðlegt að sjá, hver gengur þar fram fyrir skjöldu.  Verður það e.t.v. Bretland eða Þýzkaland, eða þau tvö ríki og Japan ?  

Áfram heldur Martin Wolf:

"Og hvar endar þetta allt saman ?  Paul Krugman, einn af fremstu viðskiptahagfræðingum heims, telur, að þróist málin á þann veg, að allir verði komnir í tollastríð gegn öllum, þá muni alþjóðaviðskipti minnka um 70 %.

Það kemur á óvart, að framleiðsla á heimsvísu myndi hins vegar aðeins dragast saman um 3 %.  Þessar tölur ganga út frá forsendum reiknilíkana, sem taka ekki með í reikninginn þá röskun, sem á sér stað í hagkerfum þjóða og þá óvissu,sem skapast, þegar alþjóðahagkerfið lagar sig að breyttum leikreglum.  Þessi líkön taka heldur ekki með í reikninginn, hvernig það mun draga þróttinn úr hagkerfum þjóða, þegar alþjóðleg samkeppni minnkar.  Síðast en ekki sízt líta reiknilíkönin framhjá þeirri óvild, sem tollastríð geta skapað.  Er næsta víst, að velvild á milli þjóða yrði ekki svipur hjá sjón."  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Fyrir hvern yrði einangrunarstefna USA slæm?  Þeir vestra mega það og geta það. Margir hafa bent á að bandaríkin eru svo gott sem sjálfbær innbyrðis.  WHO snýst auðvitað aðeins um heiðarlega viðskiptahætti, ekki beinlínis óheft og/eða skilyrðislaus viðskipti.

Kolbrún Hilmars, 7.8.2018 kl. 15:42

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Einangrunarstefna BNA mundi geta leitt til þess, að lýðræðisríki heimsins yrðu forystulaus.  Þá er hætt við, að draga myndi verulega úr hernaðarlegri nærveru Bandaríkjamanna og að metnaðarfull stórríki á borð við Kína fylli skarðið.  Hvað verður um NATO við þessar aðstæður er mikið vafamál.  Heimurinn yrði að mínu mati óöruggari, ef Bandaríkjamenn draga sig inn í skel sína.  

Bjarni Jónsson, 7.8.2018 kl. 15:52

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Bjarni, afsakaðu stafarugl mitt hér að ofan - átti ekki við alþjóðaheilbrigðisstofnunina WHO heldur alþjóðaviðskiptastofnunina WTO!

Kolbrún Hilmars, 7.8.2018 kl. 15:55

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Auðvitað yrði heimurinn óöruggari, tala nú ekki ef NATÓ fylgdi með og margt annað sem bandaríkin hafa kostað síðan þau voru síðast dregin útúr einangrun sinni, fyrir einum 75 árum.  

Kolbrún Hilmars, 7.8.2018 kl. 16:02

5 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Áður en fjárfestar, náðu af okkur bestu fisksölufyrirtækjunum, með, fyrst verðbólga, og síðan verðhjöðnun, og seldu þau til Kanada, þá seldu fyrirtækin fiskinn okkar á hæsta verði í hágengis landinu, Bandaríkjunum.

Síðan keyptum við vörurnar, sem við þurftum að nota í lággengis löndum, á lægsta hugsanlega verðinu.

Þannig gátum við selt á háu verði og keypt á lágu verði.

Bandaríkin létu þetta afskiptalaust.

Sjálfsagt að hjálpa þessari smáþjóð.

Skinsamar þjóðir, reyna að hafa lágt gengi hjá sér, til að þjóðin geti sem minnst keypt frá útlöndum.

Og þá eru launin höfð lægri en í hágengislandinu, og þá er hægt að búa til vörur sem eru ódýrari en í hágengislandinu.

Á þennan máta er búin til viðskipta ójöfnuður á milli hágengis landsins, og lággengis landsins.

Þennan ójöfnuð hefur Trump einsett sér að laga.

Egilsstaðir, 08.08.2018  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 8.8.2018 kl. 01:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband