Vita þau, hvað þau gera ?

Megineinkenni EES-samningsins er, að hann framkallar stríðan straum s.k. Evrópugerða, laga og tilskipana, frá stofnunum Evrópusambandsins og til þjóðþinga EFTA-ríkjanna, sem í þessari EES-spennitreyju eru.  Ætlazt er til, að þjóðþingin stimpli gjörningana sem góð og gild fyrir sitt fólk, þótt það hafi í fæstum tilvikum nokkurs staðar komið nærri tilurð gjörninganna.  Þetta er eins ólýðræðislegt og hugsazt getur, enda afrakstur embættismanna sem biðleikur fáeinna landa inn í Evrópusambandið.  Það er löngu orðið ljóst, að hvorki Ísland né Noregur eru á leið inn í Evrópusambandið, og þess vegna er þessi EES-vist orðin tímaskekkja á þessum BREXIT-tímum.  

Um hina lagalegu hlið þessara óskapa var ritað í forystugrein Morgunblaðsins 4. september 2018:

"Gamalt og gallað þá og gallað nú":

"Einhverjir virðast hafa gælt við, að hægt yrði að lauma þingsályktunum og síðar lagafrumvörpum í gegnum Alþingi, þótt um næsta ótvíræð stjórnarskrárbrot sé að ræða, þar sem málið [Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn-innsk. BJo] væri í senn flókið og fráhrindandi fyrir almenning.

Það var upplýst á fundi í Valhöll sl. fimmtudag [30.08.2018 - innsk. BJo], að yfirgnæfandi líkindi eru til þess, að þannig hafi fjöldi afgreiðslna verið færður inn í íslenzka lagasafnið, sem stendur vart mikið lengur undir því nafni.  Það hafi verið gert gegn betri vitund, og afsökunin hafi gjarnan verið sú, að löggerningarnir tækju hver og einn til tiltölulega smávægilegra þátta, og því væru stjórnarskrárbrotin afsakanlegri eða að minnsta kosti ólíklegra, að einhverjir rækju hornin í þau.  

En eins og sérfræðingurinn í þessum fræðum minnti á, þá hljóta menn ekki aðeins að horfa á hvert mál fyrir sig, heldur einnig á heildaráhrifin á stöðu EES-samningsins gagnvart stjórnarskránni."

Þetta er nokkuð augljóst og jafnframt það, að rökleysa er að verja upptöku nýrra gjörninga með því, að þeir séu á vel afmörkuðu sviði. Það eru engin rök hér, þótt þeim sé hægt að beita í Noregi, því að aðferðin við upphaflega lögleiðingu EES-samningsins þar var öðru vísi en hér vegna þess, að stjórnarskrár þjóðanna tveggja eru ekki eins.  Þar er gert ráð fyrir, að aukinn meirihluti Stórþingsmanna, þ.e. 75 % mættra þingmanna (og að lágmarki 2/3 séu mættir við atkvæðagreiðslu) þurfi til að samþykkja lög, sem fela í sér afmarkað framsal fullveldis til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Noregur ekki er aðili.

Síðan þá segja menn sem svo í Noregi, að upptaka Evrópugerða af öllu tagi sé samt mun minni gjörningur en samþykkt EES-samningsins, og þess vegna dugi einfaldur meirihluti Stórþingsins.  Þetta hefur þó ekki verið undantekningalarlaust í Noregi, og nú hefur kæra verið lögð fyrir Hæstarétt landsins vegna málsmeðferðar á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB í marz 2018, þar sem forsætisnefnd þingsins ákvað að láta einfaldan meirihluta duga, þótt um fullveldisframsal í viðamiklum og þjóðhagslega mikilvægum geira væri að ræða.   

Á Íslandi horfir hins vegar málið þannig við, að þegar í upphafi, þ.e. í janúar 1993, var teflt á tæpasta vaðið og þolmörk Stjórnarskrárinnar reynd til hins ýtrasta við samþykkt EES-samningsins.  Síðan er búið að bæta um 12´000 lögum og tilskipunum ESB við EES-samninginn, svo að lögfræðileg skoðun á samninginum í heild hlýtur óhjákvæmilega að leiða í ljós, að núverandi EES-samningur brjóti gegn Stjórnarskrá.  

Síðan vitnar höfundur forystugreinarinnar í Morgunblaðsgrein fyrrverandi Alþingismanns og iðnaðarráðherra, Sighvats Björgvinssonar, sem einnig hafa verið gerð skil hér á vefsetrinu, og skrifar:

"Það er auðvitað hárrétt hjá Sighvati Björgvinssyni, að efnislegu rökin, sem liggja þegar á borðinu, horfa öll til þeirrar niðurstöðu, að þessum fráleitu hugmyndum hljóti menn að hafna þegar í stað og leiða ekki huga að þeim framar. Og engar forsendur, sem halda, liggja til þess að þvinga Ísland til slíkra aðgerða.

En hitt er svo til viðbótar og er úrslitaatriði.  

Jafnvel þótt þannig stæði á, að efnislegu rökin væru ekki til þess fallin að blása þetta mál út af borðinu með svo afgerandi hætti, þá væri ekki hægt að samþykkja væntanleg frumvörp, þar sem sjálf íslenzka stjórnarskráin stendur gegn því."

Á fundi Heimssýnar o.fl. í Háskóla Íslands 10. september 2018 voru 5 Alþingismenn með framsögu.  Það vakti athygli pistilhöfundar, hversu litla beina athygli þingmennirnir veittu Stjórnarskránni í framsöguerindum, þótt hún hafi kannski mótað afstöðu sumra óbeint, enda er búið að venja þá við að samþykkja stórar Evrópugerðir, sem greinilega fela í sér framsal ríkissvalds um málefni lögaðila og einstaklinga, hvað þá um málefni ríkisvaldsins.  Síðust slíkra innleiðinga var hin alræmda persónuverndarlöggjöf, sem reynist mörgu fyrirtækinu óþægur ljár í þúfu og mun reynast þeim öllum dýr á fóðrum.

Segja má, að Miðflokksþingmaðurinn, Sigurður Páll Jónsson, hafi mætt ákveðnastur til leiks á Háskólatorg, en hann lýsti því yfir, að "allir þingmenn Miðflokksins væru á einu máli um afstöðuna", þ.e. að greiða atkvæði gegn Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Það voru mjög mikilvægar og ánægjulegar upplýsingar fyrir áheyrendur á þessum fundi Heimssýnar o.fl.

Fullyrða má, að það hafi ráðið miklu um afstöðu margra þingmanna í janúar 1993, þegar atkvæði voru greidd á Alþingi um EES-samninginn í upphafi, að í honum var neitunarvald gegn viðbótum við samninginn afhent þjóðþingum EFTA-landanna.  Hegðun sumra þingmanna nú skýtur þess vegna mjög skökku við, þegar þeir láta, eins og himinn og jörð muni farast, og EES-samningurinn verði í uppnámi, ef Alþingi notfærir sér synjunarrétt sinn í fyrsta skipta til að hafna Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Þetta er þeim mun undarlegra sem það er nákvæmlega tilgreint í EES-samninginum sjálfum, til hvaða aðgerða ESB er heimilt að grípa, ef svo ber undir. ESB má í mesta lagi fella burt gerðir og tilskipanir af sama málefnasviði og hafnað var.  Í þessu tilviki er það Orkumarkaðslagabálkur 1 og 2.  Það væri nánast marklaus aðgerð að hálfu ESB, svo að langlíklegast er eftir sáttaferli, sem fara á af stað, að málið verði úr sögunni og Norðmenn og Liechtensteinar geri sérsamninga um snurðulaus raforkuviðskipti við ESB.

Það er nánast sorglegt að horfa upp á þingmenn gera því skóna, að aðgangur Íslands að Innri markaði ESB verði í húfi og jafnvel allur EES-samningurinn í uppnámi.  Þetta er einskær hræðsluáróður, sem varð alræmdur á Icesave-tímanum.  Ef samstarfsaðilar okkar í EES á ESB-hlið ætla að grípa til slíkra óþverrabragða, þá eru það ólögleg viðbrögð og sýna, að slíkum mönnum er bezt að halda í hæfilegri fjarlægð.   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Örn Einar Hansen

Corruptissima re publica plurimae leges.

Örn Einar Hansen, 17.9.2018 kl. 18:39

2 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Sæll Bjarni.

Það liggu fyrir að þetta skiptir ekki máli fyrir okkur meðan við erum eyland í rafmagnsmálum. Við leggjum engan rafstreng og málið er dautt.

Tryggvi L. Skjaldarson, 18.9.2018 kl. 13:24

3 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Fleiri lög, því spiltara er ríkið.cry

Egilsstaðir, 18.09.2018  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 18.9.2018 kl. 17:05

4 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Við höfum reynsluna, engin rafstrengur til Evrópu, en þó erum við að selja kjarnorku, olíu og kola rafmagn, allt í svindli.

Verður allt í svindli með orkupakkann? Allt var í svindli með afleiður og hús btéf fjármálakerfisins.

Er ástæða til að láta alltaf spila með sig?

Egilsstaðir, 18.09.2018  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 18.9.2018 kl. 17:15

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Tryggvi;

Það er nú meinið, að það er með öllu óljóst, hvort fjárfestar munu fá leyfi fyrir lagningu og tengingu sæstrengs eftir samþykkt Þriðja orkupakkans.  Ég fæ ekki betur séð en ágreiningur á milli Orkustofnunar (OS), sem formlega veitir leyfið, og Landsreglarans, sem ákveður öll skilyrði, sem umsækjandi þarf að uppfylla í umsókn um strengleyfi, lendi hjá ESA og síðan hjá EFTA-dómstólinum.  Í uppsiglingu í Noregi er ágreiningur á milli norskra stjórnvalda og ESB út af aflsæstreng til Skotlands, sem er í bígerð.  Ef Alþingi samþykkir Þriðja orkupakkann, fer hann inn í 4. viðauka EES-samningsins.  Stórþingið gerði 8 fyrirvara við samþykkt sína og var einn um, að allir sæstrengir yrðu í eigu Statnetts, sem er norska Landsnet.  Þetta stangast á við reglur ESB um athafnafrelsi og frjálsa samkeppni.  Deilur um þetta búast ýmsir Norðmenn við, að lendi að lokum hjá EFTA-dómstólinum.  

Bjarni Jónsson, 18.9.2018 kl. 18:09

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jónas;

Ég hygg, að áður en að sæstrengslögn kemur, verði búið að selja a.m.k. hluta Landsvirkjunar á EES-markaði.  Þú getur sjálfur séð til hvers það leiðir bæði án og með sæstreng. 

Bjarni Jónsson, 18.9.2018 kl. 18:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband