Að beiðni iðnaðarráðherra hefur verið samin skýrsla um lagalegar hliðar Þriðja orkumarkaðslagabálksins í íslenzku umhverfi, og sagði Morgunblaðið lauslega frá henni 18. september 2018 undir fyrirsögninni:
"Innleiðing orkupakka brýtur ekki blað í EES".
Af þessu getur lesandinn ályktað, að hér sé á ferðinni "business as usual", þ.e. ósköp venjuleg innleiðing á Evrópugerð, þótt í stærri kantinum sé, í EES-samninginn og í íslenzka lagasafnið þar með. Rýni skýrslunnar bíður betra tóms, en niðurstöðurnar, eins og þær birtast í Morgunblaðsfréttinni, sýna, að mjög mikið vantar á, að öll sagan sé sögð. Hér er ekki um léttvægt mál að ræða, eins og iðnaðarráðherra kappkostar að telja fólki trú um, heldur stórmál með geigvænlegum afleiðingum fyrir stjórn orkumálanna í landinu.
Elías B. Elíasson, verkfræðingur, vann um áratugaskeið við orkumarkaðsmál hjá Landsvirkjun og hefur krufið Þriðja orkumarkaðslagabálkinn einna bezt hérlendra manna. Segja má, að Elías hafi reifað áhættugreiningu sína um þennan Þriðja orkupakka á Fésbókarþræði þessa pistilhöfundar sunnudaginn 16. september 2018, og hefur hann veitt leyfi fyrir birtingu hennar hér:
- "Eins og málin standa, þá telja margir, að Alþingi eigi síðasta orðið. [Lagaprófessor og Evrópufræðingur við háskólann í Tromsö, Peter Örebech, hefur hrakið það í gagnrýni á greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, sem birt verður innan tíðar, að Alþingi hafi lokaorðið um sæstrengstengingu eftir samþykkt Þriðja orkupakkans-innsk. BJo.] Það að fá hingað sæstreng er þó ekki flóknara en það að bíða eftir heppilegum meirihluta.
- Það er rétt hjá Bjarna [Jónssyni], að Landsreglarinn mun hafa vald til að láta Landsnet styrkja kerfi sitt, svo að hægt sé að tengja slíkan streng.
- Ef strengurinn er lagður sem einkaframkvæmd, koma fleiri lög til álita en orkupakkinn, enda skulu viðskipti með vöru og þjónustu vera frjáls innan ESB. [Prófmál um valdmörk norskra yfirvalda gagnvart einkaframtakssæstreng er nú í uppsiglingu í Noregi - innsk. BJo.]
- ESB getur hvenær sem er breytt lögum, svo að það verði skylda okkar að taka við sæstreng. Það mun vera búið að skrifa 4. orkupakkann, og efalaust er sá 5. á leiðinni. Það mun varla reynast erfiðara að koma þeim pökkum í gegnum Alþingi en þeim 3.
- ESB hefur enga hagsmuni af, að við tökum upp 3. orkupakkann, nema hingað komi sæstrengur, og er þess vegna ósveigjanlegri en ella.
- Ef sæstrengur kemur, er raforkuöryggi landsins í hættu vegna almennra ákvæða í lögum ESB, sem einnig gilda á EES-svæðinu með viðskipti með vöru milli landa. [Hér má nefna kafla 11,12 og 13 um hömlur á magntakmarkanir í viðskiptum-innsk. BJo.] Rafmagn er samkvæmt ESB og EES vara. Enn hefur engin leið fundizt framhjá þessum lögum. Tjón okkar, ef það versta kemur upp í þessu máli, mælist ekki í milljörðum, heldur billjónum [þúsundum milljarða. Við bilun í sæstreng og lága stöðu í miðlunarlónum á óheppilegum tíma getur þurft að grípa til rafmagnsskömmtunar með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir framleiðsluferli landsins - innsk. BJo.].
Niðurstaða: það er beinlínis kjánalegt að gera ekki ráð fyrir sæstreng, þegar möguleg áhrif 3. orkupakkans á íslenzka þjóð og efnahag eru metin, og með tilliti til alvarleika málsins ber stjórnvöldum skylda til að tryggja okkur fullkomlega gegn lagningu sæstrengs. Eina örugga leiðin virðist sem stendur vera sú að fella orkupakkann og koma okkur út úr hinum sameiginlega innri markaði. Hins vegar eru nægar ástæður til að fella pakkann, þótt sæstrengur komi ekki."
Iðnaðarráðherra og utanríkisráðherra ættu að huga rækilega að þessum varnaðarorðum Elíasar B. Elíassonar, verkfræðings. Alveg sérstaklega ættu ráðherrar og aðrir þingmenn að gefa gaum að niðurstöðu hans, kostnaðarmati á tjóni og skyldum stjórnvalda gagnvart þjóðinni. Skoðun Elíasar á þessu máli er reist á áratuga reynslu hans af að fást við raforkumarkað og nákvæmum athugunum hans á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Ábyrgðarhluti þeirra þingmanna, sem hundsa vel rökstudd varnaðarorð, verður mikill. Þeir munu ekki geta afsakað sig með því, að þeir hafi ekki vitað betur, því að þeir máttu vita betur.
Hvernig bregzt iðnaðarráðherra við gagnrýni á hana fyrir eindreginn stuðning hennar við innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi, þvert gegn vilja yfirgnæfandi meirihluta kjósenda hennar og flokks hennar ? Hún fær lögfræðing án sérþekkingar á raforkumarkaði og án mikillar reynslu af Evrópurétti, svo að vitað sé, til að semja eintóna greinargerð og skrifa um sáralitlar breytingar á íslenzkri lagaumgjörð, sem téður orkulagabálkur hefði í för með sér, og nánast engar breytingar fyrir landið og hag þess. Lagaprófessor og sérfræðingur í Evrópurétti við háskólann í Tromsö í Noregi hefur rýnt greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, vegið hana og fundið léttvæga. Skýrsla prófessors Peters Örebech verður birt bráðlega.
Niðurstaða greinargerðar Birgis Tjörva til ráðherrans stingur algerlega í stúf við tilvitnuð orð Elíasar B. Elíassonar, sérfræðings um orkumarkaði, og báðir geta þeir Elías og Birgir Tjörvi Pétursson ómögulega haft á réttu að standa í þessu máli.
Höfundur þessa pistils fullyrðir, að fyrir þing og þjóð er ofangreint mat Peters Örebechs og Elíasar Elíassonar meira virði og mikilvægara en greinargerð Birgis, enda sýnir prófessor Örebech, að túlkanir Birgis Tjörva á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum stangast á við dóma ESB-dómstólsins.
Samt leyfir iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð, sér að fullyrða við Morgunblaðið 18.09.2018 um hina keyptu greinargerð, að hún sé mikilvægt innlegg í umræðu um málið. Er eitthvað nýtt þar, eða eru þar bara "selvfölgeligheder", gamlar tuggur og vafasamar ályktanir ?
Orðrétt vitnar Morgunblaðið í ráðherrann á vef ráðuneytis hennar:
"Á grundvelli þess, sem hefur komið fram um málið, er ekki að sjá, að innleiðing þess [Þriðja orkumarkaðslagabálksins] í íslenzk lög fæli í sér meiriháttar frávik frá fyrri stefnumótun stjórnvalda í þessum málaflokki, en almennt myndi ég telja, að það þurfi afar sterk rök til að hafna með öllu upptöku ESB-gerðar í EES-samninginn, sem talin er varða innri markaðinn. Það væri í fyrsta skipti frá upphafi, sem við gerum það, og ekki ljóst, hvert það myndi leiða."
Það er engu líkara en þessi ráðherra og þingmaður sé pólitískt bæði heyrnarlaus og sjónlaus. Hún var á fundi í Valhöll í Reykjavík 30.08.2018 og hlýddi þar á 4 framsöguerindi og umræður í kjölfarið. Framsöguerindin fluttu fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, prófessor emeritus í lögum og sérfræðingur í Evrópurétti ásamt tveimur verkfræðingum, sem greint hafa innihald Þriðja orkupakkans og afleiðingar innleiðingar hans hérlendis og afleiðingar synjunar hans. Allir lýstu þessir fjórmenningar yfir andstöðu sinni við innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins á Íslandi og vöruðu við innleiðingu hans. Allir aðrir, sem þátt tóku í umræðum, höfðu miklar efasemdir um nytsemi þessarar orkulöggjafar fyrir Ísland.
Þrátt fyrir þetta og allar aðrar umræður um þetta mál, leyfir iðnaðarráðherra sér "að hrauna yfir" þá, sem eru á öndverðum meiði við hana í þessu máli. Það hlýtur að hafa pólitískar afleiðingar fyrir hana. Hverra hagsmunum er ráðherrann að þjóna ? Það er óhjákvæmilegt að spyrja slíkra spurninga í ljósi þess, að eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins hérlendis verður raforkan skilgreind sem vara að hætti ESB. Þá verður stofnuð orkukauphöll, og þar verða leyfðar afleiður. Þar með er búið að breyta íslenzkum orkumarkaði í spilavíti, þar sem gríðarlegar upphæðir verða undir, áhættan geisileg og gróðavon mikil.
Þetta er kerfið, sem núverandi iðnaðarráðherra Íslands, Þórdís Kolbrún Reykfjörð, berst fyrir innleiðingu á. Eru kjósendur hennar í NV-kjördæmi, og þeir, sem studdu hana til varaformennsku í Sjálfstæðisflokkinum á síðasta Landsfundi, sammála henni um þetta, eða verður þetta mál frágangssök, þegar afstaða verður tekin til frammistöðu hennar í fyllingu tímans ?
Athugasemdir
Afar sterk grein frá þér, Bjarni. Sannir landvarnarmenn eruð þið Elías B. Elíasson og fleiri bandamenn ykkar eins og kollegann Friðrik Daníelsson verkfræðingur, sem tók til máls um þessi efni á Valhallarfundinum 30. ágúst og á fundinum á Háskólatorgi HÍ 10. þ.m.
Það er sorglegt að Birgir Tjörvi, maður ekki sérfróður um málefnið, lét hafa sig út í að skila svona meðvirku áliti til Þórdísar Kolbrúnar, varaformanns þess flokks, sem bæði á landsfundi í marz sl. og með einróma samþykki fundartillögu í Valhöll 30. fyrra mánaðar tók eindregna afstöðu gegn innleiðingu Þriðja orkumálapakka-löggjafar Evrópusambandsins.
Þessi mál liggja ljós fyrir hér í umfjöllun ykkar Elíasar --- og í mörgum greinandi blaða- og blogggreinum ykkar, sem liggja henni til grundvallar, og það er mér tilhlökkunarefni að fá svo að kynnast þessari skýrslu prófessors Peters Örebech, sem hlutaði sundur léttvægar röksemdir Birgis Tjörva Péturssonar fyrir því, að ekkert mæli móti því að samþykkja 3. orkupakkann!!
Og höldum áfram baráttunni, samherjar allir með óskertum rétti okkar Íslendinga til auðlindanna!
Jón Valur Jensson, 25.9.2018 kl. 20:00
Þakka þér kærlega fyrir, Jón Valur.
Þú ert líka vopnfimur vel í þessari lýðræðislegu baráttu, og munar um minna. Sífellt fleiri leggjast nú á sömu sveif, og sem flest félög þurfa að semja og samþykkja ályktanir gegn ósvinnunni, því að enginn vafi er á því, að með Þriðja orkubálkinum verður hér leiddur Landsreglari til öndvegis og spilavíti með raforkuna, sem almenningi hugnast illa, sem vonlegt er.
Prófessor Peter Örebech samdi í vetur greinargerð, þar sem hann sýndi fram á, að valdframsalið til ESB/ACER er óleyfilegt samkvæmt norsku stjórnarskránni. Hún er rýmri en sú íslenzka, ef krafizt er aukins meirihluta Stórþingsins. Þetta þýðir, að Alþingi getur ekki samþykkt bálkinn án þess að brjóta íslenzku stjórnarskrána. Ég mun líka birta þessa álitsgerð prófessors Örebechs hér á vefsetrinu innan skamms.
Téðum Birgi Tjörva sést við umfjöllun sína algerlega yfir þá nauðsyn að skoða dóma ESB-dómstólsins. Þeir eru endanlegur úrskurður um túlkun Evrópugerðanna. Prófessor Örebech fellir Birgi Tjörva m.a. á þessu atriði, eins og þú munt sjá.
Bjarni Jónsson, 25.9.2018 kl. 21:05
Er ekki nokuð ljóst að "iðnaðarráðherfa" hefur ekki hundsvit á því sem hún fer með? Stelpukjáninn er ekkert annað en leiksoppur og strengjabrúða fullveldisafsalssinna. Svipað og formaður Sjálfstæðisflokksins og reyndar allt ráðherfulið hans. Kratabullur og hugsjónaafglapar í sparifötum. Skítbuxar í eiginhagsmunaleit.
Ömurlegri stjórnmálaherfur hafa aldrei dregið lappir sínar um Íslenska grundu. Svei þessu hyski öllu saman. Hugsjónalaus dusilmenni og konur sem hugsa lítið og framkvæma enn minna. Ef eitthvað, þá allt aftur á bak og niður undir hringvöðvann á sjálfum sér, því það er svo helvíti notalegt. Það bíða jú feitir tékkar, ekki satt?
Síðuhafa þakka ég árvökli sína og bjargfasta baráttu sína í þágu okkar sem land þetta byggjum.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 26.9.2018 kl. 03:06
Sæll, Halldór Egill;
Það virðast ýmsir vera að brjóta allar brýr að baki sér, pólitískt séð. Gjá á milli þings og þjóðar verður ekki brúuð af sama fólki og hana myndaði. Sjáum hvað setur. Það á mikið vatn eftir að renna til sjávar, þangað til umræddur ESB-lagabálkur fær afgreiðslu á Alþingi.
Bjarni Jónsson, 26.9.2018 kl. 10:57
Sæll Bjarni og bestu þakkir fyrir afar góð skrif þín og góða baráttu í þessu máli, sem því miður allt of fáir virðast átta sig á hversu mikilvægt er. Varðandi GJÁNA á milli þings og þjóðar, þá kom berlega í ljós á "hátíðarfundinum á Þingvöllum í sumar, að þessi gá er ALMANNAGJÁ, því hún var LOKUÐ fyrir almenningi því þingmenn þurftu að ganga þar um.....
Jóhann Elíasson, 26.9.2018 kl. 12:58
Já, Jóhann, ALMANNAGJÁ á milli þings og þjóðar!
Jón Valur Jensson, 26.9.2018 kl. 13:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.