Verður engin krafa um einkavæðingu ?

Kristín Haraldsdóttir, lektor við Lagadeild HR, hélt því fram í viðtali á Morgunvakt Gufunnar, 13.09.2018, að með samþykkt Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB muni engin krafa koma fram um einkavæðingu raforkugeirans á Íslandi.  Þetta er skrýtin kenning.

Lítum fyrst á raforkumarkaðinn sjálfan.  Með samþykkt "pakkans" yfirtaka reglur Innri markaðarins raforkumarkaðinn á Íslandi, óháð lagningu aflsæstrengs til landsins.  Orkan verður andlag 5. frelsins á Innri markaðinum.  Með öðrum orðum verður rafmagnið skilgreint sem vara, og um þessa vöru skal ríkja óheft samkeppni.  Til að koma slíkri óheftri samkeppni við með þessa "vöru" hafa verið stofnaðar orkukauphallir, og engum blöðum er um það að fletta, að fyrir viðskipti með rafmagn verður fljótlega komið upp slíkum "börsi" hérlendis eftir innleiðingu "pakkans", t.d. með norska "börsinn" sem fyrirmynd, enda hefur Landsnet undirbúið hann um hríð.  Landsreglarinn mun yfirtaka umsjón með þessari markaðsstarfsemi, þegar embætti hans hefur verið stofnað, og sjá til þess, að markaðsreglum Evrópusambandsins, ESB, verði framfylgt hér í hvívetna.

Í viku 37/2018 varð stórt gjaldþrot eins þátttakandans á norska orkubörsinum í Ósló. Einar Aas, einn ríkasti maður Noregs, hafði auðgazt á viðskiptum með orku, m.a. á afleiðuviðskiptum (e. derivatives, futures) með raforku í orkukauphöllinni í Ósló.  Í þetta skipti hafði hann veðjað á minnkandi raforkuverðmun í Þýzkalandi og Noregi nú á haustdögum.  Þá gerðist hið óvænta, sem varð hinum klóka kaupsýslumanni að falli; það tók að rigna ákaflega í Noregi, svo að yfirborð miðlunarlónanna hækkaði, sem leiddi til lækkunar raforkuverðs í Noregi.  Samtímis hækkaði koltvíildisskattur í Þýzkalandi, sem orsakaði verðhækkun á rafmagni þar.  Saman leiddi þetta til þveröfugrar verðþróunar í raun á við þá, sem Einar Aas, kaupsýslumaður, hafði veðjað á með afleiðuviðskiptum sínum, þ.e. mismunur á raforkuverði í Þýzkalandi og Noregi jókst.  Orkan, sem undir var í veðmáli Einars Aas nam ársnotkun alls Óslóarsvæðisins, og gjaldþrotsupphæðin nam mrdNOK 1,3 eða tæplega mrdISK 20.  Kostnaðurinn af þessu gjaldþroti lenti í fyrsta umgangi á varasjóði kauphallarinnar, en orkufyrirtækin þar þurfa að bæta honum þessi útgjöld upp.

Með því að gera rafmagn að vöru, eins og ESB og margir aðrir hafa gert, er búið að breyta viðskiptum með þessa auðlindaafurð í hreinræktað spilavíti, þar sem gríðarleg áhætta er tekin og gróðinn getur orðið feiknarlegur.  Erfitt er að sjá, að þessir viðskiptahættir geti gagnazt hag raforkunotendanna. Þeir verða leiksoppar örlaganna. Allir peningarnir í þessu spilavíti koma úr vasa orkukaupendanna.  Frá þeirra bæjardyrum séð, t.d. almennings á Íslandi, getur þetta engan veginn talizt æskilegt viðskiptafyrirkomulag með orku.  Eftir samþykkt Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB verður það ekki lengur dregið að innleiða þetta kerfi hérlendis, svo geðslegt sem það er, með verðsveiflum og að öllum líkindum hærra meðalverði til almennings sem afleiðingu, algerlega óháð sæstrengslögn til landsins. 

Þegar búið verður að innleiða hér orkukauphöll, munu allar samkeppnisreglur Innri markaðarins verða í fullu gildi.  Þar tíðkast að sjálfsögðu hvergi, að ríkisfyrirtæki hafi 80 % markaðshlutdeild.  Það er þess vegna útilokað, að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) muni láta það óátalið, að Landsvirkjun verði í óbreyttri mynd starfandi á samkeppnismarkaði. 

Þetta er varla hægt að leysa öðruvísi en með því að skipta Landsvirkjun upp í tvennt eða þrennt og selja einn eða tvo hluta á markaði. Þetta breytir áætlunum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um þjóðarsjóð, fjármagnaðan með arðgreiðslum raforkufyrirtækja. Ekki verða margir hérlendis hrifnir af þessari þróun, þótt væntanlega muni koma tekjuskattur af hinum nýju einkafyrirtækjum í ríkissjóð.  

Statkraft, systurfyrirtæki Landsvirkjunar í Noregi, hefur t.d. þriðjungs markaðshlutdeild og er væntanlega við efri mörk leyfilegrar markaðshlutdeildar at mati ESA.  Þessi sala á a.m.k. helmingi Landsvirkjunar verður að fara fram á opnum markaði samkvæmt reglum EES, og þar með gætu öflug orkufyrirtæki á hinum Norðurlöndunum eða í Þýzkalandi, svo að líkleg lönd séu nefnd, eignazt ráðandi hlut í íslenzkum fyrirtækjum. 

Auðlind verður ekki skilin frá virkjun á Íslandi, svo að þar með mun EES-aðildin geta leitt til mikils nýtingarréttar fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu, EES, á íslenzkum orkulindum, nokkuð, sem hingað til hefur tekizt að girða fyrir í sjávarútveginum.

Samverkandi löggjöf ESB um raforkumarkað og frjálsa samkeppni á Innri markaðinum mun þannig leiða til einkavæðingar raforkugeirans að hluta.  Það er sem sagt ófullnægjandi að horfa á Þriðja orkumarkaðslagabálkinn einangraðan, heldur verður að skoða hann í samhengi við samkeppnisreglur Innri markaðarins.

Peter Örebech, norskur lagaprófessor og sérfræðingur í Evrópurétti, hefur rýnt greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, og komizt að þeirri niðurstöðu, að fullyrðingar lögmannsins um, að eignarhald á orkulindum séu á valdi hvers ríkis, standist ekki að Evrópurétti.  Verður skýrsla prófessors Örebechs, sem enn er aðeins til á norsku, birt hér á vefsíðunni ásamt úrdrætti hans sjálfs, sem þýddur hefur verið á íslenzku.  Er rýni norska lagaprófessorsins hin fróðlegasta, og virðist hann fella helztu stoðirnar undan þessari keyptu skýrslu iðnaðarráðherra, sem ætlað var að sýna fram á meinleysi innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi.    

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn felur í sér einkavæðingu og samkeppni fyrirtækja á orkusölumarkaði, undir dóms og ákvörðunarvaldi evrópusambandsviðbjóðsins. Meira að segja Stóra-Bretland virðist ekki eiga roð í þennan viðbjóð! Þeir sem halda því fram að Ísland fái sanngjarna meðferð í meðförum þessa Evrópuæxlis, eru annað tveggja fávitar, eða vel launað leiguþý á vegum ESB með loforð um feita tékka í skattaskjólum. "By the way" ESB hefur ekki skilað skattaskýrslu í tíu ár.

 Landsvirkjun er eign Íslensku þjóðarinnar. Þjóðar sem telur ekki nema rétt rúmlega þrjú hundruð þúsund sálir. 

 Ef sextíu og þrjár af þeim sálum afsala eignarrétti samborgara sinna á auðlindinni til ekki bara erlendra burgeisa og samsteypa, heldur einnig óhjákvæmilega hérlendra "vafaafla" og þjóðfélagsníðinga, hafa þessar örfáu sálir ekki aðeins selt sálu sína, heldur samnorgara sinna allra, að þeim forspurðum, en það er víst ekkert nýtt.

 Vei þeim, láti þau þetta gerast!

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 28.9.2018 kl. 00:56

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er eins og skrattinn hafi hlaupið í gömlu kempuna Björn Bjarnason. Hann skrifar nú hverja greinina af annarri, þar sem hann mælir með samþykkt tilskipun ESB um 3. orkumálapakkann. Verið getur að hann telji sig eitthvað skuldbundinn vegna nýlegrar ráðningar sem formaður nefndar, en fyrr má nú vera! Reyndar vinnur hann hörðum höndum að því að ómerkja sig í því starfi, með þessum skrifum.

Hvað sem öllu líður, þá eru þessi skrif þessa ágæta manns, sem var farsæll í framvarðarsveit síns flokks um áraraðir, ekki sæmandi fyrir sannan Sjálfstæðismann!!

Gunnar Heiðarsson, 28.9.2018 kl. 08:55

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sælir, Halldór og Gunnar;

Það verður ómetanlegt að fá Bretland sem mótvægi við Evrópusambandið hér í Evrópu.  Mér segir svo hugur um, að Bretar muni ryðja brautina fyrir fleiri, sem freista vilja gæfunnar utan þess, sem æ meir líkist Sambandsríki Evrópu, en virðist samt vera ófært um að sameina ólíkar þjóðir undir einum hatti og alls ekki geta veitt þeim betri lífskjör til langframa en þær gætu náð á eigin spýtur.

Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn gagnast þeirri hugmyndafræði, að til að auka afhendingaröryggi orku í Evrópu, auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa og jafna orkuverðið innan ESB sé nauðsynlegt að styrkja mjög samtengingar á milli ólíkra landsvæða og landa.  Ekkert af þessu á við hér uppi á Íslandi.  Að mæla með samþykkt Þriðja orkupakkans með lögfræðilegum talsmáta einvörðungu er ógæfulegt og má líkja við það að reyna að lýsa innihaldi pakka með því að fjölyrða um umbúðirnar.  Ef hins vegar innihald Þriðja orkupakkans er greint út frá óhjákvæmilegum afleiðingum hans á stjórnun raforkumarkaðarins á Íslandi, þá kemur í ljós, að verkfærið, sem þar er að finna, er alls ekki sniðið við íslenzka raforkukerfið, heldur allt annars konar raforkukerfið.  Markaðsvæðing raforkugeirans hérlendis í anda ESB mun leiða til þess, að nauðsynlegt auðlindastýring verður lýst ólögleg, og við verður að taka fákeppni, sem sennilega leiðir til hærra raforkuverðs og algengs raforkuskorts.    

Bjarni Jónsson, 28.9.2018 kl. 10:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband