7.10.2018 | 13:46
Íslenzkur hræðsluáróður frá Noregi
Í http://montelnews.com/no/story/islandsk-acer-veto-kan-skape-trbbel-for-norge/939008 eru birtar vangaveltur m.a. Ingva Más Pálssonar í iðnaðarráðuneytinu og Kristínar Haraldsdóttur, lektors við HR. Þessar vangaveltur eru skrýtnar í ljósi staðreyndar um fullan rétt Alþingis til höfnunar og í ljósi þess, að beinlínis er fyrirskrifað í EES-samninginum til hvaða aðgerða ESB má grípa til við slíka höfnun. Í þessu tilviki mætti ESB aðeins fella úr gildi 1. og 2. orkupakkann gagnvart EFTA, og það getur engan skaðað. ESB græðir ekkert á því, svo að líklegast er, að ESB muni ekki grípa til neinna aðgerða. Nú er tekið að dreifa þeim ósvífna og fráleita hræðsluáróðri, að ESB muni hreinlega segja upp EES-samninginum við Ísland í refsingarskyni. Þeir sem veita slíku fætur, hafa líklega ekki hugmynd um, hvaða ferli þeir eru þar að gera skóna, og er slíkt efni í annan pistil.
Ef Alþingi synjar Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB staðfestingar, mun taka við sáttaferli EFTA og ESB. Í því sáttaferli er hægt að ímynda sér ýmsar lausnir, t.d., að Íslendingar fái undanþágu frá öllum ákvæðum Þriðja orkumarkaðslagabálksins, þangað til íslenzk stjórnvöld kjósa að tengja raforkukerfi landsins við erlent raforkukerfi, gegn því að samþykkja innleiðingu hans í EES-samninginn.
Að öðrum kosti er líklegt, að Norðmenn og Liechtensteinar semji við ESB um regluramma utan um orkuviðskipti sín við ESB-löndin. Því fer þess vegna víðs fjarri, að eitthvert uppnám verði í samskiptum okkar við hin EES-löndin, og enn síður er hætta á vandræðum í orkuviðskiptum Norðmanna og ESB-landanna, enda telja allir aðilar sig hafa hag af þeim viðskiptum. Viðskiptalífið og embættismannakerfið mun einfaldlega laga sig snurðulaust að nýjum aðstæðum. Annað eins hefur nú gerzt. Heimsendaspámenn og "die-hards" verjendur EES-samningsins gera lítið úr sjálfum sér með því að mála skrattann á vegginn.
Í ofannefndu Montelnews, norsku vefriti, var vitnað til tveggja Íslendinga. Eftir Kristínu Haraldsdóttur, lektor við Lagadeild HR, var m.a. eftirfarandi haft:
"Það er ótti [á Íslandi] við afskipti af orkumálefnum okkar og við, að völd flytjist frá Íslandi. Búizt er við, að ACER safni völdum til miðlægrar stjórnunar orkumála í EES-löndunum, bætir hún við, og dregur fram áhyggjur efasemdarmanna yfir því, að samevrópskur orkureglari muni fá meiri völd yfir íslenzka Landsreglaranum en yfirvöldin á Íslandi."
Landsreglarinn verður nýtt embætti á Íslandi eftir samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálksins. Það verður einstakt í sinni röð, því að það verður algerlega óháð íslenzkum yfirvöldum og íslenzkum hagsmunaaðilum, þótt embættið verði á íslenzkum fjárlögum. Landsreglarinn verður ekki undir Orkumálastjóra, en mun taka við eftirlitshlutverki Orkumálastofnunar, OS, og iðnaðarráðuneytisins með raforkumálum, og mun fá netmála (tæknilega tengiskilmála) og gjaldskrár Landsnets og dreifiveitnanna til rýni og staðfestingar/höfnunar. Ennfremur verður það hlutverk Landsreglarans að hafa eftirlit með raforkumarkaðinum og fylgja eftir innleiðingu á raforkukauphöll á Íslandi að forskrift ESB.
Landsreglarinn verður ekki íslenzkt embætti í skilningi Stjórnarskrárinnar, enda hafa rétt kjörin yfirvöld landsins enga möguleika á að hafa áhrif á gjörðir hans, og EFTA-dómstóllinn verður úrskurðaraðili um þrætuepli, sem upp kunna að koma um störf hans og gerðir. Landsreglarinn verður settur undir ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, en um það er samkomulag á milli EFTA og ESB, að ESA taki enga sjálfstæða ákvörðun gagnvart Landsreglaranum, heldur framsendi ákvarðanir ESB/ACER til hans og sendi gögn til baka frá Landsreglaranum til ACER. Úr því að ESA er hreinn milliliður í þessu sambandi, er ESB-stofnunin ACER hinn raunverulegi stjórnandi hans.
Það eru þess vegna réttmætar áhyggjur af því, að völd yfir raforkumálum Íslands flytjist úr landi og til ESB-stofnunarinnar ACER, þar sem Ísland verður ekki fullgildur aðili, heldur aðeins með áheyrnarfulltrúa. Þetta samrýmist ekki Stjórnarskrá Íslands, og hefur t.d. prófessor emeritus, Stefán Már Stefánsson, látið í ljós opinberlega áhyggjur út af þessu, t.d. á Valhallarfundinum 30.08.2018.
Við þetta má bæta, að orkubálkur ESB er stöðugum breytingum undirorpinn, og nýjar útgáfur hans munu fela í sér aukin völd ACER og miðstýringu. Við kaupum þess vegna köttinn í sekknum með því að samþykkja Þriðja orkumarkaðslagabálkinn án þess að vita gjörla, hvað felst og fjórða og fimmta.
"Ingvar Már Pálsson segir, að hafni Alþingi Þriðja orkupakkanum, þá geti það haft afleiðingar mun víðar en á Íslandi. Til að Þriðji orkupakkinn verði innleiddur í EES-samninginn, verða þing allra EES-landanna að gefa grænt ljós. Fyrir Ísland verða afleiðingarnar í algeru lágmarki á orkusviðinu, en við höfum meiri áhyggjur af því, hvaða áhrif höfnun hefur á samband okkar við nágrannana og við ESB, segir Ingvar Már Pálsson.
Það getur líka verið, að við setjum Noreg í erfiða stöðu. Það verður áreiðanlega ekkert valdframsal til ACER, og við munum ekki glata valdi yfir neinum grundvallar þætti raforkumála okkar eða yfir orkulindum okkar, samsinnir Kristín Haraldsdóttir."
Íslenzkir embættismenn og fræðimenn ættu að gæta þess að gera ekki minna úr sér á erlendri grundu en efni standa til. Embættismönnum ber að einbeita sér að því að gæta hagsmuna Íslands. Norðmenn eru einfærir um að gæta eigin hagsmuna, og það vegur ekki minna en vilji norsku ríkisstjórnarinnar og Stórþingsins, að mikill meirihluti norsku þjóðarinnar og norsku verkalýðshreyfingarinnar er alfarið á móti innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í norskan rétt.
Fullyrðingar Kristínar Haraldsdóttur eru úr lausu lofti gripnar. Spyrja má til hvers ACER hafi verið stofnað, ef ekkert valdframsal á sér stað frá aðildarlöndunum til ACER. ACER mun stjórna Landsreglaranum, og hann mun fylgja því eftir, að Landsnet aðlagi Kerfisáætlun sína að Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER. Ef ACER heldur áfram með "Icelink"-sæstrenginn á forgangsverkefnaskrá sinni, þá verður Landsnet að skipuleggja orkuflutninga frá íslenzka stofnkerfinu og niður að lendingarstað sæstrengsins. Komi gild umsókn um leyfi fyrir aflsæstreng, sem Landsreglarinn mælir með samþykkt á, þá mun höfnun íslenzkra yfirvalda, OS, á umsókninni tvímælalaust leiða til kvörtunar umsækjandans og/eða Landsreglarans til ESA, sem senda mun aðfinnslubréf til ríkisstjórnarinnar um, að íslenzk stjórnvöld hafi rofið skuldbindingar sínar um að framfylgja Kerfisþróunaráætlun ESB. Ef ríkisstjórnin þráast við, þá kærir ESA hana fyrir EFTA-dómstólinum. Samt heldur Kristín Haraldsdóttir því fram, að "við munum ekki glata valdi yfir neinum grundvallar þætti raforkumála okkar". Pistilhöfundur er þessu gjörsamlega ósammála. Fullyrðingar Kristínar Haraldsdóttur standast ekki rýni.
Innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálksins mun hafa í för með sér, að allar viðskiptareglur Innri markaðar EES munu taka gildi fyrir raforkugeirann og þar með orkulindirnar, þar sem raforkuvinnsla fer fram og mun fara fram. Allt verður falt á markaði, og inngrip ríkisins verða óheimil. Þetta er sú grundvallarbreyting, sem verður í orkugeira Íslands við innleiðingu á téðum orkubálki. Með öðrum orðum: íslenzk stjórnvöld glata valdi yfir grundvallarþáttum íslenzkra orkumála. Hér eru gríðarlegir hagsmunir í húfi.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég vona sannarlega að ekki þurfi að reyna á þjóðrækni og heillyndi þjóðhöfðingja vors, því það eru sannarlega sextíu og þrír kjörnir fulltrúar sem mynda þann varnarmúr, sem sem til þarf til að standast ítrekaðar árásir þeirra er girnast gullin okkar.
Reyndar koma líka hjá mér þær stundir þegar ég lít yfir svið stjórnsýslu og valda hér á Íslandi, að mér finnst full þörf á að reisa gálga og gapastokk fyrir framan Stjórnarráðið.
Jónatan Karlsson, 7.10.2018 kl. 16:07
Mjög góð samantekt Bjarni. Almennt vita menn ekki að Norðmenn höfnuðu á sínum tíma innleiðingu tilskipunar ESB í geg um EES samninginn varðandi póstmál. Það hafði akkúrat engin áhrif á EES samninginn, að sjálfsögðu enda hafa EES þjóðirnar fullan rétt til þess.
Sbr. https://fullfact.org/europe/eu-facts-behind-claims-norway/
Júlíus Valsson, 8.10.2018 kl. 00:33
Sæll, Jónatan;
Sammála fyrrihluta athugasemdarinnar. Gilljútína jafngildir ógnarstjórn. Hana viljum við ekki sjá í þessu landi, frjálsra manna.
Bjarni Jónsson, 8.10.2018 kl. 11:29
Sæll, Júlíus;
Alveg rétt. Það eru tilskipanir á leiðinni um einkavæðingu járnbrauta, um flutningamál á landi og um vinnumarkaðsmál, sem Norðmenn eru mjög á móti og munu líklega hafna einni eða jafnvel öllum.
Bjarni Jónsson, 8.10.2018 kl. 11:38
Nú eru það mál sænskra skóga sem brenna á Svíum. ESB er farið að stjórna allri skógrækt þar í landi. Hvað verður það næst? Sænskar kjötbollur? Eru þær ekki nógu stórar fyrir ESB? Frægt er málið þar sem Svíar máttu ekki nota orðið "Falukorv" að mati ESB.
https://www.di.se/nyheter/eu-tar-kommandot-over-svensk-skog/
Júlíus Valsson, 8.10.2018 kl. 12:07
Falukorv var líka notað og étið í Noregi, þegar ég bjó þar. Það hlýtur að höggva nærri sænskri þjóðarvitund, að Brüssel fari að stjórna sænsku skógarhöggi og plöntun trjáa. Allt er þetta gert í nafni kolefnisbindingar úr andrúmsloftinu.
Bjarni Jónsson, 8.10.2018 kl. 20:31
Sæll Bjarni.
Þú mátt nú ekki taka myndlíkingar mínar bókstaflega, en öllu gamni fylgir þó nokkur alvara.
Jónatan Karlsson, 8.10.2018 kl. 22:28
Því miður Bjarni, ég get ekki betur séð en að ÞAÐ EIGI AÐ KEYRA ÞRIÐJA ORKUPAKKANN Í GEGNUM ÞINGIÐ. OG SÉRSTAKLEGA EFTIR AÐ VAR ÁKVEÐIÐ AÐ TAKA ÞETTA MÁL FYRIR Í FEBRÚAR Á NÆSTA ÁRI ÞVÍ RÁÐAMÖNNUM FANNST EKKI VIÐEIGANDI AÐ SAMÞYKKJA VALDAFSAL Á 100 ÁRA AFMÆLI FULLVELDISINS. ÞÁ REYNIR Á FORSETANN.....
Jóhann Elíasson, 9.10.2018 kl. 00:00
Þetta er, held ég, rétt ályktun hjá þér, en á vígvellinum hefur "Stóra-Berta" enn ekki verið dregin fram, svo að það er ótímabært að spá um úrslit málsins.
Bjarni Jónsson, 9.10.2018 kl. 11:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.