Ísland í Orkusambandi ESB með aflsæstreng

Alþingismenn hljóta að vita, að þeir, sem segja A verða að vera tilbúnir að segja B.  Það flækist þó fyrir sumum þeirra í sambandi við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, því að þeir eru til á meðal Alþingismanna, sem hyggjast kokgleypa hann án þess að vilja taka skilyrðislaust við aflsæstreng frá útlöndum.  Þetta gengur alls ekki upp. 

Þeir, sem ekki vilja selja rafmagn um sæstreng til útlanda, verða að hafna Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, þegar hann kemur til atkvæða á Alþingi, því að með samþykktinni munu  þingmenn framselja ákvörðunarvald um millilandatengingu til ESB/ACER.  Þetta kemur fram í greiningu prófessors Peters Örebech á greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, og einnig á fundi með Peter Örebech sem frummælanda í Háskóla Íslands, 22.10.2018. Þar kvaddi sér m.a. hljóðs prófessor emeritus Stefán Már Stefánsson, og samsinnti hann rökleiðslu prófessors Örebech í hvívetna. 

Það er kominn tími til, að Alþingismenn, allir, geri sér grein fyrir því, að innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB felur í sér framsal ákvörðunarvalds til yfirþjóðlegrar stofnunar, þar sem Ísland er ekki fullgildur aðili, og er þess vegna klárt stjórnarskrárbrot.  Þar er átt við ákvörðunarvald um það, hvort hingað verður lagður aflsæstrengur eður ei.  Það verður ekki lengur í höndum íslenzkra stjórnvalda eftir téða innleiðingu, og má þá einu gilda, hvort Alþingi bannar slíkt eða ekki.

Eftir að Alþingi hefur játazt undir vald ESB á raforkusviðinu, en raforkan stendur í engu öðru ríki EES undir jafnstórum hluta landsframleiðslunnar og á Íslandi, þá hafa þingmenn í raun skuldbundið sig til að innleiða gerðir og tilskipanir ESB á raforkusviðinu, sem síðan eru komnar og fléttast inn í Þriðja orkumarkaðslagabálkinn. Síðar mun Fjórði orkumarkaðslagabálkur verða borinn upp í þinginu, s.k. Vetrarbálkur, ef sá fyrri verður samþykktur. Á meðal skyldra Evrópugerða Þriðja bálkinum má nefna Innviðagerðina, gerð nr 347/2013, þar sem matsferli millilandainnviða í ESB/EES er samræmt á milli aðildarlandanna. 

Orkustofnun og Landsreglari munu taka umsóknir um leyfi til sæstrengslagnar til mats samkvæmt þessari gerð.  Ef Orkustofnun hafnar, en Landsreglari samþykkir, fer ágreiningurinn til ACER, sem úrskurðar í deilunni.  Þetta fyrirkomulag er eins fjarri tveggja stoða kerfinu, sem upphaflega var um samið 1992, og hægt er að hugsa sér, og að sjálfsögðu um leið stjórnarskrárbrot.  

Ef Alþingi tekur þessa sæstrengsumsókn til umfjöllunar á einhverju stigi máls, verður það klárt brot á þeim skuldbindingum um verkaskiptingu, sem þingið hefur tekizt á herðar með innleiðingu "Þriðja orkupakkans", en þar er einmitt kyrfilega sneitt framhjá landsstjórninni og stofnunum hennar í öllum skilgreindum ákvörðunarferlum, nema Orkustofnun er veitt forskrift að mati ásamt Landsreglara. 

Það væri þess vegna merki um hringlandahátt löggjafans að samþykkja fyrst "pakkann" og síðan að hafna því, sem þar er aðallega fjallað um, þ.e. styrkingu millilandatenginga.  Slíkt yrði Íslendingum til minnkunar á alþjóðavettvangi, og framkvæmdastjórn ESB tæki ekki á slíkum tvískinnungi með silkihönzkum.  Er ekki ólíklegt, að hún myndi leita ráðgefandi álits hjá ESB-dómstólinum og síðan kæra málið til EFTA-dómstólsins.  Íslendingum yrði varla vært í EES-samstarfinu, eftir að EFTA-dómstóllinn væri búinn að knésetja Alþingi (Evrópuréttur gengur framar landsrétti) og þvinga þar með Landsnet til mikilla fjárfestinga í línulögnum frá virkjunum og niður að lendingarstað sæstrengs í óþökk þjóðarinnar.  Sjá ekki allir, að heillavænlegra er fyrir Ísland og áframhaldandi samstarf við EES-löndin, að þingmenn grípi í neyðarhemilinn áður en alvarlegur árekstur verður og gangi þar með hreint til verks í fullum rétti fullveldis lands síns ?

Norski lagaprófessorinn Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, tók af allan lögfræðilegan vafa um þetta framsal ákvörðunarvalds til einnar stoðar kerfis ESB með eftirfarandi lýsingu í greiningu sinni á greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, til iðnaðarráðherra í september 2018:

"Við sjáum sem sagt, að gripið verður til reglnanna  í "Þriðja orkupakkanum" við aðstæður, eins og þær, að t.d. finnski rafmagnsrisinn Fortun hafi í hyggju, í samstarfi við HS Orku, að leggja rör eða strengi frá Íslandi til Skotlands.  Setjum svo, að af hálfu íslenzka ríkisins verði lagzt gegn þessu.  Ef Landsreglarinn - framlengdur armur ESB á Íslandi - sem á að sjá til þess, að reglum ESB-réttarins verði framfylgt á Íslandi og sem íslenzk yfirvöld geta ekki gefið fyrirmæli - getur ekki leyst úr deilunni, verður um hana úrskurðað innan ACER, eða jafnvel í framkvæmdastjórn ESB samkvæmt ESB gerð nr 713/2009, sjá grein 4 d), sbr grein 8.1 a) og innganginn, málsgrein 10."

Það fer ekki á milli mála, að þessi niðurstaða greiningar lagaprófessorsins er hárrétt, enda lýsti einn fremsti Evrópuréttarfræðingur Íslands, prófessor emeritus Stefán Már Stefánsson, yfir stuðningi við prófessor Örebech á opnum fundi í HÍ 22. október 2018.

Á fundi Óðins og fulltrúaráða Sjálfstæðisflokksins í Kraganum og í Reykjavík virtist formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, sem var ræðumaður fundarins og hélt afar fróðlega og góða ræðu, hafa gert sér grein fyrir því, að umrætt bann Alþingis við sæstrengslögn myndi jafngilda mjög alvarlegum árekstri við ESB, en hann var á þeim fundi ekki tilbúinn að segja, að til að koma í veg fyrir þennan alvarlega árekstur væri affarasælast, að þingið hafnaði Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Vonandi rennur upp sá dagur, að formaðurinn komist að þeirri niðurstöðu.  

Nú berast þær fréttir frá Noregi, að norska orkustofnunin, NVE, hafi tvöfaldað áætlun sína um hækkun raforkuverðs í Noregi eftir lúkningu núverandi tveggja sæstrengsverkefna Statnetts, sem eru um 1400 MW sæstrengir  til Þýzkalands og Englands.  Stafar þetta af hærri raforkuverðsspám fyrir þessi lönd en áður og hratt minnkandi umframorku í Noregi vegna tíðari þurrkasumra, meiri útflutnings og hækkandi álags í Noregi með orkuskiptunum.  

Á Íslandi er að jafnaði sáralítil umframorka í kerfinu, og hún verður öll upp urin með sæstreng, þótt að sjálfsögðu verði virkjað fyrir sæstreng.  Það þarf að virkja svo mikið, að núverandi nýtingarflokkur Rammaáætlunar dugar ekki fyrir innanlandsþörfina með orkuskiptum til 2050.  Ákvæði Innri markaðarins um bann við magntakmörkunum útflutnings þýðir, að innlend stjórnvöld munu ekki geta komið böndum á raforkuútflutninginn, sem af öryggisástæðum er gersamlega ótækt fyrir landsmenn.  Takmarkanir vegna mikilla verðhækkana innanlands eru óleyfileg ríkisafskipti af frjálsum markaði samkvæmt Evrópurétti.  

Þetta mun rústa samkeppnisstöðu íslenzkra framleiðslugreina á öllum sviðum, en þær standa undir velferðarkerfinu og lífskjörum almennings.  Sæstrengurinn verður rekinn með hagsmuni ESB fyrir augum, en landsmenn munu lepja dauðann úr skel.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þessar óbrigðulu niðurstöður þínar, Bjarni --- í samræmi við rökstudd álit tveggja beztu tiltæku lagasérfræðinga á sviði ESB-réttar --- eru svo hrikalegar fyrir atvinnulíf okkar og kjör almennings, að hér verða allir að sameinast um að koma í veg fyrir innleiðingu þessa Þriðja orkupakka ESB sem okkur ber hvort eð er engin skylda til að meðtaka.

Jón Valur Jensson, 30.10.2018 kl. 08:43

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Já, Jón Valur, sæstrengur er ekki sama og sæstrengur.  Sæstrengir Noregs eru mun ódýrari en sæstrengir mundu verða frá Íslandi til Bretlands eða meginlandsins.  Þess vegna þarf að vera stöðugt orkuflæði um hann, til að slík fjárfesting borgi sig.  Hér er nánast engin umframorka til að "tappa af", eins og verið hefur í Noregi.  Efnahagslegar afleiðingar sæstrengs hér yrðu þess vegna aðrar en þar.

Bjarni Jónsson, 30.10.2018 kl. 10:28

3 Smámynd: Júlíus Valsson

Mjög góð samantekt hjá þér Bjarni að vanda. Lýðræðislega kjörnir fulltrúar okkar á Alþingi ættu að lesa þessa grein þína með athygli. 

Júlíus Valsson, 30.10.2018 kl. 13:36

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Júlíus;

Vonandi rennur það upp fyrir æ fleirum á þingi, að það er allt of mikil áhætta fólgin í því hag landsins að innleiða þennan Þriðja orkupakka.  Áhættan við að hafna honum er hjóm eitt í samanburðinum.  Að lenda í stappi við ESB síðar út af leyfisumsókn fyrir sæstreng er hið versta mál, því að þá stendur ESB með pálmann í höndunum.  Nú er rétturinn okkar til að hafna, en rétturinn til að hafna sæstrengsumsókn eftir samþykkt bálksins verður aftur á móti ekki okkar.  Slík höfnun yrði stórmál gagnvart EES, en höfnun pakkans ekki.

Bjarni Jónsson, 31.10.2018 kl. 10:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband