28.11.2018 | 11:06
Í fílabeinsturni ráðuneytis
Engu er líkara en iðnaðarráðherra sé haldinn heilkenninu, "Vér einir vitum" í orkupakkamálinu alræmda, ef marka má heimasíðu ráðuneytisins, "spurningar og svör", þar sem orðhengilsháttur og fávísi um orkumál og það, hvað Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB felur í sér, tröllríða hvort öðru. Einstrengingsháttur og þrákelkni ráðherrans hefur nú þegar rýrt pólitískt traust til hennar svo mjög, að ríkisstjórnin hefur heykzt á að leggja fram þingsályktunartillögu um upptöku þessa tröllheimskulega lagabálks fyrir Ísland í EES-samninginn og sömuleiðis á að leggja fram í kjölfarið frumvarp til breytinga á orkulögum til samræmis. Fer að styttast í einangrun ráðherrans í eigin kjördæmi með sama áframhaldi. Að venda ekki sínu kvæði í kross nú strax fyrir jólin er merki um ótrúlega pólitíska lömun, sem er ófélegur mælikvarði á leiðtogahæfni varaformanns Sjálfstæðisflokksins.
Ritstjórn Morgunblaðsins hefur ekki misskilið neitt í þessu máli, þótt vinsælasta viðkvæði ráðherrans og fylgifénaðar hennar, sem aldrei virðist hafa komizt innfyrir ESB-umbúðir "pakkans", sé, að þau, sem ekki meðtaka fagnaðarerindið frá Sameiginlegu EES-nefndinni í Brüssel, þar sem getnaðurinn fór fram 5. maí 2017, séu haldin slíkri lesbrenglun á boðskapinn eða óburðugri úrvinnslu í toppstykkinu, að allt, sem frá þeim komi um innihald og afleiðingar "pakkans" hérlendis, sé "misskilningur". Þeir, sem haldnir eru meintum "misskilningi", hafa þó brotið til mergjar flóknari viðfangsefni en hér um ræðir, og skal þó engan veginn gera lítið úr flækjustigi Þriðja orkumarkaðslagabálksins.
Í forystugrein Morgunblaðsins, 23. nóvember 2018,
"Ekki misskilið neitt",
sagði m.a.:
"Eftir að menn úr hópi þeirra, sem bezt þekktu til, tóku að benda á, að ekki væri allt sem sýndist, voru höfð endaskipti á öllum röksemdum. Nú var málið orðið flókið, og þess vegna hefði efasemdarmönnum tekizt að skapa óróa í kringum það.
Fari svo, að hlaupalið utanaðkomandi hagsmuna, sem kemur kunnuglega fyrir sjónir, láti sig hafa að ganga þessara erinda til enda, má augljóst vera, að málið endar í þjóðaratkvæði."
Jón Baldvin Hannibalsson, JBH, skóf ekki utan af því í Silfrinu sunnudaginn 25. nóvember 2018 í viðtali við Egil Helgason, heldur viðraði þar kenningu sína um, hverjir væru þessir "utanaðkomandi hagsmunir". Eftir að hafa lýst því fjálglega, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins væri á mála hjá fjármálalegri yfirstétt Evrópu og hefði fórnað hagsmunum alþýðu í hinum veikari ríkjum ESB í kjölfar fjármálakreppunnar 2007-2008, þar sem Grikklandi væri haldið í skuldafjötrum og mætti ekki örva hagkerfið með ríkisútgjöldum, þá kvað JBH upp úr með það, að á bak við kröfuna um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn stæðu gróðapungar og spákaupmenn, sem ætluðu sér að stórgræða á því að selja raforku úr landi um sæstreng.
Það hefur vakið furðu, að 2 ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa hangið eins og hundar á roði á því, að Þriðja orkupakkann yrði að samþykkja hér, hvað sem það kostaði, vegna EES-samningsins. Þetta sýndi JBH fram á, að eru falsrök í málinu. Hann má um það gerzt vita, því að hann stjórnaði viðræðum Íslendinga við EFTA/ESB um EES-samninginn árin 1989-1993.Að mati höfundar þessa pistils yrði það nagli í líkkistu EES-samningsins að innleiða Þriðja orkupakkann í hann. Þriðji orkupakkinn kemur okkur ekkert við, svo að Alþingi á að hafna honum og hefur til þess fullar heimildir og fulla ástæðu.
Hér hefur helzti hvatamaður og eins konar guðfaðir EES-samningsins á Íslandi talað. Eftir standa ráðherrar iðnaðar og utanríkismála, eins og illa gerðir hlutir, berir að tómu fleipri og undir grun um að ganga erinda skuggalegra útrásarafla, auðvalds, sem er hluti af stærsta hagkerfi heims, svarta hagkerfinu, reynandi að koma auðlindum íslenzkrar alþýðu í klær slóttugs og ófyrirleitins stórauðvalds Evrópu, sem beitir framkvæmdastjórn ESB fyrir gullvagn sinn. Þetta er þá stöðugreiningin, sem upp úr stendur, eftir að fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Alþýðuflokksins hefur tjáð sig sunnudaginn 25.11.2018.
Það er hárrétt hjá JBH, að Íslendingum kemur sameiginlegur orkumarkaður ESB/EES ekkert við. Það var að sjálfsögðu vegna gríðarlegra orkulinda Noregs, sem ESB krafðist þess í upphafi, að orkan væri í EES-samninginum og þar með, að reglur Innri markaðarins myndu spanna orkugeirann með tíð og tíma, eftir því sem útgáfu orkulaga og orkutilskipana yndi fram. Með Þriðja orkupakkanum er "fjórfrelsið" látið spanna milliríkjaviðskipti með rafmagn (og gas), og þar með er endahnúturinn rekinn á verkið. Með Fjórða orkupakkanum og viðbótar gerðum og tilskipunum verður svo búið enn betur um hnútana, svo að ákvörðunarréttur hverrar þjóðar verður undirlagður hinu yfirþjóðlega valdi á öllum sviðum orkugeirans. Orkugeirinn er íslenzkum þjóðarbúskap mikilvægari en svo, að við getum spilað þá rússnesku rúllettu að afhenda Evrópusambandinu lyklavöldin að gullmyllum okkar.
Um hættuna, sem vofir yfir Íslendingum, sagði JBH í Silfrinu á RÚV 25.11.2018:
"Takist þeim þetta [að ná tökum á íslenzkum orkulindum-innsk. BJo], verður Ísland endanlega orðið að bananalýðveldi í Suður-Amerískum stíl - verstöð í eigu nokkurra auðklíka og undir þeirra stjórn. Það er of mikil áhætta að rétta þeim litla fingurinn með því að innleiða pakkann nú og sjá svo til með sæstrenginn seinna. Sá, sem réttir skrattanum litla fingurinn, missir venjulega höndina. Ríkisstjórnin er vafalaust undir ofurþrýstingi frá Norðmönnum [norskri ESB-sinnaðri ríkisstjórn, mikill meirihluti Norðmanna er eindregið á móti þessum orkupakka-innsk. BJo] um að spilla ekki norskum þjóðarhagsmunum í þessu máli. Þeir fara ekki saman við íslenzka þjóðarhagsmuni."
Það lögfræðistagl, sem iðnaðarráðherra, skósveinar hennar og aðrir talsmenn innleiðingar Þriðja orkupakkans hafa viðhaft um þetta mál, á ekki við, því að hér er um lífshagsmunamál íslenzku þjóðarinnar að tefla, eins og Jón Baldvin Hannibalsson hefur með sínum skorinyrta hætti dregið fram í dagsljósið.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjölmiðlar, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Stefnt að því að Evrópusambandið verði "kolefnis hlutlaust" árið 2050.
Er þátttaka Íslands að 3. orkupakkanum hluti af þeirri áætlun?
Hörður Þormar, 29.11.2018 kl. 12:46
Forystu ESB er kunnugt um það, að hérlendis fer öll raforkuvinnsla fram með sjálfbærum hætti. Henni er líka kunnugt um, að hér er talsvert óvirkjað. Hún telur, að öll fáanleg endurnýjanleg orka Evrópu eigi að fara á sameiginlegan raforkumarkað ESB. Svipað á við um Noreg. ESB er þess vegna í mun að fá EFTA-löndin inn í ACER og Orkusamband ESB.
Bjarni Jónsson, 29.11.2018 kl. 18:59
Frábærlega skörp grein og sannfærandi samantekt hjá þér, Bjarni, einu sinni enn.
Tilvalinn lestur fyrir alla sjálfstæða menn til upphitunar daginn fyrir hátíðarhöld okkar vegna aldarafmælis fullveldis okkar og sjálfstæðis.
Jón Valur Jensson, 30.11.2018 kl. 10:44
Þú færð aðra lesningu í tilefni fullveldisafmælisins nú innan skamms, sem heitir "Liggur fiskur undir steini".
Gleðilega hátíð.
Bjarni Jónsson, 30.11.2018 kl. 14:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.