11.12.2018 | 09:58
Hagfræðistofnun og orkukauphöll
Landsnet mun hafa í undirbúningi stofnun orkukauphallar fyrir heildsölumarkað með rafmagn. Slíkt er valkvætt samkvæmt Orkumarkaðslagabálki ESB #2, en skylda samkvæmt Orkupakka #3 að koma á frjálsri samkeppni með rafmagn, er lýtur öllum samkeppnisreglum EES. Í öðrum löndum EES hefur bezta ráðið til þess verið talið að koma upp orkukauphöll fyrir viðskipti mislangt fram í tímann og einnig fyrir viðskipti með orkuafleiður, þar sem spákaupmennska með orkuna þrífst og getur reynzt gróðavegur eða leitt til gjaldþrots, eins og dæmin sanna frá nágrannalöndunum. Spurningin ætti þó aðeins að vera þessi: verður frjáls samkeppi með raforku, t.d. í kauphöll, orkunotendum til hagsbóta eða ekki ?
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, HHÍ, gaf haustið 2018 út skýrslu, þar sem mælt var með stofnsetningu orkukauphallar á Íslandi, en rökin voru í lausu lofti, því að algerlega var litið framhjá gerð íslenzka raforkukerfisins, sem er gjörólíkt öðrum raforkukerfum. Þegar þessa forsendu rannsóknarinnar skortir, verður útkoman óhjákvæmilega vitlaus. Það er með öðrum orðum ófullnægjandi að beita hagfræðikenningum á íslenzka raforkumarkaðinn og að gefa sér það, að hann hagi sér eins og evrópskur raforkumarkaður. Þetta er meginvilla HHÍ.
Íslenzka raforkukerfið og frjáls raforkumarkaður hérlendis uppfylla ekkert af þeim 5 skilyrðum, sem ESB-sjálft hefur sett fyrir því, að frjáls samkeppni um raforku geti þrifizt eðlilega og orðið notendum til hagsbóta. Þessu hefðu skýrsluhöfundar HHÍ þurft að gefa gaum áður en þeir gáfu þessa skýrslu út. Sú hagfræðilega rökleiðsla, sem beitt er, gengur út frá því, að raforkukerfi Íslands lúti að öllu leyti sömu lögmálum og raforkukerfi Evrópu. Það er augljóslega óleyfileg einföldun á viðfangsefninu, því að hvergi annars staðar í Evrópu samanstendur vinnslukerfi rafmagns nánast einvörðungu af vatnsaflsvirkjunum og jarðgufuvirkjunum. Verður nú vitnað í skýrsluna:
"Heildsöluverð á almennum markaði mundi endurspegla það verð, sem stórnotendur vilja borga fyrir rafmagnið. Sem stendur er Landsvirkjun eini seljandinn, sem um munar í heildsöluviðskiptum, en bæta mætti úr því með því að skikka framleiðendur til þess að bjóða allt rafmagn til sölu í kauphöllinni - það sem ekki hefur þegar verið selt stórnotendum. Verðið mundi líklega sveiflast meira en nú, en minni hætta yrði á rafmagnsskorti."
Þessi texti Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, HHÍ, gefur til kynna, að íslenzkur raforkumarkaður hafi ekki verið brotinn til mergjar frá öllum hliðum þar á bæ. Flestir raforkukaupendur á Íslandi verða einfaldlega að kaupa þá raforku, sem þeir þurfa til heimilishalds og atvinnurekstrar við lægsta verði, sem í boði er á þeim fákeppnismarkaði, sem hér er. Stórnotendur njóta náttúrulega alltaf hagstæðari kjara í krafti magnafsláttar, kauptryggingar og jafnvel stöðugri viðskipta (jafnara álags). Verð í orkukauphöll ræðst mjög af notkunarmynztrinu (álagsfreifingu yfir sólarhring, viku og mánuð), og þess vegna er það einkennileg staðhæfing, að verðið muni endurspegla verð til stórnotenda.
Orðalagið "sem stendur" um Landsvirkjun sem eina seljandann á heildsölumarkaði, sem um munar, sýnir, að höfundurinn reiknar með breytingu á þessu innan tíðar. Það samræmist einfaldlega ekki samkeppnisreglum Innri markaðar EES, að hafa aðeins einn birgi, "sem um munar". ESA mun þess vegna eftir markaðsvæðinguna gera kröfu til ríkisstjórnarinnar um skiptingu Landsvirkjunar til að jafna markaðshlutdeildina.
Reglur Innri markaðarins um fjárfestingafrelsi og athafnafrelsi veita orkufyrirtækjum innan EES rétt til að taka sér stöðu sem orkuseljendur í orkukauphöll á Íslandi og sem orkuvinnsluaðilar úr íslenzkum orkulindum. Þeir mundu sjá sér leik á borði að kaupa allt sem býðst á íslenzkum orkumarkaði, sækja um rannsóknarleyfi vegna nýrra virkjana og síðan um virkjanaleyfi fyrir þær. Hvers vegna. Jú, það er alvarlegur skortur í Evrópu og reyndar í heiminum öllum á endurnýjanlegum orkulindum.
Þeir væru þá búnir að koma sér vel fyrir hér, þegar umsókn berst Orkustofnun og Landsreglara um leyfi til lagningar sæstrengs til Íslands. Í kjölfar samþykktar Orkupakka #3 leikur enginn vafi á um, að Sameiginlega EES-nefndin og Alþingi munu samþykkja ESB-gerð # 347/2013, en með henni mun það fela í sér brot á EES-samninginum að hafna sæstrengsumsókn, sem Landsreglari telur fullgilda.
Að "skikka" orkuvinnslufyrirtækin til að selja allt rafmagn í orkukauphöll, sem "ekki hefur þegar verið selt stórnotendum", þýðir, að engir fleiri langtímasamningar um raforkuafhendingu verða gerðir hérlendis, t.d. í sambandi við beinar erlendar fjárfestingar í iðjuverum. Þetta mundi líka þýða, að öll viðbótar raforkukaup núverandi iðjuvera með langtímasamninga færu fram í orkukauphöll, og um endurnýjun slíkra samninga yrði heldur ekki að ræða, þegar þeir renna úr gildi. Þetta er stórpólitísk stefnumörkun í atvinnulegu tilliti.
Stefnumörkun af þessu tagi fyrir atvinnulíf landsins væri með öllu ótækt, af hagsmunalegum og lýðræðislegum ástæðum, að leggja í hendur Landsreglara. Stórmál af þessu tagi verður að ræða og ákveða á Alþingi. Jafnvel Norðmenn, sem rekið hafa orkukauphöll í landi sínu síðan 1990, en eru enn ekki undir járnhæl ACER, gera enn langtímasamninga við stóriðjufyrirtæki, bæði ný og við endurnýjun samninga. Ríkisvaldið þar hefur veitt stóriðjufyrirtækjunum tryggingu fyrir "samkeppnishæfu" raforkuverði í Noregi gegn því, að þau haldi uppi starfsemi og tryggi atvinnu í dreifðum byggðum Noregs. ESA sætti sig að lokum við þetta gegn ákvæði í orkusamningunum um einhvers konar vísitölutengingu eða markaðstengingu raforkuverðsins.
HHÍ virðist vera kaþólskari en páfinn, þegar raforkumarkaður á Íslandi er annars vegar, ef mið er tekið af rekstri norsks raforkumarkaðar og samskiptum Norðmanna og ESA út af langtímasamningum á raforkumarkaðinum þar í landi. Þá ber hins vegar að gæta að því, að ACER ræður enn ekki ríkjum í Noregi með fulltrúa sinn, Landsreglarann, í eftirliti með raforkumarkaðinum. Hver veit, nema HHÍ hafi tekið mið af því við skýrslugerðina, sem menn þar á bæ búast við frá Landsreglara hérlendis í fyllingu tímans ? Skýrslan á greinilega að réttlæta stofnun orkukauphallar á Íslandi, en þannig er hins vegar ekki hægt að gæta hagsmuna orkukaupenda hérlendis, þegar betur er að gáð. Þeir, sem hag hafa af slíku hérlendis, eru orkuseljendur og spákaupmenn. Alþingismenn og verkalýðshreyfing ættu að beita sér gegn stofnun orkukauphallar og spákaupmennsku með rafmagn á Íslandi. Það verður mjög erfitt eða ómögulegt að hindra það eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.
Það þarf ekki að orðlengja það, að verði ráðlagt fyrirkomulag HHÍ ofan á um raforkumarkað á Íslandi, þá mun stóriðnaður líða undir lok á Íslandi um 2035, eða þegar núverandi samningar renna sitt skeið á enda. Er framtíðarsýn HHÍ sú, að fyrir tilstilli frjáls raforkumarkaðar loki stóriðjuverin og orkan, sem þannig verður tiltæk á markaði, verði seld á "Nord Pool" orkukauphöll inn á sæstreng með 10 % viðbótar töpum til verðmætasköpunar erlendis ? Þetta er framtíðarsýn, sem fáum hérlendis hugnast, því að slík viðskipti geta fyrirsjáanlega ekki orðið þjóðhagslega hagkvæm m.v. orkunýtingu við verðmætasköpun innanlands til gjaldeyrissparandi starfsemi eða útflutningsiðnaðar. Við hvað á fólkið að starfa, sem haft hefur viðurværi sitt beint og óbeint af iðjuverunum ?
Norsk stjórnvöld lögðu sig í framkróka upp úr aldamótunum síðustu við að tryggja norskum stóriðjuverum áframhaldandi langtíma raforkusamninga, en þá runnu margir samningar þar út, enda er viðurkennd staðreynd þar, að slíkir raforkusamningar eru forsenda fyrir samkeppnishæfum stóriðjurekstri í Noregi. Ef norsk stjórnvöld hefðu talið þjóðhagslega hagkvæmara að láta markaðinn ráða og leyfa hverju iðjufyrirtækinu á fætur öðru að leggja upp laupana í samkeppni við fyrirtæki nær mörkuðum eða annars staðar með lágt orkuverð, jafnvel fyrirtæki á meginlandi Evrópu, sem hefðu aðgang að norskri orku gegnum sæstrengi, þá hefðu þau ekki beitt sér fyrir áframhaldandi langtíma raforkusamningum í byrjun þessarar aldar. Þessi barátta tókst í Noregi, en hafa íslenzkir stjórnmálamenn upp til hópa nægan skilning á þjóðhagslegu og atvinnulegu mikilvægi orkukræfs iðnaðar á Íslandi nú á dögum ?
Grundvöllur orkuútflutnings um sæstrengi frá Noregi er mikil ónotuð aflgeta í norskum vatnsorkuverum utan kaldasta tíma vetrarins, því að megnið af norsku húsnæði er hitað upp með rafmagni. Það hefur jafnframt yfirleitt verið um 7 % (10 TWh/ár) umframorkugeta í Noregi vegna lokunar úreltra verksmiðja, talsverðra (erlendra) fjárfestinga í vindorkuverum, orkusparnaðar, nýtniaukningar gamalla vatnsorkuvera og þokkalega góðra vatnsára. Nettó útflutningur orku hefur alltaf verið minni en þetta, enda hefur verðið hækkað, þegar framboðið minnkaði innanlands, og þá verið hagkvæmt að flytja inn raforku að nóttunni til mótvægis.
Þá er komið að fullyrðingunni um, að minni hætta verði á "rafmagnsskorti" með viðskiptum í orkukauphöll en með núverandi gjaldskrárkerfi og fremur takmörkuðu samkeppni, sem þó er fyrir hendi, einkum á heildsölumarkaði. Það er þvert á móti mun meiri hætta á orkuskorti, þar sem frjáls samkeppni ríkir í orkukauphöll. Ástæðurnar eru eftirtaldar:
- Vatnsorkuver eru mun samkeppnishæfari í rekstri en gufuorkuver. Þar af leiðandi munu fyrirtæki, sem eiga vatnsorkuver, geta selt alla orku, sem þau bjóða, og síðan munu jarðgufuverin koma inn á hærri verðum, og vindmyllur munu reka lestina, þegar þar að kemur. Þetta mun valda hraðari lækkun á vatnsstöðu miðlunarlóna en ella og lakari nýtingu á jarðgufuverum fyrir vikið en góðu hófu gegnir fyrr en raforkuverð tekur að hækka, þegar hillir undir tæmingu miðlunarlóna. Ólík samkeppnisstaða virkjana á Íslandi og dyntótt náttúran, sem framboðinu ræður í raun, veldur því, að íslenzkt orkukerfi hentar afar illa fyrir samkeppnismarkaðinn, sem ESB leggur upp með. Til mótvægis þessum agnúum þarf að beita samræmdri orkulindastýringu, þvert á fyrirtæki á markaði, en slíkt er bannað á samkeppnismarkaði að hætti ESB.
- Núna stundar Landsvirkjun orkulindastýringu innan sinna vébanda, og vegna stærðar hennar á markaði virðist hún duga landskerfinu. Öðru máli mun gegna, verði kvarnað úr fyrirtækinu til að jafna samkeppnisstöðuna. Orkulindastýring snýst um að treina vatnið í öllum þremur stærstu miðlunarlónunum, Hálslóni, Þórisvatni og Blöndulóni, fram á vorið, þar til innrennslið vex aftur að ráði, vanalega um mánaðamótin apríl-maí. Ef Íslendingar fá að ráða málum sínum sjálfir í orkugeiranum (án afskipta Landsreglara á vegum ESB), þá er líklegt, að markaðskerfi, sem er sérsniðið við íslenzkar aðstæður, sem eru einstæðar, verði þróað þannig, að það gagnist orkukaupendum. Slíkt kerfi þarf að hámarka afhendingaröryggi raforkunnar til almennings og stóriðju og tryggja hag orkukaupenda eftir föngum, samtímis sem það felur í sér hvata til að virkja í tæka tíð áður en orkuskortur tekur að láta á sér kræla að teknu tilliti til langs undirbúningstíma virkjana hérlendis.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
AMEN; á eftir efninu!
Jón Þórhallsson, 11.12.2018 kl. 10:17
Já, hér gæti verið amen eftir efninu, en það er þó líklega óþarflega mikil bjartsýni. Hér er of mikil tilhneiging til að gösslast áfram að óathuguðu máli, svo að búast má við, að anað verði út í ófæruna.
Bjarni Jónsson, 11.12.2018 kl. 13:53
Þannig að ef að þú værir forsætisráðherra hér á landi að þá myndir þú segja skýrt NEI við 3 orkumálapakkanum,
og hvað myndi gerast þá?
Er einhver að ræða um undanþágur fyrir íslenska ríkið þessu tengdu eins og Jón Baldvin minntist á í Kastljósþætti?
Jón Þórhallsson, 11.12.2018 kl. 14:17
Ég efast um, að þetta verði stjórnarmál. Hver þingmaður mun gera upp hug sinn. Tillaga Framsóknarflokksins er að fá undanþágu frá öllum ákvæðum Orkupakka #3. Það heyrist ekkert frá stjórninni um það. Hreinlegast er að hafna honum alfarið, beita neitunarvaldinu á Alþingi.
Bjarni Jónsson, 11.12.2018 kl. 21:18
Utanríkisráðherra ber að leggja pakkan fyrir Alþingi. Samkvæmt mínum upplýsingum mun viðauki 4 í EES samningnum sem fjallar um orkumál falla niður í heild sinni ef innleiðing 3ja orkupakkans verður felld á Alþingi í febrúar 2019.
Svanur Guðmundsson, 12.12.2018 kl. 16:07
Utanríkisráðherra mun væntanlega leggja fram þingsályktunartillögu um, að Alþingi staðfesti gjörð Sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017. Verði hún samþykkt, leggur iðnaðarráðherra fram frumvarp um viðeigandi breytingar á orkulögum landsins. Verði þingsályktunartillagan felld, sem flestir vona, er ekkert sjálfgefið um viðbrögð ESB, en sambandið má samkvæmt EES-samninginum harðast bregðast við með því að fella Viðauka IV úr gildi gagnvart EFTA. Það verður jákvætt fyrir Íslendinga að geta samið sína orkulöggjöf sjálfir án tilstilli ESB. Hinar EFTA-þjóðirnar munu gera sérsamning við ESB í staðinn. Ísland átti aldrei að eiga aðild að þessum Viðauka IV. Það var stóri misskilningurinn.
Bjarni Jónsson, 13.12.2018 kl. 10:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.