"Hver veit, nema Eyjólfur hressist ?"

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að á Landsfundi sjálfstæðismanna í marz 2018 var einróma samþykkt ályktun frá Atvinnuveganefnd fundarins um að hafna frekara valdframsali yfir orkumarkaði landsins til evrópskra stofnana.  Það var skilningur langflestra Landsfundarfulltrúa, að þarna væri á ferðinni skýr afstaða Landsfundar gegn innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  Síðan hafa þó heyrzt hjáróma raddir fáeinna sjálfstæðismanna um, að það sé misskilningur, að téð Landsfundarályktun eigi við Orkupakka #3.  Eigi er örgrannt um, að ráðherrar iðnaðar og utanríkismála, sem með málið fara í ríkisstjórn, hafi viðhaft slíkar dylgjur, og verður að færa þeim það til hnjóðs, báðum. Hefur þá heyrzt fleygt, að þáttur í grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins sé frjáls samkeppni með vöru og þjónustu, og Orkupakki #3 snúist í raun um frjálsa samkeppni um orku.  Sá hængur er á þessum málflutningi, að það er ekki afstaða Sjálfstæðisflokksins að skilgreina rafmagn sem vöru á markaði í stað afurðar náttúruauðlindar þjóðarinnar, sem nota beri til að styrkja samkeppnisstöðu íslenzkra fyrirtækja um allt land og mynda þannig undirstöðu samkeppnishæfra lífskjara hérlendis m.v. önnur lönd.  

Ýmsir sjálfstæðismenn á þingi hafa tjáð sig um þetta mál, þannig að ætla má, að innan þingflokksins sé í allvænum hópi manna að verða til sameiginlegur skilningur á því, að misráðið hafi verið að hleypa Evrópusambandinu (ESB) inn á gafl íslenzkra orkumála.  Dæmi um þessi sjónarmið komu fram í grein eftir Jón Gunnarsson, Alþingismann, í Morgunblaðsgrein 29. nóvember 2018,

"Orkupakki Evrópusambandsins".

Jón reit m.a.:

"Í huga margra er það grundvallaratriði, þegar kemur að aðild okkar að EES, að í þeim málaflokki [fiskveiðistjórnun] ráðum við sjálf regluverkinu."
 
Til þess að varðveita óskert fullveldi yfir landhelginni og nýtingu auðlinda innan fiskveiðilögsögunnar varð að undanskilja sjávarútvegsmálin frá EES-samninginum við Ísland, og hið sama var gert fyrir Noreg, og Liechtenstein er landlukt. Það var ólán, að orkumálin skyldu ekki vera undanskilin líka.  Líklegasta skýringin á, að svo var ekki gert á sínum tíma, er, að hin EFTA-ríkin hafi viljað hafa orkumálin með í EES-samninginum og íslenzkir samningamenn hafi annaðhvort ekki haft bolmagn til að fá undanþágu á Viðauka IV um orkumál í samninginum eða ekki áttað sig á mikilvægi þess að halda ESB-löggjöfinni frá orkumálum Íslands og látið gott heita að fylgja hinum EFTA-ríkjunum.  Það var misráðið, eins og nú er komið á daginn. Í þeirri stöðu er þá ekki um annað að ræða en að taka í lögbundinn neyðarhemil og beita neitunarvaldi á Alþingi.
 
  Framsóknarflokkurinn vill taka upp samningaviðræður núna við ESB um undanþágu frá Orkupakka #3.  Líklegt er, að fyrst þurfi EFTA að fallast á slíkt og að síðan hefjist samningaviðræður um þetta á milli EFTA og ESB.  Þá er eðlilegast að fara fram á, að Ísland losni algerlega við Viðauka IV um orkumálin í EES-samninginum.  Þetta verður á brattann að sækja.  Einfaldast er að beita neitunarvaldinu á Alþingi.
 
Síðan víkur Jón Gunnarsson að því, að regluverki ESB, sem í ýmsum tilvikum er mjög íþyngjandi fyrir lítið samfélag á tiltölulega afskekktri eyju, og telur, að íslenzkir embættismenn eða stjórnmálamenn hefðu verið þess umkomnir að gera löggjöf ESB okkur eitthvað hagfelldari.  Það er borin von.  Væntingar um slíkt eru algerlega óraunhæfar.  Það ætti öllum að vera ljóst, sem líta á ferli tilskipana og gerða hjá ESB.  Ef átt er við hina Sameiginlegu EES-nefnd, þá er það einfaldlega æ ákveðnari krafa að hálfu ESB, að samræmi verði í framkvæmd tilskipana og gerða innan alls ESB og EES.  Evrópurétturinn á að vera einn og óskiptur.  Að hola hann út er eðlilega illa séð.
 
"Í einhverjum tilfellum skrifast það á okkar reikning, því við stóðum ekki vaktina úti í Brüssel, þegar regluverkið var í smíðum, því það er á því stigi, sem við höfum tækifæri til að koma athugasemdum okkar á framfæri og eftir því, sem við á, að leggja til breytingar, sem við viljum ná fram eða sækja um undanþágur frá einhverjum þeim reglum, sem til stendur að færa í lög."
 
Við verðum aldrei í neinni slíkri aðstöðu, nema við göngum í ESB.  Það er framkvæmdastjórn ESB, sem einhliða ákveður, hvaða tilskipanir og gerðir skuli fara til umfjöllunar í Sameiginlegu EES-nefndinni til innleiðingar í löggjöf EFTA-landanna.  Þar hafa aldrei náðst neinar markverðar breytingar fram á virkni löggjafarinnar.
 
Síðan víkur Jón skrifunum að Orkupakkanum, hvers vegna margir Íslendingar óttast verðhækkanir á raforku, sem fylgi í kjölfar hans, og stjórnun orkumála hér með hliðsjón af hagsmunum alls EES í stað einvörðungu eyjarskeggjanna hér:
 
"Sjálfbær nýting náttúruauðlinda er okkur Íslendingum hlutfallslega mikilvægari en öðrum þjóðum, og þess vegna er eðlilegt, að umræður verði krefjandi.  Þetta á við um orkupakkann.  Íslendingar framleiða u.þ.b. 50 MWh af raforku á hvern landsmann [53 MWh/íb], á sama tíma og Norðmenn framleiða 15 MWh [25 MWh/íb-innsk. BJo].  Þessar tvær þjóðir bera höfuð og herðar yfir aðrar, þegar kemur að þessari framleiðslu.  Það er því eðlilegt, að margir hafi áhyggjur, þegar þeir telja, að innleiðing regluverks ESB geti haft takmarkandi áhrif á ákvarðanatöku okkar um skipulag þessara mála til lengri framtíðar og mögulega kallað fram hækkun á raforkuverði til heimila og almenns fyrirtækjarekstrar í landinu."
 
Það nægir að nefna 2 dæmi um réttmæti kvíðbogans fyrir innleiðingu Orkupakka #3 á hag allra landsmanna:
a) Eftir innleiðingu markaðskerfis ESB á íslenzkum raforkumarkaði, verður bannað að stunda hér orkulindastýringu þvert á fyrirtæki í samkeppnisrekstri. Með þessu er átt við stýringu álags á virkjanir með það í huga að treina vatnið í miðlunarlónunum allan veturinn fram að þeim tíma, er innrennsli lónanna eykst á ný að vorlagi.  Þá verður þess líka gætt að ofnýta ekki virkjuð gufuforðabúr, en hætta er á því, þegar vatnsaflsvirkjanir gefa eftir vegna vatnsleysis.  
b) Prófessor Peter Örebech sýndi fram á það í fyrirlestri sínum í HÍ 22. október 2018, að málsmeðferð umsóknar um leyfi til að leggja aflsæstreng til Íslands og tengja hann við íslenzka raforkukerfið mun bera öll einkenni einnar stoðar lausnar í stað tveggja stoða lausnar, sem áskilin er í EES-samninginum.  Þetta þýðir, að ákvarðanatakan verður alfarið í höndum Landsreglarans á Íslandi og yfirvalda hans, Orkustofnunar ESB-ACER.  Breytir þá engu um niðurstöðuna, þótt Alþingi samþykki bann við slíku, þegar það verður búið að afsala sér völdum á þessu sviði til yfirþjóðlegrar stofnunar, sem landið á ekki aðild að.
 
Síðan harmaði Jón Gunnarsson, að Ísland skyldi ekki hafa verið undanþegið orkumálakafla EES-samningsins, eins og sjávarútvegskaflanum, en það stafar sennilega af mismunandi hagsmunamati Norðmanna á þessum tveimur auðlindasviðum og framsýni hefur skort hjá íslenzku samningamönnunum til að berjast fyrir undanþágu fyrir Ísland frá Viðauka IV um orkumálin:
 
"Þróun regluverks ESB vegna orkumála var ekki fyrirséð [af] þeim, sem á sínum tíma lögðu áherzlu á innleiðingu þess hér á landi, og það sér ekki fyrir endann á þeim málum.  Eftir á að hyggja hefði því verið skynsamlegt, að við þróuðum okkar eigið regluverk til að gæta hagsmuna landsmanna og fyrirtækja í landinu.  Tryggja eðlilegan markað og samkeppni, sem hefði skilað hagkvæmum rekstri og bætt hag neytenda.  
Ég get ekki séð, að það skipti samstarfsþjóðir okkar nokkru máli, þó að við stæðum utan regluverksins um orkumál.  Þrátt fyrir að vera hlutfallslega stórir framleiðendur, er markaðurinn hér örmarkaður í stóra samhenginu, markaður, sem skiptir ekki aðra en okkur máli m.a. vegna þess, hversu langt við erum frá markaði ESB, og við erum ekki að tengjast þeim markaði á næstu árum, hvað sem síðar verður."
 
Það er mikið til í þessu hjá þingmanninum, en samt er hætt við, að hann sé of bláeygur gagnvart hagsmunagæzlu ESB.  ESB hungrar eftir endurnýjanlegri raforku.  Þar á bæ er ekki litið einvörðungu á núverandi orkumarkað hérlendis, heldur eru orkulindirnar allar teknar með í reikninginn, og mikið er óvirkjað hér, bæði í nýtingarflokki, biðflokki og verndarflokki Rammaáætlunar.  Hafa ber í huga hér, að náttúruvernd er ekki tekin gild í Evrópurétti sem útflutningshindrun. 
Nú er búið að virkja aðeins um 40 % þess, sem talið er hagkvæmt að virkja hér fyrir utan vindorkuna.  Alls má meta mögulega verðmætasköpun með allri orkunni yfir 600 mrdISK/ár, svo að þessi auðlind mun skipta sköpum fyrir framtíðina á Íslandi.
 
List stjórnmálanna verður fólgin í því að skapa forsendur í landinu fyrir nýtingu auðlinda landsins til hagsbóta fyrir fólkið í landinu.  Það má fullyrða, að það er ómögulegt með því að deila þessum auðlindum með öðrum með einum eða öðrum hætti.  Listin verður þar að auki fólgin í því að skapa snurðulaust aðgengi fyrir afurðir landsins sem víðast í heiminum, þar sem kaupgeta er.
 
Grein sinni lýkur Jón í sáttatóni, þar sem hann virðist leggja til, að ríkisstjórnin geri stefnumörkun miðstjórnarfundar Framsóknarflokksins að sinni, en miðstjórnarfundurinn lagði til, að leitað yrði hófanna hjá EFTA/ESB um undanþágu allra ákvæða Þriðja orkupakkans fyrir Ísland gegn því, að Alþingi myndi staðfesta innleiðingu pakkans í Viðauka IV við EES-samninginn.  Rökrétt væri hins vegar m.v. grein Jóns að losa Ísland alfarið undan Viðauka IV, því að það hafi verið misráðið í upphafi, að Ísland væri aðili að honum.  Þá renndi íslenzk stjórnvöld líklega ekki í grun, hvað þar myndi verða sett inn með tíð og tíma.  
 
"Mín tillaga er því einföld: setjumst niður með viðsemjendum okkar og förum yfir málin á þessum grunni.  Ég sé ekki, að þær þjóðir hafi, eins og sakir standa, sérstaka hagsmuni af því, að við innleiðum reglur ESB um orkumál."
 
Það er þó hægt að greina hernaðaráætlun ("strategíu") hjá ESB með orkustefnu sinni og með Viðauka IV í EES-samninginum.  Hún er sú, að öll raforkunotkun ESB-landanna verði á grundvelli sjálfbærrar orkuvinnslu og allt ESB-svæðið verði einn orkumarkaður með mjög svipað orkuverð alls staðar.  Tenging allra Norðurlandanna er af augljósum ástæðum (orkuríkidæmi) hluti þessarar hernaðaráætlunar.  Þjónar hún hagsmunum Íslands ?  Nei, þegar kemur að samtengingu íslenzka orkukerfisins við ESB gerir hún það ekki, því að hún eyðileggur samkeppnisforskot Íslands. 
 
Það er miður, að íslenzk stjórnvöld skuli ekki hafa staðið sig betur en raun ber vitni um við hagsmunagreiningu fyrir Íslands hönd og einarðri stefnumörkun á grundvelli hennar.  Það er ekki seinna vænna en að setjast niður með viðsemjendum okkar og útskýra fyrir þeim nýja afstöðu Íslands, og hvers vegna hún er nauðsynleg.  Þetta mál verður prófsteinn á innri styrk stjórnvalda og getu utanríkisþjónustunnar.  
 
 
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband