21.12.2018 | 17:54
"Sæstrengurinn og orkupakkinn"
Höfundurinn "Óðinn" birti afleitan pistil undir ofangreindri fyrirsögn í Viðskiptablaðinu 22. nóvember 2018. Þetta var miður, því að oftast eru pistlar með þessu höfundarnafni frumlegir og fela í sér réttmæta gagnrýni og góða greiningu á viðfangsefninu. Í þessu tilviki urðu honum þó á nokkrir alvarlegir fingurbrjótar.
Hann minnir í upphafi á 3 orkumarkmið ESB fyrir árið 2020, sem sennilega munu ekki nást, aðallega vegna of einhliða áherzlu á slitróttar, endurnýjanlegar orkulindir, sól og vind, á meðan grunnorkugjöfum á borð við kjarnorkuver er lokað. Að berjast þannig á tveimur vígstöðvum samtímis hefur jafnan verið ávísun á ófarir. Fyrir vikið hefur kolanotkun sumra ESB-landa aukizt og koltvíildislosun orkuiðnaðarins í heild innan ESB líka.
Fyrsta markmiðið var, að endurnýjanlegar orkulindir stæðu undir minnst 20 % raforkuþarfarinnar. Það mun ekki nást. Á Íslandi er þetta hlutfall næstum 100 %.
Annað markmiðið var, að orkunýtni ykist um 20 % (vantar viðmiðunartímann). Á 10 árum hefur eldsneytisnýtni ökutækja aukizt um a.m.k. 20 %, og líklega hefur orkunýtni raforkuvera í Evrópu aukizt um 20 % á 20 árum. Á Íslandi eru of mikil orkutöp í raforkukerfinu vegna of lítilla fjárfestinga. Árið 2015 námu töp og eigin notkun raforkukerfisins 1303 GWh eða 6,9 % af heildarraforkuvinnslu. Töp og eigin notkun þurfa að fara niður fyrir 5 % eða minnka um 400 GWh/ár. Þannig sparast um 2 mrðISK/ár.
Þriðja markmiðið var að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 20 % (viðmiðunarár vantar). Þetta markmið næst alls ekki. Sé miðað við árið 2005, sem stundum er gert, næst þessi minnkun alls ekki í ESB, og sigið hefur á ógæfuhliðina á Íslandi. Þess vegna fer koltvíildisgjald losunar hækkandi í ESB, og kolefnisgjald eldsneytis fer hækkandi á Íslandi. Hið síðara er óréttmætt, því að allsendis ófullnægjandi framboð er enn á rafbílum, til að þeir geti tekið bróðurpart endurnýjunarþarfarinnar, og enginn raunhæfur rafmagnsvalkostur er enn fyrir stórar dísilvélar. Stjórnvöld eru komin fram úr sér í skattheimtu vegna orkuskiptanna. Markaðurinn hlýtur að ráða ferðinni, en ekki löngun stjórnmálamanna.
Óðinn virðist éta upp eftir ráðuneytum utanríkis og iðnaðar, þegar hann skrifar:
"Ekki er ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af þessum [orku] pakka, þó að eðlilegt sé að gjalda varhug við öllum pakkasendingum frá Brüssel. Þessi löggjöf mun hafa mun minni áhrif á Íslandi en á meginlandi Evrópu og líklega lítil sem engin."
Þessu er einmitt þveröfugt farið. Þar sem samkeppnismarkaður var fyrir raforku (og gas) og uppfyllti samkeppnisreglur ESB, þegar Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB var lögleiddur í aðildarlöndunum árið 2009, þar varð líklega ekki mikil breyting fyrir orkukaupendur, þegar Landsreglari tók til starfa sem eftirlitsaðili og reglusetningaraðili fyrir orkumarkaðinn, starfandi beint undir ACER-Orkustofnun ESB.
Þar sem hins vegar ekki er fyrir hendi samkeppnismarkaður, eins og í tilviki Íslands, þar verður að stofna slíkan eftir lögleiðingu Orkupakka #3. Líklegt er, að á Íslandi verði stofnað útibú frá "Nord Pool" orkukauphöllinni. Þetta eitt og sér mun hafa miklar breytingar í för með sér fyrir orkuseljendur og orkukaupendur. Raforkuverðið verður sveiflukennt, og meðalverðið mun hækka, af því að samræmd orkulindastýring verður bönnuð, sem hæglega getur leitt til ofnotkunar miðlunarlónanna í samkeppni við jarðgufuverin og þar af leiðandi mikilla verðhækkana að vetrarlagi og jafnvel orkuskorts.
"Aftur og aftur hefur komið fram, að Landsvirkjun hefur hvorki getu né áhuga á að leggja út í 800 milljarða króna framkvæmd, enda væri slíkt fásinna. Landsvirkjun hefur á hinn bóginn aftur og aftur greint frá áhuga erlendra aðila á því að leggja sæstrenginn."
Nú er það vel þekkt, að sæstrengurinn "Ice-Link" hefur hlotið náð fyrir augum ESB og er á lista ACER um forgangsorkusamtengingar Evrópulanda. Það þýðir, að þessi samtenging verður styrkhæf úr sjóðum Evrópusambandsins, sem miða að aukinni hlutdeild sjálfbærrar orku í orkunotkun ESB. Hvaða áhrif útganga Breta úr ESB hefur á þessi áform, er enn óljóst. Hitt er þó öruggt, að orkuviðskipti Breta og ESB-landanna munu halda áfram, og hugsanlega verður Bretland aukaaðili (án atkvæðisréttar) að ACER, eins og fyrirhugað er með EFTA-löndin.
Með ofangreindum stofnkostnaði, 2 % árlegum rekstrarkostnaði, 10 % heildartöpum og 8 % ávöxtunarkröfu í 25 ár, mun flutningsgjaldið þurfa að nema 90 USD/MWh, sem gæti lækkað í 80 USD/MWh vegna styrkveitinga frá ESB. Þetta er svipað verð og nú fæst fyrir raforku á heildsölumarkaði á Englandi. Ekkert er fast í hendi um, að brezki ríkissjóðurinn muni tryggja ákveðið lágmarksverð raforku um þennan sæstreng, sem sé talsvert hærra en þetta markaðsverð, enda er ekkert slíkt áformað í viðskiptum Norðmanna og Breta með sjálfbæra raforku frá Noregi.
"Nær væri að líta til væntrar arðsemi slíks verkefnis fyrir íslenzka raforkusala, sem flestir eru í opinberri eigu. Þar hafa verið nefndir 10-40 milljarðar króna á ári eftir því, hvaða forsendur menn hafa gefið sér."
Það virðist alveg út í hött, að svo mikið fáist fyrir íslenzka raforku á Bretlandi, að staðið geti undir greiðslum á 80 USD/MWh til sæstrengseigandans og þar að auki greiðslum til orkuvinnslufyrirtækja á Íslandi, sem ásamt orkusölu innanlands standi undir um 25 mrðISK/ár (10-40 mrðISK/ár) í arðgreiðslum til fyrirtækjanna. Um slíkar fjarstæður er ekki annað hægt að segja en þær hljóta að vera ættaðar frá skýjaglópum.
S.k. listaverð Landsvirkjunar fyrir forgangsorku er núna 43 USD/MWh. Það eru aðeins um 5 TWh/ár eftir virkjanlegir með þessum einingarkostnaði, en 1200 MW sæstrengur þarf 10 TWh/ár frá neti fyrir ofangreindan flutningskostnað. 50 USD/MWh er þannig nauðsynlegt forgangsorkuverð frá Íslandi inn á sæstreng. Það þýðir V=80+50=130 USD/MWh, sem brezkir kaupendur yrðu að greiða fyrir íslenzkt rafmagn, ef ekki á að verða tap á viðskiptunum. Það er 63 % hækkun m.v. núverandi markaðsverð á Englandi. Hvað skyldu draumóramenn segja um þetta ? Lítum aftur á Óðin:
"Það, sem skiptir arðsemi sæstrengs máli, er, hvort það náist samningur við brezk stjórnvöld um orkuverð, sem gildir út líftíma sæstrengsins eða ekki. Í upplýsingum, sem Landsvirkjun hefur birt frá orkumálaráðuneyti Bretlands um verð á endurnýjanlegri orku, kemur fram, að það er 3-5 sinnum hærra en listaverð Landsvirkjunar til 15-35 ára. Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, telur það geta verið hærra eða allt að 6-8 sinnum hærra."
Hér eru miklar væntingar, en ekkert kjöt á beinunum. Væntanlega á Óðinn við afskriftartímann fremur en tæknilegan líftíma sæstrengsins. Höfundur þessa pistils hefur reiknað með 25 ára afskriftartíma, sem er hámark, en annars verður flutningskostnaður raforku enn þá hærri. Samkvæmt þessu er ríkisstjórn Bretlands fús til að tryggja um 4x43=172 USD/MWh fyrir raforku frá Íslandi. Hún þyrfti þá að greiða 172-80=92 USD/MWh með henni eða 790 MUSD/ár að jafngildi um 100 mrðISK/ár. Fyrir slíkan samning fengi Landsvirkjun (fyrir tilviljun) sömu upphæð, en slíkir samningar væru samt ekki þjóðhagslega hagkvæmir, því að upp að 180 USD/MWh (100 USD/MWh til innlendra orkuvinnslufyrirtækja) fæst meiri verðmætasköpun með innanlandsnotkun raforkunnar.
Er fótur fyrir því, að brezka ríkisstjórnin geti og vilji gera slíka samninga við Íslendinga ? Nei, það er enginn fótur fyrir því. Það er allt annað mál, hverju hún og þingið telja verjanlegt að verja til þróunar á kjarnorkuveri (Hinkley 150 USD/MWh) og á vindorkuverum undan ströndinni (200 USD/MWh). Eins og sakir standa eru nánast engar líkur á, að brezk stjórnvöld vilji eða geti gert samninga um svona hátt verð, hvað þá eins og haft er eftir Katli Sigurjónssyni, því að brezki ríkissjóðurinn er rekinn með miklum halla og í hverjum fjárlögunum á fætur öðrum eru niðurgreiðslur vegna sólar- og vindorku minnkaðar, enda fer kostnaður frá þeim hratt lækkandi vegna tækniþróunar. Niðurgreiðslur til vindorkuvera undan strönd hafa þó að mestu haldizt.
Aðeins ef raforkuverð á Englandi hækkar um meira en 60 % verður hagkvæmt fyrir íslenzka virkjanaeigendur að stækka markað sinn, en enginn getur tryggt þeim slíkt verð til frambúðar eða út afskriftartíma nýrra virkjana. Af þessum ástæðum er viðskiptagrundvöllurinn enginn, nema eitthvað annað komi til, t.d. lokun iðjuvera á Íslandi, en stjórnvöld ættu að vinna gegn slíkum skiptum, því að þau verða ekki í þjóðarhag, eins og hér hefur verið rakið. Hér er vert að benda á, að norska ríkisstjórnin hefur lagt sig í framkróka við að framlengja raforkusamninga við orkukræfan iðnað í Noregi. Það mundi hún ekki hafa gert, nema hún teldi þjóðhagslega hagkvæmara að nota raforkuna til verðmætasköpunar í Noregi en að flytja hana til útlanda um millilandatengingarnar. Samt hirðir ríkisfyrirtækið Statnett allan ágóða af flutninginum sjálfum, Því að Statnett á allar millilandatengingarnar.
Í næsta pistli verður haldið áfram að fjalla um þessa grein Óðins og þá m.a. um arðsemi orkusölu til stóriðju.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjölmiðlar, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Sæll Bjarni
Ekki veit ég hver þessi "Óðinn" er, en skrif hans minna nokkuð á skrif annars manns í fjölmiðlum, fyrir nokkrum misserum síðan, sem reyndar "Óðinn" vitnar til.
Það er hins vegar magnað hvað menn, svona almennt, eru værukærir fyrir þessu málefni og merkilegt að fulltrúar fyrirtækja, launafólks og náttúruverndarsinna skuli ekki tjá sig meira um það.
Fulltrúar fyrirtækja vegna þeirrar staðreyndar að orka verður ekki send úr landi samhliða orkuskiptum bílaflotans og fjölgunar landsmann, án þess að fyrirtækjum verði lokað, bæði stórum og smáum. Launafólk vegna þeirrar staðreyndar að vinna þess verður þá flutt úr landi samhliða hækkun orkureiknings þess. Og náttúruverndarsinnar vegna þeirrar staðreyndar að jafnvel þó stóriðju yrði lokað verður krafan um auknar virkjanaframkvæmdir sterkari, jafnvel svo að rammaáætlun mun riðlast, til þess eins að hægt sé að brauðfæra landsmenn um næga orku til orkuskipta, eftir að sæstrengir hafa verið lestaðir. Það dettur varla nokkrum manni til hugar að einn strengur verði látinn duga, tveir eru algjört lágmark ef öryggi til afhendingar á að vera viðunandi.
Þetta mál er ekki síst spurning um hvar við viljum að virðisauki orkunnar okkar verði til, hér á landi eða erlendis.
Kveðja og gleðilega hátíð
Gunnar Heiðarsson, 22.12.2018 kl. 08:50
Allt má þetta til sanns vegar færa, Gunnar. Það er himinn og haf á milli norskrar og íslenzkrar verkalýðshreyfingar. Í Noregi er barizt fyrir traustum gjörum og réttindum alþýðu með hagsmuni hennar til langs tíma fyrir augum. Innan íslenzku verkalýðshreyfingarinnar eru öfl, sem kæra sig kollótt um getu og samkeppnishæfni atvinnulífsins. Það er tröllheimskuleg afstaða út frá hagsmunum hins almenna launamanns og -konu. Í Noregi horfir verkalýðshreyfingin fram á veginn og greinir þess vegna aðsteðjandi hættur frá hverjum lagabálki ESB á fætur öðrum, frá orkupakkanum, járnbrautarpakkanum, flutningapakkanum, vinnumarkaðspakkanum, svo að eitthvað sé nefnt. Íslenzka verkalýðshreyfingin vill sitja með hendur í skauti, þótt sumir þessara pakka ógni atvinnuöryggi og félagslegum réttindum í landinu.
Norsku umhverfissamtökin hafa samúð með baráttu ESB við að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku hjá sér. Þess vegna studdi "Miljöpartiet" Orkupakka #3. Við getum hins vegar slegið tvær flugur í einu höggi; aukið verðmætasköpun í landinu, búið til ný störf og aðstoðað Evrópulönd við orkuskiptin með því að framleiða hér vetni með rafgreiningu til útflutnings.
Bjarni Jónsson, 22.12.2018 kl. 16:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.