Fyrrverandi ráðherrar gjalda varhug við orkupakkanum

Í ljósi þess, að talsmenn innleiðingar Orkupakka #3 rembast eins og rjúpan við staurinn, hver sem betur getur, við að telja landsmönnum trú um, að Orkupakki #3 breyti nánast engu frá Orkupakka #2, er einkar athyglisvert að fylgjast með fyrrverandi ráðherrum leggja sig í líma við að vara þjóðina og þar með núverandi þingmenn við afleiðingum samþykktar Alþingis á þessum lagapakka frá ESB, hvað sem líður samþykkt nefndar EFTA og ESB í Brüssel, sem kallar sig "Sameiginlegu EES nefndina", enda væri það hámark hins ólýðræðislega ferlis, ef slík embættismannanefnd ætti að ráðskast með lagasetningu hérlendis án þess, að Alþingi fái þar rönd við reist.  Alþingi hefur enn ekki afsalað sér valdinu til að hafna gjörningum þessarar nefndar í Brüssel. 

Nýjasta dæmið um þessa stöðutöku fyrrverandi ráðherra  er nýlegur greinaflokkur Tómasar Inga Olrich í Morgunblaðinu, en greinin:

"Forgjöf Íslendinga",

sem birtist 19. janúar 2019, verður til athugunar hér. Morgunblaðsgrein hans, 23. janúar 2019, er einnig allrar athygli verð og verða gerð skil í öðrum pistli.  Báðar greinarnar sýna, að höfundurinn hefur kynnt sér málefnið rækilega áður en hann settist niður við skriftir.  Þess vegna er vert að vitna nú í fyrrnefndu greinina og velta fyrir sér því, sem þar stendur.  Grein Tómasar Inga hefst þannig:

"Orka er ein af mikilvægustu forsendum efnahagslegra framfara, og hefur svo verið frá öndverðri 19. öld."

Þetta er alveg rétt og er ástæða þess, að forystumenn Evrópusambandsins, ESB, sáu ástæðu til þess 2009 í kjölfar orkuskorts, sem herjaði á Evrópu þá, að gera róttækar ráðstafanir til að byggja upp þá innviði Evrópu, sem flytja orku á milli landa.  Með orkupakka #3 eru völdin yfir millilandatengingunum færð frá orkuyfirvöldum hverrar þjóðar og til Landsreglara, sem lagalega er óháður innlendum yfirvöldum, en lýtur þess í stað eftirliti og fyrirmælum Orkustofnunar ESB, ACER og framkvæmdastjórnar ESB. Þetta fyrirkomulag getur komið að gagni á meginlandi Evrópu, sem stríðir við staðbundinn orkuskort, en á augljóslega ekki við hér. Það, sem verra er, viðskiptalíkan ESB með raforku getur ekki þjónað hagsmunum almennings hérlendis.  Af þessum ástæðum verður að berjast með kjafti og klóm gegn innleiðingu hins hættulega Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi. 

Áður hafði víðast hvar á meginlandinu verið komið á frjálsri samkeppni um orku frá orkubirgjunum í orkukauphöllum.  Hugmyndafræðin er sú, að orkan sé vara og að sá skuli hreppa hana, sem borga vill og getur hæsta verðið.  Þetta stríðir algerlega gegn því gamla norræna viðhorfi, að orkan, hér raforkan, séu samfélagsgæði, sem nýta eigi til að treysta byggð um allt land og til að ljá framleiðsluatvinnuvegunum samkeppnisforskot við útlönd.  Þar með er ekki sagt, að reka eigi orkuvinnsluna með tapi, heldur skuli stilla ávöxtunarkröfu hennar í hóf, enda er notkunartími fjárfestingarinnar miklu lengri en bókhaldslegur afskriftartími, a.m.k. í tilviki vatnsaflsvirkjananna. Þetta endurspeglast í afkomu Landsvirkjunar.  Rekstarhagnaður hennar eykst með tvennum hætti: hækkun orkuverðs við endurnýjun langtímasamninga og lækkun skuldabyrðar.  

Í engu ríki Evrópu, og þótt víðar væri leitað, er raforkan þjóðhagslega mikilvægari en á Íslandi, enda er raforkuvinnslan hér mest að tiltölu á byggðu bóli, 52 MWh/íb á ári.  Hver íbúi notar þó aðeins 1-2 MWh/ár á heimilinu.  Hitt fer í atvinnustarfsemi, aðallega til að framleiða útflutningsvarning, eins og til var stofnað í upphafi. 

Það er af þessum orsökum Íslendingum þjóðhagslega mikilvægara en nokkurri annarri þjóð Evrópu að þurfa ekki að deila völdum og mikilvægum ákvarðanatökum um orkulindirnar, vinnslu raforkunnar, flutning hennar og dreifingu, og síðast en ekki sízt verðlagningunni, með öðrum þjóðum eða yfirþjóðlegri stofnun, þar sem við eigum ekki jafnréttháa aðild og aðrar þjóðir samstarfsins. Hagsmunir meginlands Evrópu fara alls ekki saman við hagsmuni Íslendinga í orkumálum. Við erum þar á allt öðru róli, og þessu verða ráðamenn þjóðarinnar að fara að gera sér grein fyrir.  Það er ekki seinna vænna.

Ef við höldum vel á spilunum, getum við orðið öðrum óháð með orku á 20 árum, en mikil eldsneytisnotkun og hætta á orkuskorti hrjáir og mun sennilega hrjá meginland Evrópu vestan Rússlands fram yfir miðja þessa öld. Að afhenda meginlandsöflum völd yfir íslenzkum orkumálum jafngildir afglöpum, sem fljótt geta breytzt í leik tröllskessa með fjöregg þjóðarinnar.  Þingmenn, sem að slíku standa, munu þurfa að standa kjósendum sínum reikningsskap gjörða sinna í þessu máli.  Hvernig sagan mun dæma þá hina sömu þingmenn, skal ekki fjölyrða um hér.

Um mikilvægi orkunnar fyrir Íslendinga skrifaði Tómas Ingi:

"Íslendingar eru tiltölulega vel settir, hvað orku varðar.  Meginorkulindir þjóðarinnar - vatnsorka og jarðhiti - eru taldar með þeim umhverfisvænstu, sem til eru.  Þessar orkulindir eru miklar m.v. mannfjölda á Íslandi, en ekki óþrjótandi. Orkan, sem fæst með nýtingu vatnsfalla og jarðhita, er tiltölulega ódýr og sem slík mikilvæg grundvallarforsenda velferðar Íslendinga, bæði fyrirtækja og einstaklinga.  Það, sem sólin er Ítölum og frjósemi jarðvegsins Frökkum, er orkan forgjöf Íslendinga. Það er enn í okkar höndum, hvernig við förum með þá forgjöf [undirstr. BJo]."

Það eru engin rök nógu sterk til að réttlæta það að láta af hendi þessa forgjöf til yfirþjóðlegrar stofnunar með vaxandi völd, ACER.  Að stinga hausnum í sandinn og segja, að innleiðing Þriðja orkumarkaðslagabálksins feli svo takmarkað valdframsal í sér, að ekki geti jafngilt afhendingu "forgjafarinnar", eru falsrök, reist á vanþekkingu, dómgreindarleysi eða vísvitandi blekkingarstarfsemi.

Síðan víkur Tómas Ingi að tengingu Íslands við orkumarkað ESB og skrifar: 

"Ísland er ekki tengt raforkukerfi ESB og getur ekki orðið hluti af orkumarkaði ESB án slíkrar tengingar."

Nú skulum við gera okkur grein fyrir því, að ætlun iðnaðarráðuneytisins er að setja Orkustofnun undir stjórn Landsreglara, fái ráðuneytið vilja sínum framgengt um innleiðingu Orkupakka #3.  Landsreglari, sem verður embættismaður ESB, verður Trójuhestur í íslenzkri stjórnsýslu í dulargervi Orkumálastjóra.  Þetta ráðslag iðnaðarráðherra er með ólíkindum, og t.d. Norðmenn, hverra núverandi stjórnvöld eru harla hrifin af flestu því, sem frá ESB kemur, ætla að takmarka völd Landsreglarans, eins og kostur er, með þvím.a. að halda þessum tveimur embættum aðskildum. Er íslenzki iðnaðarráðherrann kaþólskari en páfinn ? Að fela ACER stjórnun Orkustofnunar er of mikið af hinu góða, þ.e. af óverðskuldugu trausti iðnaðarráðherra Íslands á Framkvæmdastjórninni, sem stjórnar ACER.

Samkvæmt drögum norska orkuráðherrans að hlutverkum Landsreglara verður eitt hlutverka hans að rýna og að lokum samþykkja regluverk fyrir orkumarkaðinn.  Landsreglarinn á Íslandi mun þá sjá til þess, að hér  verði stofnsett orkukauphöll, sem starfi samkvæmt sams konar regluverki og í ESB-löndunum. Fyrsta skrefið verður sem sagt að stofnsetja hér ESB-raforkumarkað, sem snurðulaust getur tengzt öðrum ESB-markaði í fyllingu tímans. Þetta þýðir, að spákaupmennska með íslenzka raforku hefst, og auðlindastýring Landsvirkjunar afleggst, ef núverandi hlutdeild fyrirtækisins á markaði verður talin stangast á við samkeppnislöggjöf ESB. 

Allt mun þetta óhjákvæmilega leiða til hækkunar raforkuverðs til neytenda að jafnaði yfir árið og sérstaklega mikillar hækkunar í þurrkaárum og á árinu næst á undan gangsetningu nýrrar virkjunar.  Þetta brambolt verður allt á kostnað alþýðunnar í landinu, gjörsamlega að óþörfu. Ástand norska raforkumarkaðarins ætti að vera víti til varnaðar, en þar er verð raforkunnar tvöfalt hærra í síðari hluta janúar 2019 en ári áður.  Samt er verðteygni raforku til heimila lítil, þ.e.a.s. rafmagnsnotkun heimila og margra fyrirtækja breytist lítið með verðsveiflum.  Þetta er "kapítalismi andskotans".  Á Íslandi munu sveiflur markaðarins sízt verða minni en í Noregi, því að miðlunargeta lónanna er tiltölulega lítil og umframorkan er sáralítil.  Þessar verðsveiflur koma sér mjög illa fyrir raforkunotendur, verða heimatilbúið vandamál, og eru hér alger óþarfi og ekki til annars en að skemmta skrattanum. 

Eftirfarandi texti Tómasar þarfnast skoðunar:

"Með aðild að þriðja orkupakkanum geta Íslendingar haldið áfram að ákveða, með hvaða skilyrðum orkulindir þeirra eru nýttar (en þau skilyrði mega þá ekki mismuna kaupendum orkunnar), hvaða orkugjafa við veljum (t.d. getum við hafnað gastúrbínum og kjarnorku) og almenna tilhögun orkuafhendingar í samræmi við ákvæði TFEU 194 (2). En í þessum ákvæðum er Íslendingum alls ekki tryggður réttur til að ákveða einhliða, hvort aðrir aðilar, fyrirtæki eða ESB-ríki, fái aðgang að íslenzkri orku."

Ef með "skilyrðum" hér að ofan er átt við hönnunarskilyrði, þá er það rétt, eins og staðan er núna.  Ef hins vegar er átt við í hvaða augnamiði virkjað er, þá hafa stjórnvöld enga heimild til að mismuna aðilum á markaði, t.d. gagnaveri, álveri eða sæstreng samkvæmt EES-samninginum.  Að Evrópurétti verða umhverfisverndarsjónarmið ennfremur að víkja fyrir frelsinu til að flytja út verðmæti.  Með Orkubálki #3 verður Evrópuréttur lögleiddur hér á sviði millilandaflutninga á raforku.  Ef erlent virkjunarfélag kaupir virkjunarrétt einhvers staðar á Íslandi, verður erfitt að hindra það í að nýta virkjunaraðstöðuna til ýtrustu aflnýtingar, þ.e. hámarksstærð á virkjun, og það verður ekki hægt að stöðva línulögn frá virkjun að lendingarstað sæstrengs á grundvelli neikvæðra umhverfisáhrifa.  Það, sem meira er, íslenzkir raforkunotendur verða að standa undir kostnaði við þessar línulagnir með hækkun gjaldskrár Landsnets. Um þetta eru skýr ákvæði í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.

Það er þannig óttalega innihaldslítið að setja á langar ræður um, að Íslendingar muni áfram ráða "með hvaða skilyrðum orkulindir þeirra eru nýttar", eins og er nokkuð áberandi í umræðunni.  Það er, og verður í enn meiri mæli með Orkupakka #3, markaðurinn, sem ræður þessari nýtingu. Forræðið yfir orkulindunum verður í raun farið frá íslenzkum stjórnvöldum, þegar hver sem er innan EES getur virkjað og selt orkuna á markað þangað, sem honum sýnist.  Þessu gerir Tómas Ingi sér glögga grein fyrir, því að hann skrifar í lok meginmáls síns:

"Með öðrum orðum höfum við ekki lengur forræði yfir ráðstöfun orku úr orkulindum okkar, sem markaðir ESB kunna að að ágirnast, ef fjármagn finnst til að leggja streng til landsins.  Slíkur aðgangur að orkumarkaði er eitt af meginatriðum þriðja orkupakkans.  Ef við getum ekki ráðstafað orkunni, sem seld yrði hæstbjóðanda, er stutt í það, að við getum heldur ekki stýrt nýtingu orkulindanna, enda hafa orkuframleiðslufyrirtæki landsins mikinn áhuga - svo [að] ekki sé meira sagt - á að framleiða og selja sem mest. [Undirstr. BJo.]

Ég tel það vera rétt hjá fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni, að með þriðja orkupakkanum sé alls ekki gert skylt að leggja rafstreng til landsins.  En ef þeir aðilar finnast innan EES, sem hafa áhuga á að tengjast íslenzka orkumarkaðinum með sæstreng, þá getum við ekki hafnað því, að sá strengur verði lagður.  Það gengur gegn ákvæðum Evrópuréttar, að íslenzk stjórnvöld reyni að hindra það.  Komi upp deilur um slíka tengingu, fara sjálfstæðar eftirlitsstofnanir með það mál, sem Íslendingar hafa ekki aðild að [undirstr. BJo].

Það orkar tvímælis með skylduna, sem höfð er eftir Bjarna Benediktssyni hér að ofan.  Sú skylda er lögð á herðar Landsreglaranum að láta Landsnet aðlaga Kerfisáætlun sína að Kerfisþróunaráætlun ACER/ESB. Þar liggur sæstrengurinn "Icelink" á fleti fyrir.  Landsreglara ber þannig að róa að því öllum árum að tengja íslenzka raforkukerfið við raforkukerfi ESB. Sú skylda er jafnframt ótvírætt lögð á herðar Landsneti að fjármagna þær stórfelldu línulagnir, sem nauðsynlegar verða fyrir u.þ.b. 1200 MW flutning frá stofnkerfinu og niður að lendingarstað sæstrengs.

Það er mjög mikilvægt fyrir þá, sem haldið hafa uppi andófi gegn Orkupakka #3 hér á landi og varað Alþingismenn við afleiðingum innleiðingar hans, að Tómas Ingi Olrich skuli hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að mæli ACER með samþykkt á umsókn félags um að fá að leggja aflsæstreng hingað og tengja við rafkerfi Íslands, þá geta íslenzk stjórnvöld ekki stöðvað það mál, þótt þau geti tafið það með málaferlum, sem enda hjá EFTA-dómstólinum.  

Tómas Ingi hefur líka komizt að þeirri niðurstöðu, sem ýmsir hafa flaskað á, að Íslendingar munu missa forræði yfir ráðstöfun orkulinda sinna, "sem markaðir ESB kunna að ágirnast".  Vegna þjóðhagslegs mikilvægis orkulinda landsins fyrir rekstur heimila og fyrirtækja og framtíðarnýtingu fyrir orkuskipti, vetnisvinnslu og framleiðsluaukningu af ýmsu tagi, væru þingmenn að tefla hagsmunum þjóðarinnar, ekki sízt komandi kynslóða, í voða með því að samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn. 

Heimsósómi Skáld-Sveins 1614hvdc-kapall-thversnid-2

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband