Evran tvítug

Þann 1. janúar 1999 kom sameiginleg mynt Evrópusambandsins, ESB, í heiminn.  Hún virtist eiga efnilega bernsku sinn fyrsta áratug og geta keppt við bandaríkjadal sem heimsviðskiptamynt, en þá urðu reyndar atburðir, sem áttu eftir að reynast henni fjötur um fót, og hún verður vart nokkru sinni jafnoki dalsins úr þessu. 

Þjóðum, sem ekki fullnægðu Maastricht-skilmálunum um inngöngu í myntbandalagið, var hleypt inn bakdyramegin af pólitískum ástæðum, og hafa þær veikt myntina mikið.  Þetta voru Miðjarðarhafsþjóðirnar, Grikkir, Ítalir, Spánverjar og Portúgalir. Talið er, að þýzka markið, DEM, væri a.m.k. 30 % sterkara en evran í bandaríkjadölum talið, ef markið væri enn á dögum. Þetta skýrir hinn gríðarlega kraft í þýzku útflutningsvélinni.

Aðstandendur evrunnar, Frakkar og Þjóðverjar, eru ekki búnir að bíta úr nálinni með hið hagfræðilega fúsk, sem átti sér stað á bernskuárum evrunnar.  Það er staðreynd, að hagkerfi, sem binda trúss sitt við fjarlæga seðlabanka, verða oftar fórnarlömb peningalegrar kreppu en hin.  Milton Friedman spáði endalokum evrunnar í fyrstu kreppunni, sem hún yrði fyrir.  Það gerðist þó ekki, en þá gerðu stjórnendur ESB og ECB (Seðlabanka ESB) mistök, sem evran líður enn fyrir og verður e.t.v. banabiti hennar.

  Í úrtakskönnunum segja tæplega 30 % íbúa evrusvæðisins, að evran hafi slæm áhrif á hagkerfi heimalands síns.  Hvað skyldi stórt hlutfall Íslendinga telja ISK hafa slæm áhrif á hagkerfi þeirra ?  Aftur á móti segja 75 % íbúa evrusvæðisins, að evran sé góð fyrir samheldnina í ESB.  Ekki varð sú reyndin með Breta, sem eru á útleið, enda komst ríkisstjórn Bretlands að þeirri niðurstöðu á fyrsta áratug aldarinnar, gegn skoðun Tonys Blair, að of áhættusamt yrði Bretum að fórna sterlingspundinu fyrir evru, því að of mikil misleitni væri í þróun brezka og evru-hagkerfisins.

Helmut Kohl, þáverandi kanzlari Vestur-Þýzkalands, fórnaði DEM fyrir samþykki Mitterands, þáverandi forseta Frakklands, á endursameiningu Þýzkalands.  "Die Bundesbank" var á móti, en "Bundestag", Sambandsþingið, samþykkti.  Frakkar eiga í mesta basli við að standast Maastricht-skilmálana, og halli ríkissjóðs miðstýrðasta ríkis Evrópu mun sennilega fara yfir mörkin, 3 % af VLF, á árinu 2019.  Frakkar eru nú sjálfir komnir í þá spennitreyju, sem þeir ætluðu að færa Þjóðverja í.

Það hefur verið lítill hagvöxtur í ESB eftir hrun peningamarkaðanna 2007-2008.  Sum ríki evrusvæðisins fóru hræðilega illa út úr þessu hruni vegna viðbragða framkvæmdastjórnar ESB o.fl., sem tóku meira mið af hagsmunum þeirra, sem hafa efni á að hanga í Berlaymont og reka þar áróður fyrir sínum hagsmunum, en almennings í evru-löndunum.  Þetta er skýringin á vaxandi lýðhylli þjóðræknistefnu í Evrópu og vantrú á bákninu, afætunum, sem unga út reglugerðum og tilskipunum, í Brüssel.

Hagur almennings á Ítalíu hefur ekkert skánað síðan árið 1999.  Þar hefur ríkt stöðnun, og opinberar skuldir aukizt eftir upptöku evrunnar. Núverandi ríkisstjórn Ítalíu ætlaði að örva hagkerfið með ríkisútgjöldum, sem hleypa myndi ríkissjóðshallanum yfir 3 % af VLF, en var gerð afturreka með fjárlagafrumvarpið af búrókrötunum í Brüssel.

Spánn og Írland njóta nú hagvaxtar eftir kerfisbreytingar hjá sér, en máttu þola langt stöðnunartímabil vegna gríðarlegrar skuldayfirtöku ríkisins frá bankakerfinu að kröfu Framkvæmdastjórnarinnar.  Atvinnuleysi ungs fólks á Spáni er nú 35 %, sem vitnar um skelfilegt þjóðfélagsástand. Launahækkanir hafa nánast engar verið á evrusvæðinu frá 2008.  Hvers vegna krefjast verkalýðsfélögin þar ekki launahækkana ?  Það ætti að verða íslenzkum verkalýðsleiðtogum verðugt umhugsunarefni.  

Írland nýtur sérstöðu, því að bandarísk fyrirtæki hafa fjárfest gríðarlega þar, enda njóta þau skattalegs hagræðis á Írlandi, þar sem er aðeins 12 % tekjuskattur á fyrirtæki.  Þessi fyrirtæki öðlast auðvitað tollfrjálst aðgengi að EES-markaðinum, hvað sem tollastríði Bandaríkjaforseta við ESB líður.

Verstu mistök ESB í peningamálum voru 2010, er Framkvæmdastjórnin neitaði að viðurkenna, að gríska ríkið gæti aldrei greitt allar skuldir sínar.  Þar opinberaðist hið vanheilaga samband búrókratanna í Brüssel og fjármálavafstrara Evrópu.  Í stað þess að afskrifa a.m.k. helming skulda gríska ríkisins, þá voru þær fluttar frá þýzkum og frönskum bönkum o.fl. og til opinberra sjóða.  Þar með voru skattborgarar lánveitendaríkjanna gerðir ábyrgir fyrir skuldum eins skuldararíkjanna.  Þetta er eitur í beinum sparnaðarsinnaðra skattborgara og mun óhjákvæmilega leiða til gliðnunar í evrusamstarfinu, hvað sem líður Aachen-samningi forseta Frakklands og kanzlara Þýzkalands.  Ríki Karlamagnúsar sundraðist fljótt, og aðeins kirkjan sameinaði Evrópu um tíma, en hún sundraðist líka.  Þjóðverjar þoldu ekki við undir oki Rómar.  

Þegar alvarleg fjármálakreppa ríður yfir næst, mun reyna mjög á greiðsluþol skuldugu ríkjanna vegna vaxtahækkana, sem alltaf verða gagnvart illa stæðum ríkjum við slíkar aðstæður.  Hvorki evrubankinn né lánadrottnarnir munu hafa bolmagn til að hindra skuldugu ríkin á evru-svæðinu í að fara á hliðina.  Evran verður auðvitað ekki söm eftir.  Myntsvæðum Evrópu gæti fjölgað.  Óvíst er, hvað um Evrópusambandið verður í kjölfarið. Munu Bretar enn einu sinni standa eftir með pálmann í höndunum ?

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Fáir telja að það séu frekar litla líkur á að evran nái 25 ára aldri og sannfærðist ég enn betur um það eftir að hafa lesið bókina: EURO TRAGEDY  A drama in nine acts, eftir Ashoka Mody.Oxford University Press 2018.  Og hvet ég þig til að verða þér úti um þessa bók.  Ég fékk hana á amazon.co.uk....

Jóhann Elíasson, 23.1.2019 kl. 20:32

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég hef séð fleiri en þig vitna í þessa bók.  Þegar Ítala þrýtur örendið, rúllar núverandi evra, og það er alveg óvíst, hvað tekur við.  Frakkar hafa ekki roð við Þjóðverjum, og þess vegna geta þessar þjóðir ekki verið í sama myntbandalagi.  Það einkennilega er, að evran mun sundra ESB.

Bjarni Jónsson, 23.1.2019 kl. 20:48

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Hérna sendi ég þér "link" á bloggið mitt en þarna studdist ég lítillega bið þessa bók https://johanneliasson.blog.is/blog/johanneliasson/entry/2228210/.  En það sem vakti mesta athygli við þessa bók er; hversu vel höfundurinn rökstyður allt sem hann setur fram og hversu öflug heimildavinnan er....

Jóhann Elíasson, 24.1.2019 kl. 00:26

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég las það með athygli, Jóhann.  Þakka þér fyrir.

Bjarni Jónsson, 24.1.2019 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband