15.2.2019 | 10:39
Kúvending orkustefnu
Upp úr 1960 mótuðu íslenzk stjórnvöld landinu nýja orkustefnu. Hverfa skyldi frá smávirkjanastefnu, en beina kröftunum þess í stað að hagkvæmustu virkjanakostum landsins, stórvirkjunum á íslenzkan mælikvarða, og byggja upp öflugt og áreiðanlegt flutningskerfi raforku til mesta þéttbýlissvæðis landsins, þar sem verið hafði viðvarandi orkuskortur. Með þessu mundi myndast fótfesta til alhliða uppbyggingar raforkukerfisins og viðeigandi iðnaðar um allt land.
Hugmyndin var sú að fjármagna þessar framkvæmdir í orkukerfinu með orkusölu til stóriðju. Það var þáverandi iðnaðarráðherra, Bjarni Benediktsson, sem fór fyrir þessari tímabæru stefnubreytingu. Stór áfangasigur umbótamanna náðist árið 1965, þegar Alþingi samþykkti lög um Landsvirkjun, sem framfylgja skyldi þessari stefnu Viðreisnarstjórnarinnar.
Stefnan var innsigluð á Alþingi árið 1966 með stofnun Íslenzka Álfélagsins og staðfestingu Aðalsamnings við Alusuisse til 45 ára um stofnun og starfrækslu álvers ISAL í Straumsvík og raforkusölusamnings til 45 ára (með endurskoðunarákvæðum), eftir stórpólitískar deilur í landinu á milli ríkisstjórnarflokkanna þáverandi, Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, og stjórnarandstöðuflokkanna, Framsóknarflokks og Alþýðubandalags. Höfundi þessa pistils eru deilur þessar enn í minni.
Starfsemin hófst í Straumsvík í júní 1969, þrátt fyrir bölbænir andstæðinganna, og fékk ISAL raforku fyrst frá einum rafala í Búrfelli og einni línu þaðan, og hefur þessi verksmiðja þess vegna í sumar verið starfrækt í hálfa öld. Þarf ekki að fjölyrða hér um þróun starfseminnar á þessu tímabili, og að afhendingaröryggi raforku, sem var mjög bágborið, hefur síðan tekið stakkaskiptum.
Með ISAL hljóp nýr kraftur í iðn- og tæknivæðingu landsins á heppilegum tíma í atvinnulegu tilliti, því að sjávarútvegurinn og hagkerfi landsins stríddu um þessar mundir við hrun síldarstofnsins, sem var um tíma aðalgjaldeyrislind þjóðarinnar. Orkusækinn iðnaður hefur síðan alla tíð verið sveiflujafnandi í íslenzka hagkerfinu og myndar nú eina af þremur meginstoðum gjaldeyrisöflunar landsmanna. Stefnumörkun Viðreisnarstjórnarinnar gekk upp, en alvarlegustu hrakspár úrtölumanna, bæði um Búrfellsvirkjun, ISAL og áhrif útlendinga á íslenzkt þjóðlíf vegna beinna fjárfestinga þeirra, rættust ekki. Hrakspárnar reyndust reistar á vanþekkingu, vanmetakennd og/eða pólitískum grillum.
Þótt umsamið orkuverð frá Búrfelli væri lágt fyrstu árin, þá hækkaði það smám saman, og nú borgar ISAL hæsta verð orkukræfra verksmiðja á Íslandi, og er það yfir meðalverði til álvera í heiminum. Dugðu tekjur af ISAL reyndar til að greiða upp allan kostnað af Búrfelli, stofnlínum þaðan og tengdum aðveitustöðvum á innan við 30 árum, og notaði ISAL þó aldrei alla orkuna frá Búrfelli á þessu tímabili. Í þessu, ásamt atvinnusköpun, verðmætasköpun, nýrri tækniþekkingu o.fl., fólst ávinningur stóriðjustefnunnar fyrir almenning.
Sumir hagfræðingar hafa samt talið arðsemiskröfuna til virkjanafjárfestinga vera of lága og telja enn. Þar má nefna Þorstein Siglaugsson, sem að eigin sögn er "heimspekingur, hagfræðingur, rekstrarráðgjafi og frjálslyndur frjálshyggjumaður". Ekki lítið punt á nafnspjaldið, það. Gott og vel, en hefði arðsemiskrafan verið hækkuð upp í það, sem algengt er fyrir fjárfestingar með tæknilegan afskriftartíma um 30 ár, þótt öruggari fjárfestingar en í virkjunum með trygga sölu orkunnar áratugum saman finnist vart, þá hefði einfaldlega ekkert orðið af þessum framkvæmdum, og uppbygging raforkukerfisins hefði dregizt von úr viti. Í þessu sambandi er haldlaust að segja, að fjárfesta hefði mátt í einhverju öðru. Mikil notkun endurnýjanlegra orkulinda á hvern íbúa er öruggasta stoðin undir velmegun landsmanna í bráð og lengd.
Hvað gerði mögulegt að hrinda þessari orku- og iðnvæðingarstefnu Viðreisnarstjórnarinnar í framkvæmd ? Það var nægt vinnuafl í landinu, geta og vilji í þjóðfélaginu til nauðsynlegrar innviðauppbyggingar, þ.á.m. næg verkþekking og tæknikunnátta til að Íslendingar, sem að þessu störfuðu, væru nægilega fljótir að tileinka sér og uppfylla kröfur, sem gerðar voru til þeirra á öllum vígstöðvum. Þessari merku sögu hafa ekki verið gerð skil að fullu. Saga ISAL hefur þó verið rituð, en ekki gefin út enn.
Á fjármálalegu hliðinni var, eins og áður segir, eitt grundvallar atriði, sem gerði þessa stefnu mögulega í raunheimum. Það var lág ávöxtunarkrafa fjármagns, sem lagt var í mannvirkin, Búrfellsvirkjun, aðveitustöðvar og flutningslínur Landsvirkjunar. Þar sem fjármagnskostnaðurinn er yfirgnæfandi þáttur heildarkostnaðar slíkra framkvæmda og rekstrarkostnaður þeirra er tiltölulega lágur, var þessi stefnumörkun forsenda þess, að orkusamningur náðist við Alusuisse. Fyrir vikið var unnt að selja þessu fyrirtæki, sem á sama tíma reisti sams konar verksmiðju á Húsnesi sunnan við Björgvin í Noregi, orku á samkeppnishæfu verði þess tíma. Sú tekjutrygging Landsvirkjunar, sem í orkusamninginum fólst, ásamt ríkisábyrgð, sem Landsvirkjun nýtur eðlilega ekki lengur, enda komin á legg, varð jafnframt til þess, að Landsvirkjun fékk lán (hjá Alþjóðabankanum) á tiltölulega hagstæðum kjörum, þótt um væri að ræða frumraun Íslendinga á þessu sviði iðnvæðingarinnar. Ísinn var brotinn.
Allt leiddi þetta til lækkunar raunraforkuverðs til almennings ár eftir ár, er frá leið, svo að Ísland hefur búið við einna lægst raforkuverð í Evrópu ásamt Noregi, áratugum saman, en Norðmenn voru meira en hálfri öld á undan Íslendingum að virkja vatnsföllin til að knýja orkukræfa iðnaðarframleiðslu.
Þeir leyfðu hins vegar í upphafi hinum erlendu iðnfyrirtækjum að virkja og að reka virkjanirnar fyrir verksmiðjur sínar. Segja má, að Íslendingar hafi hafnað þeirri leið um og eftir 1920, er Títanfélagi Einars Benediktssonar, sýslumanns og skálds, var settur stóllinn fyrir dyrnar. Þannig skildu leiðir með frændþjóðunum til iðnvæðingar um sinn.
Norðmenn settu hins vegar á svipuðum tíma fyrstu eignarnámslögin, sem kváðu á um, að virkjanirnar skyldu falla skuldlausar í skaut hins opinbera, viðkomandi sveitarfélags og/eða ríkis, að um 80 árum liðnum. Megnið af raforkukerfi Noregs er þess vegna nú í opinberri eigu og bókhaldslega afskrifað fyrir löngu, en malar áfram gull, þar sem verksmiðjurnar hafa verið endurnýjaðar og/eða raforkan seld til almenningsveitnanna.
Þess vegna hafa Norðmenn lengi búið við lægsta raforkuverð í Evrópu. Nú eru þó blikur á lofti hjá þeim í þessum efnum, þar sem þeir flytja inn hátt raforkuverð frá meginlandi Evrópu gegnum aflsæstrengi sína. Flytja þeir þar með inn afleiðingarnar af misheppnaðri orkustefnu á meginlandinu. Hefur hækkunarhrinan nú leitt til þess, að á tímabili í vetur var dýrara að kaupa rafmagn á rafmagnsbíl í Noregi en jarðefnaeldsneyti á sparneytinn dísilbíl fyrir sams konar akstur. Þetta hefur sett ugg að mörgum Norðmanninum um afkomu sína og þróun orkuskiptanna. Afkoma Ola Nordmann og Kari, sem eru Jón og Gunna Noregs, kann að bíða hnekki af þessari þróun mála, sem leiðir til lakari samkeppnisstöðu fyrirtækjanna, sem Ola og Kari eiga afkomu sína undir.
Árið 2007 kvað EFTA-dómstóllinn upp úrskurð þess efnis, að þessi norsku eignarnámslög stríddu gegn athafnafrelsi og fjárfestingafrelsi EES-samningsins og Evrópuréttarins. Fjárfestingar aðila af EES-svæðinu í virkjunum í EFTA-löndunum eftir þennan dóm eru þannig varðar gagnvart löggjöf um eignarnám, enda hefur mátt greina vaxandi áhuga, t.d. Þjóðverja og Frakka, á fjárfestingum í norskum vatnsorku- og vindorkuverum.
Skuldir Landsvirkjunar fara nú hraðminnkandi og þess vegna vex hagnaður fyrirtækisins hraðfara með hverju árinu. Það eru margvíslegar ástæður fyrir því, að þjóðhagslega er hagkvæmt að byggja atvinnulífið upp með því að krefjast lágrar ávöxtunar af fjárfestingum í orkumannvirkjum og að viðhalda þannig lægra orkuverði til atvinnulífs og almennings, þótt minni hagnaður verði framan af endingartíma mannvirkjanna. Ein ástæðan er einmitt langur endingartími orkumannvirkja, en hann er í sumum tilvikum meira en fjórfaldur bókhaldslegur afskriftartími.
Frá upphafi téðrar stefnumótunar Viðreisnarstjórnarinnar, sem svo frábærlega reyndist landsmönnum, hafa staðið harðar deilur um hana sem fyrr greinir. Fyrst var andstaðan reist á blöndu af sósíalistískri og þjóðernislegri andúð á beinum erlendum fjárfestingum. Þegar sá hræðsluáróður missti marks, beindist áróðurinn að því að varðveita náttúruna án inngripa mannsins. Í ljósi stöðunnar í umhverfismálum jarðarinnar er ábyrgðarlaust að reka hér öfgafulla umhverfisstefnu í anda slagorðsins "náttúran verður að njóta vafans", enda mundi slíkt leiða til stöðnunar hagkerfisins og síðan samdráttar og fjöldaatvinnuleysis í þjóðfélagi, sem reisir afkomu sína á nýtingu náttúruauðlinda. Þess má geta, að náttúruvernd nýtur ekki viðurkenningar sem fullgild ástæða fyrir hömlum á útflutningi eða innflutningi á vörum og þjónustu að Evrópurétti.
Frá upphafi hefur orkuverð til stóriðjunnar einnig verið skotspónn. Um sérhvert þessara atriða gildir, að hefðu þau sjónarmið orðið ofan á í opinberri stefnumörkun, þá hefði ekkert orðið af iðnvæðingunni, sem nú er ein meginundirstaðanna undir útflutningstekjum, góðum lífskjörum, menntakerfi og velferðarkerfi landsmanna. Þeir, sem berjast nú fyrir staðfestingu Alþingis á þeim "mistökum" Sameiginlegu EES-nefndarinnar að fara að kröfu ESB um innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn og íslenzk lög, hvort sem þeir heita Björn Bjarnason eða eitthvað annað, vinna um leið að því að hverfa frá stefnunni um lágt raforkuverð á Íslandi til að knýja hér atvinnustarfsemi, sem stenzt öðrum snúning og hægt er að selja á samkeppnishæfu verði í Evrópu og annars staðar.
Eins og áður getur um, átti fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, mestan þátt í þessari gifturíku stefnumörkun fyrir land og lýð, og Sjálfstæðisflokkurinn hefur fylgt þessari stefnu síðan. Nú eru hins vegar blikur á lofti. Þrátt fyrir eindregna ályktun Landsfundar sjálfstæðismanna í marz 2018 gegn auknum völdum erlendra stofnana yfir íslenzkum orkumarkaði, sem engum blandaðist hugur um, að fól í sér yfirgnæfandi andstöðu Landsfundarfulltrúa við innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn og íslenzka löggjöf, virðast 2 ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, sem með málið fara innan ríkisstjórnarinnar, enn vera við sama heygarðshornið. Verði áform þeirra að veruleika, jafngildir það kúvendingu á stefnu Sjálfstæðisflokksins í orkumálum.
Markaðsvæðing raforkunnar í orkukauphöll að hætti ESB, þar sem litið er á rafmagn sem hverja aðra vöru, þar sem hæstbjóðandi fær forgang að henni, hlýtur að leiða til hærri ávöxtunarkröfu fjármagnsins, sem lagt er í virkjanirnar, og Landsreglarinn er jafnframt líklegur til að krefjast hærri ávöxtunar á féð, sem lagt er í orkuflutnings- og dreifingarkerfið. Þetta þýðir aukin útgjöld allra heimila, fyrirtækja og stofnana í landinu til raforkukaupa.
Ekki nóg með þetta. Í ESB er öll raforka á uppboðsmarkaði. Á Íslandi og í Noregi, hins vegar, er mikill hluti raforkuvinnslunnar bundinn í langtímasamningum, sem voru undirstöður stórvirkjana, og eru grundvöllur samkeppnishæfni orkusækinna fyrirtækja á SV-landi, Norðurlandi, Austurlandi og um dreifðar byggðir Noregs. ESA (Eftirlitsstofnun EFTA)hefur með semingi fallizt á þetta fyrirkomulag um sinn, en það er áreiðanlega þyrnir í augum ESB, sem, eftir gildistöku Orkupakka #3, er líklegt til að gera athugasemd við þetta fyrirkomulag sem dulbúinn ríkisstuðning við fyrirtæki í samkeppnisrekstri í þeim tilvikum, þar sem samningsaðili er ríkisfyrirtæki, t.d. Landsvirkjun.
Hættan á þessu stóreykst, ef Alþingi samþykkir Orkumarkaðslagabálk ESB nr 3, því að hann kveður á um stofnun embættis Landsreglara, sem m.a. á að hafa náið eftirlit með, að orkumarkaðurinn sé starfræktur að hætti ESB; verði aðlagaður innri markaðinum. Þar að auki er alþekkt, að ESB breytir gerðum og tilskipunum og bætir við nýjum um málaflokkinn að eigin geðþótta.
Ein hugsanleg breyting hjá ESA er hreinlega að skipa svo fyrir, að öll orka, sem losnar úr langtímasamningum, skuli fara á uppboðsmarkað og nýir langtímasamningar verði óheimilir. Hnífurinn mun stöðugt standa á íslenzkum stjórnvöldum, eftir að Alþingi hefur samþykkt Orkupakka #3, því að ESB hungrar eftir endurnýjanlegri orku. Það verður ekki linnt látunum fyrr en íslenzk orka hefur verið beizluð með beinum hætti fyrir hagkerfi ESB. Málmana, sem nú eru framleiddir hér með miklum virðisauka fyrir landið, munu verksmiðjur ESB-landanna kaupa annars staðar frá, jafnvel þótt koltvíildislosun þar sé allt að 16 sinnum meiri á hvert framleitt tonn og flutningsvegalengdir verði margfaldar.
Eftir sitja Íslendingar með rústað atvinnulíf og ótrygg rafmagnsviðskipti um sæstrengi, sem verður bundinn endi á, um leið og Evrópa hefur þróað öfluga og sjálfbæra orkugjafa. Til þess eru refirnir skornir með háu orkuverði að mynda nauðsynlega hvata til slíkrar þróunar, sem leyst geti Evrópu, vestan Rússlands, úr þeirri hræðilegu orkuprísund, sem hún nú er í.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Frábært yfirlit sem segir allan sannleikann um þær hættur sem felast í samþykkt 3.orkupakkans, Herr Kollege Bjarni.
Og enginn stjórnmálamaður hefur bent á einhverja kosti sem samþykktin beri með sér.
Og til hvers er þá varið að samþykkja eitthvað sem enga augljósa kosti hefur í för með ser?
Halldór Jónsson, 16.2.2019 kl. 14:30
Sæll Bjarni
Ef ég man rétt þá skrifaðir þú pistil um svipað efni fyrir nokkru löngu síðan. Nefndir þú ekki þar að í þeirri orkustefnu sem mörkuð var og samþykkt af Alþingi, væri ákvæði um að ekki mætti lækka verð til stórnotenda á kostnað heimila og að verð til heimila yrði tryggt eins lágt og hægt væri hverju sinni?
Kannski er þetta mismynni hjá mér, en einhvern veginn situr þetta fast í hausnum á mér.
Kveðja
Gunnar Heiðarsson, 17.2.2019 kl. 09:18
Herr Kollega Halldor: iðnaðarráðherra hefur leitt þann kór, sem félagi Tómas Ingi Olrich jafnar við örlagahyggju, að eftir innleiðingu orkupakka #1 og #2 sé oss ekkert að vanbúnaði að innleiða Orkupakka #3. Hér skriplar iðnaðarráðherra á skötunni. Það var mikil áhætta fólgin í því fyrir Íslendinga að innleiða reglur Innri markaðarins í orkugeira sinn, en það var hvorki geta né vilji til að standa uppi í hárinu á ESB- og öðrum EFTA-fulltrúum í Sameiginlegu EES-nefndinni. Þar átti strax 1996-2002 að krefjast undanþágu fyrir Íslands hönd, eins og Framsóknarflokkurinn hefur nú ályktað um, að gera eigi með Orkupakka #3. Ráðherrann heldur, að Orkupakki #3 breyti engu. Fávísi af þessu tagi er þjóðhættuleg. Samþykkt Orkupakka #3 mun leiða Evrópurétt hér til öndvegis fyrir millilandatengingar orku, og þar með rekur ESB endahnútinn á fyrirætlun sína með orkulöggjöf sinni: að ná tangarhaldi á orkumörkuðum alls Evrópska efnahagssvæðisins. EFTA-löndin eru engir dvergar á orkusviði. Ef þetta gengur eftir, verður eina ráðið að hefja hatramma baráttu gegn EES-aðild. Fyrir slíku er vaxandi fylgi í Noregi.
Bjarni Jónsson, 17.2.2019 kl. 10:46
Alveg rétt hjá þér, Gunnar. Muni ég rétt, samþykkti Alþingi það fyrir atbeina Hjörleifs Guttormssonar, þáverandi iðnaðarráðherra, að raunorkuverð til almennings skyldi lækka um 3 %/ár á ákveðnu tímabili. Það gekk eftir, en þessi löggjöf var afnumin með innleiðingu Fyrsta orkupakka ESB árið 2003. Mér býður í grun, að þáverandi meirihluti þingmanna hafi ekki áttað sig á hættunni, sem þeir buðu heim með þessum gjörningi. Þetta var fyrsta stigið í aðlögun íslenzka orkumarkaðarins að Innri markaði ESB með raforku. Nú stöndum við frammi fyrir lokaáfanganum á þeirri vegferð, þótt fleiri pakkar séu væntanlegir úr sömu átt til að hraða þessari vegferð, því að ESB er í tímaþröng, þegar orkumálin eru annars vegar.
Bjarni Jónsson, 17.2.2019 kl. 11:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.