19.2.2019 | 21:05
Af fjölónæmum sýklum
Sérfræðingar á sviði sýkla og veira hafa varað stjórnvöld og landsmenn alla við ógn, sem steðjar að heimsbyggðinni og þá ekki sízt afskekktri eyju, sem laus hefur verið að mestu við alvarlegar pestir, sem herjað hafa á dýrastofna og mannfólk og illa ræðst við með nútíma læknisfræði. Ofnotkun lyfja kemur nú niður á mannkyni. Í heilsufarslegum efnum eru engar haldbærar skyndilausnir til.
Hér er m.a. um að ræða sýkla, sem myndað hafa ónæmi gegn sýklalyfjum og verða þar með óviðráðanlegir, ef ónæmiskerfið er veikt fyrir. Ótímabærum dauðsföllum fjölgar mjög af þessum sökum, og telja sérfræðingar, að lýðheilsunni stafi einna mest ógn af þessari vá í náinni framtíð. Það ætti að vekja almenning til umhugsunar um lífshætti sína, og hvað má bæta til að styrkja ónæmiskerfið.
Af þessum sökum þurfa yfirvöld nú þegar að leggja sitt að mörkum með því að hefja sinn viðbúnað og beita beztu þekktu aðferðarfræði á þessu sviði. Hún er m.a. fólgin í auknum kröfum á hendur birgjum um upprunavottorð og gæðatryggingar varðandi matvæli, sem flutt eru til landsins, og með mótvægisaðgerðum á sjúkrahúsum.
Yfirvöldum ber siðferðisleg skylda til að hlusta meira á sérfræðinga á heilbrigðissviði en á heildsala og að hlýða vandlega á aðvörunarorð og ráðleggingar manna á borð við prófessor Karl G. Kristinsson, sýkla- og ónæmisfræðing. Það verður einfaldlega að grípa til þeirra aðgerða, sem duga að mati sérfræðinga um sýkla og veirur, þótt þær kunni að brjóta í bága við reglur EES-samningsins um óheft viðskiptafrelsi. Þær reglur voru ekki samdar með sérstöðu Íslands í huga. Að samþykkja, að erlendar reglusetningar, sem að beztu manna yfirsýn eru ógn við lýðheilsu og geta valdið stórfelldu tjóni hér á bústofnum, gildi hér framar ströngustu varúðarráðstöfunum, hlýtur að vera í blóra við stjórnarskrá lýðveldisins, sem kveður á um fullveldi rétt kjörinna fulltrúa þjóðarinnar til að taka nauðsynlegar ákvarðanir í þágu hennar hagsmuna.
Nýja sjúkrahúsið við Hringbraut þarf að verða miðstöð varna gegn þessum vágesti. Verður að vona, að hönnuðir "meðferðarkjarnans" hafi fengið fyrirmæli um að hanna beztu fáanlegu aðstöðu til að einangra sjúklinga í sóttkví og að sótthreinsa allt með fljótlegum hætti, sem út af slíkum sóttkvíum fer.
Líklegast til árangurs er að sækja fyrirmyndir um tæknilegar útfærslur og lausnir til Hollands, en Hollendingar hafa náð næstbeztum árangri í viðureigninni við "ofursýkla" á borð við MRSA ("methycillin-resistant staphylococcus aureus") og CRE ("carbapenem-resistant Enterobacteriaceae") og eiga sérhannaða aðstöðu á sjúkrahúsum sínum fyrir þessar varnir.
Árið 2015 var fjöldi dauðsfalla á 100´000 íbúa í nokkrum Evrópulöndum af völdum ofusýkla eftirfarandi, og þeim fer ört fjölgandi:
- Ítalía 18
- Grikkland 15
- Portúgal 11
- Frakkland 8
- Rúmenía 7
- Bretland 4
- Þýzkaland 3
- Noregur 1
- Holland 1
- Eistland 1
Ofursýklar þessir geta verið á húðinni, í nefinu eða í þörmunum, þar sem þeir eru þó venjulega óskaðlegir. Ef þeir hins vegar sleppa í sár eða komast inn í blóðrásina, verða þeir hættulegir. Í Evrópu má rekja 73 % dauðsfalla af völdum ofursýkla til sýkinga á sjúkrahúsum. Almennt hreinlæti á sjúkrahúsum er ódýr og árangursrík aðferð í þessari baráttu.
Í nóvember 2018 gaf OECD út samanburð á aðferðum til að fást við ofursýkla. Stofnunin setti bættan handþvott á sjúkrastofnunum efst á blað til að fækka dauðsföllum og stytta sjúkrahússvist. Að framkvæma ráðleggingar OECD til fullnustu á 70 % sjúkrastofnana er áætlað, að kosti USD 0,9-2,5 á hvern íbúa á ári, sem við núverandi aðstæður á Íslandi gæti kostað um 360 kUSD/ár eða rúmlega 40 MISK/ár, sem eru smápeningar í heilbrigðisgeiranum. Ef hins vegar ekki er verið á verði í þessum efnum, mun árlegur kostnaður hlaupa á tugum milljarða í framtíðinni.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Heilbrigðismál, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Það er afar einföld lausn á þessum sýklum í erlendu kjöti- hætta að flytja það inn.
Islendingar sem ferðast mikið geta alltaf borðað Pensylinbætt syklakjöt erlendis.
Hinsvegar er stór munur á góðu erlendu kjöti sem er keypt beint hjá slátrara frá viðurkenndu byli en drasli því sem islenskir innflytjendur fá fyrir lítið.
Erla Magna Alexandersdóttir, 20.2.2019 kl. 18:32
Í landinu eru í gildi lög frá Alþingi 2009, sem verja fólk og búfé gegn þessum vágestum. Engu að síður dæma EFTA-dómstóllinn og Hæstiréttur Íslands þessar varnir ólöglegar. Það sýnir, að Evrópurétturinn hefur tekið yfir þetta svið. Þá verða landslög að víkja. Þetta sýnir, að vegna EES-samningsins er Ísland orðin hjálenda Evrópusambandsins, ræður engu, en tekur við öllu, sem ESB þóknast að senda hingað. Þetta hefur verið kallað "póstlýðræði".
Bjarni Jónsson, 21.2.2019 kl. 13:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.