Orkuskipti og orkumarkaður

Forsenda þess, að orkuskiptin á Íslandi gangi snurðulaust, eins og þau verða að gera, eigi markmið ríkisstjórnarinnar um að draga úr losun koltvíildis um 40 % árið 2030 m.v. 1990 (að hætti ESB), að nást, er, að orkumarkaðurinn verði hér í jafnvægi og að engar meiri háttar hækkanir verði hér á raforkuverði. Þriðji og Fjórði orkupakki ESB munu aðeins torvelda Íslendingum að fást við þetta verkefni, en auðvelda meginlandinu það örlítið, eins og kerfið (orkulöggjöf ESB) er auðvitað hannað til.  Hagsmunir Íslands og ESB stangast á í þessu máli, og hagsmunir íslenzku þjóðarinnar og norsks auðvalds og forréttindastéttar (og Liechtensteins) fara ekki saman í orkumálasamstarfi við ESB. Íslendingar eru fórnarlömb í EES-samstarfinu vegna ístöðuleysis ráðamanna hér, og af því að þeir lenda alltaf í minnihluta í Sameiginlegu EES-nefndinni, þegar mikil hagsmunamál eru þar til umfjöllunar.  Hagsmunir norsku þjóðarinnar og þeirrar íslenzku fara hins vegar saman í orkupakkamálum, eins og skoðanakannanir í báðum löndum bera glögglega vitni um.  Í Noregi hefur lengi verið gjá á milli þings og þjóðar, sbr tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um aðildarsamninga við ESB.  Slík gjá var líka á Íslandi á vinstri stjórnar tímabilinu 2009-2013, eins og 2 þjóðaratkvæðagreiðslur um "Icesave" sýndu.  Er hún fyrir hendi á Alþingi þessa kjörtímabils, þótt ríkisstjórnin spanni mestallt hið pólitíska litróf ?

Verði Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB innleiddur af Alþingi í EES-samninginn, mun taka hér til starfa embætti Landsreglara undir beinni stjórn Evrópusambandsins, ESB, með ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) sem millilið, sem gegna mun ljóritunar- og þýðingarhlutverki í þessu tilviki, þótt hún sé valdamikil á öðrum sviðum, enda á hún að endurpegla Framkvæmdastjórnina EFTA-megin. 

Verkefni Landsreglarans (National Energy Regulator) verður m.a. að fylgja eftir stofnun orkukauphallar og að hafa eftirlit með starfsemi hennar.  Það er líklegt, að slíkt fyrirkomulag orkuviðskipta í íslenzku fákeppnisumhverfi, þar sem enginn hefur þær skyldur á herðum að tryggja nægt orkuframboð á hverjum tíma (frekar en nú er), muni leiða til óstöðugs orkumarkaðar og hærra meðalverðs en nú er við lýði.  Nægir að líta til Noregs í því sambandi, þar sem öll orkuviðskipti, nema megnið af orkukaupum stóriðju, fara fram á uppboðsmarkaði orkukauphallar, Nord Pool, sem var norrænn orkumarkaður og er nú hluti af Innri markaði ESB.  Það verður ekki bæði sleppt og haldið, og þess vegna gætu orkuskiptin dregizt á Íslandi og þau orðið dýrari en ella og nauðsyn krefur. 

Með orkuskiptunum mun myndast hér talsverður markaður fyrir vetni, sem verður bæði notað beint á eldsneytisrafala ("Fuel cells") til að knýja vinnuvélar, langferðabíla, vörubíla, skip og flugvélar ásamt fólksbílum, og sem grunnefni við eldsneytisframleiðslu. Það er auðvitað glórulaust að flytja inn vetni, sem yfirleitt er framleitt úr jarðgasi um þessar mundir. Hægt er að framleiða vetni með helmingi lægri tilkostnaði en á meginlandi Evrópu með rafgreiningu vatns, enda er vatnið ódýrt hér og raforkan enn þá notendum tiltölulega hagstæð.  Kostnaður við framleiðsluna nemur samkvæmt upplýsingum og útreikningum höfundar 2,0 EUR/kg. Þótt verðið mundi þrefaldast á leið í dælu fyrir fartækin, þá verður orkukostnaður vetnisfartækja samt aðeins 2,0 ISK/km, sem er lægra en fyrir rafmagnsbíl, knúinn rafhlöðum, hvað þá jarðefnaeldsneyti. 

Ef hagstæður raforkusamningur næst, t.d. með takmörkuðum álagsskerðingarrétti forgangsorku og afgangsorku (ótryggðrar orku), verður hagkvæmt að framleiða hérlendis allt vetni til innanlandsbrúks með rafgreiningu. Til að ná stærðarhagkvæmni má hæglega hugsa sér, að íslenzk vetnisverksmiðja flytji út vetni, t.d. til Norð-Austur Englands, þar sem senn mun opnast nægilega stór markaður fyrir alla vetnisframleiðslu á Íslandi umfram innanlandsnotkun.  Englendingarnir hyggjast leysa jarðgas, sem nú er á þrotum úr Norðursjónum, af hólmi með vetni til upphitunar húsnæðis.  Ekki er líklegt, að framleiðslumagn vetnis á Íslandi réttlæti gaslögn til Englands, sem kostað gæti allt að mrdISK 600.  Útflutningurinn yrði með sérútbúnum skipum til flutninga á eldsneytisgasi.

Í kynningarblaði Fréttablaðsins, 31. janúar 2019,

"Konur í atvinnulífinu",

átti Benedikt Bóas Hinriksson viðtal við Ingunni Agnesi Kro, framkvæmdastjóra skrifsofu- og samskiptasviðs Skeljungs, en hún leiðir vetnisvæðingu fyrirtækisins hérlendis.  Ingunn Agnes hefur margt athyglisvert fram að færa.

"Ef við ætlum okkur að ná fram orkuskiptum í samgöngum, þá þurfum við að nýta vetnið.  Það eru ekki einungis mín orð, heldur hafa bæði forstjóri ON, sem leitt hefur rafbílavæðinguna, og stjórnarformaður N1, einnig sagt opinberlega."

Það er trúlega rétt, að vetni er óumflýjanlegt, ef orkuskipti farartækja eiga að fara fram hér að mestu á næstu tveimur áratugum.  Agnes Kro ætti að beita sér fyrir, að Skeljungur reisi hér vetnisverksmiðju.  Búnaður er til á markaðinum fyrir hæfilega upphafsstærð. 

Orkuþéttleiki þekktra Liþíum rafgeyma er mjög lítill eða undir 0,2 kWh/kg (vetni 47 kWh/kg og 33 kWh/kg nettó inn á rafkerfi fartækja) og drægnin þar af leiðandi ónóg á hverri hleðslu og endurhleðslutíminn auk þess of langur til að rafgeymar henti öllum notendum og farartækjum.  Ingunn Agnes bendir t.d. á, að drægni núverandi vetnisbíla á Íslandi sé 500-700 km við verstu aðstæður og að á einni klukkustund anni ein vetnisdæla 20 bílum, en ein hraðhleðslustöð rafgeyma tveimur.  Vetniskerfin eru skilvirkari en rafgeymakerfin, þótt heildarnýtni vetnis sé aðeins um 60 % af nýtni rafgeymakerfanna.

"Ingunn segir þó jafnframt, að hún sé ekki að taka slaginn um það, hvort við munum í framtíðinni öll aka um á rafbílum eða á vetnisbílum.  Hún telji, að flotinn muni samanstanda af báðum valkostum.  

Rafmagn sé afar ódýrt á Íslandi.  Hafi fólk tök á því að hlaða bílana sína heima og þurfi ekki að ferðast á þeim lengri vegalengdir, þá geti [rafgeymaknúinn] rafmagnsbíll verið bezti kosturinn.  Sé það hins vegar ekki staðan og ef bíllinn þarf að vera í meiri notkun eða komast lengri vegalengdir, telur hún vetnisbíl vera bezta kostinn.  Vetnið sé kjörið á stærri bifreiðar, svo sem rútur og flutningabíla.  Strætó muni verða kominn með 5 vetnisvagna á árinu 2020, og verið sé að vinna að því að útvega vetnisflutningabíla fyrir Ölgerðina og Eimskip.  

Ekki þurfi að verja plássi í stór og þung batterí, heldur sé í vetnisbílum lítið batterí, en einnig vetnistankur, sem hægt sé að hafa stóran eða lítinn eftir þörfum [rúmtakið fer líka eftir völdum kerfisþrýstingi-innsk. BJo].  

"Vetni er léttasta frumefnið, svo að það liggur engin þyngd í því.  Bílarnir [langferðabílar, vörubílar - innsk. BJo] komast um 500 km á 5 kg.  Það er vissulega líka batterí í vetnisbílum, en mun minna en í rafmagnsbíl", segir Ingunn." 

M.v. núverandi stöðu á markaðinum hefur vetni sem orkuberi styrkleika og veikleika í samkeppninni við rafgeymana.  Af veikleikum má nefna tiltölulega lága heildarorkunýtni, sem þó fer batnandi með þróun tækninnar, bæði við rafgreininguna og í efnarafalanum. Orkukostnaður á hvern ekinn km virðist vera lægri nú fyrir vetnisknúna rafbíla en rafgeymaknúna rafbíla.  Vetnisverðið orðið ráðandi þáttur fyrir innleiðingu rafknúinna farartækja.  Það er óráð að flytja vetni til landsins.  Skynsamlegast er að reisa hér vetnisverksmiðju.  Til að hún geti framleitt vetni á samkeppnishæfu verði fyrir innanlandsmarkað og fyrir útflutning, þarf hún hagstæðan raforkusamning.

Líkurnar á, að slíkur samningur komist á koppinn, minnka stórlega með tilkomu Landsreglara eftir innleiðingu Orkupakka #3.  Ástæðan er sú, að eitt hlutverka hans er að hafa náið eftirlit með orkumarkaðinum hér og gæta þess, að þróun hans verði öll í átt að fullkominni aðlögun að innri orkumarkaði Evrópusambandsins.  Þar er ekkert rúm fyrir langtímasamninga af því tagi, sem vetnisverksmiðja á Íslandi þarf á að halda til að vera samkeppnishæf.  Landsreglarinn kann að komast að þeirri niðurstöðu, að hagstæðari langtímasamningur við vetnisverksmiðju hérlendis en fáanlegur er innan ESB mismuni vetnisverksmiðjum á meginlandinu og feli jafnvel í sér opinberan stuðning, ef orkubirgirinn er í eigu ríkis eða sveitarfélags. 

Ef Landsreglarinn vísar slíku máli til úrskurðar ESA og ríkisfyrirtæki, t.d. Landsvirkjun á í hlut, kann ESA að úrskurða slíkan samning ígildi ríkisstuðnings við vetnisverksmiðjuna, og þar með yrði hún í algeru uppnámi.  

Þetta er eitt dæmi af mörgum, sem hægt væri að taka, til að sýna, að innleiðing Orkupakka #3 getur sett alvarlegt strik í reikning orkuskiptanna hérlendis og sett fyrirtækjum hér stólinn fyrir dyrnar um öfluga þátttöku í þeim, sem þó er nauðsynleg, eigi markmið stjórnvalda í loftslagsmálum að nást.  

Það er óboðlegt að hleypa Trójuhesti ESB inn í íslenzka stjórnkerfið á orkumálasviði.  Slíkt mun draga úr svigrúmi landsmanna sjálfra til ákvarðanatöku út frá eigin hagsmunum, en beina ákvarðanatöku í farveg, sem hentar orkuhrjáðu Evrópusambandi. Slík fullveldisskerðing er Stjórnarskrárbrot og mun óhjákvæmilega leiða til minni verðmætasköpunar á Íslandi en annars.  Þetta verður mönnum enn ljósara, þegar þeir lesa úrdrátt Fjórða orkubálksins, sem ESB hefur birt og fjallar um aukna miðstýringu ESB til að auðvelda Framkvæmdastjórninni að ná losunarmarkmiðunum, sem ESB er skuldbundið til samkvæmt Parísarsamkomulaginu.  

Kjarnorka í samkeppni við kol

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband