Ísland og raforkumarkaður ESB

Raforkumarkaðskerfi ESB er skilgreint í Orkupökkum #1 og #2 og gert að skyldu að innleiða það í Orkupakka #3.  Hérlendis voru reglur Orkupakka #1 um aðskilnað starfsemi á raforkumarkaði í fernt innleiddar með nýjum orkulögum 2003.  Það var til að skapa jafnræði um aðgang að flutningskerfinu og aðstæður fyrir frjálsa samkeppni.  Ávinningur fyrir orkukaupendur er ekki merkjanlegur, sé þróun raforkuverðsins skoðuð (raunverð), og sennilega hefur heildaryfirbygging og þar með stjórnunarkostnaður raforkugeirans vaxið við þennan aðskilnað í vinnslu, flutning, dreifingu og sölu. 

Nú er Landsnet með í undirbúningi uppboðskerfi á heildsölumarkaði í orkukauphöll samkvæmt forskrift ESB í Orkupakka #2.  Innleiðing á kerfi, sem er sniðið við frjálsan eldsneytismarkað, sem sjái raforkuverunum fyrir öruggri frumorku, og miðað við mörg, stór og smá, raforkuvinnslufyrirtæki í frjálsri samkeppni um viðskiptavinina, er augljóslega vandkvæðum háð hérlendis, þar sem aðstæður eru gjörólíkar, frumorkan eðlisólík og markaðurinn verður alltaf "grunnur".

Ef þetta markaðskerfi ESB verður ekki vandlega aðlagað íslenzkum aðstæðum, dyntóttri náttúru, sem ætlazt er til, að veiti áreiðanlegri frumorku inn í vinnslukerfið, og að fákeppnismarkaði með gríðarlegu ójafnræði á markaði vegna stærðarmismunar og mismunandi frumorkusamsetningar, þá mun slysalega takast til, sem mun lýsa sér í miklum verðsveiflum á heildsölumarkaði og smásölumarkaði, hækkuðu meðalverði vegna ófullnægjandi hvata til að hefja virkjanaverkefni í tæka tíð, og, ef allt fer á versta veg, mun valda alvarlegum orkuskorti og tíðari en við höfum átt að venjast.  

Vart þarf að efast um, að sérfræðingarnir, sem að innleiðingu þessarar markaðsvæðingar vinna, hafa áhættugreint ferlið, sem þeir eru að skipuleggja, en meira er hægt að óttast, að þeim séu of þröngar skorður reistar til almennilegrar aðlögunar, því að slíkt táknar eðlisbreytingu á kerfinu, sem Landsreglarinn hérlendis mun líta óhýru auga, enda hefur hann bara eina forskrift við að styðjast.  Hér er t.d. átt við, að hérlendis krefjast aðstæður  samræmdrar auðlindastýringar, sem er nauðsynleg og nægjanleg til að tryggja beztu nýtingu tiltækra orkulinda í því augnamiði að forða vatnsleysi miðlunarlóna að vori og ofnýtingu viðkvæms jarðgufuforða.  Slíka auðlindastýringu má hvert fyrirtæki viðhafa undir markaðskerfi ESB, en samræmd auðlindastýring heildarkerfisins er bönnuð, þar sem frjáls samkeppni orkuvinnslufyrirtækjanna er hinn heilagi Graal í Brüssel.  Að sumra dómi dæmir þetta bann orkumarkaðskerfi ESB úr leik á Íslandi sem raunhæft markaðsfyrirkomulag.  

Elías Elíasson, verkfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, skrifar áhugaverða Morgunblaðsgrein um þetta efni þann 14. marz 2019, undir fyrirsögninni:

"Raforkuöryggi á Íslandi":

"Reglugerðir Evrópusambandsins virka einfaldlega ekki hér, og á grundvelli þeirra verður vel virkur frjáls markaður með rafmagn ekki settur upp hér á landi.  Eins og rakið er í ritgerð minni, "Rafmagn til heimila og útflutnings", á síðunni http://hhi.hi.is/vinnupappírar, þá er orkuauðlindinni dreift á marga staði, víðs vegar um landið, og misjafnlega dýrt að nýta hana á hverjum stað.  Við þær aðstæður getur samkeppnin ekki tryggt eðlilega verðmyndun, sem hvetur til nýframkvæmda, þegar jafnvægi ríkir [á] milli framboðs og eftirspurnar, heldur myndast hvati til að taka of mikla áhættu á kostnað notenda.  Reglur ESB tryggja því ekki orkuöryggi á Íslandi, og öryggið minnkar enn með tilkomu sæstrengs."

Iðnaðarráðuneytið/utanríkisráðuneytið verður að birta áhættugreiningu, sem sýnir hið gagnstæða við lýsinguna hér að ofan, áður en það biður um  staðfestingu Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, því að feiknarlegir hagsmunir landsmanna eru í húfi.  Meðmælendur Orkupakka #3 hafa skautað léttilega framhjá þessum risaþætti málsins, og það með öðru gefur málstað þeirra ótraustvekjandi blæ.

Með orkulögunum 2003 var ábyrgðin á að viðhalda nægri frumorku í landinu fyrir raforkuvinnsluna tekin af Landsvirkjun, og nú ber enginn þessa ábyrgð og mun trauðla fá hana með Orkupakka #3, því að vísast þykir sú kvöð virka samkeppnishamlandi á markaði ESB.  Fyrir raforkunotendur á Íslandi er hættan á orkuskorti hins vegar óviðunandi. Þetta mál er dæmigert fyrir gallana, sem felast í ákvarðanatöku fjarri landsteinum.

Frá 2003 hefur þetta blessazt, þótt skollið hafi hurð nærri hælum, t.d. 2013, því að virkjað hefur verið fyrir stóriðju og almenning í leiðinni, en nú virðist áhugi "stórnotenda" á raforkusamningum við íslenzka orkubirgja hafa dvínað, og sáralítið "í pípunum" af nýju afli inn á kerfið. Þó eru smávirkjanir í undirbúningi, og 18.03.2019 var tilkynnt um staðfest deiliskipulag fyrir 55 MW Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði.   

Það er til marks um skilningsleysi orkuyfirvalda hérlendis á sérstöðu íslenzka orkukerfisins og afleiðingum þess að troða Íslandi í ESB-flík, sem er sniðin á annars konar sniðmát, að engin áhættugreining vegna innleiðingar nýs orkumarkaðskerfis hefur verið kynnt til sögunnar.  Yfirvöld munu ekki geta skákað í því skjólinu, að þau hafi ekki verið vöruð við, þegar raforkuverðið og afhendingaröryggi raforku fara úr böndunum.  Skilja þau ekki, hvað er í húfi ? Mikið er þó búið að predika. Afkoma fjölda fjölskyldna og fyrirtækja er í húfi. Vinnubrögðin eru ekki Sjálfstæðisflokkinum sæmandi. 

Að sjálfsögðu mun keyra um þverbak í þessum efnum, ef stórsala hefst á rafmagni úr landi.  Þröskuldur í vegi þeirra áforma snarlækkar við innleiðingu Þriðja orkulagabálks ESB, en ætlun Evrópusambandsins með honum er einmitt að örva millilandaflutning orku og færa stjórn þeirra mála undir lögsögu Evrópuréttarins og undir miðstýringu ACER/Framkvæmdastjórnar ESB.  Um þetta skrifaði Elías Elíasson í téðri grein:

"ESB stefnir samt á að tvöfalda vægi vindorku í raforkuvinnslu sinni.  Við þessar aðstæður er það knýjandi nauðsyn fyrir bandalagið að komast yfir hina hreinu og sveigjanlegu orku Noregs og Íslands og nota hana til að keyra á lognið í Evrópu.

Sæstrengur mun því koma í kjölfar þriðja orkupakkans og tengdra nýrra reglugerða.  Þegar orkumálaráðherra fullyrðir, að sæstrengur muni ekki koma, er hún bæði að vanmeta ákveðni Bandalagsins í málinu og lofa upp í ermina á öðrum stjórnmálaöflum, sem munu samþykkja sæstreng orðalaust."

Þess má geta, að Þórdís Kolbrún, iðnaðarráðherra, gaf til kynna á ársfundi Landsvirkjunar í lok febrúar 2019, að hún teldi orkusölu um sæstreng á stóran markað þarfaþing til að losna við "umframorku", sem var reyndar stórlega ofmetin hjá henni, 2 TWh/ár (> 10 %) eftir tilkomu Búrfells #2 og væntanlegrar 220 kV línu frá Fljótsdalsvirkjun til Norðurlands.  Nefndi hún hið gildishlaðna hugtak "brottkast" í þessu sambandi og líkti því við það, að vatn rynni framhjá virkjunum, sem er í sjálfu sér ósmekkleg  samlíking og út í hött.

Í þessu sambandi er fróðlegt að skoða þankagang búrókrata Framkvæmdastjórnarinnar.  Í Orkumarkaðstilskipuninni 2009/72/EB, kafla 6, um eflingu svæðisbundinnar samvinnu, stendur:

1. Aðildarlöndin og landsreglararnir skulu vinna saman í því augnamiði að samþætta orkumarkað hvers lands við eitt eða fleiri svæði sem fyrsta skref til myndunar alfrjáls innri markaðar.  Einkum skulu landsreglararnir í aðildarlöndum, sem hafa undirbúið samstarfið, eða aðildarlöndin skulu hvetja til og undirbúa svæðissamvinnu á milli rekstraraðila flutningskerfa [hér Landsnet], og þar innifalin eru viðfangsefni millilandatenginga, í því augnamiði að skapa samkeppnisvæddan innri markað fyrir rafmagn, fá samræmi í lagaumgjörð landanna, rammaregluverk og tæknilega tengiskilmála, og undirbúa jarðveginn fyrir samþættingu einangruðu kerfanna, sem mynda s.k. orkueyjar, sem enn er að finna í ESB [2009], við innri markaðinn."

Það er engum blöðum um það að fletta, að höfundarnir sjá tækifæri fyrir heildina, EES, fólgið í að tengja "orkueyjar" við innri markaðinn.  Þarna fara einfaldlega ekki saman hagsmunir "orkueyjar", sem getur breytt endurnýjanlegri orku sinni í eftirsótt verðmæti, og orkuhungraðs "stórveldis".  Er þetta ekki augljóst ?

Það vefst ekki fyrir öllum.  Þannig ritaði Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, ágæta grein um málefnið í Morgunblaðið, 9. marz 2019:

"Orkan okkar".

Hún hófst þannig:

"Í fjölmiðlum, ekki sízt í Morgunblaðinu, hefur farið fram mikil og oft á tíðum mjög upplýsandi umræða um orkustefnu Evrópusambandsins.  Í þessari umræðu hafa kunnáttumenn úr orkugeiranum útskýrt, hvað felist í svokölluðum "orkupökkum" ESB, en samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar hefur staðið til, að Íslendingar samþykki "þriðja orkupakkann" á yfirstandandi þingi.  Ekki er þó útséð um það, því [að] Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, vill skoða málið nánar.  Það er vel."

Ögmundur Jónasson á heiður skilinn fyrir málefnalega nálgun sína á þessu máli.  Hann hefur lagt sig í líma við að átta sig á staðreyndum þessa máls, sem á yfirborðinu kann að virðast bæði flókið og óáhugavert, en þeir sem gefa sér tíma til að hugleiða það,sem dregið er fram í umræðunni á báða bóga, komast margir fljótlega að því, að í grundvallaratriðum er málið ekki flókið og að það varðar mikla framtíðarhagsmuni í þessu landi, snertir hag hvers einasta íbúa landsins og atvinnuöryggi fjölmargra.  Það varðar sjálfsákvörðunarrétt landsmanna um orkumál og lýðræðislegt áhrifavald kjósenda í þessu landi á ráðstöfun einnar aðalauðlindar landsins.  

 

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Í víðfeðmu landi þrjúhundruð og þrjátiu þúsund sálna, er ekki pláss fyrir stórveldisdrauma esb, eða þá sem sjá ekki sólina fyrir ófögnuði miðstýringar og embættismannakerfi þessa óskapnaðar, sem esb er orðið. Ísland ber einfaldlega ekki þvæluna sem fylgir "fjórða ríkinu", sem svo margir sjá í hyllingum.

 Íslenska þjóðin á Landsvirkjun. Íslenska þjóðin á það sem Landsvirkjun virkjar. Íslenska þjóðin nýtur í dag góðs af þessari eign sinni. Íslenska þjóðin kærir sig ekki um íhlutun kerfisskordýra á erlendri grundu, varðandi ráðstöfun eigna sinna. Málið er nú ekki flóknara en það. Skilji núverandi "ráðamenn" þetta ekki, hafa þeir fyrirgert rétti sínum til meðhöndlunar á öllum þeim eignum sem Lýðveldið Ísland á! Punktur! 

 Afsali stjórnvöld yfirráðarétti landsmanna á eigum sínum í hendur erlendu "reglara"kjaftæði er ljóst að óhæft fólk fer með stjórn landsmála á Íslandi í dag. Um það þarf enginn að velkjast í vafa um. Svei þeim til helvítis, nái þetta svikapakk markmiðum sínum!

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 31.3.2019 kl. 01:32

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er augljós áhugi á meðal stefnumótenda ESB um orkumál fyrir Íslandi sem "grænni rafhlöðu" Evrópu ásamt Noregi.  Þetta kemur alveg berlega í ljós í nýrri reglugerð, sem ESB-þingið samþykkti 26. marz 2019 inn í Fjórða orkubálk ESB.  Þar er höfðað til ACER að beina kröftunum að tengingu jaðarsvæða, sem enn eru illa tengd eða jafnvel ótengd.  Hér vantar ekkert, nema að nefna Ísland á nafn.  Íslenzk stjórnvöld hafa ekki roð við Evrópusambandinu eftir að hafa gengið orkusambandi þess á hönd með því að innleiða hér Orkupakka #3.

Bjarni Jónsson, 31.3.2019 kl. 11:12

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Er Miðflokkuriinn þá sá eini sem við andstæðingar 3. Orkupakkans getum kosið Kollege Bjarni? Hafas ekki allir Sjálfstæðisþimgmenn  látið turnast í málinu?. 

Halldór Jónsson, 1.4.2019 kl. 01:27

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Kollega Halldór;

Ef svo fer, að þinglokkur Sjálfstæðisflokksins mun að meirihluta til styðja þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, þá munu margir sjálfstæðismenn láta steyta á því atriði í kjörklefanum.  Ég óttast um afdrif flokksins í næstu kosningum, ef svo fer sem horfir.  Þá verður Miðflokkurinn vænlegur kostur, einnig fyrir óánægða framsóknarmenn, býst ég við.  

Bjarni Jónsson, 1.4.2019 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband