Lýðræðið og Landsreglarinn

Áður hefur hér í pistli verið minnzt á ágæta grein Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi þingmanns og ráðherra, í Morgunblaðinu 9. marz 2019, "Orkan okkar".

Þar gerði hann m.a. að umræðuefni, að "orkupakkar" ESB, ekki sízt sá þriðji með völdum embættis Landsreglara, sem beint heyrir undir ESA/ACER, aftengja lýðræðið, þ.e. ákvarðanir, sem áður voru hjá ráðherra eða stofnun undir honum/henni, verða á höndum erlendrar stofnunar, þar sem Ísland ekki á aðild:

"Það er vissulega rétt hjá ráðherranum [ÞKRG], að orkupakkarnir eru fyrst og fremst "markaðspakkar", og þriðji pakkinn færir fyrirhugaðan raforkumarkað undir samevrópskt eftirlit, sem nefnist ACER, Agency for the Cooperation of Energy Regulators, sem hefur á hendi úrskurðarvald um ágreining á raforkumarkaði.  ACER er ætlað að aftengja allt, sem heitir lýðræði, ákvörðunum á markaði.  Út á það gengur þriðji orkupakkinn !"

Ögmundur hefur áttað sig á kjarna málsins.  Að skera á tengsl lýðræðis og stefnumörkunar í raforkumálum landsins felur jafnframt í sér ógn við stjórnskipunina sjálfa, því að valdtilflutningurinn verður ekki frá íslenzka ríkisvaldinu til annars aðila innanlands, heldur til yfirþjóðlegrar stofnunar, þar sem Ísland er ekki aðili (ACER). Þetta verður sýnt fram  á hér á eftir með því að rekja nokkra liði í Orkutilskipun ESB #2009/72/EB, svo að ekki sé með góðu móti hægt að saka höfund um skáldskap eða "falsfréttir", eins og málefnasnauðir fylgjendur innleiðingar Orkupakka #3 á Íslandi hafa í málefnafátækt sinni haft í frammi.

Að rjúfa þessi tengsl ákvarðanatöku fyrir orkugeirann  við ríkisvaldið felur þess vegna í sér alvarlegan árekstur við Stjórnarskrána, eins og nú má lesa um í Álitsgerð lögfræðinganna Friðriks Árna Stefánssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar.  Sú hlið málsins var ekki á döfinni við innleiðingu Orkupakka #1 og #2, en ákvæði í Orkupakka #3, t.d. um Landsreglarann, brjóta í bága við fullveldisákvæði Stjórnarskrárinnar að margra dómi, og væri óskandi, að hægt væri að leita til Stjórnlagadómstóls um þann ágreining fyrir afgreiðslu málsins á Alþingi.  

Önnur leið er sú að vísa þessu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum.  Það væri öflugasta leiðsögn, sem Alþingi gæti fengið um afgreiðslu Þriðja orkupakkans.  

Í lok ágætrar greinar sinnar skrifaði Ögmundur:

"Þetta er samfélagið að takast á um, og fagna ég sérstaklega umræðunni, sem sprottin er frá hinum óformlegu, en þverpólitísku samtökum, "Orkunni okkar".  Þar á bæ rýna menn í smáatriði tilskipana og reglugerða, sem varða orkupakka Evrópusambandsins, jafnframt því sem horft er vítt yfir.  Hvort tveggja þarf að gera.  Við afvegaleiðumst, ef við reynum ekki að sjá, hvert stefnir, hvert förinni er heitið.  Þess vegna þarf umræðan að fara um víðan völl [þótt ÞKRG kvarti undan því-innsk. BJo].  Annars verður þess skammt að bíða, að orkan verði ekki okkar."

Í Rafmarkaðstilskipuninni, 2009/72/EB, kafla 22, skrifa höfundar Orkupakka #3 um rafkerfisþróun og vald til að taka fjárfestingarákvarðanir:

"1. Á hverju ári skulu rekstraraðilar orkuflutningskerfanna [hér Landsnet] kynna fyrir Landsreglaranum 10 ára Kerfisáætlun sína, reista á núverandi og væntanlegu framboði og eftirspurn orku að höfðu samráði við alla hagsmunaaðila.  Kerfisáætlunin skal spanna skilvirkar aðgerðir til að tryggja styrk kerfisins og afhendingaröryggi."

Ekki er að efa, að Kerfisáætlun Landsnets verður háð rýni ACER/Framkvæmdastjórnarinnar, þannig að flutningskerfið verði þannig úr garði gert, að það þjóni hugmyndum Framkvæmdastjórnar ESB um heildarhagsmuni EES. Þetta kann að þýða nokkra stefnubreytingu í átt til öflugri og hraðari kerfisuppbyggingar með hækkun flutningsgjalda. Flutningsgjöldin verða líka háð samþykki Landsreglarans.  Þar með má segja, að álagning vissra opinberra gjalda á Íslandi verði undir fjölþjóðlegu valdi komið.  Þetta er Stjórnarskrárbrot, enda geta lögfræðingarnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson um þetta vafasama framsal ríkisvalds til eins konar skattlagningar.

"2. Tíu ára Kerfisáætlun Landsnets á einkum: 

a) að upplýsa markaðsaðilana um mikilvægustu innviði flutningskerfisins, sem verður að reisa eða styrkja á næstu 10 árum.

b) spanna allar fjárfestingar, sem þegar er búið að ákveða, og telja upp nýjar fjárfestingar, sem fara þarf í á næstu þremur árum, og

c) gefa upp tímabil allra fjárfestingarverkefnanna.

Þeir, sem hug hafa á að virkja á Íslandi eða að leggja hingað sæstreng, geta í Kerfisáætlun fylgzt með, hvernig innviðauppbyggingu fyrir þeirra verkefni miðar og þrýst á Landsreglarann um flýtingu, ef þurfa þykir.

"5.  Landsreglarinn skal fara í saumana á því, hvort kerfisáætlun Landsnets spannar allar fjárfestingarþarfir, sem birzt hafa í samráðsferlinu, og hvort hún er í samræmi við 10 ára Kerfisþróunaráætlun Evrópusambandsins, sem nefnd er í gerð ESB #714/2009, kafla 8, grein 3 b.  [Þótt Kerfisþróunaráætlun ESB sé ekki lagalega bindandi fyrir aðildarlöndin, er litið svo á, að við gildistöku Orkupakka #3 beri viðkomandi landi að virða hana og fara eftir henni að sínu leyti.]  Ef vafi leikur á um, hvort Kerfisáætlun Landsnets sé í samræmi við Kerfisþróunaráætlun ESB, skal Landsreglarinn ráðfæra sig við ACER.  Landsreglarinn getur krafizt þess, að Landsnet breyti 10 ára Kerfisáætlun sinni.

Það er ljóst af þessum texta, að Landsnet, sem ríkisstjórnin vill semja um kaup á fyrir hönd ríkissjóðs, verður alls ekki sjálfstætt ríkisfyrirtæki eftir innleiðingu Orkupakka #3, heldur stjórnað að miklu leyti af Landsreglaranum, sem tekur stefnumarkandi ákvarðanir  um framkvæmdir fyrirtækisins, og þær verða að taka mið af vilja og áformum ESB um tengingu Íslands við innri raforkumarkað EES. Ofangreindir lögfræðingar beindu aðallega sjónum sínum að gerð 713/2009, sem þeir fundu út, að engan veginn samræmist Stjórnarskrá Íslands, og minntust aðeins á 714/2009, sem bezt væri að fá undanþágu frá líka, ef sezt verður við samningaborðið með EFTA og ESB.   

Ef vilji Evrópusambandsins um þróun orkumála Íslands er hundsaður eða lappirnar dregnar af Landsneti/ríkinu, er líklegt, að allt fari í bál og brand á milli Íslands og ESB og ásakanir komi fram að hálfu ESB um brot Íslands á EES-samninginum.  ESB getur hvenær sem er einhliða gert Kerfisþróunaráætlun sína lagalega bindandi fyrir EES-ríkin, sé talin þörf á að reka deilumál um hana fyrir dómi. Valdyfirtaka Landsreglarans á Landsneti og þar með hliðsetning hugsanlegrar stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu Landsnets verður enn ljósari við lestur liðar 6, 7 og 8 í þessari Orkumarkaðstilskipun ESB.  Verða þeir birtir og rýndir í nýjum pistli:

Rúsínan í pylsuenda orkumarkaðstilskipunar. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Þú ert betri en enginn Bjarni.

Í raun heil gullnáma, færir rök í stað fullyrðinga stjórnmálastéttarinnar.

Takk fyrir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.4.2019 kl. 13:46

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér kærlega fyrir, Ómar Geirsson.  "You ain´t seen nothing yet."

Bjarni Jónsson, 4.4.2019 kl. 15:02

3 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þú segir, "You ain´t seen nothing yet."

Talaðu manna heilastur.

Við verðum að búa til stjórnkerfi utan við gamla stjórnsýslukerfið.

Það verði áþekkt Kantónu kerfinu í Sviss, og meira og minna rekið í tölvunum okkar. 

Það er ekki hægt að við sitjum uppi með Alþingi, sem fer ekkert eftir samþykktum flokkana eða hugmyndum þjóðarinnar.

Við verðum að hafa til dæmis þrjár sterkar fréttamiðlanir, frá Alþýðusambandinu, það er Verlalýðshreyfingunni, frá Samvinnuhreyfingunni og frá Byggðunum.

Nú ræður fjármagnið yfir öllum aðal fjölmiðlum heimsins.

Nú endurskoðum við Seðlabankann, byrjum á að útskýra hvernig þeir fóru að því að búa til kreppur til að ræna sem mestu frá heimilunum og fyrirtækjunum.

Auðvitað eiga þeir að skila öllu til baka. Hvernig? Látum þá svara því sjálfa. Auðvitað geta þeir ekkert. Látum þá játa það.

Alls ekki til aðstinga neinum inn, en kenna okkur öllum góða siði.

Finna eða búa til gott forrit, til að stýra kerfinu.

Heimilin og fyrirtæki hafi forgang, og vera friðhelg.

Allir læri sem þeir best geta, og allir með getuna,  komi með lausnirnar, forritin til að vinna stjórnsýsluna.

Enga minnimáttarkennd.

Engan aumingjaskap 

Nýtt og betra kerfi, sem við snýðum agnúana af jafnóðum og að við notum það.

Vandamál koma, eins og í gamla ræningja kerfinu, þá leysum við vandamálin.

Fram til forustu allir, nýtt og betra heimsskipulag, komi frá Byggðaeiningunum.

Koma með sem bestu útfærslurar, þið eruð með þær.

Egilsstaðir, 04.04.2019  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 4.4.2019 kl. 17:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband