6.4.2019 | 21:09
Rúsínan í pylsuenda orkumarkaðstilskipunar
Á þessu vefsetri hefur verið rakið, hvernig Orkumarkaðstilskipun 2009/72/EB, sem er hluti af Þriðja orkupakka ESB, felur í sér valdatöku Evrópusambandsins með embættismann sinn,Landsreglarann, í stafni, yfir Landsneti. Nú verður haldið áfram, þar sem frá var horfið í vefgreininni, "Lýðræðið og Landsreglarinn".
6. Landsreglarinn skal vakta og meta framkvæmd 10 ára Kerfisáætlunar Landsnets.
7. Í þeim tilvikum, að rekstraraðili raforkuflutningskerfisins [Landsnet] af einhverjum öðrum orsökum en óviðráðanlegum, sem liggja utan valdsviðs hans, lætur hjá líða að fara í fjárfestingu, sem hefði átt að raungera á fyrsta 3 ára tímabili 10 ára áætlunarinnar, skulu aðildarríkin tryggja, að Landsreglarinn verði skuldbundinn til minnst einnar af eftirtöldum aðgerðum til að tryggja framgang þeirrar fjárfestingar, sem í hlut á, ef hennar er enn þörf samkvæmt nýjustu 10 ára áætlun:
a) krefjast þess, að Landsnet fari í umrædda fjárfestingu
b) skipuleggja útboðsferli, sem sé opið fyrir fjárfesta i viðkomandi fjárfestingarverkefnum, þannig að þeir geti tekið verkið að sér, eða
c) skylda Landsnet til að auka eigið fé sitt til að fjármagna hinar nauðsynlegu fjárfestingar og láta óháða fjárfesta taka þátt í fjármögnuninni.
Ef Landsreglarinn hefur notað vald sitt til að krefjast verkútboðs samkvæmt lið b að ofan, getur hann skyldað Landsnet til að fallast á einn eða fleiri eftirtalinna valkosta:
a) fjármögnun frá hvaða þriðja aðila sem er
b) verkframkvæmd hvaða þriðja aðila sem er
c) Landsnet reisi mannvirkin
d) Landsnet reki viðkomandi mannvirki
Landsnet skal veita fjárfestunum allar upplýsingar, sem eru nauðsynlegar til að framkvæma fjárfestingarverkefnið, tengja nýju mannvirkin við flutningskerfið og almennt að gera allt, sem í sínu valdi stendur, til að auðvelda framkvæmd fjárfestingarverkefnisins.
Landsreglarinn skal fá valda fjármögnunarleið til samþykktar.
8. Ef Landsreglarinn hefur notað valdheimild sína í lið 7.a, skulu gjaldskrárákvarðanir taka mið af fjármögnun framkvæmdanna, sem Landsreglarinn bætti inn á framkvæmdaáætlun.
Hér eru viðamiklar valdheimildir til að ráðskast með Landsnet færðar Landsreglara. Það er ljóst, að Landsnet mun ekki geta frestað verkum, sem Landsreglarinn er búinn að samþykkja inn á Framkvæmdaátlun til þriggja ára. Það þýðir ekki að bera við fjárskorti, því að þá er gjaldskrárhækkun, alútboð og leiga á mannvirkjum eða skuldabréfaútboð í boði að hálfu Landsreglara.
Það er ljóst, að Landsreglarinn mun t.d. hafa völd til að stjórna því með harðri hendi, að búið verði í haginn fyrir flutning á nauðsynlegu afli, t.d. 1200 MW, frá stofnrafkerfi landsins og niður að lendingarstað aflsæstrengs í tæka tíð áður en taka á strenginn í notkun. Sá kostnaður verður allur fjármagnaður með hækkun á gjaldskrám Landsnets til almennings og stóriðju. Þetta er ótækt framsal valdheimilda til stofnunar, sem rétt kjörnum stjórnvöldum á Íslandi er ekki ætlað að hafa nein áhrif á.
Hið orkuhungraða Evrópusamband hefur sótt fjölgun aflsæstrengja frá Noregi fast, og nú er í afgreiðslu hjá Orkustofnun Noregs (NVE) umsókn frá hlutafélaginu NorthConnect um samnefndan aflsæstreng frá Harðangri í Noregi til Petershead á Skotlandi.
Þessi sæstrengur var til umræðu í Noregi í byrjun árs 2018. Statnett (norska Landsnet) hefur lagzt gegn leyfisveitingu fyrir þennan streng að svo komnu máli, því að fyrst sé nauðsynlegt að sjá efnahagslegar og tæknilegar afleiðingar af tveimur 1400 MW sæstrengjum, sem nú eru á framkvæmdastigi, annar til Englands og hinn til Þýzkalands. Eignarhaldið á NorthConnect er mörgum Norðmönnum þyrnir í augum, því að allar aðrar millilandatengingar við Noreg eru í eigu Statnetts. Fyrir norska Verkamannaflokkinn er eignarhaldið frágangssök. Þannig var það eitt af 8 skilyrðum flokksins fyrir stuðningi á Stórþinginu við Þriðja orkupakkann 22. marz 2018, að eignarhaldið á NorthConnect yrði á hendi Statnetts. ESB hefur engu svarað um þessi 8 skilyrði, enda brjóta þau í bága við reglur Þriðja orkupakkans og/eða EES-samningsins. Skilyrðið, sem utanríkisráðherra Íslands virðist hafa gert munnlegt samkomulag við (handsalað ?) framkvæmdastjóra orku- og loftslagsmála hjá ESB í Berlaymont í Brüssel er af svipuðum toga, lagalega algerlega haldlaust og með eindæmum, að Íslendingum skuli vera boðið upp á svona trúðsleg stjórnmál.
De Facto heitir þekkingarsetur norsku verkalýðshreyfingarinnar. Þar á bæ hefur fólk lagt mat á afleiðingar 3. og 4. orkupakkans í Noregi og komizt að þeirri niðurstöðu, að 12´000 störf verði í hættu í orkukræfum iðnaði og með afleiddum störfum utan verksmiðjugirðinganna verði alls 30´000 störf í uppnámi. Miðað við orkuna, sem fer til þessa iðnaðar í Noregi og á Íslandi, verða um 8´000 störf á Íslandi í stórhættu, ef Orkupakkar #3 og #4 fá að grassera hér með þeim orkuflutningum frá "grænni rafhlöðu" norðursins til orkuhungraðrar "þungamiðju" fjármagns og iðnaðar Evrópu. Hví kvaka ei foglar Samtaka iðnaðarins á Íslandi eilítið hærra. Vita þeir ei, hvað til síns friðar heyrir ?
Í Noregi er nú verið að blása til sóknar fyrir norskan iðnað og byggðir Noregs fram að Stórþingskosningum 2021. Terje Lien Aasland, framámaður í norsku verkalýðshreyfingunni, sagði í ræðupúlti á Landsfundi norska Verkamannaflokksins nýlega: "Ekki eitt einasta kW skal fara úr landi, ef iðnaðurinn okkar þarfnast þess". Svona eiga sýslumenn að vera. Ekkert holtaþokuvæl !
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.