Sálarháski þingmanna

Ef þingmenn stjórnarflokkanna hafa látið tælast af fagurgala ráðherra um, að innleiðing Orkupakka #3 sé í góðu lagi m.v. öll lögfræðiálit um málið, sem fyrir hendi eru, þá ættu þeir að lesa sem fyrst Álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar frá 19. marz 2019.  Þar kveður við allt annan tón.  Þann tón skynjar líklega almenningur sem þann tærasta og bezta, sem fram hefur komið hjá innlendum lögfræðingum opinberlega í þessu orkupakkamáli.  Ef Alþingismenn ætla að breyta allt öðruvísi en ráðlagt er í þessari Álitsgerð, þá munu þeir lenda í alvarlegum hremmingum heima í kjördæmi sínu, ef marka má tæplega ársgamla skoðanakönnun, sem fram fór um Þriðja orkupakkamálið.

Dæmi úr grein 6.2 í Álitsgerðinni:

"Jafnvel þó að lagt væri til grundvallar, að ákvarðanir ESA beindust einungis að innlendum eftirlitsstjórnvöldum (t.d. Orkustofnun), þá verður engu að síður að hafa í huga, að ákvörðunarvald hinnar erlendu stofnunar samkvæmt reglugerð nr 713/2009 tekur a.m.k. óbeint til skipulags og ráðstöfunar á mikilvægri orkuauðlind þjóðarinnar. Slíkt valdframsal getur ekki talizt minni háttar í skilningi viðmiðana, sem líta ber til við mat á stjórnskipulegu lögmæti valdframsals til alþjóðlegra stofnana á sviði EES-samningsins. Þessu má, með einhverri einföldun, líkja við, að ESA væri falið vald til að ákveða leyfilegan hámarksafla ríkja á sviði sjávarútvegs.  Af framangreindum ástæðum, og þar sem umrætt valdframsal til ESA lýtur að nýtingu og ráðstöfun orkuauðlinda, verður valdheimildum ESA samkvæmt reglugerð nr 713/2009 ekki jafnað til áþekkra valdheimilda, sem ESA hefur fengið eftir gildistöku EES-samningsins, s.s. á grundvelli reglna um fjármálamarkaði, flugöryggi og losunarheimildir."

Hér eru komin nauðsynleg og nægjanleg rök fyrir Alþingismenn til að hafna þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, því að með henni verður gerð 713/2009 leidd í landsrétt, og síðari löggjöf um, að 713/2009 taki ekki gildi, nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, er lögleysa, brot á EES-samninginum, kafla 7, og hefur ekkert réttarlegt gildi gagnvart ESA og EFTA-dómstólinum, þegar þessir aðilar fá deilumál út af þessum gjörningum Alþingis til úrlausnar og dómsuppkvaðningar.  Í þessu verður sálarháski þingmanna fólginn.

Þingmenn hafa verið blekktir hrapallega af ráðherrum og embættismönnum. 

Dæmi 1:

"Einu áhrifin hér á næstu árum, sem við verðum vör við, er tilvist nýrrar, sjálfstæðrar eftirlitsstofnunar, sem skorin er út úr Orkustofnun (en verður í sama húsnæði)". 

Landsreglarinn verður æðsti embættismaður landsins á sviði orkumála. Hann fer í raun með ráðherravald á þessu sviði, en verður óháður ríkisvaldinu og öllum hagsmunaaðilum í landinu.  Landsreglarinn mun lúta boðvaldi ESA, en drög að öllum helztu ákvörðunum og fyrirmælum til hans verða samin hjá ACER-Orkustofnun ESB.  Ísland mun ekki hafa atkvæðisrétt í ACER, heldur áheyrnarrétt og málfrelsi.  Fyrir þjóð, sem vill ekki vera í ESB, er valdframsal af þessu tagi til ESB yfir raforkumálum landsins, gjörsamlega óviðunandi.

Dæmi 2:

"Gildistöku ákvæða, sem varða tengingu við sameiginlegan orkumarkað ESB, er í reynd frestað.  Þau taka ekki gildi fyrr en og ef a) Alþingi ákveður að leggja raforkusæstreng og b) stjórnskipulegri óvissu hefur verið eytt."

Hér er fölsku öryggi hampað.  Það er engin frestun á ferðinni, af því að með þingsályktunartillögunni er allur Orkupakki #3 innleiddur, óafturkræft samkvæmt EES-samninginum, sem þýðir, að innlend takmarkandi löggjöf á þessa innleiðingu hefur ekkert gildi að Evrópurétti og er reyndar brot á EES-samninginum, 7. kafla.  Þetta er lögfræðilega algerlega haldlaus leið, og það kemur fram í téðri álitsgerð lögfræðinganna tveggja, gr. 6.4.  Í þessari álitsgerð kemur jafnframt fram, að engin heimild er í lögum til að innleiða stjórnlagaleg vafaatriði, þótt svo standi á, að ekki reyni strax á þau.

Dæmi 3: 

"Það er algerlega á valdi íslenzka ríkisins að taka ákvörðun um, hvort raforkusæstrengur verður lagður.  Einungis Alþingi getur tekið slíka ákvörðun."

Þarna stendur nú einmitt hnífurinn í kúnni.  Með samþykkt Orkupakka #3 fer fram valdframsal ríkisins til ESA/ACER/ESB til að ákveða, hvort aflsæstrengur verður lagður, og þess vegna er bægslagangurinn með frávikslöggjöf í kjölfar innleiðingarinnar.  Sú löggjöf verður hins vegar brot á EES-samninginum og fellur þar með dauð og ómerk frammi fyrir ESA og EFTA-dómstólinum.  Þingmenn verða að fara að átta sig á, að samkvæmt Evrópurétti víkja landslög og Stjórnarskráin fyrir ESB-samninginum í tilviki ágreinings.  

Dæmi 4: 

"EES-samningurinn hefur engin áhrif á reglur samningsaðila um skipan eignarréttar.  Þetta kemur skýrt fram í 125. grein samningsins.  Af því leiðir, að EES-samningurinn haggar ekki forræði íslenzka ríkisins á náttúruauðlindum í þeim skilningi, að Ísland hefur heimild til þess að ákveða, hvort náttúruauðlindir skuli vera í eigu ríkisins eður ei."

Hér er margs að gæta.  Fyrst er þar til að taka, að EFTA-dómstóllinn hefur dæmt gegn norska ríkinu í s.k. "heimfallsmáli", þar sem sett voru lög um, að vatnsaflsvirkjun einkaaðila félli án kvaða í hendur ríkisins að tilteknum tíma liðnum.  Þetta var úrskurðuð óleyfileg eignaupptaka að hálfu norska ríkisins.  Íslenzka ríkið mætti sennilega setja lög, EES-samningsins vegna,um, að allar orkulindir Íslands skyldu verða í þjóðareign, eins og fiskimiðin, en það er hins vegar ekki ætlun meirihluta þingsins.  Samkvæmt EES-samninginum má ekki mismuna fyrirtækjum innan EES um aðgang til nýtingar íslenzkra orkulinda, og ríkið á ekki að hafa neinn forgang í þeim efnum.  Því fer þess vegna fjarri, að íslenzka ríkið hafi óskipta stjórn á orkulindunum, og "reglugerð 713/2009 tekur a.m.k. óbeint til skipulags og ráðstöfunar á mikilvægri orkuauðlind þjóðarinnar" að mati lögfræðinganna FÁFH og SMS. Orkulindirnar sjálfar eru í húfi.

Dæmi 5: 

"Við drögum umsókn Landsvirkjunar um "Ice-Link" til baka, og hann hverfur af kortum."

Þetta mál er ekki svona einfalt.  Það eru samtök orkuflutningsfyrirtækja í Evrópu, sem gera tillögu um millilandatengingar, ACER raðar þeim í forgangsröð og framkvæmdastjórn ESB staðfestir.  "Ice-Link" er nú á PCI-forgangslista #3, og það er ekki hægt að taka hann þaðan út.  PCI#4 verður afgreiddur 2020, og það er fyrirskrifað í Innviðagerð 347/2013, sem bíður tilbúin til umræðu í Sameiginlegu EES-nefndinni, hvernig meðhöndla á breytingartillögur. Bréf frá ríkisstjórn Íslands er aðeins eitt innlegg í málið, en alls ekki ákvarðandi. (Barnaskapur utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra ríður ekki við einteyming.)

Ríkisstjórnir EFTA-landanna vega ekki sérlega þungt í þessu ferli.  Halda menn, að framkvæmdastjórn ESB, sem þessu ræður, muni líta vinsamlega á slíka beiðni frá Íslandi, sem á sama tíma lýsir yfir vilja til að sameinast innri raforkumarkaði ESB (með samþykki pakkans), en vill samt eyða áætlunum um slíkt (í Kerfisþróunaráætlun ESB).  Það rekur sig hvað á annars horn hjá stjórnarþingmönnum og ríkisstjórn í þessu máli.  Slíkur málatilbúnaður er afar ótraustvekjandi bæði inn á við og út á við.  

Hafna ber Orkupakka #3.  Þá verður hægt að ræða undanþágur við hann, sem duga, á réttum vettvangi.  

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Frábær pistill.  Ég hvet þig til að senda þetta á alla þingmennina og Ráðherrana.........

Jóhann Elíasson, 8.4.2019 kl. 14:34

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Tillaga lögfræðinganna er sú að lögfest verði að samþykki Alþingis þurfi til að heimilt verði að leggja sæstreng. Frumvarpið felur þetta nú einmitt í sér.

Staðhæfingar þínar eru hins vegar eftirfarandi, fljótt á litið:

1. Álitsgerðin er það "tærasta og besta" sem fram hefur komið í þessu máli.

2. Tillaga lögfræðinganna, sem þeir setja fram í þessari "tærustu og bestu" álitsgerð allra álitsgerða er marklaus því fyrirvarinn sem þeir leggja til verður felldur úr gildi af Efta-dómstólnum.

3. Með því að fylgja ráðleggingum lögfræðinganna í álitsgerðinni eru stjórnvöld ekki að fylgja ráðleggingum þeirra.

Maður hefur stundum séð mótsagnakenndar staðhæfingar, en ekki oft svona mótsagnakenndar.

Þorsteinn Siglaugsson, 8.4.2019 kl. 20:17

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þú, Þorsteinn Siglaugsson, virðist ekki hafa tekið eftir því, að lögfræðingarnir Friðrik Árni og Stefán Már, leggja alls ekki til þá leið, sem utanríkisráðherra þóknaðist að fara, heldur leggja þeir til, að Alþingi neiti að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvera.  Þeir segja leið ráðherrans "ekki gallalausa", og víða í skýrslu þeirra kemur fram, að hún er svo meingölluð, að hún er í raun ófær, t.d. þetta í 6.4: "Að mati höfunda er þó til þess að líta, að samþykki Alþingi umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar óbreytta (og aflétti þar með stjórnskipulegum fyrirvara við hana), þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr 713/2009 í landsrétt með þeim breytingum/aðlögunum, sem leiða af umræddri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr 7. gr. EES-samningsins.  Myndi Íslandi því bera skylda til að innleiða reglugerðina í landsrétt með aðlögunum, sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.  Þetta þýðir jafnframt, að taka verður afstöðu til þess nú þegar, hvort 8. gr. reglugerðar nr 713/2009 (og aðrir hlutar orkupakkans, ef því er að skipta), standist stjórnarskrána, og það áður en Alþingi ákveður, hvort samþykkja skuli umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar."  

Hér er afdráttarlaust kveðið að orði um það, að sú leið, sem ráðherra valdi, er gjörsamlega ófær, og þess vegna er hún ekki sú leið, sem þessir ágætu lagasérfræðingar ráðleggja að fara.  Hvernig stendur þá á því, að minnzt er á þessa gölluðu leið í álitsgerðinni ?  Hún kemur þar eins og skrattinn úr sauðarleggnum m.v. allan annan texta álitsgerðarinnar.  Hún getur þess vegna ekki verið þarna að undirlagi höfundanna.  Þá hlýtur verkkaupinn að hafa haft frumkvæði að því, að hún er þarna.  Málflutningur ráðherra snýst hins vegar um það, að hin ófæra leið sé frá Friðriki og Stefáni komin.  Blekkingartilburðir ráðherrans blasa við þeim, sem lesa umrædda álitsgerð.  Svívirðilega blekkingastarfsemi mundu margir kalla slíkan málflutning.  

Bjarni Jónsson, 8.4.2019 kl. 21:50

4 Smámynd: Haukur Árnason

Það er harkalegt þegar ráðamenn þjóðarinnar reynast vera nytsamir sakleisingar.

Haukur Árnason, 8.4.2019 kl. 23:40

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta segir Stefán Már í Morgunblaðinu í morgun:

»Við innleiðum tilskipunina en frestum gildistökunni. Alþingi lofar sjálfu sér því að ef grunnvirki [sæstrengur] verða áformuð þá fari þetta í ferli og þar með í stjórnarskrárferli. Gildistökunni er einfaldlega frestað,« sagði Stefán Már í samtali við Morgunblaðið. En stenst þetta ákvæði stjórnarskrána? »Við teljum það af því að þetta er innleitt en lögin koma ekki til framkvæmdar fyrr en ef tekin verður ákvörðun um að leggja sæstreng. Við erum í rauninni að fresta ákvarðanatökunni, þar með talið því sem lýtur að stjórnarskránni.«

Þorsteinn Siglaugsson, 9.4.2019 kl. 13:12

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Þorsteinn.

Ekki vani minn að skipta mér að orðræðum annarra, en þú nærð vel að teikna upp kjarna málsins, sem er að Alþingi ætlar að samþykkja orkupakkann, það er ósammála innihaldi hans, og samþykkir hann því með fyrirvörum svo ekki komi til valdaafsals, sem er stjórnarskráarbrot, og ég fæ ekki betur séð en að þú viðurkennir það.

Sleppum orðhengilshættinum sem þú kýst að nota í fyrri athugasemd þinni, tökum kjarnann.  Og mig langar að vitna í pistil Gunnars Hreiðarssonar, sem orðar hann svo vel, að engin ástæða er til að reyna betur.

"Málflutningur þeirra sem vilja samþykkja orkupakka 3 eru fyrst og fremst byggð á einu atriði, persónum þeirra sem á móti eru. Framanaf voru þetta einu rök landsölufólksins, fullyrt að engin hætta væri af samningnum, að vald yrði ekki að neinu leyti flutt úr landi. Þegar ljóst var að þessu svokölluðu rök stóðust ekki, þegar ljóst var að um afsal valds var að ræða og ráðamenn gátu ekki lengur dulið það fyrir þjóðinni, voru settir fram fyrirvarar. Þar með viðurkenndu stjórnvöld málflutning þeirra sem á móti voru. En fyrirvarar við tilskipanir frá ESB hafa aldrei haldið og munu aldrei halda. Einungis tilskipunin sjálf, með kostum og göllum virkar. Þetta hefur margoft verið reynt. Enginn hefur getað bent á fyrirvar sem hafi haldið, þ.e. fyrirvarar sem gerður er við þegar samþykkta tilskipun frá ESB. Ef breyta þarf einhverju þarf að breyta sjálfri tilskipuninni.".

Veistu dæmi um að einhliða fyrirvarar haldi??

Það væri gott að vita það því skýr fyrirvari í sjálfum EES samningnum sem kvað á um sérstöðu Íslands varðandi landbúnaðarafurðir, hélt ekki í nýlegum dómi og því er ekki lengur hægt að verja landið fyrir búfjársjúkdómum.

Og Þorsteinn, þetta er ekki Morfís keppni.

Kveðja að austan.

 

 

 

Ómar Geirsson, 9.4.2019 kl. 14:03

7 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég vísa bara á ný til orða Stefáns Más. Þessi þáttur laganna er ekki innleiddur heldur frestað. Fyrirvari um landbúnaðarafurðir grundvallaðist á heilbrigðissjónarmiðum og fyrirvarinn heldur auðvitað hvað það varðar. En það merkir ekki að menn geti hangið á honum út af einhverju allt öðru.

Meginatriðið í þessu máli er, að hafður er uppi endalaus áróður, mestan part grundvallaður á vísvitandi ósannindum, samsæriskenningar og annað bull. Hver tilgangurinn er veit ég ekki og langar satt að segja ekki að vita það. En ég efast um að skýringin sé einber heimska.

Þorsteinn Siglaugsson, 9.4.2019 kl. 15:17

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Þorsteinn.

Ég tók það nú skýrt fram að þetta væri ekki Morfís keppni.

En jafnvel þar hefðir þú ekki skorað hátt.

Hérlendis er enginn sem rökstyður mál sitt eins vel og Bjarni gerir, þú niðurlægir sjálfan þig með þessum orðum þínum; " endalaus áróður, mestan part grundvallaður á vísvitandi ósannindum, samsæriskenningar og annað bull.".

Varðandi fyrirvara okkar í stofnsamningi EES, ekki er hægt að setja fyrirvara fyrr í málsmeðferð, þá snýst hann ekki um heilbrigðisjónarmið, skil ekki hvað fær þig til að halda slíku fram, hins vegar er það kannski rétt að undirlægjur í stjórnkerfinu kusu að láta ekki reyna á hann. 

Hins vegar virti dómurinn hann ekki viðlits.

Samt aukaatriði málsins, langaði aðeins að lesa viðbrögð þín, aðalatriði er, eru dæmi um að einhliða fyrirvarar haldi???

Og þú átt augljóslega ekki svar við því.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.4.2019 kl. 15:38

9 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þú ættir kannski að reyna að ræða málefnið Ómar, fyrst þér er svona mikið í mun að ræða aðalatriði málsins. Hvernig svarar þú túlkun Stefáns Más á þessu efni? (Og ætli þér takist það án þess að vera með útúrsnúninga og skítkast?).

Fyrirvarinn gagnvart landbúnaði snýst um heilbrigði búfjár, alveg sama hvað þú þruglar góðurinn.

Þorsteinn Siglaugsson, 9.4.2019 kl. 16:43

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður aftur Þorsteinn.

Fyrirvarinn fjallar um verndun innlendra búfjárstofna sem eru viðkvæmir fyrir utankomandi sjúkdómum vegna langvarandi einangrun á afskekktu eylandi.  Og það er sá fyrirvari sem heldur ekki, og óþarfi að snúa út úr því með orðalaginu að menn geti ekki hangið á honum út af einhverju öðru. Því það er ekki verið að ræða eitthvað annað. 

Síðan er ekkert um neina túlkun á orðum Stefáns að ræða, þau eru skýr, um leið og landið er tengt hinum sameiginlega orkumarkaði, þá er um valdaafsal að ræða sem stjórnarskráin heimilar ekki.  Þess vegna leggst hann gegn því að Alþingi samþykki tilskipunina.

Stjórnvöld telja það óhætt því þau setja þann fyrirvara að Alþingi þurfi að samþykkja slíka tengingu. 

Bjarni færir rök fyrir því að slíkur fyrirvari haldi ekki, og þar sem þú kaust að hæðast að honum í fyrri athugasemd þinni, þá ákvað ég spyrja þig mjög kurteislega og vísaði í rökfærslu Gunnars Heiðarssonar hvort þú vissir dæmi um einhliða fyrirvara (fyrirvara sem ekki er samið um í upphafi við Evrópusambandið) sem hafa haldið eftir að tilskipanir taka gildi.  Að því gefnu að þú skrifir ekki með ósýnilegu bleki þá get ég hvergi séð að þú hafir gert það og vart getur það flokkast undir skítkast og útúrsnúning að segja að þú hafir augljóslega ekki gert það.

Hins vegar máttu alveg taka því sem skítkast að ég hef það mikið álit á þér að ég tel þig lítillækka sjálfan þig að afgreiða vandaðan málflutning Bjarna í pistlinum, sem og ekki síður málefnalegt andsvar hans á þann hátt að "" endalaus áróður, mestan part grundvallaður á vísvitandi ósannindum, samsæriskenningar og annað bull."".  Jafnvel þó hefðir komið með mótrök gegn rökum hans, enda kallast slíkt að rökræða, og talið þig hafa betur.  Þannig ef þau eru líka skrifuð með ósýnilegu bleki, þá á málefnalegur málflutningur samt ekki skilið slíkan sleggjudóm.

En þú um það, álit á öðru fólki er eitthvað sem maður myndar sér af hinum og þessum ástæðum, og ekkert svo sem ég get gert í því.

Þannig er nú bara það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.4.2019 kl. 20:08

11 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það, sem vantar í Morgunblaðsviðtalið við Stefán má, er, að "þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr 713/2009 í landsrétt .... ", gr. 6.4 í álitsgerð FÁFH & SMS.  Muni einhver kvarta við ESA undan þessari skilmálatengdu innleiðingu Alþingis á Þriðja orkubálkinum, t.d. sæstrengsgjárfestir innan EES, er þess vegna líklegast, að úrskurðurinn muni falla kvartaranum í vil.  Dæmi EFTA-dómstóllinn síðan á sama veg, þá fellur sá fyrirvari Alþingis dauður niður, að 713/2009 taki ekki gildi fyrr en Alþingi samþykkir lagningu sæstrengs til Íslands.  Þá sitjum við uppi með allan Orkupakka #3 í íslenzku lögbókinni, og þar með stjórnarskrárbrot og lagalega óvissu að mati lögfræðinganna FÁFH & SMS.  Þessi aðferðarfræði er þess vegna með öllu ótæk.  

Bjarni Jónsson, 9.4.2019 kl. 21:13

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Og hingað til Bjarni hef ég hvergi lesið mótrök sem halda gegn þessari rökfærslu.

Það er þá sem gripið er til gífuryrða eins og "innistæðilausar fullyrðingar", "bull" eða eitthvað þaðan að verra.

Og verstur finnst mér málflutningurinn hjá iðnaðarráðherra og utanríkisráðherra, það er til dæmis ekki boðlegt hjá Þórdísi Kolbrúnu að svara svona rökum með orðum eins og að hún hafi kynnt sér þetta mál vel, og hún myndi aldrei leggja eitthvað til sem skaðaði hagsmuni þjóðarinnar.

Gott og vel, en þetta eru bara orð.

Hvar eru rökin, auglýsi eftir þeim.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.4.2019 kl. 21:40

13 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já, stundum vantar í viðtöl við menn það sem þeir segja ekki! Niðurstaða Stefáns sem hann lýsir í viðtalinu er alveg skýr. Og ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en að hann viti hvað hann er að tala um. Alveg sama hvað líður vangaveltum þínum og annarra og fimbulfambi um hluti sem ekki eru raunverulegir.

Þorsteinn Siglaugsson, 9.4.2019 kl. 23:25

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Jæja jæja Þorsteinn, þetta er nú allt í áttina hjá þér.

Einn daginn lærir þú kannski líka að svara spurningum, ekki að það sé kvöð, en það gæti bætt umræðuna,.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.4.2019 kl. 06:53

15 Smámynd: Bjarni Jónsson

Málatilbúnaður utanríkisráðherra við innleiðingu á þessum orkupakka er ekki léttvægur, heldur geta afleiðingar hans orðið grafalvarlegar.  Í fyrsta lagi verður hægt að draga í efa lögmæti allra íþyngjandi ákvarðana Landsreglarans, t.d. staðfestingu á hækkun gjaldskráa Landsnets eða dreifiveitnanna, á þeim grundvelli, að innleiðing alls orkupakkans, þrátt fyrir fyrirvara, hafi falið í sér stjórnarskrárbrot (gerð 713/2009).  Í öðru lagi getur ESA hæglega fett fingur út í lög, sem gera gerð 713/2009 óvirka í íslenzkum landsrétti, og hvaða hagsmunaaðili, sem er, innan EES getur kvartað við ESA, t.d. sæstrengsfjárfestir.  Vegna brots á kafla 7 í EES-samninginum er líklegast, að EFTA-dómstóllinn dæmi lögin, sem afnema um sinn gildi þessarar gerðar hérlendis, brot á Evrópurétti, og þá verður að fella þau úr gildi.  Þar með sitjum við uppi með allan orkupakkann.  Verði hann dæmdur stjórnarskrárbrot, verður hann felldur úr gildi, væntanlega í öllum EFTA-ríkjunum þremur í EES.  Þetta yrði utanríkispólitískt hneyksli og afar niðurlægjandi fyrir Íslendinga.  Leið utanríkisráðherra er þess vegna ófær.

Bjarni Jónsson, 10.4.2019 kl. 15:35

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Bjarni.

Þú segir það á mannamáli sem Friðrik Árni segir á lagamáli í viðtali á Mbl.is núna fyrr í dag.

Það eru engir eftirá fyrirvarar, ef við afsegjum þó það sem við höfum í dag, þá er lagaleg staða okkar gagnvart ESA engin, og ESA á að sjá til þess að EFTA ríkin framfylgi tilskipun Evrópusambandsins.

Þetta er dilema sem enginn endir er á.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.4.2019 kl. 15:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband