Eignarhald og ráðstöfunarréttur orkulindanna í húfi

Bornar hafa verið brigður á, að eignarréttur og ráðstöfunarréttur orkulindanna sé í húfi með samþykki Alþingis á þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um afléttingu hins stjórnskipulega fyrirvara á ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar um innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn.  Hins vegar tekur álitsgerð lögfræðinganna Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst (FÁFH)og Stefáns Más Stefánssonar (SMS) frá 19. marz 2019 til utanríkisráðuneytisins af öll tvímæli um, að orkulöggjöf Evrópusambandsins leyfir lagasetningu um eignarrétt og ráðstöfunarrétt orkulinda og að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn er þessarar gerðar.  

Af þessum ástæðum getum við aldrei orðið aðilar að Evrópusambandinu, ESB, án stórfellds hnekkis, alveg eins og á við um fiskveiðilögsögu landsins og aðildina að ESB.  Með samþykkt Þriðja orkupakkans er verið að þrýsta Íslendingum í banvænan náðarfaðm ESB.  Að íslenzkir stjórnmálaflokkar, sem hafa á stefnuskrá sinni andstöðu við ESB-aðild, skuli standa að þessu feigðarflani, segir sína sögu um þá Trójuhesta, sem eru á meðal vor og sitja að svikráðum fyrir pokaskjatta, fulla af gulli.  Það er gamla sagan.  

Sumir íslenzkir lögfræðingar hafa gerzt furðu heimóttarlegir að leggja sig í framkróka við að sýna fram á, að Þriðji orkupakkinn breyti í raun engu fyrir Íslendinga, sízt af öllu um eignarhald auðlindanna og hafa þá vitnað til kafla 125 í EES-samninginum.  FÁFH og SMS sýna hins vegar fram á í álitsgerð sinni, að dómaframkvæmd getur stungið í stúf við texta EES-samningsins vegna fjórfrelsisins, sem skal ganga fyrir öðrum ákvæðum:

"Í dóminum [Heimfallsdómi EFTA-dómstólsins gegn norska ríkinu] segir, að sá greinarmunur, sem gerður er í  norskri löggjöf á opinberum aðilum annars vegar og einkaaðilum og erlendum aðilum hins vegar, hafi neikvæð áhrif á fjárfestingu síðari hópsins og feli í sér óbeina mismunun, sem hindri bæði frjálst flæði fjármagns og stofnsetningarréttinn.  Ástæðan sé sú, að þessir aðilar hafi styttri tíma til að fá arð af fjárfestingu sinni en opinberir aðilar."

Þetta mál sýnir, að sitt er hvað lagatexti og dómaframkvæmd EFTA-ESB-dómstólsins.  Í þessu tilviki víkur norsk löggjöf, sem átti að tryggja, að vatnsréttindi og virkjanir féllu til ríkisins að tilgreindum tíma liðnum, 50-80 ár, fyrir fjórfrelsi Innri markaðarins um frjálst flæði fjármagns og áskilda jafnstöðu fjárfesta innan EES. Allar hérlendar tilraunir til að hamla kaupum útlendinga á vatnsréttindum, virkjunum og fyrirtækjum til sölu í raforkugeiranum, yrðu væntanlega kærðar fyrir ESA og EFTA-dómstólnum, og öll innlend löggjöf í þeim efnum viki fyrir Evrópurétti um frjálst flæði fjármagns innan EES, sbr Heimfallsdóminn.

Í álitsgerð FÁFH & SMS er komizt að þeirri niðurstöðu, að það samræmist ekki Stjórnarskrá Íslands, að innleiða 8. gr. reglugerðar 713/2009, "þar sem ACER er veitt heimild til að taka lagalega bindandi ákvarðanir varðandi grunnvirki yfir landamæri, en sem fyrr segir er ráðgert, að ESA muni fara með þær valdheimildir gagnvart EES/EFTA-ríkjunum." [gr. 3.1]  

Nú hefur utanríkisráðherra lagt til leið til að sigla framhjá þessari niðurstöðu lögfræðinganna með því að taka allan Orkupakka #3 upp í íslenzkan landsrétt og setja síðan í lög undanþáguákvæði, sem reist er á núverandi stöðu samtengingar raforkukerfisins við útlönd, sem er sú, að samtenging er ekki fyrir hendi.  Lögin eiga að afnema reglugerð 713/2009 úr íslenzkum rétti, þangað til Alþingi heimili lagningu aflsæstrengs til landsins og búið verði að leysa úr Stjórnarskrárvandanum.  Utanríkisráðherra heldur því fram, að þetta sé tillaga téðra lögfræðinga.  Það er alrangt og reyndar gróf aðför að faglegum heiðri mætra manna, sem skilað hafa af sér góðu verki ("Álitsgerð").  Til að sýna fram á þessa fullyrðingu, er í raun nóg að vitna í gr. 4.1 í álitsgerðinni:

"Það breytir því þó ekki, að þriðji orkupakkinn verður ekki tekinn upp í íslenzkan landsrétt nú, nema hann standist stjórnarskrána.  Verður ákvörðun Alþingis um, hvort aflétta eigi stjórnskipulegum fyrirvara Íslands við þriðja orkupakkann og innleiða hann í íslenzkan landsrétt að miðast við þá forsendu, að grunnvirkjum yfir landamæri verði komið á fót hér á landi, en við þær aðstæður myndi reyna á umrætt valdframsal til ESA, einkum samkvæmt reglugerð 713/2009."

Utanríkisráðherra fer öfugt að; hann leggur til, að stjórnarskrárvandanum verði sópað undir teppið.  Síðan stingur hann hausnum í sandinn og hundsar algerlega hinn gríðarlega "galla" við þessa lögfræðilegu moðsuðu utanríkisráðherrans, sem fram kemur í álitsgerðinni, gr. 6.4, að aflétti Alþingi stjórnskipulegum fyrirvara af Þriðja orkupakkanum, "þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr 713/2009 í landsrétt".

Hvað þýðir þetta ?  Það þýðir einfaldlega, að komi vink frá ESA um þennan fordæmalausa málatilbúnað í EES-samstarfinu, þá falla hin lögfræðilegu Pótemkíntjöld og við blasir landsréttur með Þriðja orkupakkann í heild sinni innanborðs og Stjórnarskráin, sem liggur óbætt hjá garði.  Þeir Alþingismenn, sem ekki sjá hættuna, sem í þessu felst, eiga uppgjör skilið í aðdraganda næstu þingkosninga og uppsögn, verði þeir áfram í framboði.

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Bjarni og hafðu þakkir fyrir pistla þína og varúðarorð til íslendinga. Það er ein spurning sem ég hef verið að velta fyrir mér í ljósi frétta frá Frakklandi þar sem ESB er að knýja á einkarekstur og þá mögulega að splitta EDF upp, eða a.m.k. minnka stuðning sinn við fyrirtækið. sjá link- https://energy.economictimes.indiatimes.com/news/power/frances-edf-warned-of-strike-at-its-hydropower-plants-rte/68788047

Gæti það gerst við innleiðingu Orkupakka 3 að íslenska ríkið verði knúið af ESB að markaðsetja vatnsréttindi sem Landsvirkju hefur nýtt til raforkuframleiðslu?. 

Og svo er, hvernig verður gjaldtöku íslenska ríkisins háttað fyrir vatnsréttindi og hvernig gæti íslenska ríkið fengið arðsemi frá þeim aðilum sem munu kaupa þessi réttindi.

Arðsemi sem Landsvirjun hefur skilað til ríkisins hingað til og mun fara hækkandi með hverju ári. Arður sem stjórnvöld hyggjast setja í svokallaðan Þjóðarsjóð

Eggert Guðmundsson, 17.4.2019 kl. 13:37

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir innlitið, Eggert.

Fréttin, sem þú vísar til, sannar, að við í Orkunni okkar höfum haft rétt fyrir okkur um aðsteðjandi hættu fyrir núverandi eignarhald á Landsvirkjun eftir innleiðingu OP#3.  Með honum fáum við Landsreglara undir ESA/ACER, sem mun knýja á um markaðsvæðingu raforkunnar (uppboðsmarkaður).  Þá er hætt við kröfu um minnkun markaðshlutdeildar Landsvirkjunar.  Hún færi fram með sama hætti og í Frakklandi, að Landsvirkjun væri látin selja virkjanir.  Í tilviki vatnsaflsvirkjana mundu vatnsréttindin fylgja með virkjuninni, því að þau eru framseljanleg, tel ég vera í flestum tilvikum.  Það má líka hugsa sér, að íslenzka ríkið haldi vatnsréttindum og leigi þau nýjum virkjanaeiganda, en ég er ekki viss um, að ESA samþykki það.

Ég er sammála kaupfélagsstjóranum á Sauðárkróki í stórgóðu viðtali í Mogganum í dag.  Raforkan á að vera hér á sem næst verði, sem endurspeglar kostnaðinn m.v. lága ávöxtunarkröfu vegna endingar virkjananna langt umfram afskriftatímann.  Þá fær samfélagið arð auðlindarinnar beint í vasann í stað þess, að ríkið sé að valsa með arðinn í Þjóðarsjóði. 

Bjarni Jónsson, 17.4.2019 kl. 19:00

3 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Skil það rétt að ef Orkupakki 3 verður samþykktur þá munu vatnsréttindi verða strax að markaðsvöru og verða til kaups til hæstbjóðanda, hvort það verður íslenskur aðili eða aðili í evrópu. Þá ér ég að tala um að sæstrengur verði ekki lagður.

Verður Ríkið skv. Orkupakka 3 að aflétta sinni einokun og búa til "kvótakerfi" fyrir vatnsréttindi og réttinn til að nýta þau, þannig að hver sem er mætti bjóða í þau réttindi og nýta eins og hann vill og selja?

Og ef vilji rétthafa keyptra/leigðra vatnsréttinga stendur vilji selja til Evrópu í gegnum sæstreng og kosti hann sjálfur,  þá geti Ríkið ekkert gert nema liðka til með samþykki hans í gegnum skipulagsvöld þess staðvals sem hann verður settur. Eru ekki þessi skilyrði í Orkupakka 3 óháð þeim skilyrðum sem Ríkisvaldið er að setja í fyrirvara sínum.

Eggert Guðmundsson, 17.4.2019 kl. 19:24

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Vatnsréttindi fylgja eiganda aðliggjandi lands, svo að þau eru nú þegar á frjálsum markaði.  Það eru ekki í gildi svipuð lög um orkuauðlindir og sjávarauðlindir, þar sem hinar síðar nefndu eru í þjóðareign.  Það, sem breytist í þessum efnum með OP#3, er, að skylt verður að setja alla tiltæka orku á uppboðsmarkað.  Í orkukauphöll ber Landsreglara að sjá til þess í anda neytendaverndar, að enginn hafi undirtökin á markaðinum.  Það er að gerast núna í Frakklandi gagnvart frönsku Landsvirkjun, og það mun næsta víst gerast á Íslandi einnig, að Landsreglari/ESA munu krefjast sölu á einhverjum virkjunum Landsvirkjunar, eins og Framkvæmdastjórnin krefst af EdF.  Þær munu þá verða til sölu á Evrópska efnahagssvæðinu, og hvorki ríkisstjórn né Alþingi geta stöðvað slíkt ferli, því að Evrópuréttur er skör hærra settur en íslenzkur réttur og jafnvel Stjórnarskrá.  Það kann að koma til úrskurðar EFTA-dómstólsins, hvort vatnsréttindin verði að fylgja virkjun sem eign eða sem forgangsréttur til leigu í t.d. 50 ár.  Ég ætla að leita álits á þessu síðast nefnda hjá lögspekingi.  

Bjarni Jónsson, 17.4.2019 kl. 21:01

5 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Ég var að fá upplýsingar frá Katli Sigurjónssyni að norska ríkisorkufyrirtækið Statkraft er meðal fyrirtækja sem hefur lýst áhuga á að kaupa  vatnsréttindi sem franska EDF hefur nýtt.

Eins og ég skil þetta þá verður íslenska ríkið að setja alla raforkuframleiðslu á markað og hæstbjóðandi fengi virkjunarréttinn, þá óháð því hvort sæstrengur verði lagður eða ekki.  Og ef vatnsréttindin fylgja framleiðslunni í x tíma í leigusamningi, þá verður arðsemi framleiðslunnar eftir í höndum þeirra sem framleiða og selja sína framleiðslu og ríkið fær einungis uppboðs- og leigugjaldið.

Er hægt að girða fyrir þetta án þess að hafna Orkupakkanum?

Eggert Guðmundsson, 18.4.2019 kl. 09:05

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það verður ekki hægt að girða fyrir það, að hið sama gerist og í Frakklandi og 7 öðrum ESB-ríkjum, að Framkvæmdastjórn ESB, hér ESA, þrýsti á stjórnvöld, með vísun til Evrópuréttar, að einkavæða raforkuvinnsluna að miklu leyti.  Þar með verða örlög Landsvirkjunar ráðin.  Úr því að Frakkar verða að láta undan, þá getur þú ímyndað þér, hversu fljót íslenzka ríkisstjórnin verður að guggna.  Gorgeir ráðherra nú og innantómar yfirlýsingar Alþingismanna í blöðum og víðar um, að eignarhald á vatnsréttindum og virkjunum verði ekki í neinni hættu með OP#3, eiga sér enga lagastoð.  Það er OP#3, sem gerir útslagið, því að hann skyldar stjórnvöld til markaðsvæðingar.  

Það er kyndugt, ef Statkraft (100 % norskt ríkisfyrirtæki) ætlar að kaupa hluta af eigum EdF.

Bjarni Jónsson, 18.4.2019 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband