Örverpi utanríkisráðuneytisins

Í herhvöt Guðna Ágústssonar, fyrrverandi Alþingismanns og ráðherra, á fundi í fundaröð Ögmundar Jónassonar, sömuleiðis fyrrverandi Alþingismanns og ráðherra, "Til róttækrar skoðunar", í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík laugardaginn 5. apríl 2019, óskaði hann þess, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn yrði að pólitísku fúleggi í hreiðri ríkisstjórnarinnar.  

Hér skal taka undir hina frómu ósk hins vígreifa höfðingja Sunnlendinga, sem á þessum fundi steig á stokk, fór með bundið mál sem og kjarnyrt óbundið, og hvatti fundarmenn og landsmenn alla (fundinum var streymt) til dáða í þessu sjálfstæðismáli þjóðarinnar.  Það er sjálfstæðismál, af því að það snýst um aðgang að einni helztu auðlind landsins, orkunni.   Ætlunin er að ræna landsmenn einum mestu hlunnindum, sem þeir búa við um þessar mundir og myndar undirstöðu velferðarsamfélagsins: tiltölulega ódýru rafmagni. 

Þeir eru til á meðal hérlandsmanna, sem berja hausnum við steininn, og þræta fyrir það, að Þriðji orkupakkinn snúist um orkulindir Íslendinga.  Hvers konar hagsmunamat ræður þar för ?  Þolir það dagsljósið, eða eru á ferðinni handbendi óprúttinna gróðapunga, sem sjá ótæpileg gróðatækifæri handan við sæstrengshornið, þar sem innflutningur á miðevrópsku rafmagnsverði gegnum sæstreng mun leiða til ábatasamrar sölu á raforku til landsmanna sjálfra, sem þó eiga sjálfir núna megnið af virkjuðum orkulindum "með einum eða öðrum hætti".  

Þeir, sem rýnt hafa Þriðja orkupakkann einna nákvæmast hérlendis, eru lögfræðingarnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson, sem skrifuðu lögfræðilega álitsgerð um afrakstur rýninnar fyrir utanríkisráðuneytið og skiluðu verkinu 19. marz 2019.  Utanríkisráðuneytið launaði verkið með því að snúa álitsgerðinni á haus, þvinga þar inn örverpi, sem er í algerri mótsögn við efnislega niðurstöðu skýrslunnar, og básúna síðan út til þingflokkanna og þjóðarinnar, að það hafi með þingsályktunartillögu sinni valið aðra af tveimur leiðum þessara mætu lögfræðinga, þótt í skýrslunni blasi við, að eina raunverulega tillaga tvímenninganna er að neita að lyfta hinum stjórnskipulega fyrirvara vegna stjórnarskrárbrots, sem í orkupakkanum felst.  Með þessum blekkingum átti að smygla orkupakkanum gegnum Alþingi.  Þetta minnir á kerlinguna, sem kastaði pokapjötlunni með sál karls síns inn um Gullna hliðið eftir að hafa blekkt Lykla-Pétur. 

Ósvífni utanríkisráðuneytisins er þó margfalt verri en að smygla sál karlófétis inn í himnaríki. Kemst utanríkisráðuneytið upp með sína óbilgirni og vanvirðingu í garð Alþingis, sem mun ræna landsmenn yfirráðarétti og afrakstri orkuauðlindanna, er fram líða stundir ?  Þetta er ein skammsýnasta og verst ígrundaða ráðstöfun íslenzkra stjórnvalda allan lýðveldistímann, og þau hafa ekki bitið úr nálinni með hana.

Hér verða menn jafnframt að hafa í huga, að löggjöf Evrópusambandsins, ESB, er kvik, og það á í hæsta máta við um orkulöggjöfina, sem er í mótun.  Eftir Orkupakka #3 (OP#3) hafa komið út reglugerðir, t.d. #347/2013, sem enn færa völd frá aðildarlöndunum til ACER og Framkvæmdastjórnarinnar, OP#4 kemur út 2020, og nú er víst tekið að efna niður í OP#5. Þróunin er samfelld í átt að lokatakmarki ESB að ná altækri stjórn á orkumálum aðildarlandanna.  Þar sem hérlendis eru engin lög um stjórnun orkulindanna, falla þær undir stjórn raforkumálanna, sem verður á höndum Landsreglarans.   

Hvað skrifuðu téðir lögfræðingar í álitsgerð sína um orkuauðlindina ?:

"Síðan er þó vikið frá þessu í c-lið 2. mgr. 192. gr. SSEB [Sáttmáli um starfshætti Evrópusambandsins], þar sem gert er ráð fyrir, að ráðinu sé heimilt með einróma ákvörðun að gera ráðstafanir, sem hafi umtalsverð áhrif á val aðildarríkis milli ólíkra orkugjafa og almenna tilhögun orkuafhendingar.

Þetta þýðir, að stofnunum Evrópusambandsins hefur verið fengið vald til að setja afleidda löggjöf um orkumál innan þeirra valdheimilda og með þeim skilyrðum, sem fram koma í fyrrgreindum ákvæðum.  Valdheimildir aðildildarríkjanna skerðast þá að sama skapi.  Einnig má segja, að í raforkutilskipunum (sem eru hluti af samkeppnisreglunum) sé gert ráð fyrir, að eignarrétti sé skipt upp og að samkeppnisreglur gildi á ákveðnum sviðum.  Þó er ekki bannað, að raforkumannvirki eða dreifing orkunnar sé í opinberri eigu, þótt viss aðskilnaður sé ávallt áskilinn.

Niðurstaðan er því sú, að ýmis ákvæði finnast í frumrétti Evrópusambandsins, sem varða eignarrétt á orkuauðlindum og meðferð þeirra, sem þó geta vart talizt víðtæk enn sem komið er.  Þau heimila sambandinu að setja afleidda löggjöf, sem kann að hafa áhrif á upphaflegan rétt aðildarríkjanna til að stjórna auðlindum sínum.  Það hefur sambandið gert, t.d. með reglum þriðja orkupakkans.  Þær fela m.a. í sér, að einstök aðildarríki hafa ekki einhliða ákvörðunarvald um skilyrði og skilmála fyrir aðgangi að grunnvirkjum yfir landamæri, eins og nánar verður rakið síðar."  (Undirstr. höf.)

 Það er þannig ljóst, að lagagrundvöllur er fyrir hendi hjá Evrópusambandinu til setningar laga um eignarrétt yfir orkulindunum; Sambandið hefur þegar haldið inn á þá braut með Þriðja orkupakkanum að ráðskast með ráðstöfunarréttinn með því að búa til einn sameiginlegan markað og fyrirskrifa síðan öflugar samtengingar innan hans. Meira mun fylgja í komandi lagasmíð ESB á þessu sviði og allt bera að sama brunni: að hinn frjálsi raforkumarkaður ESB hafi aðgang að sem öruggustum endurnýjanlegum orkulindum, sem duga fyrir ESB til að ná markmiðum sínum í loftslagsmálum.  Fjórfrelsið tryggir fjárfestum innan EES sama aðgang að auðlindunum og innlendum aðilum, þ.á.m. ríkissjóði, og eignarnámsheimild er óraunhæf leið fyrir ríkið til að tryggja samfélagsleg yfirráð yfir orkulind, sbr eftirfarandi tilvitnun í gr. 2.1.4 í skýrslu FÁFH & SMS:

"Með öðrum orðum má segja, að eignarnámi eða svipuðum aðgerðum verði ekki beitt, nema að gættum reglum sambandsréttar um fjórfrelsið, reglum um samkeppni og e.t.v. fleiri reglum." 

Þetta er í samræmi við eina af nokkrum athugasemdum, sem norski lagaprófessorinn Peter Örebech gerði 2018 við álitsgerð íslenzks lögfræðings, sem var hallur undir lögmæti og skaðleysi Orkupakka #3.  Þetta stafar af því, að hvorki á Íslandi né í Noregi hefur ríkið áskilið sér einkarétt á orkulindum.  Það er auðvitað meiriháttar mál og torsótt leið, að ríkið kaupi öll vatnsréttindi og jarðgufuréttindi á landinu.  Þá er nú ólíkt einfaldara að hafna Orkupakka #3.  Þar með verða ekki fleiri orkutilskipanir og orkureglugerðir ESB innleiddar hér, ef að líkum lætur, og er það ágætt. Hérlendis þyrfti að setja lög um orkulindir landsins með svipaðs eðlis og lögin um fiskveiðistjórnunina.  Þar er tekið fram, að fiskistofnarnir á Íslandsmiðum séu í sameign þjóðarinnar.  Á þeim grundvelli fer fiskveiðistjórnunin fram.  Hérlendis er nauðsynlegt að stunda orkulindastjórnun, og það er óábyrgt af stjórnvöldum að ljá máls á því, að Evrópusambandið fái að hlaupa í skarðið með "fjórfrelsið" sitt á sameiginlegum raforkumarkaði EES.  Þetta er sennilega stjórnarskrárbrot og stórskaðlegt fyrir atvinnulíf og þar með efnahagslíf landsins.  

Í sömu grein álitsgerðarinnar stendur þetta:

"Lagasetning sambandsins er síður en svo útilokuð, þótt hún kunni að hafa áhrif á eignarrétt eða stjórnunarrétt að auðlindum.  Þetta á sérstaklega við, ef heimild fyrir slíkri lagasetningu er að finna í frumrétti sambandsins.  Í slíkum tilvikum teljast aðildarríkin hafa samþykkt þær breytingar samkvæmt stjórnskipunarlögum sínum og þá e.t.v. þrengt gildissvið 345. gr. SSESB að sama skapi."

Það er alveg ljóst af ofangreindum tilvitnunum og fleirum í skýrslu lögspekinganna FÁFH og SMS, að með samþykkt Orkupakka #3 verður ekki aðeins yfirstjórn Landsnets og dreifiveitnanna undirorpin valdi Evrópusambandsins, heldur verður eignarréttur og stjórnunarréttur að orkulindunum í höndum Evrópusambandsins, ef svo er að skipta. Evrópusambandið mun hafa öll ráð Íslendinga í höndum sér á orkusviðinu, er fram líða stundir, ef Alþingi glepst nú á að afhenda Sambandinu þetta fjöregg þjóðarinnar.  Að búa við stjórnvöld, sem bregðast algerlega í vörzlu þjóðarhags, er þungbærara en svo, að kjósendur séu tilbúnir til fela slíkum ráð sitt á ný. Reiðin mun krauma fram að næstu kosningum. Þróunin í þessa átt er hafin samkvæmt nýrri skoðanakönnun.  Enn er ekki of seint að sjá að sér, en "point of no return" næst, ef/þegar þingmenn samþykkja þingsályktunartillögu utanríkisráðherra.  

Þetta allt er utanríkisráðherrann að kalla yfir okkur með vanhugsaðri þingsályktunartillögu sinni, sem hann lætur í veðri vaka, að sé reist á annarri af tveimur tillögum tvímenninganna í álitsgerðinni.  Þetta er blekkingartilraun að hans hálfu.  Lögfræðingarnir minnast á þessa aðferð, en geta um, að hún sé "ekki gallalaus".  Í skýrslunni kemur víða fram, að hún er meingölluð, enda eru með henni framdir líklega þrír lögfræðilegir fingurbrjótar.  Hvaða heilvita manni dettur í hug, að tveir af fremstu lögfræðingum landsins á þessu sviði leggi slíkt örverpi til við utanríkisráðuneytið ?

Fingurbrjótur #1: 

Það er bannað í EES-samninginum, kafla 7, að innleiða gerðir ESB, sem samþykktar hafa verið af Sameiginlegu EES-nefndinni, í landsrétt með heimatilbúnum skilmálum.  Þannig má ekki skilyrða gildistöku gerðar #713/2009 við lagasetningu Alþingis um heimild til að leggja sæstreng til Íslands.

Fingurbrjótur #2:

Ef EFTA-dómstóllinn fær kæru á hendur íslenzka ríkinu vegna ólöglegrar innleiðingar Orkupakka #3 til dómsúrskurðar, má ganga að því sem vísu, að dómur hans verður kærandanum í vil.  Þá verður Alþingi að fella skilmálann úr gildi, og þar með sitjum við uppi með 713/2009 í landslögum, sem er stjórnarskrárbrot að mati FÁFH og SMS.

Fingurbrjótur #3:

Það er óheimilt í íslenzkum rétti að setja lög, sem eru brotleg við stjórnarskrá, þótt svo standi á, að þau eigi ekki við, þegar þau eru sett (enginn sæstrengur). Með þessum handabakavinnubrögðum gerir utanríkisráðherra sig sekan um tillögu, þótt hann þykist vilja hafa vaðið fyrir neðan sig og fara að ráðleggingum FÁFH & SMS, um að brjóta stjórnarskrána.  Höfundar álitsgerðarinnar taka þó fram í skýrslu sinni, að þetta megi ekki, og þess vegna er þetta augljóslega ekki þeirra ráðlegging.  Það verður að leysa stjórnarskrárvandann áður en Orkupakki #3 verður innleiddur.  

Lausn þessa stjórnarskrárvanda felst þó ekki í að breyta Stjórnarskránni til að gera erlendum fyrirtækjum hægt um vik að klófesta auðlindir Íslands til lands og sjávar.  Hvað eru stjórnarliðar að bauka í þessum efnum ?  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Glæsilegt enn og aftur hjá, þér, Bjarni, og mjög afgerandi, en í þetta sinn með fjörlegum inngangsþætti, sem fer síðan yfir í að rekja vandvirknislega alla stóru gallana sem orkupakkinn þriðji hefur innanborðs og má ekki hafa.

Sjái utanríkisráðherrann þetta ekki, svona einn með sjálfum sér, þá er eitthvað mikið að manninum. Og á hann að vera sá Einbjörn, sem kemst upp með að narra á eftir sér Tvíbjörn, með því að hafa bara nógu hátt, og síðan Þríbjörn og Fjórbörn og alla hina meðfærilegu bangsana í þingflokki Sjálfstæðisflokksins?

Það væri ömurlegt ástand, það hljóta allir að sjá það, og koma ógnanir þá sennilega við sögu: að þingmenn séu látnir skilja, að ekki verði með þeim mælt í kjördæmisráðum flokksins fyrir næstu kosningar, ef þeir ætla að voga sér einhvern uppsteit. Svo verður hitt eflaust notað líka: "Þú veizt að þú ert þarna í algerum minnihluta, og viltu ekki frekar reyna að bæta eitthvað stöðuna með okkur, eða ætlarðu að vera svona ófélagslegur?" -- "En landsfundurinn, hvað með hann?" -- "Þeir vissu ekki neitt!" (og samt heldur Bjarni því fram, að það sé búið að vinna að þessu máli í áratug í þinginu!!!!!).

Þvílík lygamaskína -- ömurlegt lið og á heima á ruslahaugi sögunnar, ef það fer svona fram með stjórnarskrárbrotum og þrælslegri undirgefni við Brussel-bossana ...

... sem svo vildi til, að komu hér við sögu:

Af pakkasinnum og utanríkisráðherra­raunum

 Með þakklætiskveðju til þín, Bjarni, baráttumaður lýðveldisins, vitsmunalegt sverð þess og skjöldur!

Jón Valur Jensson, 14.4.2019 kl. 03:31

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Takk enn og aftur Bjarni.

Þarna dregur þú saman meginmálið. Fyrirvarar munu ekki halda, sæstrengur mun koma og öll þessi gerð er brot á stjórnarskrá. Skýrara getur þetta ekki orðið.

Það er hellst að sjá að ráðherrar og þingmenn láti sér nægja að lesa lokaorð skýrslu þeirra Friðriks Árna og Stefáns Más, láti hjá líða að lesa skýrsluna í heild sér og eru það forkastanleg vinnubrögð. En jafnvel í lokaorðunum má skilja að einungis sé ein leið fyrir stjórnvöld, þó gefið sé í skyn að önnur sé opin en henni fylgi lögfræðileg óvissa.

Þá er engi líkara en að ráðamenn þekki ekki innihald EES samningsins, þar sem þeir telji að höfnun orkupakka 3 geti leitt af sér uppsögn hans. Síðast hélt forsætisráðherra þessu fram í viðtali við fjölmiðil fyrir stuttu. Í greinagerð Friðriks Árna og Stefáns Más er þó skýr farið yfir hvernig málin muni þróast, hafni Alþingi pakkanum.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 14.4.2019 kl. 08:21

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka góðar kveðjur.  Þung gagnsókn á mörgum vígstöðvum gegn fílabeinsturninum er hafin.  Hann mun falla, eins og strompur sementsverksmiðjunnar á Akranesi.  Þar með verður brotið blað í auðlindastjórnun landsins.  Auðlindir Íslands fyrir Íslendinga !

Bjarni Jónsson, 14.4.2019 kl. 13:34

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þakka Bjarni þú einn átt skilið að vera slegin til Riddara. Það er hvergi að finna fólk meðal almennings sem vill þetta ráðabrugg stjórnarliða. Það er áberandi hvernig þessir ráðherrar eru allir sammála að svíkja þjóðina.

Valdimar Samúelsson, 14.4.2019 kl. 20:27

5 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þakka þér Bjarni Jónsson fyrir að halda uppi hlut Íslands.

Við fylgjumst með þrautsegju þinni í að verja Ísland. 

Egilsstaðir, 14.04.2019  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 14.4.2019 kl. 21:18

6 Smámynd: Jóhann Elíasson

Eins og við var að búast enn einn snilldarpistillinn frá þér.  Það hlýtur að vera farið að fara um Utanrík9isráðherra og aðra landsölumenn.......

Jóhann Elíasson, 14.4.2019 kl. 22:16

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka ykkur fyrir hvatningar, bræður í andanum.  Nú er gagnsóknin hafin á breiðri víglínu.  Þar leggja margir gjörva hönd á plóg.  Ég verð var við mikla andstöðu utan höfuðborgarsvæðisins við innleiðingu OP#3.  Flestir vilja, að Ísland sé fjölbreytilegt framleiðsluland og þjónustuland, en ekki fábreytt orkusöluland.  Við óskum ESB-löndunum velgengni á þeirra vegferð, en viljum fremur framleiða handa þeim vörur en að selja þeim vistvæna raforku með miklum orkutöpum, svo að vörur verði framleiddar með vistvænni hætti þar.  Við þurfum á allri orku nýtingarhluta Rammaáætlunar að halda til orkuskiptanna.  Ef fólk vill virkja enn meira, er hægurinn á að framleiða hér vetni til útflutnings, t.d. til NA-Englands, þar sem mikil vetnisvæðing er fyrirhuguð.  Það yrði glapræði að færa Evrópusambandinu stefnumótun íslenzkra orkumála.  Þeir, sem það vilja, stinga hausnum í sandinn og segja, að OP#3 breyti engu.  Ábyrgðarlausari getur hegðunin varla orðið.

Bjarni Jónsson, 15.4.2019 kl. 10:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband