20.4.2019 | 21:02
Um valdmörk ACER
Í álitsgerð lögfræðinganna Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst (FÁFH) og Stefáns Más Stefánssonar (SMS) er áhugaverð umfjöllun um valdmörk ACER (Orkustofnunar ESB) á Íslandi eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins, OP#3. Þessi valdmörk hafa mikla þýðingu, því að þau kunna að ógna tveggja stoða grundvelli EES-samstarfsins og þar með að vera brotleg við Stjórnarskrá Íslands.
Lögfræðingar ýmsir hérlendir og fleiri, sem vildu innleiða Orkupakka #3 (OP#3) skilmálalaust áður en fráleit þingsályktunartillaga utanríkisráðherra sá dagsins ljós, hafa fullyrt með þjósti, að rangt sé, að ACER muni fara með valdheimildir á orkusviði hérlendis. Þar með hafa þeir sýnt, hversu lítið vit þeir hafa á þessu máli, ef marka má eftirfarandi tilvitnun í gr. 4.3.1 í álitsgerð ofangreindra lögspekinga:
"Þrátt fyrir að valdið sé þannig formlega hjá ESA, er ljóst, að ACER mun hafa mikið að segja um efni ákvarðana, sem ESA tekur á grundvelli reglugerðarinnar [713/2009], enda semur ACER drög að ákvörðunum og leggur þau fyrir ESA. Það má því velta fyrir sér, hvort ákvörðunarvaldið sé í raun hjá ACER, og að hlutverk ESA sé aðallega formlegs eðlis í því skyni, að fyrirkomulag reglugerðarinnar samræmist betur tveggja stoða kerfinu. Færa má rök fyrir því, að í raun sé ákvörðunarvaldið að hluta til framselt stofnun, sem heyrir undir Evrópusambandið og stendur utan EFTA-stoðarinnar, þ.e. ACER. Í þessu ljósi má leggja til grundvallar, að gera verði enn ríkari kröfur en ella til þess, að valdframsalið, sem felst í 8. gr. reglugerðar nr 713/2009, standist þær stjórnskipulegu viðmiðanir, sem áður hafa verið raktar, m.a. varðandi tveggja stoða kerfi EES-samningsins, sbr einkum kafla 4.2.2 og 4.2.3 hér að framan."
Þau stjórnskipulegu vafaatriði, sem þarna eru nefnd, eru fóður inn í þá réttaróvissu, sem skapast á Íslandi, ef þingsályktunartillaga utanríkisráðherra verður samþykkt. Til viðbótar vafanum með tveggja stoða kerfið og húsbóndavald ACER yfir ESA í orkumálum kemur, að samkvæmt gerð nr 713/2009 tekur ACER lagalega skuldbindandi ákvarðanir fyrir aðildarríkin á sviði millilandatenginga. Þetta vald er óháð því, hvort aflsæstrengur er fyrir hendi eða ekki, þegar innleiðing OP#3 á sér stað. Um þetta skrifa FÁFH og SMS í gr. 4.3.1:
"Framangreint breytir þó ekki því meginatriði, sem áður var gerð grein fyrir, að drög að ákvörðunum eru í grunninn samin af ACER og að áhrif ACER á efni ákvarðana ESA hljóta því að vera veruleg. Virðist þannig gert ráð fyrir því, að stefnumótun varðandi efni og framkvæmd umræddra ákvæða reglugerðar nr 713/2009 muni einkum fara fram á vettvangi ACER, þrátt fyrir að ESA eigi vissulega aðkomu að því ferli og geti haft áhrif á það með þeim hætti, sem að framan greinir."
Það, sem gerir málið alvarlegt og eykur líkur á málarekstri, þar sem íslenzka ríkið stendur á veikum grunni með líklegt Stjórnarskrárbrot fólgið í innleiðingu Þriðja orkulagabálksins áður en stjórnlagalega vafamálið með 713/2009 er leitt til lykta, er, að almannahagsmunir, einstaklingar og lögaðilar, eiga í hlut. Ríkisstjórnin veður vitandi vits út í lögfræðilegt kviksyndi með því að biðja Alþingi að innleiða Þriðja orkupakkann:
"Þótt ákvarðanir ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar beinist að forminu til að eftirlitsyfirvöldum hér á landi (s.s. Orkustofnun), þá breytir það því ekki, að þær geta jafnframt haft áhrif á hagsmuni einstaklinga og lögaðila, bæði þá sem stunda raforkustarfsemi og notendur raforkukerfisins (auk þess að hafa einnig áhrif á almannahagsmuni, tengda nýtingu raforkukerfisins) [t.d. ákvörðun gjaldskráa Landsnets og dreifiveitnanna-aths. BJo]. Það er einkum tvennt, sem tekur af skarið um, að umræddar ákvarðanir muni hafa þessi áhrif. Í fyrsta lagi eru þær teknar á grundvelli reglugerðar, en þær eru bindandi í sérhverju tilliti og fá lagagildi í öllum aðildarríkjum ESB samtímis. Í öðru lagi er sérstaklega kveðið á um það í fyrrgreindri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, að EFTA-ríkin eða hvaða einstaklingur eða lögpersóna sem er geti hafið málarekstur gegn ESA fyrir EFTA-dómstólnum í samræmi við 36. og 37. gr. samningsins um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Þar með er því slegið föstu, að einstaklingar og lögpersónur geti átt aðild að umræddum ákvörðunum ESA á grundvelli 8. gr. reglugerðar nr 713/2009."
Vegna þess að innleiðing Þriðja orkulagabálksins hvílir á veikum lögfræðilegum grunni, þar sem FÁFH & SMS hafa dregið stórlega í efa, að tveggja stoða fyrirkomulagið sé raunverulegt í tilviki ACER, er líklegt, að málaferli muni rísa út af störfum Landsreglarans, sem óhjákvæmilega mun varða hag margra, reyndar alls landslýðs, þar sem Landsreglarinn mun t.d. fá það hlutverk að staðfesta gjaldskrár Landsnets og dreifiveitnanna. Við dómsuppkvaðningu mun fást úr því skorið, hvort valdframsalið til ACER stenzt Stjórnarskrá.
Ef umsókn berst til Orkustofnunar frá sæstrengsfjárfesti um leyfi til að leggja Ice-Link sæstrenginn á grundvelli Kerfisþróunaráætlunar ESB og hún hafnar umsókn á grundvelli banns Alþingis við lagningu aflsæstrengja á milli Íslands og útlanda, þá rís vafalaust upp deilumál á milli ESB/ESA og Íslands, þar sem lagaleg staða Íslands verður veik, vegna þess að innleiðing Þriðja orkupakkans brýtur í bága við EES-samninginn, kafla 7.
Hinn möguleikinn er líka fyrir hendi, að sæstrengsfjárfestir sæki sitt mál vegna höfnunarinnar til íslenzks dómstóls, sem mun þá líklega æskja álitsgerðar frá EFTA-dómstólinum um EES-réttarfarsleg efni. Brot íslenzka ríkisins á skuldbindingum sínum að EES-rétti getur leitt til skaðabótaábyrgðar ríkisins gagnvart lögaðilum og einkaaðilum, sem telja sig hafa orðið fyrir fjárhagstapi af völdum banns Alþingis á lagningu sæstrengs. Þetta tap getur numið tekjum af flutningi rafmagns á tilteknu tímabili og skaðabótaábyrgðin eitthvert hlutfall af þessum tekjum. Þessi upphæð getur fljótt orðið mjög tilfinnanleg fyrir íslenzka ríkið. Það er algerlega óverjandi, að Alþingismenn stofni fjárhag íslenzka ríkissjóðsins í stórhættu með því óþarfa glæfraspili að innleiða Þriðja orkupakkann með þeim hætti, sem utanríkisráðherrann leggur til.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Enda þótt það komi Íslandi ekki beinlínis við, þá ætla ég að benda áhugamönnum á fyrirlestur sem þýski hagfræðiprófessorinn, Hans Werner Sinn, flutti og fjallar um áformuð orkuskipti í Þýskalandi. Hann telur það gersamlega vonlaust að skipta þar yfir í vistvæna orku í náinni framtíð og færir rök fyrir því.
Prof Hans Werner Sinn * ENERGIEWENDE // System Crash
Hörður Þormar, 20.4.2019 kl. 22:12
Herr Professor Hans Werner Sinn hat hier eine begreifende Vorlesung gegeben. Prófessorinn sýndi fram á risavandamál, sem Þjóðverjar standa frammi fyrir á orkusviðinu. Þá mun ekkert muna um græna orku um sæstrengi frá Íslandi. Heiminum kemur bezt, að við hér á Íslandi setjum eigin hag í orkumálum í bílstjórasætið.
Bjarni Jónsson, 21.4.2019 kl. 10:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.