Gaukseggið og óvissan

Hugmyndin í lögfræðilegri álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst (FÁFH) og Stefáns Más Stefánssonar (SMS) (tæplega 8 línur í 43 blaðsíðna ritgerð), sem utanríkisráðherra reisir síðan þingsályktunartillögu um Þriðja orkupakkann (OP#3) á, er af öllum sólarmerkjum að dæma aðskotadýr í annars ágætri skýrslu, afrakstur fjölda funda með lögfræðingaher utanríkisráðherra og hinum prýðilegu skýrsluhöfundum.  Gauksegg þetta kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum inn í téða skýrslu, er sannkallaður gallagripur og skapar stórskaðlega réttaróvissu hérlendis, sem getur reynzt ríkissjóði og landsmönnum öllum dýr áður en yfir lýkur.  Þingmenn, sem leiða munu þessi ósköp yfir þjóðina, eru engir bógar til að rísa undir ábyrgðinni og ættu að hugsa sig um tvisvar áður en þeir láta til leiðast.  Þeir gera sig með því seka um óafsakanlega vanrækslu í hinni eilífu hagsmunagæzlu fyrir þjóðina út á við.

Réttaróvissan skapast af tvennu, eins og fram kemur í skýrslunni:  

Í fyrsta lagi er það Stjórnarskrárbrot að samþykkja lagasmíð, sem stenzt ekki Stjórnarskrá, þótt svo standi á við lögfestinguna, að hin brotlegu lög eigi ekki við, þ.e. að enginn sæstrengur sé fyrir hendi.  Höfundar skýrslunnar segja, að miða verði við þá stöðu, að sæstrengur muni koma, og þess vegna verði að útkljá Stjórnarskrárviðfangsefnið fyrst.  Á þessum grundvelli munu hagsmunaaðilar geta látið reyna á réttmæti afléttingar hins stjórnskipulega fyrirvara og lögfestingu á OP#3 með fyrirvaranum. Þá lendum við jafnvel í umfangsmeiri málaferlum út af OP#3 en Norðmenn núna.

Í öðru lagi má ekki innleiða samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar í landslög með breytingu, eins og fyrirvari utanríkisráðherra felur í sér.  Það er brot á EES-samninginum, kafla 7.  Umræður á norska Stórþinginu um haldleysi heimalagaðrar íslenzkrar undanþágu ýta undir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) að fetta fingur út í þessa undanþágu, og hagsmunaaðilar geta líka kært hana fyrir íslenzkum dómstóli.  Þetta leiðir af kröfunni um einsleita framkvæmd ESB-gerða í EES.

Undanþágan hangir á lögfræðilegum bláþræði.  Fari allt á versta veg, hefur Alþingi orðið sér til minnkunar fyrir að trúa vitleysunni úr utanríkisráðherra, og landsmenn sitja uppi með ESB-lög í lagasafni sínu, sem vel kunna að verða fundin brotleg við Stjórnarskrá fyrir íslenzkum dómstólum.  Þá er komin upp stjórnlagakreppa í landinu, því að ESB-lög eru æðri bæði íslenzkum lögum og Stjórnarskrá , þar sem þau greinir á, og innleiðing ESB-gerða er óafturkræf.  Við þessar aðstæður eru aðeins 2 leiðir færar: að breyta Stjórnarskrá eða að segja upp EES-samninginum.  Það, sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann.

Lagasérfræðingarnir orða fyrra atriðið þannig í skýrslu sinni:

"Með vísan til framanritaðs er það álit höfunda, að ekki séu að óbreyttu forsendur til þess, að Ísland aflétti stjórnskipulegum fyrirvara við umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að taka þriðja orkupakkann upp í EES-samninginn, sbr 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins, nema tryggt sé, að reglugerð nr 713/2009 verði innleidd í íslenzkan rétt á þann hátt, að samræmist stjórnarskránni, sjá nánar kafla 4.1 og 4.3.3."

Sú aðferð, sem utanríkisráðherra hefur valið í þingsályktunartillögu sinni um innleiðingu OP#3, samræmist ekki Stjórnarskránni, ef marka má álitsgerð FÁFH og SMS, því að þeir skrifa í 4.1, að ákvörðun Alþingis um afléttingu hins stjórnskipulega fyrirvara verði að miða við, "að grunnvirkjum yfir landamæri verði komið á fót hér á landi".  Þar með er innleiðing að þeirra mati Stjórnarskrárbrot, þrátt fyrir fyrirvara um samþykkt Alþingis á, að leggja megi sæstreng til Íslands.  Lögfræðingarnir hnykkja á þessari niðurstöðu sinni í lok gr. 4.1:

"Verður því að hafna því sjónarmiði [lögfræðingahers utanríkisráðuneytisins-innsk. BJo], að álitaefni tengd valdframsali til ESA skipti ekki máli á þessu stigi, þar sem grunnvirki yfir landamæri eigi enn eftir að líta dagsins ljós hér á landi, og því sé Alþingi fært að að samþykkja þriðja orkupakkann, hvað svo sem líði stjórnskipulegum álitaefnum varðandi valdframsal til ESA."

Þetta orðalag bendir til, að höfundar skýrslunnar hafi lent í rökræðum og jafnvel orðaskaki við lögfræðingaher utanríkisráðuneytisins, og er það mjög ámælisverð verkstjórn að hálfu utanríkisráðherra, ef satt er.  Hafi þá orðið úr að skilyrða gildistöku hinnar umdeildu gerðar nr 713/2009 við framtíðar lagaheimild Alþingis um lagningu sæstrengs og úrlausn Stjórnarskrárvandans.  Þar er þá komin skýringin á gauksegginu í hreiðri höfunda skýrslunnar.  Þeir hnýta þó þar við, að gaukseggið sé eigi gallalaust, og er það eins vægt að orði komizt og hugsazt getur.  Er "understatement" ársins.  Hver er þá gallinn ?

Hann er sá, að umgetinn varnagli hangir á bláþræði geðþótta Evrópusambandsins.  Þegar ESB hentar, getur Framkvæmdastjórnin kvartað við ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) eða bent t.d. sæstrengsfjárfesti á að kvarta við ESA út af innleiðingu OP#3 í landsrétt, sem brýtur í bága við EES-samninginn, kafla 7, sem kveður á um undanbragðalausa innleiðingu gerða ESB, eins og Sameiginlega EES-nefndin hefur samþykkt þær.  Þar með fellur varnagli ríkisstjórnar og Alþingis eins og spilaborg.  Það var aldrei um annað að ræða en trúðslega tilburði utanríkisráðherrans með Pótemkíntjöld hér innanlands.  Margir hafa látið blekkjast af Pótemkíntjöldum bæði fyrr og síðar, en falli þingflokkur Sjálfstæðisflokksins í þessa gildru, mun Sjálfstæðisflokkurinn ganga með böggum hildar til næstu kosninga og væntanlega ekki bera sitt barr fyrr en hann hefur bætt ráð sitt með einhverjum hætti.  

Hvað skrifa hinir mætu skýrsluhöfundar um þennan "galla".  Það gefur að líta í grein 6.4:

"Að mati höfunda er þó til þess að líta, að samþykki Alþingi umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar óbreytta (og aflétti þar með stjórnskipulegum fyrirvara við hana) [eins og þingsályktunartillagan fjallar um-innsk. BJo], þá bakar Ísland sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að innleiða reglugerð nr 713/2009 í landsrétt með þeim breytingum/aðlögunum, sem leiða af umræddri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr 7. gr. EES-samningsins. Myndi Íslandi því bera skylda til að innleiða reglugerðina í landsrétt með aðlögunum, sem leiða af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.  Þetta þýðir jafnframt, að taka verður afstöðu til þess nú þegar, hvort 8. gr. reglugerðar nr 713/2009 (og aðrir hlutar þriðja orkupakkans, ef því er að skipta) standist stjórnarskrána, og það áður en Alþingi ákveður, hvort samþykkja skuli umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar."   [Undirstr. BJo.]

Þessi mikilvæga niðurstaða skýrsluhöfundanna hefur ekki verið véfengd.  Lagalegur varnagli Alþingis heldur ekki, því að þar sem lög landsins og ESB-rétturinn stangast á, þar skal ESB réttur ráða.  EES-samningurinn kveður á um þetta, og það eiga Alþingismenn að vita.  Alþingi mun baka landsmönnum þjóðréttarlega skyldu til að innleiða OP#3 undanbragðalaust, ef það afléttir hinum stjórnskipulega fyrirvara af honum.

  Þingsályktunartillaga utanríkisráðherra er þess vegna í raun og veru um það að innleiða OP#3, eins og hann kom til Íslands frá Sameiginlegu EES-nefndinni, og það er Stjórnarskrárbrot samkvæmt skýlausri niðurstöðu FÁFH og SMS.  Skýrsluhöfundarnir sjá fyrir sér, að Alþingi verði knúið til að fella fyrirvarann úr gildi, og þess vegna taka þeir fram, að leysa verði Stjórnarskrárvandann áður en innleiðingin á sér stað. Að öðrum kosti mun skapast hér réttaróvissa, þar til dómstóll hefur dæmt um það, hvort OP#3 standist Stjórnarskrá eður ei.

Framferði utanríkisráðherra er eins slæm stjórnsýsla og hugsazt getur.  Framferðið bitnar á samstarfi okkar við bæði EFTA-þjóðirnar og ESB.  Verst er þó, að með þessu ráðslagi verður gert skylt að aðlaga stefnumörkun um ráðstöfun íslenzkra orkulinda að innri orkumarkaði Evrópusambandsins.  ESB mun geta beitt Íslandi til að hjálpa Sambandinu til við að ná markmiðum sínum í orkumálum.  Þar sem hagsmunir Íslands og Evrópusambandsins fara alls ekki saman á þessu sviði fremur en á sviði fiskveiðistjórnunar og nýtingar sjávarauðlindanna, er hér verið að stofna til stórfelldra hagsmunaárekstra og ófriðar. 

Þar sem fullveldi landsins á sviði raforkumála verður fórnað með samþykki OP#3, rænir Alþingi landsmenn sínu beittasta vopni í viðureigninni við ESB um orkuauðlindirnar.  Aflétting hins stjórnskipulega fyrirvara verður óafturkræf, svo að eina ráðið til að öðlast yfirráð orkumálanna að nýju verður uppsögn EES-samningsins.  Að neyðast til þess í ágreiningi við Evrópusambandið er hið versta mál.  Slík uppsögn, ef til hennar kemur, þarf að gerast í vinsamlegu andrúmslofti í kjölfar gerðar víðtæks fríverzlunarsamnings, helzt á milli EFTA og ESB.  Umrædd þingsályktunartillaga utanríkisráðherra er argasta glapræði, og samþykkt hennar mun draga langan ógæfuslóða á eftir sér.  

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Góð Grein Bjarni og ekki eina. Það eru öll rök sýnd en engin hlustar. Við verðum að senda beiðni á alþingi um frestun á meðan við ákveðu baráttuaðferðir. Sumir segja Þjóðaratkvæðagreiðsla sé ekki í myndinni. Hvað þá höfum við engin vopn í höndum. Skynsemi og rök duga ekki á alþingi. ??? Þetta sýnir að við erum að etja við íslensk ættaða alþjóða fjárglæfra hringi. 

Valdimar Samúelsson, 25.4.2019 kl. 10:04

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Varnarmálaráðherra BNA (í tíð hans hvarf bandaríski herinn héðan) sagði eitt sinn, er hann var spurður út í miklar loftárásir flughersins: "we are softening the target".  Manni dettur það stundum í hug núna.  Hvort það dugar, á eftir að koma í ljós.  

Bjarni Jónsson, 26.4.2019 kl. 20:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband