13.5.2019 | 11:16
Er einhver kostur við OP#3 og OP#4 í sjónmáli fyrir Ísland ?
Það er alveg ljóst, að eftir samþykkt Alþingis á Orkupakka #3 mun fljótlega hefjast umræða um OP#4. Það er þannig útilokað, að orkupakkaumræða verði ekki við lýði, þegar líður að næstu þingkosningum. Sá hlær bezt, sem síðast hlær.
Nú hefur verið staðfest, það sem við blasti, að stjórnarliðar hafa farið með rangt mál, þegar þeir hafa haldið því fram, að þingsályktunartillögur utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra væru reistar á álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar. Ráðherrarnir sigla báðir undir fölsku flaggi og skáka í skjóli vandaðrar álitsgerðar. Stefán Már upplýsti í Kastljósviðtali að kvöldi 6. maí 2019, að leið utanríkisráðherra væri líklega upprunnin í utanríkisráðuneytinu og þvoði þar með hendur sínar af endemis lögfræðilegu klúðri, sem þingsályktunartillagan býður upp á.
Hvernig er þetta klúður vaxið ? Ef/þegar umsókn berst til orkustofnana Bretlands og Íslands frá sæstrengsfjárfestum, t.d. "Atlantic Superconnector", AS, um leyfi til að tengja raforkukerfi landanna með aflsæstreng, sem AS er búið að kynna á NA-Englandi með brauki og bramli og hefur væntanlega öðlazt pólitíska velvild þar, að það hyggist framleiða þar og skapa þar með mikla vinnu á atvinnuleysissvæði, þá virkjast reglugerðir #713/2009 og #714/2009 um ACER (Orkustofnun ESB) óhjákvæmilega, því að málsmeðferðin þarf að vera samræmd í löndunum, sem tengja á saman, þar sem þau hafa bæði innleitt OP#3.
Þá verður árekstur við fyrirvara Alþingis um, að Alþingi verði að samþykkja undirbúning fyrir sæstreng og tengingu hans við íslenzka raforkukerfið. Það er alls ekki gert ráð fyrir afskiptum þjóðþinganna í orkusambandi ESB af ákvörðunarferli um millilandatengingar. Yfirlýsingar frá ESB og EFTA-löndunum hafa einvörðungu pólitískt inntak, en eru á engan hátt lagalega bindandi, sem auðvitað er nauðsynlegt, þegar til ágreinings kemur.
ESA mun annaðhvort að eigin frumkvæði eða samkvæmt ábendingu hagsmunaaðila fetta fingur út í þessa lagasetningu Alþingis, sem við þessar aðstæður verður brotleg við EES-samninginn, 7. gr., og Alþingi mun vafalítið neyðast til að ógilda fyrirvarann. Þar með verður Stjórnarskráin í uppnámi samkvæmt álitsgerð FÁFH og SMS. Hægt verður að sækja skaðabætur á hendur íslenzka ríkinu fyrir allar tafir, sem allt þetta vafstur hefur í för með sér fyrir sæstrengsverkefnið, og að lokum verður sæstrengur lagður til Íslands til að tengja aðra af tveimur "grænum rafhlöðum norðursins" við innra raforkukerfi ESB, en hin, sem reyndar er mun stærri, er Noregur. Belti og axlabönd ráðherranna í þessu máli eru úr hýjalíni, sem óhjákvæmilega þýðir, að þau verða með allt á hælunum, eftir að sæstrengsumsókn berst. Þau verða ekki öfundsverð af því að hafa blekkt þingheim.
Það er til lítils að leggja aflsæstreng til Íslands, ef ekki er jafnframt virkjað. Samkvæmt innri raforkumarkaði ESB er orkuöflun fyrir markaðinn alfarið á höndum markaðarins. Við sjáum markaðinn hérlendis nú þegar vera í startholunum við að afla sér virkjanaheimilda fyrir vatnsvirkjunum og vindmyllum. Allt verður hagkvæmt, bæði stórt og smátt, þegar strengurinn hefur verið tengdur. Ísland hefur ekki lengur viðurkennda stöðu sem land "lítils og einangraðs raforkukerfis" gagnvart ESB, og þess vegna kæmi á óvart, ef sæstrengsfjárfestar létu bíða lengi eftir sér, eftir að Alþingi hefur opnað dyrnar og í raun gefið undir fótinn með tengingu við sameiginlegan raforkumarkað ESB.
ACER stjórnar orkuflutningunum á milli landa, þ.e. úthlutar fyrirtækjum aðgang að sæstrengjunum, ef hann er takmarkaður, t.d. vegna fullestunar búnaðar. ACER hefur líka eftirlit með því, að engar hömlur verði lagðar á flutninginn, t.d. að hálfu stjórnvalda til að stemma stigu við orkuverðshækkunum innanlands. Slíkt eru óleyfileg inngrip til verndunar innlendum samkeppnisrekstri. Hérlendis mun kerfi af þessu tagi fljótlega leiða til orkuskorts.
Þróunin er lengra komin í Noregi, enda hefur orkuverðið þegar hækkað í markaðskerfinu, sem þar er við lýði með rafmagnið. Núna nemur flutningsgeta millilandatenginga þar 54 TWh/a, sem er um fimmfaldur meðalútflutningur raforku frá Noregi á ári undanfarin ár. Yfirvöldin hafa getað temprað útflutninginn, af því að Statnett, norska Landsnet, á allar millilandatengingar.
Flutningsgetan nemur nú 39 % af vinnslugetu virkjana Noregs. Ef hingað verður lagður 1200 MW sæstrengur, verður hámarksflutningsgeta hans 10 TWh/ár eða um 50 % af núverandi raforkuvinnslugetu landsins. Þetta þýðir, að öll viðbótar orka hér mun fara til útflutnings og hér verður engin umframorka, ekkert borð fyrir báru, sem þýðir meira eða minna sama orkuverð hér og í hinum enda sæstrengsins. Þetta er grafalvarleg staða fyrir íslenzk heimili og íslenzkan atvinnurekstur. Við þessar aðstæður minnkar aðdráttarafl Íslands fyrir fólk og fjármagn. Lífskjör eru dæmd til að versna.
Í Noregi eru tveir sæstrengir nú á framkvæmdastigi, hvor um sig með aflflutningsgetu 1400 MW og orkuflutningsgetu 12 TWh/ár. Liggur annar til Þýzkalands og hinn til Englands. Með þeim mun flutningsgetan nema 78 TWh/ár eða 56 % af núverandi raforkuvinnslugetu Noregs. Margir Norðmenn hafa áhyggjur af mikilli raforkuverðshækkun, sem þessi staða muni leiða til, og Statnett hefur varað við að fjölga sæstrengjum meir fyrr en afleiðingar viðbótar strengjanna tveggja verða komnar í ljós.
Nú hafa orðið straumhvörf í aflsæstrengjamálum Noregs, því að í fyrsta skipti í sögunni hefur einkafyrirtæki sótt um leyfi til að leggja slíkan streng, sem þýðir auðvitað, að búizt er við góðri arðsemi þessarar fjárfestingar. Er það félagið NorthConnect, sem vill leggja samnefndan streng á milli Noregs og Skotlands og hefur þegar fengið leyfi orkustofnunar Bretlands, en norska orkustofnunin, NVE, dregur lappirnar, enda hefur Statnett veitt neikvæða umsögn, vill fresta ákvörðunartöku og sjá afleiðingar rekstrar hinna sæstrengjanna tveggja á norska raforkumarkaðinn, eins og áður sagði.
Það var eitt af 8 skilyrðum norsku stjórnarandstöðuflokkanna, sem studdu innleiðingu OP#3 á Stórþinginu 22. marz 2018, að leyfisveitingarferlið yrði stöðvað og Statnett yfirtæki eignarhaldið á "NorthConnect". Það hefur verið svikið af ríkisstjórn Noregs. Ef OP#3 tekur gildi í Noregi við afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara af honum á Íslandi, eins og nú eru horfur á, þá mun ESA vafalaust gera athugasemd við einokunartilburði norska ríkisins á millilandatengingum. "NorthConnect" verður prófsteinn á valdmörk norska ríkisins gagnvart ACER/ESB varðandi millilandatengingar. Norðmenn hafa hingað til stjórnað orkuflæðinu sjálfir, en munu missa stjórn á þessum mikilvæga þætti orkumálanna til markaðarins og ACER (ACER útdeilir orkuflutningsleyfum, þegar flutningsgetan er takmörkuð). Eftir sitja norskir neytendur með sárt ennið út af raforkuverðshækkun. Þetta er nú hin margrómaða neytendavernd OP#3. Þegar verð jafnast út í Evrópu, græða sumir neytendur, en aðrir hljóta að tapa. Það verður fróðlegt að fylgjast með þróun orkumálanna í Noregi ekki síður en á Íslandi eftir lögleiðingu OP#3. Búast má við, að kjósendur verði miskunnarlaust með refsivöndinn á lofti í næstu kosningum, ef neikvæðar afleiðingar innleiðingar OP#3 verða þá þegar teknar að birtast.
Samþættingin við Orkusamband ESB og fjölgun aflsæstrengja gerir það að verkum, að í Noregi eru að þurrkast út tengslin á milli árstíðarbundinnar umframorku í kerfinu og verðs á norska raforkumarkaðinum. Það er vegna þess, að evrópskur markaður getur tekið við öllu rafmagni, sem ekki er þörf á innanlands. NVE áætlar, að umframorka í Noregi (án útflutnings) árið 2040 verði a.m.k. 30 TWh, sem er 23 % af núverandi innanlandsnotkun. Þetta mun allt fara í útflutninginn um millilandatengingarnar, og inn verður flutt evrópskt raforkuverð. Þegar megnið af orkufyrirtækjunum er í opinberri eigu, er ekki sjálfgefið, eins og margir halda, að aukið "gegnsæi" á markaðnum verði almenningi til hagsbóta.
Þessi þróun mun leiða til þess, að orkukræfur iðnaður í Noregi mun missa samningsstöðu sína á orkumarkaðinum og mun í sívaxandi mæli verða boðið upp á evrópskt raforkuverð. Það skekkir samningsstöðu þessa iðnaðar meira en hann þolir, og hið sama gildir um slíkan iðnað á Íslandi vegna meiri kostnaðar á öðrum sviðum fyrir þennan iðnað í Noregi og á Íslandi en á meginlandinu. Það er tóm vitleysa, sem jafnvel þingmaður í Kraganum hefur heyrzt halda fram, að stóriðjan á Íslandi vilji halda orkuverðinu leyndu. Það er gert að kröfu orkubirgjanna, t.d. Landsvirkjunar, sem telur sig fá sterkari samningsstöðu með leyndinni. Verði Landsvirkjun tætt í sundur að kröfu ESA á grundvelli samkeppnislöggjafar ESB, sem verður líklegra eftir innleiðingu OP#3 en áður vegna skylduinnleiðingar frjáls uppboðsmarkaðar með raforku, þá hríðversnar samningsstaða hennar.
Það skýtur skökku við að sjá forystumenn í íslenzku atvinnulífi, 8 talsins, þeirra á meðal forstjóra Alcoa Fjarðaáls, mæla með innleiðingu OP#3 hérlendis. Rök þeirra koma hins vegar OP#3 ekkert við. Það er mælt með innleiðingu OP#3 á röngum forsendum.
Í lok hvatningargreinar sinnar í Morgunblaðinu 8. maí 2019,
"Samstarf um orku og loftslagsmál er nauðsyn",
sem aðallega fjallar um EES-samstarfið og loftslagsmál, skrifa áttmenningarnir:
"Það er mikilvægt fyrir hagsmuni Íslands, atvinnulífsins og fólksins í landinu, að halda áfram samstarfinu við ESB um orku- og loftslagsmál með innleiðingu 3. orkupakkans. Alþjóðleg samvinna á þessu sviði mun auðvelda viðureignina við loftslagsbreytingar og gagnast ekki einungis okkar kynslóð, heldur börnum okkar og barnabörnum."
Af þessum texta virðist helzt mega ráða, að höfundarnir vilji samþykkja OP#3 til að greiða fyrir raforkuútflutningi frá Íslandi til ESB, sem þá að sjálfsögðu yrði á grundvelli gríðarlegra orkuframkvæmda hérlendis, bæði í virkjunum og línulögnum. Öðru vísi nýtist OP#3 ekki til að létta undir ESB í viðureigninni við loftslagsvána. Innleiðing OP#3 getur aðeins gagnazt orkugeiranum. Innleiðingin verður á kostnað hinna mörgu og til ávinnings hinna fáu.
Miklu eðlilegra og þjóðhagslega hagkvæmara er, að Alþingi ráði ferðinni í þessum efnum við orkunýtingu til atvinnu- og verðmætasköpunar í landinu. Við þurfum sízt af öllu á því að halda, að markaðsöflin á innri raforkumarkaði ESB ráði í framkvæmd orkustefnunni á Íslandi. Til þess að svo megi verða þarf Alþingi að neita að lyfta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3.
OP#3 fjallar aðeins óbeint um loftslagsmál, en OP#4 gerir það í ríkum mæli. Það er að sjálfsögðu vegna mjög mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda við raforkuvinnslu í ESB. Hér er losun gróðurhúsalofttegunda við raforkuvinnslu mjög lítil, og þess vegna á OP#4 ekkert erindi hingað heldur. Hann felur í sér stórhættuleg ákvæði um svæðisstjórnstöðvar fyrir raforku. Ef Ísland undirgengst OP#4 líka, gæti kerfisstjórnun raforkukerfis Íslands, sem nú fer fram við Gylfaflöt í Reykjavík hjá Landsneti, flutzt niður til meginlands Evrópu. Statnett hefur þess vegna lagzt gegn samþykki OP#4 í Noregi, og hérlendis mun verða lífleg umræða um hann líka.
Að lokum skal vitna í Carl Baudenbacher um rétt Íslands til að hafna OP#3:
"In order to avoid any misunderstanding, I wish to emphasise, that the right of Iceland to initiate proceedings under Article 102(5) EEA is undisputed. In the present case, however, there is no sufficient reason to use this emergency valve."
Meirihluta íslenzku þjóðarinnar greinir einfaldlega á við Carl Baudenbacher um ályktun hans í seinni málsgreininni. Orkumálin eru landsmönnum svo mikilvæg í bráð og lengd, að það má ekkert skref stíga í samskiptum við erlenda aðila, sem leitt getur til þess, að við gloprum niður lýðræðislegri stjórnun okkar á orkumálunum, ráðstöfun orkulindanna og jafnvel eignarhaldinu á þeim, er frá líður.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.