Forystan stefnir ofan í skurð með OP#3

Iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (ÞKRG) tók við orkupakkamálinu af forvera sínum, en það er reyndar ekkert, sem bendir til, að hún hefði mælt fyrir fleiri fyrirvörum en farið var fram á og fengust samþykktir í Sameiginlegu EES-nefndinni 05.05.2017. Ferill hennar í ráðuneyti iðnaðar er óbeysinn.  

Ástæðurnar fyrir þessari ályktun eru, að hún talar og skrifar fjálglega um, að rafmagn sé vara, sem er grundvöllur allra orkupakkanna 1-3, og hún hefur í orði virzt hliðholl útflutningi á raforku um sæstreng, þótt ekki virðist hún hafa unnið að framgangi þess máls, enda væri hún þá að vinna gegn hagsmunum iðnaðarins í landinu, hvers hagsmuna henni ber að gæta.

Það eru ýmsir annmarkar á því að skilgreina eðlisfræðilegt fyrirbæri eins og rafmagn sem vöru.  Það verður t.d. óhjákvæmileg rýrnun á þessari vöru í flutningi.  Það er einsdæmi, að vara rýrni um yfir 10 % í flutningi frá framleiðanda á Íslandi og til notanda á Englandi.  Þetta gerir skilgreininguna á rafmagni sem vöru afkáralega og framandi, enda er hún búin til af þeim, sem eru að skapa frjálsan samkeppnismarkað með rafmagn, svo að hægt sé að beita regluverki fjórfrelsis Evrópusambandsins, ESB, á viðskipti með rafmagn.  

ÞKRG heldur því fram, að innleiðing spákaupmennsku með rafmagn verði almenningi á Íslandi til hagsbóta.  Það hefur verið sýnt fram á, að þetta fyrirkomulag á ekki við íslenzkar aðstæður, enda sniðið við gjörölíkt orkukerfi og markaðsaðstæður, svo að spákaupmennskan getur hæglega haft í för með sér orkuskort og hækkun raforkuverðs.  Orðagjálfur ÞKRG um, að OP#3 feli í sér aukna "neytendavernd", snýst þá upp í andhverfu sína.  OP#3 felur fremur í sér birgjavernd, sérstaklega þeirra birgja, sem ráða yfir afskrifuðum vatnsorkuverum. 

ÞKRG hefur engan gaum gefið að varnaðarorðum í þessa veru.  Henni var þó í lófa lagið að láta fara fram áhættugreiningu á þessum þætti, t.d. með þátttöku verkfræðinga og hagfræðinga/viðskiptafræðinga.  Þess í stað hefur hún gumað af að hafa "farið í saumana" á gagnrýninni og ekki fundið neitt bitastætt í henni.  Þetta hefur hún þó aldrei reynt að færa sönnur á, svo að heldur er nú þessi málflutningur þunnildislegur og drambsfullur, eins og skein út úr pistli hennar í Sunnudags-Mogganum 02.06.2019,

"Kjölfestan og drifkraftur framfara",

sem farið hefur öfugt ofan í margan sjálfstæðismanninn.  Pistil sinn hóf ÞKRG þannig:

"Sjálfstæðisflokkurinn hefur í 90 ár verið bæði kjölfestan í íslenzkum stjórnmálum og drifkraftur framfara."

Hvorugt er hægt að heimfæra upp á flokkinn í orkupakkamálinu.  Hann (þingflokkurinn) hefur orðið viðskila við hinn almenna flokksmann (yfir 90 % í könnun fyrir rúmlega ári), og þar með er flokkurinn alls engin kjölfesta í þessu máli.  Kjölfestuflokkur hefur kraft og þor til að leiða mikil hagsmunamál, sem meirihluti þjóðarinnar styður,  til lykta á Alþingi.  Í orkupakkamálinu er þessu öfugt farið.  Þingflokkurinn ætlar að troða OP#3 niður um kokið á þjóðinni.  Reyni kjölfestuflokkur þetta, verður hann ekki lengur kjölfestuflokkur.  Takist honum þetta ætlunarverk, mun hann vinna Phyrrosarsigur, þ.e. of dýru verði keyptan sigur. 

Rafmagnið er drifkraftur framfara. Auðlindanýting landsmanna hefur reynzt uppspretta mikillar verðmætasköpunar í landinu.  Það er dálítið barnalegt að skrifa, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið drifkraftur framfara í landinu.  Flokkurinn hefur aldrei verið einn í ríkisstjórn, en stjórnaði reyndar höfuðborginni einn um langa hríð með glæsibrag.

"Annar lykillinn að glæsilegri arfleifð og árangri flokksins eru hin tæru, sönnu og sígildu grundvallaratriði sjálfstæðisstefnunnar.  Enginn sjálfstæðismaður velkist í vafa um, hvað sameinar okkur."

Það er ótrúlegur tvískinnungur í þessum texta iðnaðarráðherra, sem gengur algerlega á svig við sjálfstæðisstefnuna með gerðum sínum sem ráðherra í orkupakkamálinu.  Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður til að berjast fyrir fullu sjálfstæði landsins við fyrsta leyfilega tækifæri samkvæmt sambandslagaamninginum við Dani 1918.  Lýðveldisstofnsetningin 1944 var baráttumál Sjálfstæðisflokksins. 

Nú berst iðnaðarráðherra fyrir því, að Alþingi samþykki innleiðingu löggjafar frá ESB í íslenzkan landsrétt(OP#3), sem leiðir yfir okkur réttaróvissu vegna framsals valds til ESA, sem kann að vera stjórnarskrárbrot, tekur völd yfir orkumálum úr höndum innlends ráðherra og færir til ACER (Orkustofnunar ESB) og færir raforkuviðskipti við útlönd undir Evrópurétt.  Ágreiningur um ákvarðanir Landsreglara og ESA/ACER, er snerta Ísland, verður útkljáður af erlendum dómstóli, EFTA-dómstólinum, sem skal taka mið af dómsuppkvaðningum ESB-dómstólsins.

Hér er ekki um valdaafsal íslenzka ríkisins í léttvægum málaflokki að ræða, heldur í rafmagnsmálum, en rafmagnið er afurð verðmætustu orkulindar landsins.  Þess vegna eru margir Íslendingar, ekki sízt sjálfstæðismenn, æfir yfir gjörðum ráðherra flokksins.  Ef þeir hefðu staðið í ístaðinu, eins og þeim bar að gera, ekki sízt til að varðveita arfleifð Sjálfstæðisflokksins, hefðu þeir lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að vísa OP#3 aftur til Sameiginlegu EES-nefndarinnar til að semja um frekari undanþágur fyrir Ísland.

Fyrir Sjálfstæðisflokkinn er málsmeðferð utanríkis- og iðnaðarráðherra algert stílbrot í sögu hans, og þess vegna er hún óásættanleg.  Slík pólitísk þverbeygja út í skurð dregur dilk á eftir sér.

"Við erum hægriflokkur; við viljum hafa frjálst og opið markaðshagkerfi, þar sem er réttarríki."

Við þessa klausu varaformanns Sjálfstæðisflokksins er ýmislegt að athuga.  Sjálfstæðisflokkurinn er fremur mið-hægriflokkur í ætt við CDU í Þýzkalandi en hreinræktaður íhaldsflokkur.  Það er sennilega ekki meirihluti fyrir því í Sjálfstæðisflokkinum, að tekið verði að braska með orkulindirnar.  Hvers vegna hefur iðnaðarráðherra þá ekki tekið á sig rögg og skrifað svarbréf við upphafinu að ásælni ESA/ESB í orkulindarnar íslenzku, eins og gert hefur verið í norska olíu- og orkuráðuneytinu gagnvart sams konar bréfi þangað ?  Það tók norska ráðuneytið aðeins 2 virka daga að skrifa rökfast höfnunarbréf til ESA varðandi þá hugdettu þar á bæ og hjá Framkvæmdastjórninni skammt frá, að bjóða þyrfti út virkjunarleyfi og rekstur vatnsaflsvirkjana samkvæmt þjónustutilskipun ESB.  Ef þessum dauðyflishætti íslenzkra ráðamanna gagnvart ESA/ESB linnir ekki núna, þá munu þeir afhenda Evrópusambandinu erfðasilfur landsmanna með orðunum: "við áttum ekkert val".  Fólk af þessu tagi stendur ekki undir væntingum og verður að víkja, ef það hristir ekki af sér slenið strax.

Sjálfstæðismenn vilja sennilega flestir þjóðareign á orkulindunum, eins og á sjávarauðlindinni, þótt nýtingarrétturinn geti verið í einkaeign.  Þetta þýðir, að ríkisvaldið hafi fullan rétt á að hlutast til um nýtingu auðlindarinnar.  Fæstir sjálfstæðismenn kæra sig um, að ríkið selji eign sína í orkufyrirtækjunum.  Hins vegar gera sjálfstæðismenn sér almennt grein fyrir kostum opinna markaðshagkerfa, en fyrr má nú rota en dauðrota að þurfa að taka upp þá lagasetningu viðskiptavinarins, sem honum þóknast, til að fá að eiga við hann viðskipti.

"Vandinn er, að því stærri og öflugri, sem valtarinn verður, því erfiðara verður fyrir fylgjendurna að sjá, þegar hann stefnir ofan í skurð.  Slíkt hefur endað með ósköpum."

Hér bregður varaformaðurinn sér í gervi hræsnarans og þykist ekki valta yfir skoðanir flokksmanna sinna, sem eru á öndverðri skoðun við hana í einstökum málum.  Sannleikurinn er sá, að hún hefur ekkert tillit tekið til sjónarmiða þeirra.  Ef svo væri, hefði hún gengið varlegar um gleðinnar dyr, látið hæfa fræðimenn áhættugreina í þaula markaðsvæðingu raforkugeirans í anda ESB (stofnun orkukauphallar).  Engum þeirra, sem varað hafa við innleiðingu OP#3 hérlendis, datt í hug að leggja til þann ólögmæta fyrirvara (að Evrópurétti), að Alþingi yrði að heimila Landsneti að undirbúa tengingu sæstrengs við rafkerfi Íslands.  Þessi hugmynd kom vitaskuld ekki frá Friðriki Árna Friðrikssyni Hirst og Stefáni Má Stefánssyni.  Hún fæddist í utanríkisráðuneyti Íslands.  Iðnaðarráðherra hefur gefið öllum þeim langt nef, sem varað hafa við OP#3.  Hún hefur sýnt af sér fádæma fátæklega stjórnvizku, sem hún mun þurfa að gjalda fyrir á réttum vettvöngum.  

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Heyr heyr Bjarni Jónsson og kærar þakkir.

Sátum í sófanum eftir góðan kvöldamt, og ég las grein þína upphátt fyrir konuna, og hún klappaði! Enda allt satt og rétt í greininni.

Vinsamlegast áfram með smjörið.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 8.6.2019 kl. 19:46

2 Smámynd: Óskar Kristinsson

Takk fyrir þennan pistil Bjarni,Mjög gott.

Þið eigið sko heiður skylið sem standa í þessum varnaðaraðgerðum.

Eina sem eg get gert er að þakka Guði fyrir að þið eruð til.

KV af suðurlandi

Óskar Kristinsson, 8.6.2019 kl. 20:18

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég hneigi mig í lotningu fyrir þessu klappi.  Takturinn bendir bendir til "Zugabe" !  

Reykjavíkurbréf hvítasunnuhelgarinnar 2019 er mjög gagnrýnið á forystu Sjálfstæðisflokksins líka.  Það hefur engin skýring verið gefin á viðsnúningi hennar í orkupakkamálinu.  Enginn þingmaður hefur látið svo lítið að kíkja upp í Hádegismóa til að fræða ritstjórnina þar um þau undur og stórmerki, sem sneru mörgum þingmönnum flokksins í orkupakkamálinu.  Getur verið, að sá snúningur hafi verið á fullkomlega ómálefnalegum grundvelli ? Þessir þingmenn skemmta skrattanum með framkomu sinni.

Bjarni Jónsson, 8.6.2019 kl. 21:50

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já Bjarni

"Bara" er skvett úr tómum fötum þingmanna framan í þjóðina.

En það hefur hins vegar aldrei dugað að skvetta slíku framan í brimbrjótinn Davíð Oddsson. Og aðeins fáráðlingar reyna slíkt.

Reykjavíkurbréfið er því miður satt og rétt. Og það sjá allir sem yfirhöfuð vilja sjá.

En þeir sem vilja ekki sjá, eru aðeins gazpromið úr leiðslum esb, sem reyna hér að sækja sér erlent vald til að ná því úr höndum þjóðarinnar sem er hennar, en ekki þeirra. Og svei sé því fólki.

Gunnar Rögnvaldsson, 8.6.2019 kl. 22:31

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Tek undir með Gunnri hér að ofan.

En ég klappaði ekki, lét Huh duga.

Áfram Ísland.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.6.2019 kl. 23:50

6 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Þessi pistill þinn Bjarni nær nokkuð vel utanum skrattann á veggnum. Og já þetta orkupakkafrumvarp er órökstutt og komið út í sirkus fáránleikans, eins og segir í laginu "trúum því að hvítt sé svart". Ég vill kosningar núna og svík lit eða segi pass, í fyrsta skipti frá því ég fékk kosningarétt.

Sindri Karl Sigurðsson, 9.6.2019 kl. 11:46

7 Smámynd: Júlíus Valsson

Takk fyrir góðan pistil að vanda Bjarni. Það er sorglega farið fyrir "hægri" flokknum okkar. Spurningin sem eftir stendur og er nú tímabær er sú, hvort íslenska þjóðin vill ganga inn í ESB hægt og hljótt? Landinu virðist stjórnað annars vegar af laumu-ESB-sinnum sem hinn almenni kjósandi áttaði sig ekki á í síðustu kosningum og hins vegar af meðvirkum rolum, sem hinn almenni kjósandi hélt í síðustu kosningu að hefu einhverjar töggur í sér.  "Undarlegur haugur" hefði Gísli heitinn á Uppsölum eflaust sagt.    

Júlíus Valsson, 9.6.2019 kl. 12:57

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er varla hægt að hugsa sér aumkvunarverðari vörn fyrir þennan orkupakka, OP#3, en þá, að OP#3 verði að fá framgang hér, því að annars lendi EES-samningurinn í uppnámi.  Þessi EES-samningur var hannaður sem aðlögun fyrir EFTA-þjóðirnar að ESB.  Þær gengu fljótlega í ESB, allar nema Noregur, Ísland, Liechtenstein og Sviss.  Svissneska þjóðin hafnaði EES-samninginum.  Norðmenn hafa síðan haldið uppi þessum EES-samningi, fjárhagslega.  Nú flæðir undan honum fylgið í Noregi, og það er ekki ósennilegt, að eftir kosningarnar 2021 verði mynduð ríkisstjórn í Ósló af allt öðru sauðahúsi en núverandi ríkisstjórn.  Nýja stjórnin kann að vilja stefna á víðtækan fríverzlunarsamning EFTA við bæði ESB og Bretland.  Íslenzka ríkisstjórnin hefur sama og engin áhrif á örlög EES.  Allt tal um annað er hræðsluáróður hér innanlands.  

Bjarni Jónsson, 9.6.2019 kl. 18:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband