Að tala niður til flokksmanna

Í síðasta vefpistli var vakin athygli á framandi hugarfari varaformanns Sjálfstæðisflokksins, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur (ÞKRG), sem fram kom í helgarpistli hennar í Morgunblaðinu 2. júní 2019.  Virðist nú, sem flokksmenn hafi keypt köttinn í sekknum.

Í hvítasunnu-Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, 7. júní 2019, kveður við sama tón varðandi forystu Sjálfstæðisflokksins og á þessu vefsetri, hún segi eitt í dag og annað á morgun, en tali þó ósjaldan niður til flokksmanna sinna, sem lýsa öndverðum skoðunum við hennar skoðun í einstökum málum.  Verður nú haldið áfram að vitna í téðan pistil ÞKRK og síðan drepið niður í Reykjavíkurbréfið:

"Fram á sjónarsviðið kom virtur sérfræðingur í lögum, sem lýsti efasemdum um, að málið stæðist stjórnarskrá.  Til að gefa efasemdum hans sem mest vægi, leituðum við sérstaklega til hans.  Niðurstaðan var útfærsla, sem hann telur hafið yfir allan vafa, að standist stjórnarskrá."

Þetta er gott dæmi um þann hálfsannleik, sem ráðherrann hefur með ósvífnum hætti tíðkað í þessu orkupakkamáli.  Hún á vafalítið við Stefán Má Stefánsson.  Í álitsgerð hans og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst kemur berlega fram, að þeir ráðleggja ríkisstjórninni að mæla með því við Alþingi að aflétta ekki hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3.  Hin leiðin, sem minnzt er á örfáum orðum í álitsgerðinni, sem utanríkisráðherra síðan valdi að fara, er örverpi í téðri álitsgerð og greinilega ekki frá þeim lagasérfræðingunum komin, heldur hefur komið á daginn, að hún er aðskotadýr í skýrslunni og ættuð úr utanríkisráðuneytinu.  

Á meðan ekki reynir á fyrirvarann um samþykki Alþingis á sæstreng, reynir heldur ekki á reglugerð #713/2009, sem er ásteytingarsteinninn, hvort stenzt Stjórnarskrá eður ei.  Skilur varaformaður Sjálfstæðisflokksins það ekki enn þá, að strax og leyfisumsókn berst til orkustofnana í löndum beggja vegna sæstrengsins, þá er fyrirvarinn í uppnámi, af því að hann stríðir gegn EES-samninginum, gr. 7.  Það er líka misskilningur hjá henni, að téð reglugerð #713/2009 gildi aðeins um sæstrengi í rekstri.  Hún gildir líka um sæstrengi á verkefnastigi, eftir að umsókn berst, enda yfirlýst markmið OP#3 að ryðja úr vegi hindrunum fyrir nýjum millilandatengingum.  Þar með er Stjórnarkráin í uppnámi og bullandi réttaróvissa um Landsreglarann verður þar með staðreynd.  Allt mun þetta koma í ljós, eftir innleiðingu OP#3, þegar Edmund Truell sækir um leyfi fyrir lagningu sæstrengs á milli Íslands og NA-Englands. Það verður sjón í sólskini að sjá undir iljar ráðherranna, þegar skaðabótareikningur á hendur íslenzka ríkinu berst frá Edi Truell vegna tafa á sæstrengsverkefninu að hálfu íslenzka ríkisins.  Fjárplógsmenn gera út á slíkar lagagloppur. 

"Andstæðingar málsins líktu því við Icesave og lögðu til svipaðan leiðangur og þá var farinn.  Til að gefa þessu sjónarmiði sem mest vægi, var leitað álits hjá dómaranum í Icesavemálinu.  Niðurstaða hans var, að hér væri hreint ekkert Icesave-mál á ferðinni.  Þvert á móti væri vandséð, hvernig það þjónaði íslenzkum hagsmunum að leggja í þann leiðangur, sem andstæðingar málsins lögðu til."

Þetta er furðulegur málflutningur hjá varaformanni Sjálfstæðisflokksins.  Samlíkingin við Icesave hefur aldrei verið nein þungamiðja í málflutningi andstæðinga innleiðingar OP#3, og ástæðulaust þess vegna að borga Carl Baudenbacher fyrir umsögn.  Dómararnir voru reyndar 3 á sínum tímam eins og jafnan.  Var ekki nærtækara að fá norska dómarann til að veita umsögn ?  Hvers vegna var Baudenbacher valinn ?  Ástæðan er augljós.  Hann er mikill ESB-sinni og sem slíkum þykir honum sjálfsagt, að Íslendingar innleiði allt refjalaust, sem ESB ætlast til af EFTA-þjóðunum.  Vangaveltur hans um harkaleg viðbrögð ESB í Sameiginlegu EES-nefndinni, ef málinu verður vísað þangað eftur, vegna BREXIT og annarra vandræða ESB, eru hæpnar, því að harkaleg viðbrögð eru ekki í þágu neins.  Baudenbacher tekur þó skýrt fram, að réttur Íslands til að neita að aflétta stjórnskipulega fyrirvaranum, sé óumdeildur.  

"Eftir standa fáeinir menn, sem tala við sjálfa sig og framkalla næsta stig fyrir ofan storm í vatnsglasi, sem er fellibylur í fingurbjörg.  Því verður þó ekki neitað, að þeim hefur því miður tekizt með upphrópunum og ítrekuðum rangfærslum að rugla of marga í ríminu.  Það var auðvitað tilgangurinn."

Úr því að iðnaðarráðherra telur miðflokksmenn á Alþingi vera á villigötum með málflutning sinn í orkupakkamálinu, hvernig stendur þá á því, að hún hefur ekki látið svo lítið að fara í umræður við þá á þinginu um OP#3.  Hún hefur sjálf verið gerð algerlega afturreka með þann útúrsnúning sinn, að OP#3 sé stormur í vatnsglasi.  Úr því að hún bætir nú um betur og skrifar um fellibyl í fingurbjörg, sem er nýtt af nálinni, þá virðist hún ekki einu sinni hafa fylgzt með umræðunni að neinu ráði.  Sjálf ruglar hún kannski einhverja í ríminu með innantómum ásökunum um "ítrekaðar rangfærslur" í stað þess að tína þær til og hrekja þær.  

Sjálf hefur hún haldið því fram, að OP#3 snerti ekki eignarhald virkjana.  Eitt form eignarréttar er nýtingarréttur.  Nú hefur komið fram, að ESA safnar nú upplýsingum um það frá Íslandi og Noregi, hvernig þessum nýtingarrétti er úthlutað.  Við það þarf að gæta jafnræðis innan EES, þar sem bannað er að mismuna eftir þjóðernum.  Liggur í augum uppi, að næsta krafa ESA verður útboð vatnsréttinda og þar með nýtingarréttar auðlindanna.  Þar með verður eignarhaldið sjálft í uppnámi. Samkvæmt iðnaðarráðherra átti þetta ekki að geta gerzt.  Það er samt að gerast og tæki ESA/ESB til þess er þjónustutilskipun ESB, en orkupakkarnir mynda lagaumgjörðina, sem gerir áhugavert fyrir fjárfesta að taka þátt í slíku útboði.

Undir lokin bítur varaformaður Sjálfstæðisflokksins höfuðið af skömminni og opinberar, að hún glórir ekki í um hvað OP#3 snýst.

"Það er mikilvægt að átta sig á, að það felst engin stefnubreyting í því fyrir Sjálfstæðisflokkinn að styðja þriðja orkupakkann.  Þvert á móti væri það stefnubreyting að leggjast gegn því viðskiptafrelsi, sem hann boðar og hefur áður verið bæði dyggilega stutt og samþykkt í orkumálum af hálfu þeirra, sem á undan gengu."

Þarna kastar varaformaður Sjálfstæðisflokksins blautri tusku framan í þá sjálfstæðismenn, sem mótuðu og samþykktu á síðasta Landsfundi í marz 2018, að ekki skyldi halda lengra inn á braut valdaframsals til erlendra stofnana á sviði orkumarkaðar.  Að láta eins og aðild Íslands að sameiginlegum raforkumarkaði ESB sé eitthvert hagsmunamál landsmanna, sem sjálfstæðismenn hafi barizt lengi fyrir í nafni viðskiptafrelsis, er einhver ósvífnasta öfugmælavísa, sem hugsazt getur.  Þessi innri markaður raforku er hannaður af búrókrötum ESB sem leikvöllur fjársterkra spákaupmanna og fjárfesta, og þangað eiga íslenzk raforkufyrirtæki, sem flest eru í almannaeigu, ekkert erindi.  Sjálfstæðismenn geta, margir hverjir, ekki sætt sig við málflutning af þessu tagi að hálfu varaformanns flokksins.  Eitthvað verður þá undan að láta.

Höfundur Reykjavíkurbréfs 07.06.2019 er hneykslaður á framgöngu forystu flokksins í orkupakkamálinu og hefur, réttilega, miklar áhyggjur af afleiðingum þess fyrir gengi flokksins á meðal þjóðarinnar:

"En af hverju þurfti að læðast með veggjum með þetta afmæli [flokksins] ?  Það er vissulega megn óánægja í flokknum og þá ekki sízt meðal kjósenda hans og hugsanlegra kjósenda með óskiljanlega framgöngu flokksins í orkupakkamálinu, þar sem hiklaust er byggt á blekkingum, sem raunar eru fjarri því að vera lofsverðar.  Það hefur birzt í fjölda aðsendra greina í blaðinu, sem eru hófstilltar og málefnalegar."

Nokkru síðar ritaði höfundurinn um stefnumörkun flokksins, sem varaformaðurinn má kalla stefnubreytingu.  Það er aukaatriði.  Aðalatriðið er, að forysta flokksins er bundin af þessari stefnumörkun og er að glata trausti flokksmanna sinna með því að hundsa hana án nokkurra viðhlítandi skýringa:

"Hvað orkupakkamálið varðar, gat enginn ætlað annað.  Landsfundur flokksins hafði lagt línuna: "Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."  Nú reyna menn með einkar aumu og satt bezt að segja algjörlega óboðlegu yfirklóri, langt fyrir neðan sína virðingu, að láta eins og almennt hjal, sem verið hefur í almennum yfirlýsingum fundarins og einskis getið við afgreiðslu þess, hafi eytt fyrrnefndri ákvörðun með göldrum."

Forysta flokksins verður að upplýsa flokksmenn sína um það, hvaða reginkraftar valda því, að nú virðist hún leggja höfuðáherzlu á innleiðingu OP#3 í íslenzkan landsrétt.  Margir telja forystuna hafa óhreint mjöl í pokahorninu, og að hún gangi hreinlega erinda gróðapunga hérlendis og erlendis við þessa markaðsvæðingu orkugeirans.  Það er ekki nóg að afsaka sig með EES.  Sá samningur stendur og fellur með Norðmönnum, og Íslendingar geta aldrei orðið neinir örlagavaldar um framtíð hans.  Trúir forystan eigin þvættingi í þeim efnum ?

"Góður þingmaður flokksins á Vesturlandi fór ásamt ráðherranum, sem einnig er þingmaður þar.  Þar fóru fram málefnalegar umræður, en af nokkrum þunga.  Enginn fundarmanna tók undir sjónarmið ráðherrans eða þingmannsins !  Vonandi hafa þeir gert þingflokknum grein fyrir umræðunum."

Þarna er bryddað upp á þeim hrollkalda veruleika, að iðnaðarráðherra ásamt öðrum ráðherrum og þingmönnum Sjálfstæðisflokksins lifa í öðrum heimi en hinn almenni flokksmaður.  Þessu hefur ráðherrann brugðizt við að sínum hætti með brigslyrðum um rangfærslur, og hún hefur sett sig á háan hest valdsmannsins gagnvart flokksmanninum.  Þessari hegðun fulltrúa þeirra á þingi kunna sjálfstæðismenn illa.  Hinn almenni flokksmaður og landsmenn almennt hafa skynjað meginlínurnar í orkupakkamálinu.  Þær snúast um, að ESB er að koma ár sinni fyrir borð hér og annars staðar í EES með því að færa hluta framkvæmdavalds í orkumálum frá ráðherra og undir sig, þ.e. Landsreglarann (The National Energy Regulator).  Ennfremur er með OP#3 Evrópuréttur innleiddur á sviði millilandaviðskipta með rafmagn.  Þetta saman þýðir, að ESB getur auðveldlega hrundið öllum vörnum Íslendinga, þegar sótzt verður eftir aðgangi að endurnýjanlegum orkulindum Íslands.  Þetta er hin nýja nýlendustefna.  Hald er lagt á auðlindirnar án hervalds, en með lögbókina eina að vopni, lögbók ESB, ekki lögbók landsréttarins.   

Þessa sviðsmynd þræta orkupakkasinnar fyrir, en ekki með gildum röksemdum, heldur aðeins með innantómum fullyrðingum og dylgjum í garð þeirra, sem benda á hætturnar.  

Eftir vorfund Miðstjórnar Framsóknarflokksins virðist sama vera uppi á teninginum að þessu leyti í Framsóknarflokkinum og þingflokki hans og í Sjálfstæðisflokkinum.  Það verður fróðlegt að sjá væntanlega skoðanakönnun um afstöðu landsmanna til OP#3 og innflutnings á ófrosnu kjöti til landsins.  Með því að mynda skjaldborg um hið eldfima orkupakkamál veita stjórnarflokkarnir Miðflokkinum kjörlendi að vinna á, og upp úr mun sjóða í stjórnmálaflokkunum, ef orkupakkamálinu verður þrælað í gegn.  Sviðin jörð gæti þá orðið rétt lýsing á fleiri en einum stjórnmálaflokki eftir næstu kosningar.

Lítið fer fyrir VG í orkupakkamálinu, en þó hafa einstaka þingmenn flokksins, t.d. Ari Trausti Guðmundsson, fjallað allítarlega um málið í ræðu og riti til stuðnings innleiðingunni.  Nú er kominn fram flokkur vinstra megin við VG, þ.e. Sósíalistaflokkurinn, sem hefur öndverða stefnu við VG í orkupakkamálinu og getur orðið VG skeinuhættur í næstu Alþingiskosningum. 

Margs konar váboðar eru  fyrir stafni ýmissa stjórnmálaflokka og raunverulega hægt að tala um "rosabaug yfir Íslandi", ef Alþingi lætur glepjast á hræðsluáróðri og samþykkir OP#3, illu heilli.  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Bara svona utan þessarar endalausu þvælu um orkupakkann og tilraunir til lengdar að einkavæða og selja auðlindirnar, þá langar mig að spyrja ef af rafstreng verður. Hver borgar (60%?)orkutapið í flutningnum, við eða kaupandinn?

Merkilegt annars að þeir flokkar sem vilja alls ekki fleiri virkjanir finnist þessi hugmynd vera fyrirtak.

Ég er allavega búinn að segja mig úr flokknum. Hann á ekkert skylt við sjálfstæði.

Jón Steinar Ragnarsson, 12.6.2019 kl. 23:07

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Kostnaður orkutapanna er hluti af rekstrarkostnaði mannvirkjanna, bætist við árlegan fjármagnskostnað, og flutningsgjald félagsins, sem á og rekur flutningsmannvirkin, afriðlana, áriðlana, spennana, sæstrenginn og truflanadeyfibúnað, verður að standa undir heildarkostnaðinum með dágóðri ávöxtunarkröfu.  Hvort sem orkukaupandinn eða orkuseljandinn borgar flutningsfélaginu þetta gjald, þá lækkar söluandvirði raforkunnar að sama skapi.  Orkutöpin frá virkjun til heildsölukaupanda á Englandi eru ekki undir 10 %.  

Bjarni Jónsson, 13.6.2019 kl. 13:36

3 Smámynd: Óskar Kristinsson

Blessaður Bjarni!

Enn og aftur þakkir fyrir þinn góða pistil! Það er einhver rosapottur sem að þetta fólk bíður eftir að moka upp úr, eða pingja með demantslegnum silfurpeningum.

Sennilega eru það nú 54 pingjur kannski 30 silfurp í hverri.

Allir þeir sem Samþikkja þetta afsal auðlindarinnar mega búast við viðurnefninu QUISTLING.

Kv af Suðurlandi

Óskar Kristinsson, 13.6.2019 kl. 20:02

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Já, Óskar, þeim er ekki öllum annt um orðstýr sinn.  Alþingismenn virðast lítið vita um það, sem þeir samþykkja.  Fór ekki þjónustutilskipunin gagnrýnislítið gegnum þingið ?  Ef í henni felst afsal á eignarhaldi vatnsréttinda ríkisins og skuldbinding til að bjóða út rekstur virkjananna, þá hlýtur það að vera bullandi stjórnarskrárbrot og slíkt risamál, að ég held, að EES muni ekki lifa það af í Noregi.  Hér eru nú eintóm lindýr í stjórn í samanburði við norska orkuráðherrann, sem hefur snúizt öndverður við þeirri túlkun ESA, að þjónustutilskipunin spanni raforkuvinnslu.  Hvers vegna svarar íslenzki orkuráðherrann ekki ESA nú 3 árum eftir móttöku storkunarbréfs ?

Bjarni Jónsson, 13.6.2019 kl. 21:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband