Hagsmunagæzlu gagnvart útlöndum er ábótavant

Umræðan um Þriðja orkupakkann (OP#3) hefur leitt í ljós meingallaða hagsmunagæzlu fyrir Íslands hönd gagnvart hinum EES-löndunum.  Ef hún væri í lagi, hefði lögfræðileg greining fyrir 5.5.2017 leitt í ljós, að innleiðing OP#3 í landsrétt Íslands myndi skapa þar mikla réttaróvissu vegna árekstra við Stjórnarskrá og að OP#3 myndi ryðja brautina fyrir afltengingu við innri raforkumarkað ESB að frumkvæði markaðsaðila. 

Á Íslandi er megn andstaða við slíka tengingu, og á meðan svo er, er eina rökrétta viðbragð íslenzkra stjórnvalda að æskja undanþága frá öllum gerðum OP#3 í Sameiginlegu EES-nefndinni.  Það var glannalegt að fara ekki í nákvæma greiningu á afleiðingum innleiðingar OP#3 hérlendis áður en fallizt var á að leggja allar rafmagnsgerðir orkupakkans fyrir Alþingi, þar sem um stjórn á aðgengi að orkulindum landsmanna er að ræða.

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, bregður birtu á flaustursleg vinnubrögð stjórnvalda í Morgunblaðsgrein 12. júní 2019:

"Fyrirmunað að útskýra áhrif orkupakkans":

"Svörin, sem fengizt hafa [frá stjórnarliðum um afleiðingar innleiðingar] eru óreiðukennd, svo [að] ég noti nú varlegt orðalag um flaustursleg viðbrögð stjórnarliða.  Uppástungur um, hvar þennan lagalega fyrirvara væri að finna, hafa verið næstum jafnmargar og þeir þingmenn, sem hafa þorað að svara spurningunni [og ráðherrarnir hafa ekki treyst sér til að taka af skarið - innsk. BJo].  Þá hefur þingmönnum orðið svarafátt, þegar spurt er um þjóðréttarlegt gildi fyrirvaranna, þ.e. hvaða gildi þeir hafa gagnvart viðsemjendum okkar eða öðrum þeim, sem vildu í framtíðinni vefengja þennan fyrirvara.  Allt bendir reyndar til, að slíkur fyrirvari hafi ekkert þjóðréttarlegt gildi."

Í upphafi skyldi endirinn skoða.  Greiningarvinnu íslenzkra stjórnvalda fyrir afgreiðslu málsins 05.05.2017 í Sameiginlegu EES-nefndinni var mjög ábótavant, og loksins þegar opinber umræða hófst hérlendis um OP#3 um áramótin 2017/2018 (á þessu vefsetri) fengu þingmenn kalda fætur.  Þá tók ekki betra við, því að þá var tekið til við að klastra fyrirvara við innleiðinguna, sem utanríkisráðuneytið á að vita, að er óleyfilegt samkvæmt EES-samninginum, gr. 7. 

Norska Stórþingið ræddi 8 fyrirvara fyrir innleiðinguna 22.03.2018 á OP#3, en enginn þeirra var leiddur í lög, og lagafrumvarp um þessa fyrirvara frá ríkisstjórninni hefur enn ekki séð dagsins ljós.  Hvað halda menn, að valdi því ?  Í huga pistilhöfundar er líklegast, að runnið hafi upp fyrir norsku stjórninni, að slíkir "eftir-á" fyrirvarar eru haldlausir gagnvart EFTA-dómstólinum og því þjóðþingi til vanza, sem fer í slíkan skrípaleik.

Vegna nýlegra upplýsinga frá norsku ríkisstjórninni er nú komið upp á yfirborðið mál, sem sýnir, að grundvallarmunur er á gæðum íslenzka og norska stjórnarráðsins.  Árið 2016 fékk íslenzka ríkisstjórnin bréf frá ESA þess eðlis, að full ástæða var til að spyrna við fótum strax.  Iðnaðarráðherrann stakk þessu bréfi hins vegar laumulega ofan í skúffu án þess að kynna það opinberlega og stofnaði nefnd um viðbrögðin.  Þetta laumuspil stjórnarráðsins er alveg dæmigert og hefur einkennt meðferð stjórnarráðsins á orkupakkamálinu.  Þetta pukur er mjög ámælisvert, því að stjórnarráðið veldur hvorugu málinu.  Hérlendis á þjóðin rétt á opinberri umræðu um stórfelld hagsmunamál sín. 

Bréf ESA var sakleysislegt og var fyrirspurn um það, hvernig ríkið tryggði, að einkaaðilar sætu við sama borð og opinber fyrirtæki við úthlutun vatnsréttinda.

Norska ríkisstjórnin fékk sams konar bréf 30. apríl 2019.  Hún brást hins vegar allt öðru vísu við en íslenzka ríkisstjórnin.  Þar á bæ litu menn bréf þetta alvarlegum augum, settust strax niður og sömdu vel rökstutt og skorinort mótmælabréf á 4 dögum (2 virkum).  Svona eiga sýslumenn að vera.  Í sem stytztu máli var því andmælt, að þjónustutilskipun ESB spanni raforkuvinnslu, og þess vegna skorti ESA/ESB lagagrundvöll til að hafa afskipti með þessum hætti af eignarhaldi á virkjanaleyfum og nýtingarrétti vatnsfalla.  Það er sem sagt stál í stál á milli Noregs og ESA/ESB.  Svarbréf olíu-og orkuráðuneytis Noregs er dagsett 4. maí 2019. 

Nú er spurningin sú, hvort iðnaðar- og orkuráðherra Íslands tekur á sig rögg og ver hagsmuni Íslands, eins og olíu- og orkuráðherra Noregs tók strax til varna fyrir hagsmuni Noregs.  Spá pistilhöfundar er, að iðnaðarráðherra muni ekki hafa döngun í sér til að sýna kollega sínum í Noregi samstöðu.  Þessi ráðherra hefur enn aldrei tekið af skarið með þjóð sinni í nokkru máli, sem varðar samskiptin við ESA/ESB, svo að vissulega væri slíkt frumkvæði fyllilega tímabært.  Gæti hún þá um leið leyst nefndina, sem um þetta fjallar, frá störfum, enda mun hún ekki hafa náð neinu samkomulagi enn.  

Mál þetta mun ráðast á milli Noregs og ESA/EFTA-dómstólsins.  Það er tímasprengja fyrir EES-samninginn, því að Norðmenn munu aldrei fallast á útboð eða uppboð á norskum vatnsréttindum.  Skoðun íslenzku ríkisstjórnarinnar á því máli skiptir engu máli fyrir EES-samninginn.  Vegna fordæmis frá viðskiptum framkvæmdastjórnar ESB við ríkisstjórnir 8 ESB-landa í sams konar málum, þar sem gengið var hart fram að hálfu Framkvæmdastjórnarinnar, verður ESA að láta kné fylgja kviði gagnvart Norðmönnum.  EFTA-dómstóllinn fylgir dómafordæmi ESB-dómstólsins, svo að ekki þarf að spyrja að leikslokum.  Dagar EES-samningsins eru taldir.  Vonandi taka þá við samningaviðræður EFTA með Sviss innanborðs við ESB um víðtækan fríverzlunarsamning.  

Morgunblaðið gerði fyrir sitt leyti grein fyrir þessu máli í frétt 8. júní 2019 undir fyrirsögninni:

"Opinbert eignarhald dugar mögulega ekki", og í undirfyrirsögn: ESA krefst útboðs nýtingarréttar og rekstrar virkjana.   Fréttin hófst þannig:

"Íslenzkum stjórnvöldum gæti orðið óheimilt að koma í veg fyrir útboð nýtingarréttar og rekstur vatnsaflsvirkjana með lögfestingu opinbers eignarhalds, fari eftirlitsstofnun EFTA, ESA, með nýtingaréttarfyrirkomulag Norðmanna fyrir EFTA-dómstólinn og hann dæmi fyrirkomulagið ólögmætt.  

Eins og fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins um miðjan maí [2019], höfðaði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í marz [2019] samningsbrotamál gegn 8 aðildarríkjum á grundvelli þjónustutilskipunarinnar og reglugerðar um opinber innkaup, þar sem krafizt er, að nýtingarréttur vatnsfalla og rekstur virkjana verði boðinn út.  Í erindi til íslenzkra stjórnvalda árið 2016 fer ESA fram á, að krafizt verði markaðsverðs fyrir nýtingarrétt með sama hætti og í Evrópusambandinu."

Ef það er svo, að þjónustutilskipun ESB, sem tekin hefur verið í lög hér, spanni raforkuvinnslu, þá er alveg ljóst, að þeirri ríkisstjórn, sem lagt hefur þá lögleiðingu fyrir Alþingi, hefur orðið alvarlega á í messunni, því að slíkt framsal ríkisvalds til ESA, sem heimilar ESA að krefjast eigendaskipta á vatnsréttindum og færir jafnvel erlendum stórfyrirtækjum réttinn til að reka hér vatnsorkuver, hlýtur að stangast á við stjórnarskrá Íslands.  Þá verður ekki séð, hvernig æfingar af þessu tagi geta fært neytendum lægra raforkuverð.  Hér hafa þá búrókratar unnið sitt verk fyrir stórkapítalið og platað sveitamanninn rétt einu sinni.  Svona gengur þetta náttúrulega ekki lengur. Við getum ekki látið stjórnarráð Íslands glutra fullveldinu niður og auðlindum landsins úr höndum okkar.  

"ESA gerði 30. apríl þessa árs athugasemd við þetta fyrirkomulag [á nýtingarleyfum norskra vatnsfalla] í takti við ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB um að höfða samningsbrotamál, að því er fram kemur í umfjöllun [norska netmiðilsins] ABC Nyheter.  Er krafizt skýringa á því, hvernig ráðstöfun nýtingarréttar vatnsfalla og rekstri virkjana er háttað.  Í svari norskra stjórnvalda kemur fram, að þau telja, að um sé að ræða nýtingu náttúruauðlinda, en ekki þjónustu, og að ákvæði tilskipunarinnar eigi þess vegna ekki við.  Telji ESA svar Norðmanna ekki fullnægjandi, fer málið fyrir EFTA-dómstólinn."

Hvað sem líður góðum rökum Norðmanna og skarplegum rökstuðningi þeirra fyrir því, að vatnsréttindi í Noregi og rekstur vatnsaflsvirkjana þar sé utan valdsviðs ESA, þá má telja líklegt vegna þess, hversu rík áherzla er lögð á sömu túlkun Evrópuréttar alls staðar í EES, að ESA muni sitja við sinn keip og senda Norðmönnum næst hótunarbréf um, að makki þeir ekki rétt, verði þeir dregnir fyrir EFTA-dómstólinn.  Norðmenn mega þá þakka sínum sæla fyrir, að andstæðingur þeirra í mörg ár, Carl I. Baudenbacher, er ekki lengur starfandi við dóminn.  

Það verður afar spennandi að fylgjast með lyktum þessa máls, því að framtíð EES-samningsins gæti verið í húfi.  

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Kristinsson

Blessaður Bjarni!

Enn einn góði og upplýsandi Ómetanlegi  pistillinn þinn, takk takk takk.

Kv af Suðurlandi.

Óskar Kristinsson, 14.6.2019 kl. 11:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband