30.6.2019 | 09:29
Rafmagnstilskipun OP#4 eykur völd ACER
Orkupakki #4 (OP#4) kom út úr ofni Evrópusambandsins, ESB, 8. maí 2019 eftir innbyrðis deilur í bakaríinu um uppskriftina. Aukin miðstýring orkumálanna með viðbótar valdtilfærslu frá aðildarríkjunum til ACER olli deilunum og er jafnframt megineinkenni OP#4. Fyrirvari Íslands við OP#3 um bann við tengingu landsins við innri raforkumarkað ESB og nokkrir af ólögfestum, bréflegum óskafyrirvörum Norðmanna við hann eru í algeru uppnámi eftir útkomu OP#4 og stríða beinlínis gegn honum.
Vegna stofnunar ACER með OP#3 er þó líklega stökkið frá OP#2 til OP#3 örlagaríkara en stökkið frá OP#3 til OP#4. Þar sem með OP#4 er gengið enn lengra í framsali á ríkisvaldi en áður, sem margir meta þegar of mikið,er þó líklegt, að lagasérfræðingar telji rafmagnstilskipun OP#4 alls ekki samrýmast íslenzku stjórnarskránni. Lögfræðileg rýni á OP#4 hefur hvorki farið fram í Noregi né á Íslandi.
Í Noregi sleikir Verkamannaflokkurinn enn sárin, sem hann varð fyrir í aðdraganda samþykktar Stórþingsins á OP#3. Flokkur, sem þá var í stjórnarandstöðu og var á móti OP#3, Kristilegi þjóðarflokkurinn, KrF, er nú kominn í ríkisstjórn. Það verður mjög lítill áhugi fyrir því á meðal þingmanna að fara í heitar umræður og mikla baráttu um OP#4 á þessu kjörtímabili, sem lýkur í september 2021.
Eftir Stórþingskosningar þá má vænta stjórnarskipta í Noregi, og mun þá andstöðunni við orkupakkana vaxa fiskur um hrygg í norska stjórnarráðinu og á Stórþinginu. EFTA-ríkjunum liggur þess vegna ekkert á með OP#4, og íslenzk stjórnvöld ættu að anda með nefinu út af OP#3 og færa hann aftur í hendur Sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þangað á hann fullt erindi í ljósi hinnar pólitísku þróunar á Íslandi og í Noregi.
Í ljósi umræðunnar í Noregi undanfarið, t.d. nýlegrar tillögu á Stórþinginu um endurupptöku OP#3-málsins vegna yfirlýsinga orkukommissars ESB og utanríkisráðherra Íslands og vegna málsóknar "Nei til EU" á hendur norska ríkinu vegna meints stjórnlagabrots við afgreiðslu OP#3 á Stórþinginu, er eðlilegt, að EFTA-ríkin fái tækifæri til að ræða málið aftur í téðri nefnd og undanþágur við það að nýju við ESB. Evrópusambandið kann að meta það svo, að þetta mál sé komið í öngstræti innan EFTA og að skynsamlegast sé að leiða það til lykta og sæta færis síðar. Slík var afstaða ESB 2011, þegar norska ríkisstjórnin hafnaði Pósttilskipun IV.
Með OP#4, sem einnig er kallaður Vetrarpakkinn, hefur rafmagnstilskipun OP#3 verið endurskoðuð þannig, að nýjar valdheimildir eru færðar frá ríkisvaldi aðildarlandanna og til framkvæmdastjórnar ESB, orkustofnunarinnar ACER og útibús ACER í hverju aðildarlandi, Landsreglarans (National Energy Regulator). Einkum á þetta við um þróun og rekstur millilandatenginga, en einnig um stjórnun orkumála innanlands.
Í rafmagnstilskipuninni, gr. 3, er greint frá hlutverki OP#4, og þar er hvergi dregið af. Aðildarlöndin eiga að sjá til þess, að innlend löggjöf hindri ekki á óeðlilegan hátt (ESB metur, hvað er óeðlilegur háttur):
- Raforkuviðskipti á milli landa
- Fjárfestingar, einkum í virkjunum með auðbreytanlegum afköstum og í orkugeymslum
- Nýjar millilandatengingar
- Að markaðurinn stýri raforkuverðinu
Það er engu líkara en OP#4 sé sérsniðinn til að koma böndum á Íslendinga, því að öll þessi 4 atriði eiga sérstaklega við Íslendinga. Þess vegna er bezt að senda OP#3 til föðurhúsanna, því að augljóst er, að þessi orkupakkavegferð endar illa, og þess vegna er bezt að stöðva hana strax.
- Ríkisstjórnin ætlar að setja löggjöf, sem hindrar raforkuviðskipti við útlönd án sérstaks samþykkis Alþingis. Þetta er vafalaust óeðlileg ráðstöfun að mati ESB, og hún verður líka ólögleg m.v. EES-samninginn. Hún stríðir bæði gegn OP#3 og OP#4. Þess vegna eru allir fyrirvarar við OP#3, íslenzkir eða norskir, andvana fæddir og til tjóns eins fallnir.
- ESB vill hvetja til, að sem allra mest sé fjárfest í virkjunum endurnýjanlegrar orku. Það mun með þessu áframhaldi koma að því, að útskýra þarf Rammaáætlun um verndun og nýtingu orkulinda ítarlega fyrir ESB, vegna þess að hún samræmist ekki markmiðum ESB um að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda til að bjarga jörðinni frá ofhlýnun. Þannig vill til, að vatnsaflsvirkjanir uppfylla bæði skilyrði ESB hér að ofan; þær eru auðstýranlegar, þ.e. henta vel breytilegu álagi, eins og er áberandi á meginlandi Evrópu, og þær geta geymt orku. Ef svo heldur fram sem horfir, mun ESB hvetja til stækkunar miðlunarlóna á Íslandi til að taka við aukinni bráðnun jökla, og til að vatnsaflsvirkjanir neðan þessara lóna verði enn aflögufærari en nú um fullt afl (inn á millilandatengingu). Stórfelldir hagsmunaárekstrar eru framundan, ef við leiðum þessa orkulöggjöf inn á gafl hér.
- Íslenzka ríkisstjórnin er á háskabraut. Hún vill stinga hendinni inn í gin ljónsins með því að samþykkja OP#3, og samtímis vill hún banna með lögum (nýjar) millilandatengingar fyrir raforku. Þetta tvennt er ósamrýmanlegt og mun leiða til mikilla vandræða, eins og bezt sést við lestur OP#4. Þess vegna á ríkisstjórnin að sjá að sér núna, leita hófanna hjá EFTA og ESB um viðræður í sameiginlegu EES-nefndinni um undanþágur fyrir Ísland, draga núverandi þingsályktunartillögu til baka og leggja fram aðra, þar sem því er slegið á frest að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara, þar til samið hefur verið um ásættanlegar undanþágur í Sameiginlegu EES-nefndinni. Ef ásakanir verða þá uppi um skort á samstöðu í baráttunni við hlýnun jarðar, þá má benda á málmframleiðsluiðnað á Íslandi og ræða möguleikann á auknum fjárfestingum á því sviði. Á samdráttarskeiði hagkerfis, eins og núna, þarf einmitt að auka fjárfestingar í útflutningsiðnaði.
- Hvað þýðir þetta, að markaðurinn stjórni raforkuverðinu ? Það þýðir, að verðið mun ráðast af framboði og eftirspurn. Í fákeppnisumhverfi, eins og hérlendis, felur þetta fyrirkomulag ekki í sér neytendavernd, heldur framleiðendavernd. Framleiðendur raforku stýra framboðinu, en það er í raun engin staðkvæmnivara til fyrir rafmagnið, svo að neytendur verða að ganga að því verði, sem býðst, í flestum tilvikum. Þetta kerfi er kjörlendi raforkuvinnslufyrirtækjanna á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum, þar sem þau styðja nánast undantekningalaust innleiðingu OP#3. Ekki nóg með það. Sameiginlegur markaður fyrir raforku og aukin flutningsgeta inn á hann hefur lækkað verð í hákostnaðarlöndum rafmagns og hækkað það í lágkostnaðarlöndunum, t.d. tengdum Norðurlöndum. Þannig má segja, að OP#3 sé útsmogið samsæri um að jafna raforkuverðið, en raforkuverðið hefur verið eitt aðalsamkeppnisforskot Norðurlandanna og vegið upp á móti tiltölulega háum flutningskostnaði aðdrátta og afurða. Betri grein verður vonandi gerð fyrir hrikalegri þróun á þessu sviði í Danmörku, Noregi og Svíþjóð síðar á þessu vefsetri, en hér skal aðeins nefna, að raforkuverð til iðnaðar var árið 1995 í Noregi 55 % af meðalverði 14 landa í Evrópu og 150 % í Þýzkalandi, en árið 2013 höfðu þessi hlutföll þróaðst í 84 % í Noregi og 89 % í Þýzkalandi. Til hvers halda menn, að refirnir séu skornir ? Á Íslandi 2019 fullyrða nytsamir sakleysingjar og/eða spunameistarar, að Orkupakki #3 sé saminn og innleiddur til neytendaverndar. Eru því engin takmörk sett, hvers konar bölvaðan "bolaskít" (þvælu) íbúum þessa lands er boðið upp á af þóttafullum og innantómum monthönum og monthænum, sem allt þykjast vita, en búa í raun yfir þekkingu, sem er vart 5 aura virði ?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 18:14 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Bjarni og takk fyrir. Ef þessi pistill þinn vekur ekki upp þá 54 þingmenn sem hafa einsett sér að samþykkja þennan Orkupakka 3, þá er lítið fyrir þá gefandi og líklega væri hægt að setja þá alla í hóp landráðamanna sem íbúar þessa land munu smala saman í ákæru.
Eggert Guðmundsson, 30.6.2019 kl. 11:19
Blessaður Bjarni!takk fyrir pistilinn.
Það mætti kannski segja að þetta liti ekki illa út ef vit væri til staðar til að vinna rétt úr upplýsingunum.
Eg er mest hræddur um að forherðingin sé svo mikil til að ná í silfurpingjuna,þó að krossinn sé jafnvelí sjónmáli.
KV af Suðurlandi
Óskar Kristinsson, 30.6.2019 kl. 14:09
Já, piltar, þingmennirnir geta ekki borið því við eftir á, að þeir hafi ekki haft upplýsingar um, hvers konar vegferð þessi orkupakkaferð er. Það er líka ljóst, að fjölmargir kjósendur þeirra, sem virðast staðráðnir í að staðfesta þennan OP#3, líta málið réttilega svo alvarlegum augum, að þeir telja samþykkt OP#3 svik við sig og sinn flokk. Svik kalla jafnan á öflugar mótaðgerðir, og ein slík er hreinlega að kjósa flokk, sem áttar sig á þessari vegferð og berst gegn því að fara hana. Ef stjórnarflokkarnir fá OP#3 samþykktan á þingi, vinna þeir Phyrrosarsigur, sem þeir munu seinna óska sér að hafa aldrei unnið.
Bjarni Jónsson, 30.6.2019 kl. 18:11
Þessi athugun þín styður það sjónarmið, sem ég hef sett fram um þetta mál, að ekki sé seinna vænna en nú að staldra við og taka sér tíma til að nota rétta tímann til að afstýra ófarnaði í þessum málum.
Sá tími er greinilega núna en ekki síðar.
Ómar Ragnarsson, 30.6.2019 kl. 23:13
Einmitt, Ómar, það alls ekki of seint. Í fjölþjóðasamvinnu lýðræðisríkja verða stjórnmálamenn að laga sig að stjórnmálalegum raunveruleika. Sá raunveruleiki þróast allur í sömu átt í þessu orkupakkamáli, bæði á Íslandi og í Noregi. Eru ekki stjórnmál list hins mögulega ? Stjórnmál eru eiga alla vega ekki vera dáleiðsluganga að vilja embættismanna. Þá er búið að snúa hlutverkum á haus.
Bjarni Jónsson, 1.7.2019 kl. 10:54
Það er einkenni á lagasetningu/tilskipunum ESB að horfa til langs tíma. Ferlið er eins og að þreyta lax; girnileg beita er sett fram, ginið opnast, flugan er gleypt og öngullinn stingst í holdið. Eftirleikurinn, fiskurinn flæmist upp og niður flúðirnar (staðan í dag) en oftast endar leikurinn í að fiskurinn liggur á bakkanum. Þannig virka orkupakkarnir og ef ekki væri fyrir harða viðspyrnu þína og félaga væri fiskurinn nú þegar í pottinum. Hafðu þakkir fyrir eljusemina Bjarni.
Ragnhildur Kolka, 2.7.2019 kl. 09:31
Takk fyrir, Ragnhildur. Lýsing þín á starfsháttum ESB er rétt. Þetta er agúrkuaðferðin við að troða ókræsilegri fæðu ofan í kok "fórnardýranna". Það er sjálfskaparvíti okkar að vera nú í þessu hlutverki fórnardýra. Meirihluti þjóðarinnar skilur, að við eigum ekki samleið með Evrópusambandinu, sízt í fiskveiðimálum og orkumálum, en í öllum aðildarríkjunum eru sérhagsmunaaðilar, sem ætla að mata krókinn "í konungsgarði".
Bjarni Jónsson, 3.7.2019 kl. 11:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.