Fyrirvarinn við virkni OP#3 gerir illt verra

Lagalegur fyrirvari utanríkisráðherra og iðnaðarráðherra, sem færa á í landslög í kjölfar innleiðingar Orkupakka #3 í heild sinni í landsrétt Íslands, er fullkomlega misheppnaður og verða Íslandingar betur settir án hans en með hann.  Klúður ráðherranna er, að án þessa fyrirvara um, að umsókn um leyfi fyrir sæstreng verði ekki samþykkt án heimildar Alþingis, mun þingsályktunartillaga OP#3 sennilega ekki fá framgang á Alþingi.  Hvernig víkur þessu erkiklúðri ráðherranna við ?

Ríkisstjórnin hefur lagt úr vör með þá tillögu til Alþingis að innbyrða OP#3 í heilu lagi í íslenzkan landsrétt, en líta svo á, að valdheimildir til ACER um millilandatengingar í reglugerð #713/2009 gildi ekki, á meðan enginn er millilandasæstrengurinn.  Þetta er eins og að gera ráð fyrir því, að engin umferðarlög gildi í landinu, á meðan engin er umferðin, eða með öðrum orðum lögfræðingaloftfimleikar.  Óhjákvæmilega fara umferðarlögin að virka með fyrsta vegfarandanum, og hið sama á við um ACER-löggjöfina. Hún verður virk, þegar fyrsta sæstrengsverkefnið verður kynnt til sögunnar og ekki síðar en við afhendingu leyfisumsóknar til viðkomandi yfirvalda.  Þessi skilningur er áréttaður í OP#4.

Í andvana fæddri tilraun til að viðhalda þeirri ímynduðu stöðu, að #713/2009 gildi ekki fyrr en hingað hefur verið lagður sæstrengur, ætlar ríkisstjórnin að biðja Alþingi, í kjölfar innleiðingar OP#3, um að samþykkja lög, sem banna Landsneti að setja sæstrenginn á framkvæmdaáætlun, og þar með verður Orkustofnun að hafna umsókn.  Við það losnar fjandinn úr grindum.  Vilji Evrópusambandið beita afli sínu og lagalegum rétti samkvæmt OP#3 og viðbótum við #713/2009, #714/2009 og #715/2009, innviðareglugerðinni, #347/2013, þá mun ESB hafa afgreiðslu sæstrengsumsóknar í sínum höndum, eins og sýnt var fram á í síðasta vefpistli,

https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2236783  

Þetta lagalega klúður mun annars vegar leiða til lögbrots gagnvart EES-samninginum, gr. 7, um nákvæma innleiðingu samþykktra reglugerða ESB í Sameiginlegu EES-nefndinni í landsrétt, og hins vegar munu rekast á lögin, sem innleiða ACER reglugerð #713/2009 í íslenzkan rétt og bannlög Alþingis við millilandatengingum.  Hér er sem sagt um lagalegt erkiklúður að ræða hjá ríkisstjórninni, sem valda mun EES-samstarfinu skaða, verða Íslendingum til álitshnekkis á erlendri grund og síðast, en ekki sízt, getur þessi flónska bakað ríkissjóði tugmilljarða ISK skaðabótaskyldu.

Lausnin á þeim vanda, sem upp er kominn, er að draga hina meingölluðu þingsályktunartillögu utanríkisráðherra til baka og semja nýja, sem kveður á um að endursenda OP#3 til Sameiginlegu EES-nefndarinnar með ósk um samningaviðræður um tilgreindar undanþágur fyrir Ísland, helzt fyrir allan OP#3. Lagalega er það öruggasta leiðin. Hvernig víkur téðu klúðri við ?

EES-rétturinn (Evrópurétturinn) er æðri landsrétti.  Það er tekið fram í EES-samninginum og skrýtið, að það skyldi í upphafi hafa verið talið samrýmast stjórnarskrá Íslands og jafnvel Noregs, þótt fyrirkomulagið væri hugsað til bráðabirgða, a.m.k. að hálfu ESB og Noregs.  EES-samningurinn er æðri stjórnlögum landanna.  Það er eiginlega hneyksli. 

Þetta þýðir m.a., að lögin, sem veita ACER reglugerðum gildi á Íslandi, eru æðri lögunum, sem eiga að taka t.d. reglugerð #713/2009 úr gildi að íslenzkum rétti.  Hvernig getur þetta vafizt fyrir lögfræðingum Stjórnarráðsins og Alþingismönnum ?  Fyrirvaralögin (bann við sæstreng) eru þar að auki á öndverðum meiði við samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017 um innleiðingu OP#3 í EES-samninginn.  Málatilbúnaður ráðherranna tveggja, sem mest hafa vélað um OP#3, er fullkomið fúsk, sem gersamlega glórulaust er fyrir Alþingi að leggja blessun sína yfir og valda mun okkur skaða á alþjóðavettvangi.  Alþingi verður að taka í taumana, þegar samvizku þingmanna er misboðið, hvað sem líður pólitískum hrossakaupum, metnaðargirni þingmanna eða kjánalegri flokkshollustu við heybrækur. 

Tillaga ríkisstjórnarinnar er brot á EES-samninginum, gr. 7, sem efnislega er á þessa leið: Réttarákvæði, sem fjallað er um í viðhengi við þennan samning eða taka skal þar inn, skulu vera lagalega bindandi fyrir samningsaðilana og skulu vera eða verða í viðkomandi landsrétti með eftirfarandi hætti: a) réttarákvæði samsvarandi ESB-reglugerð skal sem slík vera hluti af landsrétti; ....  .  Þetta þýðir, að allar reglugerðir verður að taka orðrétt inn í lagasafn aðildarlandanna án undanþágu.  Fyrirvaralögin eru brot á þessu ákvæði EES-samningsins og þar með lögbrot.  Sjá menn ekki í hendi sér þá gríðarlegu réttaróvissu, sem hér er lagt úr vör með ? 

Að sjálfsögðu sáu höfundar EES-samningsins fyrir varðhundi til að fylgjast nákvæmlega með þessari framkvæmd. Þar er um að ræða Eftirlitsstofnun EFTA-ESA, sem speglar Framkvæmdastjórnina ESB-megin.  Hún hefur í stuttu máli það verkefni að sjá svo um, að farið sé eftir ákvæðum EES-samningsins.  Það fer ekki á milli mála, að ESA mun fjalla um þá vafasömu leið, sem Alþingi nú stefnir á að fara, verði hún farin, og þá er óhjákvæmilegt, að ESA geri við þessa fordæmalausu leið alvarlega athugasemd, því að verði ekki fettur fingur út í þessa aðferð, er komin samþykkt á sjálfdæmi EFTA-ríkjanna við að plokka rúsínur út úr samþykktum Sameiginlegu EES-nefndarinnar til innleiðingar að eigin geðþótta.  Slíkt atferli brýtur allt EES-fyrirkomulagið niður og verður ekki liðið. 

Engu máli skiptir í þessu sambandi, hvað EFTA-fulltrúarnir í Sameiginlegu EES-nefndinni kunna að hafa dregizt á að lýsa yfir að beiðni íslenzka utanríkisráðuneytisins, nú eða sjálfur orkukommissar Framkvæmdastjórnarinnar.  Ekkert af því hefur nokkurt lagalegt gildi gagnvart ESA og EFTA-dómstólinum, sem eru bundin af sínum réttarákvæðum, sem verður að framfylgja; annars leysist EES upp í réttaróreiðu.

Ef Ísland fer út af sporinu í þessum efnum, getur ESA lagt þetta ágreiningsmál við ríkisstjórnina fyrir EFTA-dómstólinn.  Dómur hans er lagalega bindandi fyrir Ísland.    

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Sveinn Hálfdánarson

Sæll

Það er alltaf gaman að sjá nýjar og framsæknar hugmyndir í lögfræði, ekki síst frá áhugamönnum í faginu. Um árið setti ég inn andsvör við lögfræðiálit "Villa trommara" um Icesave. Ég var sem sé þeirrar skoðunar að ekkert í EES tilskipunum gerði Íslandi skylt að greiða innistæðurnar. Vilhjálmur gjaldkeri fjarlægði athugasemdirnar umsvifalaust. En nóg um það.

Sigurður Líndal sagði einhvern tíma (efnislega) að það væri erfitt að rökræða við tréskútur. Ég er soldið að upplifa sömu tilfinningu.

Einar Sveinn Hálfdánarson, 27.6.2019 kl. 11:05

2 Smámynd: Benedikt Halldórsson

 Guðlaugur Þór er viðkunnanlegur náungi. Hann gæti sýnt töfrabrögð í barnaafmælum en hann ræður ekki við flókin utanríkismál. 

Benedikt Halldórsson, 28.6.2019 kl. 07:01

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Benedikt;

Téður utanríkisráðherra hefur ekki verið sérlega viðkunnanlegur, þegar hann á ráðherrafundi EFTA nú í vikunni tók að væla eins og stunginn rakki undan því, sem hann kallaði afskipti Norðmanna, "Nei til EU", og fleiri, af orkupakkaumræðunni á Íslandi.  Lægra hefur varla nokkur utanríkisráðherra á þeim vettvangi lagzt í lágkúrunni.  Er manngarmurinn á móti norrænni samvinnu í mikilvægum málum, eða vill hann þá samvinnu eingöngu á vegum stjórnvalda ?  Hér er alfarið um heilbrigt samstarf frjálsra félagasamtaka og einstaklinga að ræða á Íslandi og í Noregi, sem þessum ráðherra kemur nákvæmlega ekkert við.  Það má túlka þessa ömurlegu framgöngu Guðlaugs Þórs sem tilraun til þöggunar.  Fyrir lýðræðisríkið Ísland er þessi málflutningur ráðherrans til háborinnar skammar, og honum verður ekki kápan úr þessu klæðinu.  

Bjarni Jónsson, 28.6.2019 kl. 10:04

4 Smámynd: Óskar Kristinsson

Blessaður Bjarni!

Og takk fyrir nýjasta pistilinn,Er ekki málið að manngarmurinn er kominn með merelskjálftann.

Mér var sagt að hann væri búinn að leggja orkupakkann í hendurnar á fallega ráðherranum, sem sumir segja, eg get ekki kallað svo um manneskju sem vélar með og framselur   auðlindir þjóðar sinnar í hendurnar á öðrum þjóðum.

Fláráð er fegurðin.

Kv af Suðurlandi

Óskar Kristinsson, 28.6.2019 kl. 19:11

5 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Sæll Bjarni. Ég þekki ekki Guðlaug Þór. Ég trúi þér.

Takk fyrir pistlilinn og ötula sjálfstæðisbaráttu. 

Benedikt Halldórsson, 28.6.2019 kl. 21:12

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Óskar;

Nú ríkir opinber forystukreppa í ESB eftir ESB-þingkosningarnar.  Merkel kemur ekki að sínum Weber, og gæti sjálf orðið arftaki Junckers.  Þá verður Annegret Kramp Karrenbauer kanzlari Sambandslýðveldisins um stundarsakir, en þar styttist vafalítið í flýttar kosningar til Bundestag.  Það á töluvert eftir að ganga á í Evrópu á þessu ári, sem nú er hálfnað. 

Bjarni Jónsson, 29.6.2019 kl. 13:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband