10.7.2019 | 10:42
Stjórn Landsnets fær yfirkápu samkvæmt OP#4
Samkvæmt rafmagnstilskipun, RT, Orkupakka #4 (OP#4), #2019/944, er gengið ótrúlega langt í að taka völdin úr höndum stjórnar Landsnets, sem ríkisstjórnin nú stefnir á, að ríkissjóður eignist beint. Í RT gr. 47.10 stendur, að Landsreglari eigi að votta, að Landsnet fari eftir gr. 47.
Til að gulltryggja, að Landsneti sé stjórnað að forskrift og fyrirmælum Evrópusambandsins (ESB), þá hefur ESB búið svo um hnútana, að stofnað verður embætti samræmingarstjóra (compliance officer), sem á að fylgjast með starfsemi Landsnets og vakta stjórnendur þess. Starfið skal vera á vegum stjórnar Landsnets, en Landsreglarinn skal fá allar meginákvarðanir um embættið til samþykktar. Það er ljóst, að æðsta stjórn Landsnets fær þarna yfirfrakka, sem á að halda Landsneti á línunni, sem mörkuð verður hjá ACER.
Samræmingarstjórinn á að senda fjárfestingaráætlun Landsnets fyrir flutningskerfið til Landsreglarans og ACER, um leið og hún fer til stjórnar Landsnets. Sé ósamræmi á milli fjárfestingaráætlunarinnar og 10-ára áætlunar ESB um þróun raforkuflutningskerfa álfunnar, þá ber samræmingarstjóranum að vekja athygli Landsreglarans á því í skýrslu. Samræmingarstjórinn hefur rétt til fundarsetu á öllum fundum innan Landsnets, sem varða stofnraforkukerfi landsins. Landsnet á að koma sér upp verklagsreglum, sem tryggja samræmi áætlana fyrirtækisins við fyrirætlanir ESB.
Af þessum heimildum Evrópusambandsins í OP#4 er ljóst, að ESB mun yfirtaka stjórnun á Landsneti. Þótt íslenzka ríkið muni eiga sína fulltrúa í stjórn fyrirtækisins, verða stefnumarkandi völd ekki í þeirra höndum. Með samþykkt OP#4 færi fram altækt valdframsal íslenzka ríkisins til ESB á sviði raforkuflutninga. Mun ESA verða milliliður fyrir samræmingarstjórann, eins og fyrir Landsreglarann. Fremur er það ólíklegt. Þetta er gjörsamlega ótækt fullveldisframsal, sem ber að kæfa í fæðingunni með höfnun OP#3. Að öðrum kosti er verið að gefa undir fótinn um samþykki við OP#4.
HVERNIG FÆR ESB VILJA SÍNUM FRAMGENGT UM TENGINGU AFLSÆSTRENGJA Á MILLI LANDA ?
Samkvæmt rafmagnstilskipun OP#4, gr. 52, ber Landsneti annað hvert ár að senda Landsreglaranum Kerfisáætlun sína fyrir næstu 10 ár með tímaáætlun fyrir öll verkefni. Þar skal að fullu ("fully take in account") taka tillit til nýjustu útgáfu Kerfisþróunaráætlunar ESB og fyrirætlana um þróun svæðisbundinna flutningskerfa.
Landsreglaranum ber samkvæmt RT gr. 51.5 að gaumgæfa og sjá til þess, að Kerfisáætlun Landsnets sé í samræmi við Kerfisþróunaráætlun ESB fyrir næstu 10 ár. Ef minnsti vafi leikur á um, að svo sé, skal gera ACER grein fyrir þeim efa. Samtímis getur Landsreglarinn sjálfur farið þess á leit við Landsnet að breyta áætlunum sínum til samræmis við ESB. Með öðrum orðum: ef ESB hefur sett aflsæstreng til Íslands inn á Kerfisþróunaráætlun sína, eins og raun er á núna með "Ice-Link", þá mun Landsneti bera skylda til að setja þennan sama sæstreng inn á sína Kerfisáætlun, þótt lög frá Alþingi banni fyrirtækinu þetta, eins og ætlunin er með innleiðingu OP#3. Hér er ríkisstjórnin augljóslega að efna til mikils ófriðar við ESB og deilna, sem EFTA-dómstóllinn vafalaust mun dæma ESB í vil, lendi deilumálið þar.
Ef Landsnet lætur hjá líða í 3 ár að framkvæma 10 ára áætlun sína, þá yfirtekur Landsreglarinn formlega stjórn Landsnets. Samkvæmt RT gr. 51.7 munu Landsneti þá verða gerðir eftirtaldir úrslitakostir:
- að ráðast í fjárfestinguna
- að fela öðrum fjárfestinguna eða
- fara í fjármagnsöflun til framkvæmdanna með þátttöku annarra fjárfesta
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ótrúlegur kóngulógavefur embættis- og sérfræðinga valda sem ESB ráðstjórnin spinnur til að ná alræðisvöldum í orkumálum allrar Evrópu. Minnir helst á miðstjórnar æði ráðstjórnar Sovétríkjanna sem gerðu 5 og 10 ára áætlanir til þess að hafa vit fyrir lýðnum !
Gunnlaugur I., 14.7.2019 kl. 06:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.